Svo kom Kaninn, þaninn, kommúnistabaninn...

Herinn kemur 7. maí 1951 Það eru bara nokkrir mánuðir síðan bandaríski herinn kvaddi okkur hérna á Íslandi og þá héldu herstöðvaandstæðingar herkveðjuhátíð. En af hverju ekki að halda líka hátíðlegan daginn sem þeir komu en það var einmitt í dag 7. maí sem herinn kom niður úr skýjunum til Keflavíkur. Ég skoðaði Morgunblaðið, blað allra landsmanna þennan dag og hér er forsíðan. Reyndar sýnist mér Morgunblaðið á þessum tíma hafa verið meira blað "lýðræðisflokkanna" heldur en allra landsmanna, maður les milli línanna að þeir sem ekki vildu herinn væru bara rumpulýður sem ekki væri talinn með. Það er hatrammur andsovétskur áróður í Morgunblaðinu á þessum tíma og mjög harðneskulegt tal um andstæðinga markaðshagkerfis. Það er nú bara gott að Mogginn hafi mildast með árunum og orðið umburðarlyndari.

naesta-skrefid-iran-mbl-7mai51En sum skrif í Morgunblaðinu daginn sem herinn kom 7. maí 1951 eru alveg eins og þau séu skrifuð í dag og endurómi skoðanir sem notaðar eru til að réttlæta stríð í Austurlöndum. Ég gluggaði í Reykjavíkurbréf þennan og læt fylgja með hérna pistilinn Næsta skrefið í Iran þar sem útmáluð er nauðsyn þess að ráðast á Íran, það vanti olíu á Vesturlönd og svo geti sé bara hættulegt íkveikjuefni að hafa Íranina þarna afskiptalausa. Það vantar bara nýmóðins orð eins og hryðjuverk .

 Herinn gerði aldrei neitt mikið hérna nema skaffa Íslendingum atvinnu og þjóðinni gjaldeyristekjur. Ég veit ekki einu sinni hver vann stríðið... kalda stríðið. Sennilega voru það Vesturveldin sem unnu, þau eru alla vega til ennþá og hafa ekki liðast í sundur eins og Sovétríkin. 

En ég veit að víglínan lá í gegnum Berlín, hún var búin til í áróðursstríði og hún var líka búin til með járntjaldinu og múrnum sem skildi að austur og vestur.

Þó járntjaldið hafi fallið og múrinn verið brotinn niður þá get ég ekki séð annað en önnur tjöld og aðrir múrar hafi risið. Ég get ekki séð annað en núna sé víða þjarmað að fólki og frelsi þess skert einmitt í ríkjum og af valdhöfum sem telja sig frelsiskyndla hér á jarðkringlu. 

Kaldastríðið náði hámarki þegar vesturhluti Berlínar varð eins og einangruð eyja inn í landsvæðum kommúnista.

Orð Kennedy Bandaríkjaforseta og ákall hans um frelsi og samkennd allra frelsisunnandi sem hann flutti af svölunum í ráðhúsi í Berlín  eru fleyg. Hann sagði: 

Two thousand years ago the proudest boast was civis romanus sum [I am a Roman citizen]. Today, in the world of freedom, the proudest boast is 'Ich bin ein Berliner'...All free men, wherever they may live, are citizens of Berlin, and, therefore, as a free man, I take pride in the words 'Ich bin ein Berliner!'

Ég fylki mér undir orð Kennedys og geri að mínum og segi "Ich bin ein Berliner" sem snarað á Framsóknaríslensku (Framsóknarflokkurinn er einnig nefndur kleinuflokkurinn) útleggst "Ég er kleinuhringur".

Kleinuhringir allra landa, sameinist! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Auðun Gíslason

Eða daginn sem hann fór! "Berliner" skylst mér að sé einhverskonar bolla í líkingu við berlínarbollur sem fengust einu sinni í bakaríum á Íslandi og fást kannski enn.

Auðun Gíslason, 7.5.2007 kl. 10:41

2 Smámynd: Nanna Rögnvaldardóttir

Þetta með berlínarbolluna (eða kleinuhringinn) er reyndar bara lífseig nútímaþjóðsaga; fyrir Berlínarbúa sjálfa og flesta aðra Þjóðverja táknaði Berliner ekkert annað en Berlínarbúi. Berlínarbollur kallast pfannkuchen á þýsku.

Nanna Rögnvaldardóttir, 7.5.2007 kl. 12:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband