Greiningardeildir lögreglu, greiningardeildir bankanna og áhættusamfélagið

Á bólutímanum fyrir Hrun þá las ég stundum netpistla eða hlustaði á fjölmiðla í morgunssárið þar sem sagðar voru fjármálafréttir dagsins. Véfréttirnar sem birtu spádóma sína um stöðu í núinu og horfurnar í framtíðinni voru greiningardeildir bankanna. Núna er það spilavirki sem greiningardeildir bankanna rýndu í hrunið með brauki og bramli og enginn tekur lengur mark á bankaspeki, við vitum sem er að það sem kemur úr þeim ranni er lítið annað en veruleikablekking þeirra sem lifa á blöffi og braski.

Rétt áðan þá fannst mér ég vera komin aftur í tímann, mér fannst ég vera að rýna í sama textann, lesa fréttir frá greiningardeildum sem voru á vaktinni,  sem sáu óvinina sitja á fletjum fyrir og voru sjálfir í þjónustu bjargvættarins og kunnu best allra að greina og meta hvar væru hættur og ekki aðeins það, hversu mikil hætta væri á ferð á hverjum stað og stundu. 

Í tíma greiningardeilda bankanna þá var samfélagið sett fram eins og hringrás sem gengi fyrir peningum og út á að skúffa saman fé í hrúgur sem kallaðir voru sjóðir með því að vita hvaða hlutabréf í hvaða hlutafélögum og sjóðum  poppuðu upp og niður - að því er virtist út af því hvernig önnur bréf í einhverjum öðrum félögum poppuðu upp og niður og leikurinn gekk út á að geta sem nákvæmast greint hvað væri á leið upp og hvað væri á leið niður og hve mikið.

En tími greiningadeilda bankanna er liðinn og það sem fékk mig til að kippast við núna í morgun var lestur skýrslu sem vitnaði í greiningardeildir lögreglu. Það er skýrsla frá Ríkislögreglustjóra, skýrsla sem er bara til vegna þess að grunur var um að lögreglan hefði brotið lög eða farið í kringum lög með því að einstakir aðilar tengdir lögreglu væru í einkabisness við lögreglu, skýrsluna má sjá hérna:
http://www.innanrikisraduneyti.is/media/frettir-2011/Aths.-rikislogreglustjora-4.10..pdf

Það er svo svipuð orðræða í þessari skýrslu og var fyrir Hrun í bankafréttunum að það læddist að mér sá grunur að kannski væri þetta eins, kannski væri þessar greiningardeildir lögreglu álíka merkilegar og greiningardeildir bankanna voru. Kannski væri mat þeirra og sýn á tilverunni álíka brenglað og sú sýn greiningardeilda bankanna sem lýsti heiminum sem risastóru kasínó var, sú sýn sem lýsti þeim sem sátu við fjárhættuspilin sem bjargvættum og stórmennum.

Greiningardeildir bankanna tóku þátt í og voru stórir gerendur í því ð spinna upp lygavef og breiða yfir samsæri gegn íslenskum og erlendum almenningi, samsæri sem fjölmargir tóku þátt í, ekki bara þrjátíu útrásarvíkingar heldur víðfeðmt net valdamanna í fyrirtækjum, bankastofnunum, stjórnsýslu og pólitík með mörgum hjálparkokkum sem hilmdu yfir og tóku þátt í blekkingarleiknum gegn broti af ránsfengnum.

Greiningardeild lögreglu leitar nú að ólgu, leitar að glæpamönnum áður en þeir fremja glæpina og leitar að hvar hún á að bera niður í leit sinni að óvininum. Þessa ólgu og þennan óvin finnur hún í æstum og örvæntingarfullum almenningi sem hennar hlutverk sé að hemja. Sérstök hætta er á hópamyndun, ekki síst hópum sem setja ekki fyrir sig almenningsálitið og hópum eins og hústökufólki. Svo virðist greiðsluvilji almennings vera að minnka og fréttir um stjórnarfarið fyrir hrun gætu leitt til þess sem greiningardeild bank... lögreglu  kallar öfgafull viðbrögð.

Það er eitthvað við þetta innblik í orðræðu lögreglu sem fær mann til að skynja hvernig lögreglan lítur á sig og hvernig hún lítur á okkur, almenning í landinu. Lögreglan eru vaktmenn og varðliðar sem hlusta á tikkið í tímanum og leita eftir hvar eitthvað gæti komið upp sem gæti umbylt þessu kerfi sem við búum við, þessu kerfi fanga og fangavarða þar sem fangarnir eru skuldaþrælar sem þarf að aðgæta að hegði sér vel, haldi áfram að vera með greiðsluvilja og passa upp á að safnist ekki saman í hópa, þá er voðinn vís. Allra hættulegast ef hóparnir kæra sig kollótta um almenningsálitið.

Grípum niður í skýrsluna með álitum frá greiningardeildum bank.... ég meina greiningardeildum lögreglu og skoðum orðfærið þar:

Þann 30. september 2009 gaf greiningardeild út nýtt hættumat þar sem varað var víð margvíslegri ógn. Sem fyrr var niðurstaða greiningardeildar sú að spenna myndi aukast í þjóðfélaginu á næstu vikum og mánuðum.

Óvænt rás atburða og nýjar upplýsinga tengdar hruni íslenska fjármálakerfisins gætu á skammri stundu raskað þeim viðkvæma stöðugleika sem ríkti. Boðað hafði verið að á næstu vikum yrði gerð opinber Rannsóknarskýrsla Alþingis um hrun íslenska fjármálakerfisins. Að hálfu nefndarinnar hafði verið upplýst að skýrslan myndi innihalda upplýsingar sem yrðu þjóðinni erfiðar.

Þann 7. október 2009 varaði greiningardeild við að margir óttuðust að missa húsnæði sitt á næstu vikum og mánuðum. Það kynni að kalla fram öfgafull viðbrögð. Umræðan í þjóðfélaginu gæfi til kynna að greiðsluvilji almennings færi minnkandi. Því ástandi kynnu að fylgja hópamyndanir og mótmæli. Örvænting innan vissra þjóðfélagshópa færi vaxandi og margvíslegir þættir gætu snögglega aukið ólgu í þjóðfélaginu.

Þegar ég les þennan texta þá er ég alltaf rugluð, þetta gæti verið skrifað af greiningardeildum dáinna banka og mér finnst ekkert sem skilur að lögreglu í núinu og banka sem hrundu, ekkert sem segir mér að þetta séu stofnanir sem ég eigi að treysta og vinna með.  Af hverju á ég að treysta þeim sem lítur á almenning sem óvininn og talar mál og talar máli þess kerfis sem hrundi yfir okkur? 

Svo leggur greiningardeild mat á sjálfa sig og réttlætir kaup lögreglu á búnaði af fyrirtækjum í eigu lögreglumanna. Halló, ég er ekki að lesa fréttir frá greinigardeildum bankanna fyrir Hrun, þetta er annað, þetta er eftirhruns Ísland sem nú kallar:

"Reynsla af hættumati greiningardeildar er sú að spár hennar hafa gengið eftir. Ákvarðanir lögreglu um ráðstafanir sem gripið hefur verið til, þar með talið kaup á búnaði, hafa tekið mið af þeim. Greiningardeild telur ennþá vera ríkjandi alvarlegt þjóðfélagsástand og lítið þurfi að gerast til þess að uppúr sjóði. Lögreglan starfar ennþá samkvæmt viðbúnaðarskipulagi lögreglu vegna alvarlegs þjóðfélagsástands..."

Sennilega eru báðar þessar  keimlíku stofnanir -  greiningardeildir banka og greiningardeildir lögreglu - afsprengi  þess áhættusamfélags sem við búum við og félagsfræðingar eins og Giddens og Rick hafa fjallað um.  Ég velti fyrir mér hvort einhver von sá að breyting verði á ástandinu og þegar ég lít aftur í tímann þá man ég áður eftir svona gríðarlega óréttlátu ástandi, það var þegar "við náðum tökum á verðbólgunni" og gerðum "þjóðarsátt".  

Það var á árunum þegar opinberir starfsmenn og margar starfsstéttir  bjuggu við föst laun og 70% verðbólgu og verðtryggðar skuldir. Sigurvegarnir skrifa söguna og þeir láta sinn sannleik koma fram, ekki sannleik þeirra sem misstu húsnæði sitt á misgengisárunum, ekki þeirra sem fluttu úr landi heldur valdamanna sem búa til þjóðarsátt úr hörmungum sumra. Heldur þeirra sem gerðu sátt við bankaheiminn og settu upp kerfið sem blóðsaug almenning 1985 og gerir það líka núna, kerfi sem virkaði um tíma og var alveg samkvæmt verðbólguhagfræðingum eins og Milton Friedman. Það er nú kannski kaldhæðni örlaganna að fréttamaður sem steig sín fyrstu  pólitísku spor á misgengisárunum þegar örvæntingarfullt ungt fólk sem var hneppt í skuldafangelsi vegna verðtryggingar á þessum árum og var í forsvari fyrir hóp sem fólkið stofnaði, Sigtúnshópinn - skuli núna vera æðsti yfirmaður þeirrar löggæslu sem þarf núna að hafa aðgætur á því að fólk sé að stofna hópa.

 


mbl.is Lögreglan fór að lögum við innkaup
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Um margt athyglisverður pistill. Þú hins vegar gefur þér ýmsar forsendur og kemst að röngum niðrustöðum um lögreglumenn. Lögreglumen eru þjónar almennings og þeim ber að halda uppi lögum og reglu í þágu almennings. Hætt er við að lögreglan yrði gagnrýnd harðlega ef hún fylgdist ekki með því hvort hætta væri á óeirðum þar sem fámennir hópar geta hleypt upp friðsamlegum samkomum með tilheyrandi eignaspjöllum og líkamsmeiðingum. Það er hlutverk lögreglu að vernda hinn almenna borgara fyrir þess háttar uppákomum. Við þurfum ekki að leita langt til að sjá hvernig lögregla í öðrum löndum bregst við mótmælum og fróðlegt hefði verið að sjá viðbrögð allra annarra lögregluliða við því þegar alþingismaður var grýttur í höfuðið þannig að hann féll við. Lögreglan á Íslandi er í algerri sérstöðu hvað varðar viðbrögð við mótmælum og óeirðum. Þegar friðsamleg staða fólks breytist í það að kasta eggjum tómötum og grastorfum í alþingismenn þá er um að ræða óeirðir og öll önnur lögreglulið hefðu brugðist við því. Ekki lögreglan á Íslandi. Hún dró upp regnhlífar.

Mér finnst sérlega ógeðfellt að líkja lögreglumönnum við bankastarfsmenn sem heldu uppi fölsku hlutabréfaverði og blekktu almenning. Greiningardeild lögreglunnar fjallar langmest um skipulagða glæpastarfssemi í skýrslum sínum og því vandséð að þessi útlegging þín eigi rétt á sér.

Runólfur Þórhallsson (IP-tala skráð) 19.10.2011 kl. 15:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband