Græn skref í Reykjavík

Mér líst vel á áætlunina Græn skref í Reykjavík. Vonandi halda stjórnendur borgarinnar áfram á sömu braut. Eina sem mér finnst orka tvímælis er að verðlauna þá sem eru með vistvæna bíla með því að leyfa þeim að parkera ókeypis. Það orkar tvímælis á sama hátt og ef tannlæknir verðlaunaði barn sem hefur enga skemmda tönn með því að gefa því sælgæti. Reykjavík er borg bílanna og sennilega breytist það ekki í bráð. Veðráttan hérna og fámennið og strjál byggðin veldur því að ekki er auðvelt að koma við tíðum ferðum almenningsfarartækja og velmegunin er svo mikil að það geta flestir átt bíla. En það er atriði að við byggjum upp griðastaði í borgarlandinu þar sem bílar eru ekki velkomnir og  styðjum ekki við bílismann og niðurgreiðum ekki  það val fólks að vera á einkabílum og taka upp pláss fyrir bíla á götum og parkeringsstæðum, nema náttúrulega það sé fólk sem er fatlað eða á erfitt með gang.  Það er víðáttuvitlaust að það sé ókeypis að leggja bílum við marga háskóla miðsvæðis í Reykjavík, það er engan veginn partur af menntun að sjá nemendum fyrir ókeypis  geymslusvæði fyrir bíla.

Ég fór að pæla í hvað mér þætti mikilvægast  til að gera Reykjavík að grænni borg. Eitt er  að mér ofbýður ruslið í Reykjavík að vorlagi þegar snjóa leysir. Reykjavík er mjög snyrtileg og fín borg yfir hásumarið þegar krakkarnir úr unglingavinnunni og vinnuflokkunum hafa puntað allt. En veðráttan er  þannig að hér er enginn snjór t.d. núna í apríl en engir eru til að tína ruslið sem alls staðar flýtur meðfram vegum. Ég bendi fólki sérstaklega á að keyra Ártúnsbrekkuna, eina fjölförnustu götu í Reykjavík og skoða vegakantana, þar flýtur allt í rusli. Ef ég væri að keyra erlendis á svona stöðum þá myndi ég verða dauðhrædd, það er alls staðar merki um að maður sé kominn inn í verslu slömmin þegar ruslið feykist svona á móti manni.  Það er núna þannig að það líður allt of langur tími þangað til krakkarnir í unglingavinnunni byrja og það verður einhver veginn að brúa þetta bil og það verður líka að virkja sem flesta borgarbúa í að taka þátt í þessu. Hvernig væri að virkja skólana og/eða félagasamtök í að hreinsa rusl meðfram vegum - væri ekki hægt að styrkja þetta á einhvern hátt t.d. að skólarnir fengju þannig fé í félagsmál/hverfahátíðir?

Annað sem myndi prýða Reykjavík mikið er fleiri trjálundir við iðnaðarsvæði og blokkarhverfi og skólalóðir og verslunarmiðstöðvar

Á þeim stöðum þar sem fólk býr í einbýlishúsum eða raðhúsum eru garðar víðast hvar fallegir og vinjar þar sem fólk getur notið sumarsins og góða veðursins. Hins vegar er það þannig að mjög víða eru garðar og svæði  við blokkir eru mjög óspennandi , engin tré heldur bara skjóllausar grasflatir og malbikuð bílastæði. Þannig eru útivistarsvæðin við skóla líka oft og í iðnaðarhverfum eru oft mjög nöturlegt og hvergi tré að sjá. Það sama á reyndar líka við um verslunarmiðstöðvar eins og Spöngina í Grafarvogi. Svona staðir væru miklu skemmtilegri ef það væru gróðursett tré sem verða með tímanum hávaxin eins og hlynur. Það myndi prýða borgina mikið ef núna strax væri hugað að því að búa til trjálundi eða einstök tré sem geta seinna myndað skjól og búið til fjölbreyttari götumynd á samgönguæðum gangandi fólks.

 Það vantar alveg að huga að því að gróðursetja tré sem verða stór - flest stór tré eru aspir sem eru alls ekki heppileg tré í þéttbýlu borgarlandi, alla vega ekki nálægt lögnum.  

Fegrun umferðarmannvirkja

Stór hluti af ásýnd borgar og rými í borg eins og Reykjavík er umferðarmannvirki - alls konar brýr, aðreinar og hraðbrautir. Það er ekkert náttúrulögmál að svona mannvirki þurfi að vera ljót og að þar megi ekki sjást neitt stingandi strá. Í hverfinu sem ég var í París fyrir tveimur sumrum þá man ég eftir að hafa séð gróður sérstaklega hannaðan fyrir brýr yfir hraðbrautir, þar voru gróðursett tré (t.d. birki) sem eins og uxu á brúnni og stærri tré slúttu yfir á endum brúnna þar sem var meiri jarðvegur.  Það er líka flott að sjá hvernig sums staðar eru listavirk á umferðarmannvirkjum sem gleðja alla sem aka um. 

 Ókeypis farartæki t.d. hjól

Í nokkrum evrópskum borgum t.d. Kaupmannahöfn er boðið upp á ókeypis hjól, það má taka hjól á ákveðnum stöðum og svo á maður að skilja þessi sömu hjól eftir á ákveðnum stöðum þegar maður er búin að nota þau. Þessi hjól eru sérmerkt og í ákveðnum skærum  litum þannig að allir sjá að þetta eru almenningshjól og það er bannað að geyma þau hjá sér. það mætti t.d. prófa svona hjólakerfi við einhverja fallega hljólaleið með ströndinni í Reykjavík, ég hugsa að aðkomufólk í Reykjavík, erlendir ferðamenn og fólk utan af landi sem ekki hefur tök á að koma með hjól með sér muni taka fegins hendi að geta hljólað einhverja leið eða hluta af einhverri leið - þó það gengi stóran part leiðarinnar. Mér fannst gaman sjálfri að nota svona hljól þegar ég var í Kaupmannahöfn. Þetta er líka tilraun í hvernig fólk gengur um sameign - að venja fólk á að ef einhverjir hlutir eiga að vera ókeypis þá verða að vera strangar reglur og fólk verður að hlýða þeim og taka tillit til að aðrir verða líka að fá að njóta gæðanna. Það væri gaman ef gerð væri tilraun með svona hljól í Reykjavík. 

Þetta minnir mig nú á að ég á núna ekki hjól. Ásta var með hjólið mitt í láni og því var stolið í vetur. Þetta var gott hjól með dempurum. Ég stefni að því að kaupa fljótlega annað hjól og hjóla í sumar um öll þessi fínu útivistarsvæði í Reykjavík.  Mér finnst Reykjavík mjög falleg borg. Sérstaklega finnst mér strandlengjan falleg og  Laugarnesið  langfallegast, þar er ég líka alin upp og lék mér í fjörunni sem barn og hef fylgst með breytingum þar í marga áratugi en svo finnst mér líka Öskjuhlíðin og Heiðmörk algjörar náttúruperlur og ströndin fyrir neðan Staðahverfi er engu öðru lík, þar er gífurlega fallegt og þar er fjölskrúðugt fuglalíf allan ársins hring og oftast þegar ég  geng þar sé ég líka hóp af selum. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband