27.5.2007 | 21:49
Kleppur Hraðferð - Talað fyrir Hinn
Kleppur er 100 ára í dag. Hann er partur af bernsku minni. Strætisvagninn í hverfinu sem ég ólst upp í hét "Kleppur hraðferð". Ég átti heima í Laugarnesinu og við lékum okkur stundum í Vatnagörðum þar sem í sást til Kleppspítalans. Þaraskógurinn í fjörunni var eins og hættulegur frumskógur þar sem við óttuðust ekki ljón eða hlébarða eða sæskrímsli - heldur að sjúklingar sem sloppið hefðu af Kleppi myndu ráðast á okkur.
Svo breyttust tímarnir og viðhorf mín breyttust. Geðsjúklingar fóru inn á geðdeildir og ég hætti að vera hrædd við geðsjúka og fór líka að efast um allar manngerðar markalínur - hver er veill á geði og hver ekki. Líka að að skilja að margir tapa þræði einhvern tíma á lífsleiðinni en flestir ná aftur að vinda saman spottann, sérstaklega ef umhverfið og samfélagið styður við þá.
Umfjöllunin í Morgunblaðinu í dag var ítarleg, það kom ýmislegt fram um sögu Klepps og geðlækninga á Íslandi. En það var ein sýn sem gegnsýrði þessa umfjöllun. Það var að saga Kleppspítala var sögð í gegnum sögu stjórnenda þar og þeirra sem ráða í samfélaginu. Þetta er merkileg saga en hún er bara ein hlið á sögu geðlækninga. Þetta er svona svipað eins og að segja sögu iðnaðarsamfélags á Íslandi með því að segja sögu einhvers iðnrekenda og kalla það sögu um aðbúnað verkafólks, fjalla um hvaða kenningar um hagkvæmni í rekstri notðai til að framleiða einhverja vöru en segja ekkert frá kjörum verkafólksins nema í gegnum auga iðnrekandans sem auðsjáanlega hefur tilhneigingu til að fegra sinn hlut og gera mikið úr mikilvægi sínu til að bæta kjör verkafólksins. Það væri miklu sniðugra að segja söguna um kjör verkafólksins með því að fylgja einhverju þeirra eftir og tala við það, ekki við þann sem stjórnar rekstrinum.
Það vantar mikið í svona sögu eins og sögð er um Kleppspítalann í Morgunblaðinu í dag. Það vantar rödd þess sem er hinum megin við borðið, það vantar sögu þolandans, það vantar rödd þess sem lagður var inn á Kleppspítala. Ég held að það yrði öðruvísi saga, ég held að það verði saga pyndinga og ófrelsis. Ég held að allir ættu að lesa bloggpistil Sigurðar Þórs Guðjónssonar, hann veit alveg hvað hann er að tala um, hann skrifaði bókina Truntusól sem er einmitt saga af geðdeild sögð frá sjónarhóli sjúklings. Hann var sjúklingurinn. Bloggið hennar Hörpu fjallar líka oft um geðsjúkdóma frá sjónarhóli þolandans t.d. þessi bloggpistill um geðlyf Á ég þá bara að verða ga-ga?
Ég hef heyrt marga rannsakendur í kvennafræðum nota þetta hugtak "talking for the Other" og hafna því að maður geti talað fyrir Hinn (þ.e.hóp sem maður tilheyrir ekki).
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:11 | Facebook
Athugasemdir
Óttar Guðmundsson, gegnum milligöngumann, vildi reyndar fá mitt sjónarhorn í bókinni sem hann er að skrifa um sögu Kleppsspítalans. En ég afþakkaði. Slíkt finnst mér ekki áhugavert þegar ljóst er að bókin verður fyrst og fremst sögð frá sjónarhorni "Heilbrigðisstofnunarinnar" í landinu með smá krúsidúllum frá "sjúklingum" og "aðstandendum", líklega nafnlausum. Ég hef ekki áhuga fyrir að tengja mig við slíka sögu. En annars konar sögu - til væri ég.
Sigurður Þór Guðjónsson, 28.5.2007 kl. 10:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.