16.2.2007 | 12:32
Stóri bróðir fylgist með þér
Mogginn greinir okkur frá því að nú geti Hvít-Rússar ekki spilað tölvuleiki og komist í ofbeldi og klám á netkaffihúsum. Allir verða líka að sýna skilríki þegar þeir heimsækja netkaffihús. Þarlend stjórnvöld vaka svo vel yfir velferð þegnanna að þau hafa skikkað netkaffihúsaeigendur til að halda skrá yfir þær vefsíður sem eru heimsóttar og skila til öryggisþjónustu ríkisins.
Er það svona netheimur sem við viljum?
Það getur verið að okkur finnist tölvuleikir hið mesta rusl og það eigi að hindra aðgang að ofbeldi- og klámefni. En í Hvíta-Rússlandi er líka bannað aðgangur að öllu ólöglegu efni og þar í landi telst það ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld. Þetta er því leið stjórnvalda til að kúga þegnanna og bæla niður allar andófsraddir, það er ekki bara ólöglegt að gagnrýna stjórnvöld, það er líka orðið ólöglegt að lesa gagnrýni um stjórnvöld.
Á Vesturlöndum er umburðarlyndi fyrir klámi og ofbeldi og margir fjölmiðlar dæla skömmtum af klám- og ofbeldisblöndu í okkur á hverjum degi. Það vekur því hneykslan okkar að stjórnvöld annars staðar skuli ekki leyfa svoleiðis. Við erum líka vön hér á Íslandi að hafa skotleyfi á ráðamenn og geta dregið dár að og gagnrýnt gjörðir þeirra. Við erum vön því að fjölmiðlar hjá okkur stilli sér í dómarasæti yfir dómurum og ráðuneytum og það vekur því hneykslan okkar að það sé hvorki leyft að gagnrýna stjórnvöld né að lesa gagnrýni um stjórnvöld.
En er allt í lagi í okkar heimshluta? Er frelsi fólks í netheimum virt eins vel og frelsi fólks í daglega lífinu? Eða er ástandið eins og í símhleranatíma kalda stríðsins nema bara núna hafa stjórnvöld og fjölþjóðlegir auðhringir miklu betri græjur til að vakta fólk á Netinu og leita að mynstrum í athöfnum þess?
Við erum síðustu ár alin upp í ótta - ótta um hryðjuverkaárás, sérstaklega átök innan frá. Eina sýnilega leiðin sem stjórnvöld virðast fara til að stemma stigu við því er að herða eftirlit og þá sérstaklega eftirlit með umræðu og ferðum einstaklinga á Internetinu. Sennilega nota spellvirkjar Netið bæði til að skipuleggja samfélög sín og til að afla sér upplýsinga. Það geta líka allir aðrir. Sennilega nota spellvirkjar tungumálið og röddina til að tala saman og bækur og blöð til að lesa sér til. Það gera líka allir aðrir. Viljum við að allar samræður okkar séu teknar upp og vaktaðar og einhvers staðar séu skráðar allar bækur og rit sem við lesum og ef við erum áhugafólk um efnafræði og ég tala nú ekki um menn af erlendum uppruna þá séum við tafarlaust orðin grunsamleg og með okkur sé sérstaklega fylgst.
Við ættum ekki að samþykkja að fylgst sé með samræðum og ferðum einstaklinga á Netinu undir því yfirskini að það sé unnið að því að uppræta hryðjuverkasellur eða koma upp um barnaklámhringi ef við viljum ekki samfélag þar sem stjórnvöld geta njósnað um hvert fótmál (ætti kannski frekar að segja netmál) þegnanna.
Á Vesturlöndum er ekki líklegt að tilburðir til að hindra netfrelsi okkar verði krossfarir undir merkjum þeirra sem vilja sporna við ofbeldi og klámi. Á Vesturlöndum er líklegra að það sé undir því yfirskini að það sé verið að passa okkur fyrir væntanlegum hryðjuverkamönnum og barnaklámhundum og að það sé verið að verja hin helgu vé einkaeignaréttarins og verja hagsmuni markaðshagkerfisins. Það mun líka verða smám saman kreppt að frelsi okkar og það er mikilvægt að við spornum við af alefli og beinum netnotkun okkar í farvegi sem líklegra er að standi betur af sér áhlaup. Þannig er besta leiðin núna að forðast sem mest höfundaréttarhugbúnað og lokuð kerfi og taka sem virkastan þátt í þeirri nýju samvinnuhreyfingu sem upp vex á Netinu og er kennd við opnar lausnir, opinn aðgang og almenningssvæði sem allir hafa aðgang að og allir geta tekið þátt í að byggja upp.
Það má rifja það hérna upp að það eru ekki mörg ár síðan hér á Íslandi var víða plantað inn njósnaforriti í netkerfi skóla til að fylgjast með hvaða hugbúnaður var notaður og það voru alþjóðleg samtök höfundarrétthafa sem útveguðu það forrit og það var hluti af opinberum samningum við Microsoft að gera úttekt og eftirlit á meintri ólöglegri notkun forrita með þessum hætti. Það er til opinber skýrsla sem Ríkisendurskoðun vann um þetta mál.
Það er víða en í Hvíta-Rússlandi sem við þurfum að vera á varðbergi fyrir tilburðum stjórnvalda og annarra stórra aðila sem vilja ráða netumhverfi okkar. Ef netþjónustur, samskiptafyrirtæki og Internetþjónustuaðilar eru allir í eigu sama aðila og hagsmunir þess aðila fara ekki saman við það efni og þá umræðu sem flæðir fram og til baka í netrásum - býður það ekki hættunni heim?
Eftirlit með netnotkun í Hvíta-Rússlandi hert | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Meginflokkur: Tölvur og tækni | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 12:38 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.