Ungdomshuset og Faderhuset

Það var skrýtin frétt sem ég las áðan á mbl.is um að Ungdomshuset í Kaupmannahöfn verði jafnað við jörðu og að eigendurnir ætli að tilkynna það. Þetta stangast mjög á við þær upplýsingar sem eru um þetta hús á Wikipedíu. Þar kemur nefnilega fram að húsið er friðað. Brugsen keðjan ætlaði að kaupa húsið til að rífa það á sínum tíma og byggja þarna stórmarkað en gat það ekki út af friðun. Það er stórmerkileg saga þessa húss og atburðir síðustu daga og mánaða  sýna að þetta hús  er ennþá snúningsás í dönsku samfélagi.  Það verður nú fyrst allt vitlaust fyrir alvöru ef þetta hús verður rifið, ég held svei mér þá að ég myndi bara mæta þarna í mótmælastöðu gegn því ef ég væri stödd í Kaupmannahöfn. Það var í þessu húsi sem hugmyndin um 8. mars sem alþjóðlegan baráttudag kvenna kom fram. 

Það er mikil gerjun í dönsku samfélagi og þessi barátta um húsið er myndræn birting á henni.  Það er kristinn bókstafstrúarsöfnuður sem heitir því skemmtilega nafni Faderhuset sem er núna eigandi hússins. Það er nú dáldið  skrýtið að þessi söfnuður hafi keypt húsið af borginni því íbúarnir og notendur hússins voru ekkert að létta söluna og voru hreinskilnir í út á hvað hún gengi, þeir auglýstu á stórum borða utan á húsinu á sínum tíma "Til salg sammen med 500 autonome, stenkastende voldspsykopater fra helvede."

Mér finnst myndrænt og kaldhæðið að lesa að borgarstjórinn í Kaupmannahöfn hefði verið í skíðafríi þegar uppþotin urðu, minnti mig svolítið á Bush bandaríkjaforseta sem líka er alltaf í alls konar fríum. Sérstaklega kaldhæðið þar sem það það er einmitt andstæðan við hina flötu Danmörku að stunda skíði og svo líka skrýtið að borgarstjórinn hafi verið svona óviðbúinn. 

Mér sýnist yfirvöld í Kaupmannahöfn ekki hafa sýnt neina sérstaka stjórnvisku í hvernig þau takla svona mál. Þó húsið yrði jafnað við jörðu þá mun ólgan vaxa og sá hópur sem skipulagði mótmælin og götubardaga mun skipuleggja eitthvað á stærri mælikvarða seinna. Það er eitt óskynsamlegasta sem stjórnvöld gera í svona aðstæðum að þjappa andstæðingum sínum saman um einhvern málstað - já næstum búa til málstað með gerðum sínum eða því sem þau gera ekki.  Ég held að það sé líka ekki góð stjórnvöld sem ekki geta séð fyrir eða alla vega spáð hvaða afleiðingar gerðir muni hafa.  Ég held nú reyndar að  ribbaldalýður og fólk í leit að fæting hafi dregist að Ungdomshuset og þetta sé eins konar barátta við fólk sem fylgir ekki leikreglum samfélagsins.

Um Ungdomshuset í dönsku wikipedíu 

 


mbl.is Ungdomshuset á Norðurbrú verður jafnað við jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyrðu þú segir nokkuð friðað ? þá má ekki rífa það.  Ætli mótmælendurnir viti af þessu ? Þeir eiga annars alla mína samúð, og svo er þetta trúfélag ofan á allt, umburðarlyndið ríður ekki við einteymingi í þeim herbúðum.  Verð að segja það.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.3.2007 kl. 17:24

2 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Fyrir það fyrsta er Wikipedia alls ekki áreiðanlegasta heimildin. Ég er búsettur í Danmörku og það hefur ekki komið fram að mér vitandi að húsið sé friðað. Mér er spurn hvort að þið vilduð vera í sporum íbúanna í nágrenni hússins þar sem allar rúður eru mölbrotnar og bílar brenndir á hverri nóttu. Íbúarnir koma í sjónvarpið í hálfgerðu losti enda stríðsástand á svæðinu og óróaseggir erlendis frá mættir til að snapa fæting eins og það heitir á ljótri íslensku. Það er langt síðan að það kom í ljós að undanlátsstefnan er gagnslaus svo að því hlaut að koma að hart myndi mæta hörðu. Vona bara að óróaseggirnir verði komnir í tugthúsið áður en þeir drepa einhvern.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 4.3.2007 kl. 22:18

3 Smámynd: Svala Jónsdóttir

Samvkæmt dönskum fréttum samþykkti borgarráð Kaupmannahafnar að leyfa niðurrif hússins um miðjan síðasta mánuð. Atkvæði féllu þannig að 35 greiddu atkvæði með niðurrifi og 14 á móti. Allir flokkar nema rauðgrænir og sósíalistaflokkurinn greiddu atkvæði með niðurrifinu.

Þannig að ef húsið var friðað, þá er það a.m.k. ekki friðað lengur.

Svala Jónsdóttir, 4.3.2007 kl. 22:50

4 Smámynd: Jón Valur Jensson

En af hverju glefsa sumir úlfar alltaf í höndina á þeim sem fæðir þá?

Jón Valur Jensson, 4.3.2007 kl. 23:34

5 Smámynd: Hlynur Þór Magnússon

Núna er þetta komið inn á Wikipedíu:

Nedrivningen af Ungdomshuset begyndte den 5. marts på slaget 8.00.

Hlynur Þór Magnússon, 5.3.2007 kl. 07:44

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk fyrir upplýsingarnar þið sem fylgist með og búið á þessum átakasvæðum.  Það eru mjög góðir pistlarnir hennar Erlu um ástandið.

Daníel, ég tel alls ekki rétt að láta undann ribbaldalýð sem virðir engin lög. Það hins vegar virðist vera að þetta mál er miklu djúpstæðara en nokkrir ribbaldar og svo þeir sem gæta lagar og reglu. Þetta er eins og prófun lögreglu á hvernig hún höndlar svona aðstæður, prófun á nýjum hryðjuverkalögum sem leyfir víðtækari handtökur og að fólki sé vísað úr landi.  Lestu endilega pistlana á blogginu hennar Erlu.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 5.3.2007 kl. 14:58

7 identicon

Það er dálítið "komiskt" að lesa hvað landinn hefur álit á, án þess að hafa sett sig almennilega inn í málið.

Auðvitað hefur Ritt meðhöndlað málið skammarlega, en samtímis vil ég minna á, að ungdóminum hefur verið boðið annað hús - sem stuðningssjóður ungdomshússins var tilbúinn að borga fyrir(þeir hafa langt yfir 20 milljónir danskar til ráðstöfunar) - Málið var næstum "í hús", en NEI þessir "autonome" settu sig á móti, eins og óþekkur krakki í sælgætisbúð og kröfðust að fá húsið ókeypis(vildu borga eina krónu DDK).  Þeim var alldrei gefið húsið - höfðu það einungis til "fríar" afnotkunnar, gegn vissum skiyrðum, sem voru samþykkt en ekki staðið við af "notendum".

Ég þekki þónokkura sem búa og eru næstu nágrannar á og við Jagtvej(meðal annars dóttir) og það hefur verið hrein martröð fyrir þetta fólk, á meðan stærstu ólætin stóðu yfir, fyrir utan allan skaða og stórtab, vegna eyðileggingar persónulegra eigna.  Fólk hefur verið einangrað innivið, hrætt og í mörgum tilfellum stóðu eldtungur um glugga þeirra - óbærilegur reykur og hiti.  Það er ekki "ungdóminum" (ungdóm og ungdóm....tja, börn allt niður í 12-13 ár, erlendis aðkomendur og meira að segja fullorðið fólk var meðal þáttakenda), ekki þeim að þakka að ekki fór verr.  Og hvers eiga íbúar og nemendur menntaskóla á Kristjanshavn að gjalda?

Jafnfram hér til fróðleiks, þá er ein af stóru ástæðum hússalgs, að "ungdómurinn", stóð ekki við umsamin "kjör" varðandi ungdómshúsið, sem samið var um á sínum tíma - greiddu ekki og vildu ekki greiða fyrir hvorki, rafmagn, hita vatn og ei heldur veittu þau yfirvöldum aðgang, jafnframt því að eiturlyf í húsinu ekki voru leyfileg.  Þetta voru skilyrði sem "ungdommen" sjálfur hafði samþykkt að standa við, mörgum árum fyrr...

Því miður hefur "ungdommen" misst nær allt "sympati", eða stuðning meðal almennings hér i DK, eftir þeirra öfgafullu aðgerðir.  Þau hafa meðhöndlað það hverfi sem þau héldu til í, með þvílíkri vanvirðu að ekki er aftur snúið:-(  Nú eru stærstu áhyggjur "nágranna hússins", á meðan á niðurrifum standa, allt tað asbest sem fyrrum "Ungdomshuset" er víst fullt af.  Auðvitað þarf jafnframt að finna viðunnandi lausn á málinu og hyggst "Ungdomshusens støtte - Fond(sjóður)" kaupa aðra eign fyrir "ungdommen"(vonandi)- og svo er líklegt að það verði "take it or leav'it" - það er að segja, þegar meðal annars þeir yfir 250 ungu sem nú eru í gæsluvarðhaldi, koma úr fangelsi aftur.  "Jah, det var så bare det jeg ville tilføje til islandsk debat" ;-) 

Stina- (IP-tala skráð) 5.3.2007 kl. 16:42

8 identicon

 

Þú svarar þér sjálf í lok innleggsins Salvör:

"Ég held nú reyndar að  ribbaldalýður og fólk í leit að fæting hafi dregist að Ungdomshuset og þetta sé eins konar barátta við fólk sem fylgir ekki leikreglum samfélagsins."

Þú hittir naglann á höfuðið. Þetta er sama fólk og kemur til Svíþjóðar ef það á von á góðum fæting. Svokallaðir "atvinnumótmælendur" sem ekki virðast hafa neitt skynsamlegra að gera með líf sitt.

Og þú Erla: "þúsund blóm fengu að dafna í aldingarði lýðræðisins og velferðarþjóðfélagsins."

Er lýðræðið sem best þegar hópur fólks reynir með grjótkasti að hindra lýðræðislega teknar ákvarðanir?

Hvers vegna minnist þú ekki einu einasta orði á útskýrininga/upplýsingar Stínu hér að ofan, um það hvernig þessir ungdómar hafa svikið alla samninga og nítt niður húsið.

Og það er vert að benda á að þetta er ekki "ungdómurinn" einsog hann leggur sig frekar en hægt er að segja að hægri-öfgaflokkurinn hér í Svíþjóð sé "fullorðinsdómurinn". Þetta er hópur fólks sem ekki vill virða leikreglur lýðræðisins.

Ég trúi þér og hef samúð með þeim sem eru "hnuggnir" yfir niðurrifi þessa húss. Ég hef sjálfur oftar en einu sinni orðið hnugginn yfir ýmsum ákvörðunum sem teknar hafa verið bæði hér, heima á Íslandi og jafn vel öðrum löndum.

En, svo lengi sem einginn hefur fundið upp skárra fyrirkomulag en það lýðræðisfyrirkomulag sem við búum við í dag þá styð ég það og ekkert getur fengið mig til að styðja það "grjótkastslýðræði" sem þið virðist hafa svo mikla samúð með.

Jón Bragi (IP-tala skráð) 8.3.2007 kl. 16:51

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband