13.5.2007 | 10:58
Til hamningju Siv!
Það leit ekki vel út með fyrstu tölur í nótt. Allir þrír ráðherrar Framsóknarflokksins hérna á höfuðborgarsvæðinu voru úti. Svo duttu þau út og inn Jón Sigurðsson formaður Framsóknarflokksins og Siv og það var hryllilegt spennutímabil að hugsa til þess að hér á höfuðborgarsvæðinu þá gæti sú staða komið upp að 6-7 % kjósenda hefðu engan fulltrúa á þingi. Eitt það seinasta sem ég heyrði áður en ég fór að sofa var viðtal við Björn Inga þar sem hann talaði um tap flokksins í SV kjördæmi. En núna þegar leikslokin eru komin þá er staðan þannig að Siv er kjördæmakjörin og það vantaði aðeins 11 atkvæði til að Samúel Örn annar maður á lista í hennar kjördæmi kæmist inn. Menn skildu fara varlega í að vanmeta Siv og styrk hennar og baráttuvilja og hæfileika hennar til að virkja fólk með sér.
Það hefur verið gífurleg barátta í Framsóknarflokknum undanfarin misseri og það hefur verið hart sótt að Siv. Hún hefur staðið af sér þá storma. Það er mjög dapurlegt að Jón Sigurðsson og Jónína Bjartmarz náðu ekki kjöri og varðandi Jónínu þá hefur það eflaust skipt miklu máli það óhemjuleiðinlega mál sem tengdist hraðafgreiðslu alsherjarnefndar á ríkisborgararétti til konu í fjölskyldu Jónínu - afgreiðslu sem Jónína kom ekki að á neinn hátt og verður að skrifast á ábyrgð þeirra sem komu að þeirri afgreiðslu þ.e. þingmannanna Bjarna Benediktssonar, Guðjóns Ólafs Jónssonar og Guðrúnar Ögmundsdóttur. Það hefði verið reiðarslag fyrir konur og jafnréttisstarf í Framsóknarflokknum ef bæði Siv og Jónína hefðu dottið út af þingi. Kosningabaráttan núna var mjög karllæg og ímynd Framsóknarflokksins var persónugerð í Jóni Sigurðssyni. Ég veit að þetta stakk mig, sérstaklega vegna þess að ég ein helsta ástæða fyrir því að ég hef dregist að Framsóknarflokknum er að ég hef skynjað að þetta er flokkur sem gefur konum tækifæri til að vaxa upp og verða foringjar og jafnréttissjónarmið Framsóknar voru mjög áberandi. Ég er líka stolt af því hvernig þetta hefur verið á síðasta kjörtímabili, þrjár konur hafa gegnt ráðherrastarfi í Framsóknarflokknum. Mér fannst í kosningabaráttu Siv vera úti í kuldanum og vísvitandi lítil áhersla á hana í kosningabaráttunni amk í sjónvarpsauglýsingum og fjölmiðlum. Siv og Jón Sigurðsson tókust um formennsku í Framsóknarflokknum síðasta sumar og Jón vann og hann var valinn af fyrrum formanni flokksins og naut liðstyrks hans. Það voru öfl í Framsóknarflokknum sem vildu bola bæði Siv og Guðna út en þau öfl hafa ekki haft erindi sem erfiði. Jón Sigurðsson hefur hins vegar staðið sig feikivel í erfiðri stöðu og ég vona að hann nái nú að snúa sér að innra starfi flokksins. Það er í molum þar sem ég þekki til í Reykjavík Norður. Það er margt gott í Framsóknarflokknum og það verður að byrja strax á að líta á fylgistapið í kosningum og þá stöðu að sennilega verður Framsókn utan stjórnar á næsta kjörtímabili sem tækifæri til að byggja upp innviði flokksins. Ég bind vonir við að þeir þingmenn sem hlutu kosningu muni undir forustu Jóns Sigurðssonar gera það.
Siv var kjördæmakjörin á endanum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.