Hvaða hlutverk gegna íslenskir lífeyrissjóðir varðandi þær kísilverksmiðjur sem núna er verið að byggja á Íslandi? Ég get ekki svarað því núna en fljótt á litið sé ég ekki annað en að þetta kísilverksmiðjuæði sé leið til að blóðmjólka lífeyrissjóði og það sé viss áhætta á því að lífeyrissjóðir tapi miklu fé með því að leggja það í áhættusama og mengandi stóriðju sem fjárglæframenn ráðast í með því að blekkja og svindla.
Áhættufjárfestar verða auðvitað að búa sig undir að geta tapað fé en það er ömurlegt ef niðurstaðan verður mengandi og óstarfshæft fyrirtæki og rekstur sem eyðileggur lífsgæði íbúa á stóru svæði og svikahrappar sem hafa horfið á braut þegar það uppgötvast eða verið fangelsaðir þegar upp kemst um svik þeirra og pretti og blekkingar.
Fjárfestingar lífeyrissjóða munu vera í skoðun hjá Fjármálaeftirlitinu.
Ástandið í Helguvík á Suðurnesjum er núna ákaflega dapurt. Þar hafa verið í smíðum og bígerð tvær stórar kísilverksmiðjur sem eru nánast hlið við hlið og nærri íbúabyggð, önnur á vegum Silicor United og hin á vegum Thorsil.
Verksmiðja Silicon hefur verið gangsett en allur rekstur þar er mikil sorgarsaga og er reksturinn kominn þrot (sjá þessa frétt) og svo mikil mengun frá verksmiðjunni að það er ekki stætt á öðru en að loka þar. Fyrrum forstjóri var handtekinn og er grunaður um auðgunarbrot og skjalafals og virðist að því er kemur fram í fjölmiðlum verar svikahrappur og fjárglæframaður af þeirri sort sem hér fór hæst á tímanum fyrir Hrunið mikla (sjá þessa frétt)
Núna er staðan þannig að banki sem hefur lánað í þessa verksmiðju þ.e. s Arionbanki hefur tekið yfir reksturinn og hefur afskrifað gríðarlegar upphæðir vegna þess (sjá þessa frétt). Það er ekki eingöngu gríðarlegt áfall fyrir bankann sem þegar hefur afskrifað mikið fé vegna þessa heldur hafa líka lífeyrissjóðir lagt mikið fé í þetta endasleppa ævintýri.
Þegar skoðaðar eru upplýsingar sem almenningur fékk um þessar fyrirhuguðu verksmiðjur fyrir nokkrum árum þá má sjá að þar er margt villandi og eiginlega hrein lygi.(sjá þessa frétt)Ég hef einnig séð að oft virðast magntölur út í loftið eða hugsanlega settar fram til að láta sem hér sé miklu minni framkvæmd en reyndin verður.
Það er hræðilegt að lesa það sem hefur komið fram í fréttum um ástandið varðandi verksmiðju Silicon bæði mengunina og grun sem þar hefur vaknað um svik og skjalafals. Íslenskir bankar og lífeyrissjóðir munu án efa tapa þar miklu fé og skrýtið hvernig hve fúsir þessir aðilar voru til að fjármagna þessa verksmiðju.
Silicon United verksmiðjan er eitt en hvaða staða er á hinni fyrirhuguðu verksmiðjunni sem á að vera miklu stærri, verksmiðju Thorsil? Er ekki rík ástæða til að skoða allt í kringum þá framkvæmd og þá ekki síst fjármögnun og fjárhagsmál núna þegar í ljós hefur komið að hvernig málum er háttað hjá kísilverksmiðjunni sem fyrr var reist?
Það eru margar ástæður fyrir að almenningur á heimtingu á að vita hvernig mál Thorsil standa.
- Í fyrsta lagi er verið að taka áhættu með fé almennings sem bundið er í lífeyrissjóðum og bönkum.
- Í öðru lagi er hér um að ræða rekstur sem sýnt hefur að sé mengandi og eyðileggi lífsgæði íbúa á svæðinu.
- Í þriðja lagi þá er bæði fjölskylda fjármálaráðherra Bjarna Benediktssonar og Eyþór Arnalds efsti maður á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík meðal eigenda fyrirtækins Thorsil.
Það er glamúrfrétt sem birtist á árinu 2016 um fjárfestingu í Thorsil.(sjá þessa frétt) Þar kemur fram að lífeyrissjóðir ætli að fjárfesta í Thorsil. Hvernig er staðan núna?
Í greininni frá 2016 kemur þetta fram:
"Núverandi eigendur Thorsil eru Northsil ehf. með 61% eignarhlut og Strokkur Silicon ehf. með 39%. Northsil er aftur í eigu John Fenger, stjórnarformanns Thorsil, Hákonar Björnssonar, forstjóra fyrirtækisins, Einars Sveinssonar, fjárfestis og föðurbróður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra, og Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Strokkur er í eigu fjárfestisins Harðar Jónssonar en Eyþór Arnalds, fjárfestir og fyrrverandi oddviti Sjálfstæðismanna í Árborg, er framkvæmdastjóri félagsins og stjórnarmaður í Thorsil."
Ég sé í fyrri fréttum um hlutafélagið Strokk að Eyþór er þar titlaður eigandi en ekki Hörður Jónsson. Er Hörður Jónsson sem hér er nefndur sem eigandi í Stokk sá sami og er fósturpabbi eiginkonu Eyþórs Arnalds og líka framkvæmdamaður í byggingariðnaði (sjá þessa frétt Eyþór Arnalds tengdur einum stærsta hagsmunaðilanum í byggingarframkvæmdum í Reykjavík)
Ég get ekki dregið aðrar ályktanir af þessu en að Eyþór sé með þessu í einhvers konar samkrulli að reyna að fela aðkomu sína og eignartengsl varðandi fyrirhugaða kísilverksmiðju. Einnig er ákaflega einkennilegt ef menn eru hluthafar fyrir stórum hlut í félögum án þess að svo virðist að þeir hafi lagt neitt eigið fé í rekstur og engin merki séu um að þeir standi í rekstri sem skilar hagnaði.
Hver eru fjárhagsleg og stjórnunarleg tengsl Eyþórs Arnalds og fjölskyldu hans við þetta fyrirtæki Thorsil ?
Hér eru tenglar sem varða Thorsil og Stokk
* Raforkusamningur Thorsil í uppnámi út af skorti á fjármögnun
* Kísilverksmiðja Thorsil í Helguvík úrskurðarnefn umhverfis og auðlindamála 33/2017
* Kísilmálmverksmiðja Stokks í Þorlákshöfn (grein frá 2010)
* Undirrituðu fjárfestingarsamning um kísilver Thorsil
* Fjárfestingarsamningur við Thorsil ehf um kísilmálmverksmiðju (lög)
* Vandræðin í Helguvík. Síendurtekinn greiðslufrestur
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:39 | Facebook
Athugasemdir
Ætli sé ekki líklegt að stjórnarmenn í lífeyrissjóðum eða aðilar þeim tengdir fá eitthvað fyrir greiðviknina þegar sjóðirnir fjárfesta í þessu? Kannski fá þeir stjórnarsæti. Og stjórnarsæti eru verðmæt. Það sýnir dæmið þegar fulltrúi lífeyrissjóða hafnaði mjög góðu kauptilboði í Bláa lónið á dögunum, enda hefði þá stjórnarsætið farið fyrir bí.
Þetta á ekki aðeins við lífeyrissjóði heldur líka banka. Það er ekki langt síðan Arion banki lagði milljarða í kísilver manna sem enga reynslu höfðu af slíkum rekstri en höfðu frekar vafasamt orðspor eftir fyrri viðskipti. Einhverjir þeirra eru nú á leið bak við lás og slá. En bankanum þótti það ekki frágangssök að eigendurnir hefðu ekki hundsvit á rekstrinum og viðskiptalíkanið byggði á einhverjum galdraformúlum. Nei, nei. Bankinn lánaði og keypti hlutafé og lét Frjálsa lífeyrissjóðinn gera það líka.
Þorsteinn Siglaugsson, 24.4.2018 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.