12.2.2007 | 19:07
Fröken Kjær
Þann 19. nóvember 2006 var viðtal í Morgunblaðinu við Sólveigu dóttur Jóns Árnasonar handritafræðings og skálds. Hún sagði frá uppvaxtarárum sínum í Kaupmannahöfn og hún sagði frá því hvernig er vera í fjölskyldu af erlendum uppruna, hvernig er að finna talað niður til sín og hvernig það fer í hreppstjóradætur úr Mosfellssveitinni þar sem vinnukonurnar passa hin dýru brauð að fá sömu þjónustu eins og hinir verst settu í samfélaginu, stúlkurnar sem fæddu lausaleiksbörnin á Ríkisspítalanum.
Hér er brot úr greininni:
Hún var gift föður mínum sem var námsmaður en var send með einhverjum stúlkum sem voru að eignast lausaleiksbörn og farið eins illa með hana og þær. Hún fyrirgaf aldrei Dönum hvernig farið var með hana þá. Mikil stéttaskipting var á dönskum sjúkrahúsum í þá daga. Þetta átti illa við mömmu, hún var hreppstjóradóttir úr Mosfellssveitinni, dóttir Björns bónda í Grafarholti og vildi ekki láta tala niður til sín.
........Oft litu Danir niður á okkur og aðra Íslendinga. Við ólumst upp við nokkurn dónaskap frá hendi Dana. Ég man t.d. að maðurinn sem bjó á móti okkur fann einu sinni tösku með skítugum þvotti, hann hljóp með hana og setti hana á mottuna hjá okkur, hringdi svo og sagði að hann hefði fundið þessa tösku og sett hana hjá okkur því honum hefði fundist hún svo "íslenskuleg".
Sami maður hékk eitt sinn upp við hliðið sitt og sagði við mig: "Din far er ein snylter på den danske Stat." Pabbi þinn er sníkjudýr á danska þjóðfélaginu.
Þeir sem komu til okkar voru allir Íslendingar nema eina danska kunningjakonu áttu foreldrar mínir sem hét fröken Kjær. Hún bjó rétt hjá okkur og kom mikið til okkar þegar útgöngubann var á stríðsárunum, þá gat hún skotist milli húsa. Hún hafði unnið á holdsveikraspítalanum í Laugarnesi í 21 ár en ég varð aldrei vör við að hún skildi eitt einasta orð í íslensku. Fröken Kjær sat aldrei lengi, við vorum hinsvegar vön að fólk væri lengi, eyddi sunnudeginum með okkur úti í garði, það kom líka flest hjólandi langt að.
Þetta stutta minningarbrot segir ekkert um fröken Kjær og þau áhrif sem hún hafði á Íslandi. Ég held að fröken Kjær hafi reynst vistmönnum á holdsveikraspítalanum í Laugarnesi ákaflega vel og borið með sér nýja strauma og hafi verið merkileg kona. Mér finnst sárt að hugsa til þess einmitt á sama tíma og fjölmiðlar reisa sig í dómarasæti yfir starfsfólki á vistheimilum og stofnunum og hrópa þungar ákærur á nafngreinda menn þá er framlag allra þeirra sem hafa komið skjólstæðingum sínum til þroska og auðgað líf þeirra ekki fréttaefni. Reyndar gleymt af öllum.
Óskar Aðalsteinn ritar eftirfarandi um fröken Kjær í greininni Um vetrarsólhvörf en það eru minningarbrot um hinn holdsveika Sigurð Kristófer, strákinn sem fór sextán ára á Holdsveikraspítalann í Laugarnesi og dvaldi þar til æviloka:
Ný yfirhjúkrunarkona réðst að spítalanum; fröken Harriet Kjær. Þau Kristófer voru aldrei ókunnug hvort fyrir öðru. Við fyrstu sýn fóru hughrif á milli þeirra, sem knýttu með þeim ævilöng vináttubönd. Hiklaust, átakalaus, opnaði Kristófer hug sinn fyrir fröken Kjær. Hún varð hluttakandi í dýpstu gleði hans og sárustu kvöl. Hin þrotlausa andlega barátta hans varð lifandi þáttur í sál þessarar konu. Frá því fröken Kjær kom í hælið, leið ekki sú stund í vökulífi Kristófers, að hún væri honum ekki nálæg í gleði hans og baráttu. Að vísu stóð hann við lokaðar dyr. Hann skildi ekki örlög sín, hafði ekki fundið nein skynsamleg rök fyrir þeim dómi, sem skapanornirnar höfðu kveðið upp yfir honum. En kannski hafði hann einmitt nú náð að skynja lífið í þeirri fegurð, sem mannlegur hugur megnar. Sú fegurð birtist honum í hugarferli Harriet Kjær. Og hann sá þessa fegurð í brosi hennar og þegar hún horfði í augu hans.
Fröken Kjær varð áhrifavaldur í lífi Kristófers, hún kynnti hann fyrir kenningum guðspekinga og ræddi við hann um andleg málefni. Sigurður Kristófer varð örkumlamaður vegna sjúkdóms síns, hann dvaldist á Holdsveikraspítalanum í Laugarnesi frá 16 ára aldri og þar til hann dó 19. ágúst 1925, þá 43 ára gamall. En hann var afreksmaður. Um hann segir í Morgunblaðsgrein 1996:
Spítalavistin var Sigurði Kristófer erfið í fyrstu en fljótlega breyttist viðhorf hans enda hafði hann nú tíma og næði til að sinna bóklestri og öðrum andlegum störfum sem hann hefði annars ekki getað, spítalinn varð honum eins konar klaustur eða menntasetur, eins og Gunnar Stefánsson bendir á í áðurnefndri grein sinni. Á spítalanum komst hann í fyrsta skipti í kynni við fræði guðspekinga sem áttu eftir að verða hans helsta hugðarefni fyrir utan málvísindin. Einnig lagði hann fyrir sig tungumála-, söngog hljómlistarnám en allt þetta lærði hann af sjálfum sér enda ekki neinir kennarar á spítalanum. Varð hann svo vel að sér um dönsku, ensku og þýsku að hann gat lesið sig til um ýmislegt á þeim tungum. Esperanto lærði hann svo vel að hann orti á því máli. Sjálfur gat hann ekki leikið á hljóðfæri vegna sjúkdóms síns en hann kenndi öðrum sjúklingum að leika fjórraddað á orgel.
Þetta eru töfrar, hvernig getur spítali fyrir þá sem þjást af sjúkdómi sem útskúfar þá úr samfélaginu orðið klaustur og menntasetur? Hvers vegna varð þessi fallegi staður Breiðavík að grimmu fangelsi sem ól upp glæpamenn? Hvað hefði gerst ef til Breiðuvíkur hefði ráðist starfsfólk eins og fröken Kjær? Væri Sævar Ciesielski þá núna alþýðlegur fræðimaður sem skrifaði langa doðranta um einhver undarleg nýaldarfræði og rannsakaði bragarhætti í vestfirskum ferskeytlum?
Í minningu þeirra Sigurðar Kristófers og fröken Kjær hef ég skrifað nokkra pistla um holdsveiki og holdsveikraspítala á íslensku wikipedíu. Ég hef nú reyndar sjálf unnið í holdsveikraspítala, ég vann einn vetur þegar ég var í menntaskóla í eldhúsinu á Kópavogshælinu en eldhúsið var staðsett í kjallara húss þar sem var þá síðasti holdsveikraspítalinn á Íslandi. Það var þá eftir ein kona þar og hún lifði í algjörri einangrun og einmanalegu lífi að ég held.
Nokkra reglu er að finna í fögru máli Sigurður Kristófer Pétursson (Gagnasafn Mbl. 7. desember 1996)
Við förum heim þegar handritin fara heim (Gagnasafn Mbl. - innskráning þarf)
Meginflokkur: Stjórnmál og samfélag | Aukaflokkur: Tölvur og tækni | Breytt s.d. kl. 23:05 | Facebook
Athugasemdir
Lífið hefur verið allt annað en auðvelt, frk.Kjær hefur markað kærleik hjá samferðarmönnum sínum! Gaman að lesa
www.zordis.com, 12.2.2007 kl. 22:29
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.