24.2.2007 | 19:07
Nornir og nútímagaldrar á safnanótt
Ég reikaði um Reykjavíkurborg á safnanótt. Byrjaði vestur á melum á Fulbright afmælishátíð í hátíðarsal háskólans, fór svo niður að höfn í Hafnarhúsið á sýningu Pierre Huyghe, horfði á mynd hans um Streamside hátíðina, tilbúna hátíð listamannsins í nýju úthverfi í USA sem er " ætlað að fagna tilurð þessa nýja samfélags og verða árlegur viðburður í lífi íbúanna. Huyghe skapar viðburð fullan gleði og siðum sem verða munu raunverulegur þáttur í árlegum hátíðarhöldum bæjarbúa. Í BEINNI - VIÐBURÐUR VERÐUR SÝNING er vettvangur þar sem leitast er við að skapa andrúm frelsis, fögnuðar og þátttöku." Skrýtið að vera á hátíð borgarsamfélagsins eins og safnanótt að horfa á mynd um hátíð í öðru hverfissamfélagi. Leit líka inn á Errósýninguna og þessi hluti úr stórri Errómynd minnti mig á klámþingsumræðuna nýhjöðnuðu.
Skoðaði óspennandi ljósmyndir af húsum séð með frönskum augum í ljósmyndasafni Reykjavíkur og var of fullorðin til að búa til pappírsbáta til að finna til fransk-íslenskra tengsla við sjómenn fyrri alda.
Fór í þjóðminjasafnið, hlýddi á hljóðfæraslátt og miðaldasöng og raulaði með viðlagið um Ólaf liljurós um blíðan byrinn sem lagði undan björgunum.
Skoðaði ljósmyndasýningu þar og hreifst af myndinni af síldarþrónni við Sjómannaskólann þar sem núna eru stúdentagarðar. Það var líka ljósmynd úr frystihúsinu á Kirkjusandi 1952 og af konum sem starfa við bókhaldsvélar SÍS. Það er hægt að lesa atvinnu- og tæknisögu Íslands úr þessum myndum.
Svo reikaði ég í Norræna húsið og þar var sungið af gleði en söngurinn var engu lagi líkur. Ég kunni vel við það , fólk á að syngja hvert með sínu lagi og fagna fjölbreytninni.
Svo lá leiðin aftur í Grófarhúsið og nú á Borgarbókasafn og það rann ég á hljóðið, það var fjöldasöngur og ég söng með nokkur lög. Orti svo ljóð með því að setja saman orð, það var náttúrumynd eins og hæka um sólarlag þar sem sjórinn og landið mætist og kæfandi garg máva í forgrunni. Svo hlýddi ég á erindi um nútímanornir og nútímagaldra hjá galdranorn sem rekur galdrabúð á Vesturgötu. Þetta var skemmtilegt og hvetjandi erindi og alveg í þeim anda sem mér finnst gefast vel í lífinu - að gæða lífið töfrum.
Það er nú líka miklu skemmtilegra að lífa í kynjaveröld þar sem margt getur gerst og fólk getur beitt verkfærum sem það skilur ekki vel - miklu skemmtilegra en heimta að horfa bara á heiminn frá sjónarhóli takmarkaðrar lífveru sem aðeins sér hluta af litrófinu og afneitar því að það geti verið til sem þessi lífvera getur ekki séð eða hugsað um með sínum takmörkuðu skynfærum og hugsanatækjum.
Galdranornin var ekki í öskudagsbúningi norna með svartan barðahatt með uppmjóan rana heldur hafði brugðið yfir sig ljóskugervi sem er sennilega felubúningur hjá nútímanornum svo engan gruni þær um græsku og gáfur. Hún sagði að við hefðum öll framið galdur. Ég er nú alveg á því, fólk er alltaf að fremja einhvers konar seið og hermigaldra og reyna að smætta andstæðing með því að koma einhverri mynd á hann. Ég hef í samantekt minni um Grýlu reynt að benda á það hvernig Grýlan í íslensku samfélagi er síbreytileg, hún er ógnin sem steðjar að hverju sinni og með því að líkamna hana í Grýlu þá er auðveldara að búa til hetjusögur þar sem Grýlan er kveðin niður með mögnuðum galdri.
Annars rifjar þetta upp fyrir mér að ég orti einu sinni ljóð um galdur. Galdur sem ég sá framinn. Af mörgum í einu, af hundruðum. Og enginn horfði á annan en samt talaði fólk saman. Það var magnað. Það var um hábjartan dag í brennandi sól á torgi í Jerúsalem.
Ljóðið heitir Galdur hinna sigruðu og það byrjar svona:
Þegar hermennirnir
ganga fyrir hornið
deyr kliður götunnar út
og ekkert heyrist
nema snarkið í eldi götusalans.
Flokkur: Menning og listir | Breytt s.d. kl. 19:43 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.