Plott hjá strákunum

Valgerður Sverrisdóttir er mjög frambærileg stjórnmálakona og mikið vildi ég óska að hún hefði boðið sig fram sem formann Framsóknarflokksins þegar Halldór Ásgrímsson lýsti því yfir eftir úrslit borgarstjórnarkosninganna í fyrra að hann ætlaði að segja af sér vegna þess að Framsóknarflokkurinn fékk svo lítið fylgni. Og verið jafnsnögg að því og hún er núna að lýsa því yfir að hún sækist eftir að verða varaformaður Framsóknarflokksins. Þá hefði ekki þessi vægast sagt skrýtna og að margra mati afkáralega atburðarás hafist.  

Niðurstöður alþingiskosninganna núna og lítið brautargengi Jóns Sigurðssonar hjá kjósendum í Reykjavík og það að hann komst ekki á þing á ekki að koma á óvart. Þetta var mjög sambærilegt fylgi og Framsóknarflokkurinn fékk í borgarstjórnarkosningunum undir forustu Björns Inga. Það var engin ástæða til að ætla að Jón fiskaði eitthvað betur en Björn Ingi, þeir stóðu sig báðir ákaflega vel og auglýsingaherferðin var í bæði borgarstjórnar og alþingiskosningum rekin eins og þessi framboð væri einleikur Jóns og Björns Inga og þeir væru persónugervingar á stefnu Framsóknarflokksins, andlit og rödd og viðhorf flokksins. Það er komin nokkuð góð mæling á það hvað svona strákaframboð trekkja  ef auglýst er nógu brjálæðislega mikið, það er svona kringum 6 prósent hérna í Reykjavík.

Undanfarin misseri hafa verið tími hinna mislukkuðu formannaplotta hjá Framsóknarflokknum. Það hefur hver erfðaprinsinn á fætur öðrum birst á sviðinu og strákarnir talað upp stemmingu... meira segja talað af svo mikilli sannfæringu að Mogginn hefur margoft látið blekkjast og birt flopp skúbb um innkomu þessara og hinna.  Það hefur vægast sagt verið lítil ending og þolgæði hjá þeim sem hafa verið talaðir upp  í formanninn á þessum tíma. Árni Magnússon, Finnur Ingólfsson og Jón Sigurðsson eru ekki með í sögunni sem nú spinnst fram.  Björn Ingi er núna í umræðunni og tíminn á eftir að leiða í ljós hvort hans bíða sömu  örlög og hinna sem kallaðir voru en stöldruðu einungis við á sviðinu skamma stund. 

Svo ég segi bara hreinskilnislega þá held ég að framboð Valgerðar núna í varaformanninn sé ennþá eitt plottið hjá strákunum - þeim sömu og stóðu að Freyjumálinu í Kópavogi og sem hafa staðið að hverju mislukkaðra plottinu á fætur öðru í flokknum. Þessi plott hafa bara verið svo yfirmáta vitlaus og grunn að það fer alltaf allt í vitleysu. Mörg af þessum plottum virðast miða að því að leggja stein í götu Sivjar Friðleifsdóttur. 

Valgerður segir að hún vilji vinna að innra starfi og uppbyggingu í flokknum. Halldór Ásgrímsson sagði  þegar úrslitin í borgarstjórnarkosningunum voru kunn að nú hæfist uppbygging Framsóknarflokksins.  Jón Sigurðsson sagðist líka ætla að vinna að innra starfinu og uppbyggingu. Á þeim skamma tíma sem Jón var formaður flokksins varð ég ekki vör við að hann reyndi að breyta innra starfi flokksins og á þeim tíma sem ég hef verið virk  í Framsóknarflokknum hef ég ekki tekið eftir neinum afskiptum  Valgerðar Sverrisdóttur að innra starfi flokksins hérna á höfuðborgarsvæðinu nema að ég tók eftir að hún var eina manneskjan sem bar blak af innrásarmönnum á fundi sem ég fór á hjá Landsamtökum Framsóknarkvenna rétt eftir þessa skrýtnu og siðlausu innrás í kvenfélagið Freyju í Kópavogu og bæði aðstoðarmaður hennar í iðnaðarráðuneytinu (Páll Magnússon) og aðstoðarmaður hennar í utanríkisráðuneytinu (Aðalheiður Sigursveinsdóttir) eru bendluð við þessa þessa innrás í kvenfélag í Kópavogi.

Það vakti líka athygli og hneykslun mína á sínum tíma að Valgerður Sverrisdóttir var heiðursgestur á einhverjum stofnfundi um nýtt Framsóknarkvennafélag sem þær konur sem reyndu að taka yfir Freyju (að því er allir halda til að tryggja völd sona sinna, eiginmanna og karlkyns ættingja) þegar þær stofnuðu eitthvað sérstakt félag sem ég man nú reyndar ekki hvað heitir og sem ekkert hefur starfað að ég veit. Það vakti athygli mína að stofnfundur þess félags var ekkert auglýstur. Þetta lofar vægast sagt ekki góðu um hvernig Valgerður ætlar að byggja upp innra starf í Framsóknarflokknum hér á höfuðborgarsvæðinu. 

Ég hef ekkert séð sem bendir til neinnar uppbyggingar eða breytinga á vinnubrögðum undanfarin misseri í Framsóknarflokknum þrátt fyrir tal um það. Ég veit ekki hvaða merkingu fólk setur í innra starf en ég get sagt það að ég hef ekki orðið vör við neitt sem getur flokkast undir að byggja upp innra starf Framsóknarflokksins í mínu kjördæmi í Reykjavík norður. Ég hef margoft bæði á innanhússpóstlista Framsóknarflokksins og í ræðupúltum á fundum bent á ömurlega og siðlausa starfshætti í framsóknarfélaginu í Reykjavík norður (sama kjördæmi og Halldór Ásgrímsson og Árni Magnússon voru í) og ég hef sent bréf til  Framsóknarflokksins þar sem ég hef lýst furðulegum og óheiðarlegum vinnubrögðum í félaginu. Ég hef séð dæmi um lygilega óheiðarleg vinnubrögð í Framsóknarflokknum og það sem mér finnst ennþá verra er að ég hef séð forustumenn Framsóknarflokksins líta framhjá þessum vinnubrögðum og sækja styrk sinn og ráðleggingar til hópa sem stunda svona vinnubrögð.

 


mbl.is Valgerður: Tilbúin að takast á við varaformannsembættið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Örn Gíslason

Áhugaverður pistill. Ég verð að segja fyrir minn part, og ég veit um marga á mínum aldrei sem eru sammála, að Framsóknarflokkurinn virðist ekkert alvitlaus. Ég las einhvers staðar þá lýsingu á flokknum að hann sé "praktískur lífskjaraflokkur", og ég hugsa að það sé mikið til í því. En það er kannski ekki svo mikið stefna flokksins sem er að há honum, heldur vafasöm eiginhagsmunapólitík sem virðist loða við hann - með réttu eða röngu.

Það er þessi ímynd sem þarf að taka í gegn. 

Einar Örn Gíslason, 25.5.2007 kl. 16:35

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Salvör.

Ég bíð eiginlega eftir að þú tjáir þig um torrent.is málið og nauðgunarleikinn. Mér finnst þetta snúast um höfundarréttarmál, en ekki nauðganir og klám. Ég hef lengi litið upp til þín fyrir skoðanir þínar um höfundarréttarmál og þú virðist svo sannarlega kunna að koma fyrir þig orði um þau mál.

Sæmundur Bjarnason, 25.5.2007 kl. 19:44

3 identicon

Framsóknarflokkurinn er og hefur alltaf verið "samtrygginarflokkur" og passar upp á sig og sýna. Núna er draumurinn úti. Einu sinni hélt fólk að SÍS væri ódauðlegt og óhaggandi. Nú veit ekki unga fólkið einu sinni hvað SÍS er eða var. Sama er með Framsóknarflokkinn, því fyrr sem hann leggur upp laupana, því betra. Það er ekkert með hann að gera í íslenskri pólitík í dag. Mér líst mjög vel á Valgerði í varaformanninn, flýtir örugglega fyrir endalokum flokksins.

Brattur (IP-tala skráð) 25.5.2007 kl. 21:53

4 Smámynd: halkatla

Salvör getur látið Framsókn virðast kúl, það er mjög fáum gefið. Þetta virka hin æsilegustu plott og ég vona bara að góða fólkið vinni í endann!

halkatla, 29.5.2007 kl. 12:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband