24.2.2011 | 12:58
Konur, kvóti og kæfð umræða
Í dag er haldin ráðstefna á vegum Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og Hafrannsóknarstofnunar, ráðstefna um lifandi auðlindir hafsins og langtíma stefnumótun og aflareglur. Það eru fjórtán fyrirlesarar á ráðstefnunni, allt eflaust valinkunnir sérfræðingar. En það er undarlegt í meira lagi að allir fjórtán fyrirlesararnir eru karlkyns. Eiginlega sérstaklega undarlegt vegna þess að núna er Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu stýrt af stjórnmálaflokk Vinstri-Grænna sem hefur í stefnuskrá sinni að vera femínískur flokkur. Rödd Steingríms J. Sigfússonar formanns VG hljómaði kraftmikil til mín af sjónvarpsskjá í gærkvöldi, hann var einmitt þá að lýsa því yfir hve femíniskur flokkur hans væri. Það er skrýtin útfærsla á femínisma, að ráðstefna sem hefur framtíðarsýn á annarri af stærstu auðlind þjóðarinnar sem þema í næstum öllum erindum skuli vera þannig skipuð að rödd helmings þjóðarinnar heyrist hvergi, sé þaggaður niður.
Á næstu misserum og árum verður vonandi hörð umræða og aðgerðir - vonandi aðgerðir stjórnvalda en ef stjórnvöld bregðast þá aðgerðir almennings - um hvernig ráðskast er með, hverjir ráðskast með og hvernig er dreift afrakstri af auðlindum í umhverfi okkar, auðlindum sjávar og auðlindum orku. Til langs tíma litið og miðað við nýtingu sem er í sátt við umhverfi og framtíðarhagsmuni íslensks samfélags sem og allra jarðarbúa er líklegt að samfélagseign og samfélagsyfirráð á auðlindum sé besta og sanngjarnasta leiðin. Samfélag er samsett af mörgum og mismunandi aðilum, konum og körlum á ýmsum aldri, börnum, fólki af mismunandi uppruna, með mismunandi menntun og reynslu og með mismunandi lífsýn. Það er styrkur í fjölbreytni, það er bæði réttlátara og skynsamara að ákvarðanir samfélags séu teknar í sameiningu af sem flestum vegna þess að því fleiri sem leggja í púkk með mismunandi framtíðarsýn og reynslu og sérþekkingu, þeim mun fylltri mynd næst af því sem hugsanlega mun gerast.
Það er þannig í samfélögum að rödd þeirra sterkari og valdameiri drynur hærra en hinna sem haldið er valdalausum meðal annars með að tryggja að þau þegi og geti ekki kynnt sér málefni né tjáð sig um þau eða eigi seturétt við samningaborð. Það er oft tilhneiging til þess að reyna að ná í kyrrþey samhljómi milli voldugra aðila um fyrirkomulag sem tryggir þeim sem eru valdamiklir í dag áfram sömu valdastöðu. Það er auðvelt að halda fólki utangarðs með því að veita því ekki aðgang að upplýsingum eða setja upplýsingar fram á svo flókinn hátt í þannig samhengi eða með aðferðum þar sem aðeins innvígðir geta skilið eða notfært sér gögn og aðeins rödd ákveðinna aðila fær rými.
Það skiptir ekki máli þá að umræðan og málþing séu kölluð áferðarfallegum tískuorðum og sögð vera til að upplýsa og virkja almenning ef engin innistæða er fyrir þeim orðum. Þannig er um marga viðburði sem haldnir hafa verið eftir Hrun, meðal annars á vegum stjórnvalda að þeir eru sagðir vera "með þjóðfundarsniði" og framkvæmdin líkist helst leikþátt sem var ágætlega fyrirfram æfður. "Spurningarnar" og "umræðan" fyrirfam æfð, fyrst voru opinberir aðilar að segja eitthvað svo komu fyrirfram undirbúnar spurningar frá þessum og hinum og svo var því svarað á fyrirframákveðinn hátt. Þannig eru atkvæðagreiðslur á Alþingi Íslendinga því miður oft, þær eru leikþáttur sem stjórnvöld spinna fyrir fólk, svona lýðræðissýning en stjórnvöld keyra mál í gegn og dettur ekki í hug að hafa atkvæðagreiðslu nema tryggt sé hvernig hún muni fara. Alþingi er einhvers konar stimplunarstofnun, mest fyrir lög sem hingað koma frá Evrópusambandinu en einstaka sinnum fyrir annað eins og Icesave. En þaðan á niðurstaðan líka að koma tilbúin frá Evrópusambandinu. Því er haldið fram að niðurstaða í Icesave sem þóknanleg sé EBE sé aðgöngumiði þangað inn. Alla vega er það augljóst að það er ekki þóknanlegt EBE að það sé gert opinbert í málaferlum að ríkisstuðningur við fjármálakerfi Evrópu sé á brauðfótum.
Ef stjórnvöldum á Íslandi er alvara með því að hér eigi almenningur að hafa einhver völd þá gerist það ekki nema með vökulu auga á því hvað raunverulega horfir til meira lýðræðis og með því að beita aðferðum til þess að virkja almenning til að taka þátt og tjá sig og koma að ákvörðunum um samfélagið. Það gerist ekki með því að kæfa allar gagnrýnisraddir, leyfa engar breytingar á hvernig ákvarðanir eru teknar og með því að vettvangar sem varða okkur öll eins og framtíðarsýn varðandi fiskveiðar séu skipaðir á einsleitan hátt og þar séu áfram þaggaðar raddir ákveðinna hópa.
Jóhanna forsætisráðherra notar oft orðatiltækið "skelfilegar afleiðingar". Núna þegar seinni þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave stendur fyrir dyrum þá notar hún það um hina miklu hættu á því að almenningur á Íslandi taki þátt í að vega og meta hvernig eða hvort hrun fjármálakerfis eigi að lenda á almenningi bara af því að breskir og hollenskar ríkisstjórnir í paníkástandi ákváðu að bjarga sínu bankakerfi- og að meiri hluti almennings á Íslandi komist að niðurstöðu sem Jóhönnu finnst óskynsamleg í ljósi upplýsinga sem hún hefur og almenningur hefur ekki. Við skulum ekki gleyma að Jóhanna sem vill ekki þjóðaratkvæðagreiðslu var sjálf þátttakandi í þeirri ákvörðun íslenskrar ríkisstjórnar að binda bankainnistæðugreiðslur við kennitölur (þ.e. Íslendinga) og þeirri ákvörðun að styðja við bankakerfið þannig að innistæðueigendur (ekki bara einstaklingar) héldu öllu sínu, meira segja þeir sem höfðu fé í áhættusjóðum (Sjóður 9) fengu mestanpartinn til baka. Jóhanna var þátttakandi í ríkisstjórn/um fyrir og eftir hrun sem hygluðu fjármagnseigendum og vernduðu hagsmuni þeirra en kipptu fótunum undan skuldurum, kipptu svo rækilega fótum undan heilli kynslóð af ungu fólki á Íslandi að núna eru margar barnafjölskyldur á vonarvöl, eiga ekkert nema skuldirnar og lifa á bónbjörgum frá opinberum aðilum og hafa ekki einu sinni tök á að búa í eigin húsnæði þó þær eigi þær að nafninu til. Það kann vel að vera að seinna verði í dómsmálum sem höfðuð verða af kennitöluleysingjum muni þessar stjórnvaldsákvarðanir verða dæmdar brot á stjórnarskrá og alþjóðlegum samningum. Ég tek þetta sem dæmi til að sýna hve valt er að treysta því að stjórnvöld taki réttar ákvarðanir, allra síst stjórnvöld sem reyndu hvað þau gátu að leyna ástandinu fyrir eigin þegnum og umheiminum, alveg fram á seinasta dag þegar ekki varð hjá því komið að grípa í skyndingu til neyðarráðstafana.
Það hefur ekki skelfilegar afleiðingar að hugsandi fólk taki þátt í ákvörðun sem varðar framtíð íslensks samfélags, taki þátt í því með ríkisstjórn og þingmönnum sem því miður hafa ekki verið þess megnugir að taka skynsamlegar ákvarðanir - fyrir hrun vegna þess að stjórnvöld voru klapplið og dráttardýr fyrir ófyrirleitna fjármálamenn sem óðu um lönd með gripdeildum - og eftir hrun vegna þess að stjórnvöld eru máttvana þrælar fjármálakerfis voldugra grannþjóða og voldugra fjölþjóðlegra viðskiptablokka - og meta en eins og fyrir Hrun - afrakstur vinnu sinnar í hvernig "credit rating" íslenska ríkið hefur og hversu vel gengur að laða hingað fé fjárfesta í gróðahug.
Þessi kóun íslenskra stjórnvalda eftir hrun með kerfi sem löngu er úrsérgengið hefur haft skelfilegar afleiðingar, það hefur skelfilegar afleiðingar að stjórnvöld stilli sér uppi með þeim sem eiga fjármagn á móti þeim fátæku, á móti þeim sem skulda og eru reyrðir í skuldafjötra. Það hefur hefur líka skelfilegar afleiðingar að einhverjir geti í krafti einhvers valds sem þeir taka sér með slægð og svikum slegið eign sinni á auðlindir samfélags og gert það með því að ferðast um myrkviði reglna og manngerðra völundarhúsa sem þeir hafa látið búa til fyrir sig þannig að þeir einir geti ratað um og komist þar áfram. Fjármálakerfi og lagalegt umhverfi, ekki síst hvað varðar eignarrétt og leyndarhyggju virka oft eins og stoðir undir gripdeildir og rán þar sem bjargráðum samfélags er stolið og völdin eru soguð burtu frá nærsamfélaginu.
Það hefur skelfilegar afleiðingar fyrir íslenskt samfélag ef ekki verður horfið af þeirri braut sem stjórnvöld hafa fylgt undanfarna áratugi, þeirri braut að hlusta aðeins á örfáa einstaklinga í samfélaginu og telja sig vera í vinnu hjá þeim við að greiða götu þeirra. Á sínum tíma voru þessir örfáu nokkur ættarveldi sem sendu fulltrúa sína á þing og/eða veittu fé til þeirra og til fjölmiðla til að tryggja að rödd þeirra heyrðist og hagsmunir þeirra væru varðir. Þetta var vont og óréttlátt í einangruðu eyríki en þetta var beinlínis feigðarflan í alþjóðlegu fjármálaumhverfi þar sem þessir örfáu döguðu uppi eins og þursaflokkur sem var bæði leiksoppar og leppar fyrir erlenda aðila sér margfalt voldugri og framsýnni.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.