28.2.2007 | 12:10
Reykkofi í Götusmiðjunni
Ég hélt að það væri 1. apríl eða einhver gabbfrétt á síðu 4 í Mogganum í dag. Þar segir frá pólskum arkitekt sem vildi láta gott af sér leiða eftir dvöl hér á landi og þetta góða var að byggja fíkniefnaafdrep fyrir krakka sem eru vistuð í Götusmiðjunni. Þetta framtak var svo styrkt af Bykó og segist arkitektinn hafa haft samband við Barnaverndaryfirvöld til að komast að því hvar neyðin er stærst.
Er neyðin virkilega stærst varðandi það að koma upp aðstöðu til reykinga á meðferðarheimilum sem rekin eru af ríkisstyrk? Tóbak er hættulegt eitur og það er alveg forkastanlegt að því sé tekið vel og veitt aðstaða til að koma upp eiturefnaúðunarklefa á meðferðarheimilum sem rekin eru með ríkisstyrk.
Ég hvet fólk til að skrifa til Barnaverndarstofu og Götusmiðjunnar og lýsa andúð á þessu háttalagi.
Reykingar drepa.
Hmmm.... ég fór í smávegis rannsóknarbloggmennsku á Netinu og fann þá þetta á Netinu um rekstur Götusmiðjunnar á Akurhóli:
Þau 16 meðferðarrými sem til staðar eru á Akurhóli skiptast á eftirfarandi hátt:
- 12 rými fyrir ósjálfráða nemendur
- 2 rými fyrir 18 til 20 ára nemendur
- 2 rými fyrir neyðarinntöku og -endurkomu og vikudvalir
Það er sem sagt þannig að langflest meðferðarrýmin eru fyrir ósjálfráða unglinga og það er forkastanlegt að það skuli vera unnið hörðum höndum að því að stuðla að því að þau séu í harðri neyslu stórhættulegra efna á meðan þau eru ósjálfráða vistuð á stofnun sem rekin er af ríkisstyrk. Þetta er skömm og svívirða.
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 12:23 | Facebook
Athugasemdir
Ég rak einmitt augun í þessar frétt og átti ekki orð. Skil samt alveg Pólverjana sem halda að þeir séu að gera góðverk, reykingar eru ekki eins illa séðar í þeirra landi og okkar. En liðið sem ræður þarna, hvað var það að spá með því að leyfa þetta?
Ibba Sig., 28.2.2007 kl. 13:33
Það er nú einu sinni þannig að það verður ekki skrúfað fyrir tóbaksfíkn, bara sisona 1,2 og 3 og með því að láta fólk norpa úti, ekki frekar en tölvufíkn með því að taka tölvuna úr sambandi. Tek það fram að ég er ekki og hef aldrei verið reykingamanneskja. Kallangan gengur gott eitt til. Ég veit ekki betur en að fyrir utan Geiðdeild Landspítalans við Hringbraut sé glerhýsi eitt ömurlegt þar sem hinir sjúku og tóbaksfíknu mega reykja, öðrum til vandlætingar vafalaust.
Greta Björg Úlfsdóttir, 28.2.2007 kl. 14:49
Nú ætla ég að hætta að skrifa þangað til mér er bötnuð flensan og ég kem óbjöguðum orðum á tölvuskjá!
Greta Björg Úlfsdóttir, 28.2.2007 kl. 14:51
Ég þekki svolítið til í þessum málum. Og trúið mér það er ekki hægt að takast á við að losna undan fíkn og hætta að reykja á sama tíma. Það er ekki til aukaorka í að takast á við slíkt, nema í undantekningartilfellum. Eitt í einu er mottóið. Og ég veit til þess að fólk hefur labbað sig út úr meðferð þar sem átti að banna reykingar.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.2.2007 kl. 15:09
Það er eitt að leyfa börnunum að reykja en hins vegar allt annar handleggur að byggja handa þeim sérstakt reykingarhús þegar án efa er meiri þörf fyrir aðstoð þessara annars ábyggilega ágætu manna annarsstaðar. Ég er mjög hissa ef satt er að Götusmiðjan taldi þetta vera það mikilvægasta sem að þessir menn gátu gert fyrir staðinn og börnin.
Erla María (IP-tala skráð) 1.3.2007 kl. 00:13
Þetta er ef til vill ekki bara spurning um að fara og reykja, heldur eins og svo oft gerist samskipti, nauðsynleg jákvæð samskipti, þar sem málin eru rædd og fólkið kynnist.
Ég var í 6 vikur í Hveragerði á heilsuhælinu, ég reyki ekki, en ég sá að þar myndaðist strax sterk tengsl milli reykingafólksins. Þar sem það fór út í kofann sinn og reykti. Þau sömdu vísur voru með kerti, göntuðust og áttu allskonar skemmtilegar stundir saman.
Ég held að forræðishyggjan sé að fara með suma núna. Ætli það fólk sem er innan um unglingana hafi nú ekki bara nokkuð gott vit á því hvað kemur þeim best.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.3.2007 kl. 09:07
Meðferð fíkniefnaneytenda er alvarlegt mál. Ég hef fylgst með ungu fólki sem eftir nokkrar meðferðir hefur loks náð tökum á lifi sínu. Við þurfum ekki svona athugasemdir sem augsjáanlega gera þessu erfiðu hindrun enn erfiðari.
Hvernig etur maður fíl. Maður fær sér einn bita í einu.
Jón Sigurgeirsson , 1.3.2007 kl. 10:31
Vonandi gengur allt vel hjá ykkur Marsibil mín og vonandi hafa krakkarnir bara gott af því að fá þennan reykingakofa, þau geta þá haft eitthvað uppbyggilegt að tala um inn í honum, frekar en að hanga úti í nepjunni.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.3.2007 kl. 21:26
Það er undarlegt að opinberir aðilar skuli leyfa vist unglinga sem ekki hafa forræði við aðstæður þar sem ekki er einu sinni bannað að reykja heldur þvert á móti ýtt undir reykingar með einhvers konar aðstöðu fyrir þannig fíkniefnaneytendur. Nikótín er hættulegt eitur. Það er hins vegar ekki bannaður aðgangur að því eins og sumu öðru eitri.
Það eru ekki haldgóð rök að það verði að leyfa krökkum í vandræðum að reykja. Það mætti nota sömu rök um margs konar aðra hegðan. Það eru margar aðferðir til að stemma stigu við reykingum og efnaneyslu. Ein slíkra aðferða er "zero tolerance" . Ég held að sú aðferð virki best.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.3.2007 kl. 22:58
Sæl Salvör. Ég held að "zero tolerance" sé ekki rétta leiðin gagnvart brothættum börnum sem komin eru til að leita hjálpar. Eins og mér er nú illa við reykingar þá held ég að það hljóti að vera gott að hafa aðstöðuna fyrir krakkana þannig að þeim líði sem best. ps. Götusmiðjan fær meirihluta sinna tekna frá Barnaverndarstofu sem er ríkisstofnun.
Baldur Már Bragason, 3.3.2007 kl. 12:16
Ég er ein sú hatrammasta gegn reykingum en ég fæ ekki séð hvaða tilgangi það þjónar að gera krökkunum lífið óbærilegt í þessum óheyrilegu erfiðleikum sem þau standa í þegar kemur að því að losa sig við eyturlyfjafíknina.
Götusmiðjan er að gera frábæra hluti og það er bara sorglegt ef athyglin á eingöngu að beinast að þessum þætti í starfseminni.
Ísdrottningin, 6.3.2007 kl. 20:04
Hu?
Eigi amfetamínfíkill að sigrast á fíkn sinni er ekki rétta leiðin að bæta á hann fráhvarfseinkennum.
Sveitavargur, 7.3.2007 kl. 20:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.