8.2.2007 | 19:15
Landlæknir, skottulækningar og Byrgismálið
Núna er komin frétt á Rúv um að landlæknir hafi beðist geðlæknir afsökunar en geðlæknirinn skrifaði embættinu fyrir fjórum árum og benti á kynferðismisnotkun í Byrginu.
Í skýrslum og bréfum ríkisstjórnarinnar tala stjórnvöld ítrekað um Byrgið sem meðferðarstofnun. Í einni skýrslunni segir að þar fari fram afeitrun, endurhæfing og bráðaþjónusta. Landlæknisembættið hefur beðið Pétur Hauksson geðlækni afsökunar á því að bréf um kynferðismisnotkun í Byrginu hlaut engin viðbrögð embættisins fyrir fjórum árum.
Það er mjög erfitt fyrir landlæknisembættið að sýna fram á að það hafi rækt þær eftirlits- og ráðunautsskyldur sem það hefur skv. lögum sjá nánar í þessu bloggi Þekkir landlæknir ekki lög um skyldur landlæknis?
Það er ekki eins og sú ábending sem embættið fékk hafi verið frá einhverjum nafnlausum kverúlant út úr bæ, þetta var bréf frá fagaðila, sérfræðingi á því sviði sem landlæknisembættis starfar á.
Ég er ekki löglærð og ég veit ekki alveg hver verkaskipting heilbrigðis- og félagsmálaráðuneytis er en mér sýnist að í þessu máli hafi faglegt eftirlit átt að koma frá Landlæknisembættinu. Í lögum um landlæknisembættið segir: " Landlæknir skal vera ráðunautur ráðherra og ríkisstjórnar um allt, er varðar heilbrigðismál." og þar stendur líka: " Landllæknir heldur uppi eftirliti með lækningastarfsemi allri, m. a. í því skyni að sporna við skottulækningum og annarri ólögmætri lækningastarfsemi."
Alvarlegasti þáttur Byrgismálsins er ekki fjármálaóreiðan heldur sú meinta kynferðismisnotkun sem þar átti sér stað. Þar verður að kalla landlæknisembættið til ábyrgðar. Miðað við forsögu stjórnanda Byrgisins og fyrri fjármálaóreiðu þá var það afar mikið dómgreindarleysi og klúður með almannafé hjá félagsmálaráðuneyti að moka peningum eftirlitslaust í þennan rekstur.
En mistök eru til að læra af þeim. Ég held að þetta módel um svona einkarekstur sem lifir á peningakrana sem skrúfað er frá hjá hinu opinbera sé víða og fari vaxandi. Má þar nefna öldrunarstofnanir og skólastofnanir sem reknar eru af ýmis konar samtökum og félögum. Hvernig er eftirliti háttað með öldunarstofnanir og umönnunarstofnanir? Ég á þá ekki við fjármálaeftirlit sem auðvitað verður að vera til staðar heldur líka eftirlit með því að það fólk sem opinberir aðilar greiða þjónustu fyrir á þessum stöðum fái þá þjónustu sem til er ætlast og lifi með þeirri reisn sem við viljum að allir búi við. Talandi um öldrunarstofnanir þá er ég ekki að skilja hvers vegna það gildir ekki sama um slíkar stofnanir og t.d. um Kópavogshælið og Sólheima í Grímsnesi, fagaðilar hafa bent á að það eigi ekki að vera stórir staðir þar sem eingöngu er fatlað fólk og viljað blöndun í samfélaginu. Af hverju gildir annað um aldraða?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:17 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er nákvæmlega það sem mig langar að vita hvernig er eftirlit með þessum málum í dag og hvers vegna er ríkið ekki að sinna meðferðamálum fíkla. Þá er ég bæði að tala um fjárhagslega eftir fylgni og faglega.
Ester Sveinbjarnardóttir, 9.2.2007 kl. 09:29
Ég held að það sé eitthvað úrræðaleysi í sambandi við fíkla. Það er stór hluti af þeim sem sitja í fangelsum í dag fíklar og þar vegna eiturlyfjabrota. Það er ekki að sjá að fangelsin séu neitt að bæta þessa aðila eða sporna við að þeir fremji aftur afbrot af sama tagi.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.2.2007 kl. 09:32
Nei það er annar handleggur, fangelsimálin eru í miklum fjársvelti og oft gætir misskilings að fangelsi sé aðeins til refsingar ekki til betrunar. Kanski eru ekki skírar línur hvar fíkniefnavandinn tengist inn á félagsmál, heilbrigðismál og dómsmál. Ég get ekki séð að það hafi verið gerð heildarstefnumótun yfir þetta þjóðfélagsböl sem ekki er vandasamt að vinna úr svo vel sé. Að mínu mati þarf að verja umtalsverðu fé í þennan málaflokk til að koma honum í viðunandi farveg, en það mun svo aftur skila sér til baka síðar i krónum og aurum í heilbrigðara fólki og minni glæpum. Börn eiga ekki að hafa "frelsi" til að hafna meðferðarúrræðum.
Ester Sveinbjarnardóttir, 9.2.2007 kl. 11:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.