30.9.2010 | 10:13
Spólvitlaus Moggaleiðari og plott sem ekki gekk upp
Hér á Íslandi er verið að takast á við Hrun með stórum staf. Þegar bankakerfið brotnaði endanlega niður með látum þá var hokraði hér ríkisstjórn sem ekki mun komast á spjöld sögunnar fyrir nein afrek, vanhæf ríkisstjórn Geirs Haarde, spillt ríkistjórn undir forustu Sjálfstæðismanna sem höfðu áratugum saman verið ráðandi aðilinn í samsteypustjórnum og breytt landinu í ruslahauga fyrir siðblinda og gráðuga kapítalista.
Frá því að bankakerfið hrundi hefur opnast fyrir okkur almenningi á Íslandi heimur sem við vissum ekki að væri til. Víst vissum við mörg að hér var ýmsu illa stjórnað og víst vissum við mörg að það er ekkert eðlilegt og það mundi ekki ganga nema um tíma að einhver fyrirtæki græddu einhver ósköp og fólk gæti orðið ríkt bara af því að höndla með bréf í svoleiðis fyrirtækum. Víst vissum við mörg að von væri á niðursveiflu eftir geysileg uppgrip árum saman.
En aldrei hefði okkur grunað það sem kom upp á yfirborðið eftir að bankarnir féllu, öll sú óstjórn og spilling sem samofin var stjórnmálum og atvinnulífi á Íslandi og hafði verið árum saman, aldrei hefði okkur grunað að hér væri skrípalýðræði, að hér dingluðu við völd stjórnvöld sem voru handbendi og leiksoppur örfárra fjárglæframanna sem breyttu fjármálalífi og atvinnulífi hérna í spilavíti fyrir sjálfa sig.
Þegar bankarnir féllu og næstu mánuði þar á eftir var Alþingi ekki með. Við okkur almenningi blasti vanmáttugt og firrt þing þar sem alþingismenn virtust ekki einu sinni vita hvað hvar að gerast. Alþingi Íslendinga hafði verið breytt fyrir löngu í valdalausa stofnun, var bara stimpilstofnun sem stimplaði lög sem hér verða að renna í gegn vegna þess að sams konar lög hafa farið í gegn í öðrum Evrópulöndum. Þingmenn á kaupi voru bara að dunda sér við að ræða um þessi lög, bara svona til að blekkja sjálfa sig og almenning á Íslandi þannig að fólk héldi að þingið hefði einhver völd. Það var ríkisstjórnin sem ákvað hvaða lög færu í gegn. Atkvæðagreiðslur voru bara ritúall, bara eins konar helgisamkomur til að láta almenning halda að hér væri einhvers konar fulltrúalýðræði. En hér var ráðherraræði undir forustu Sjálfstæðismanna, hér var stjórn sem taldi æðsta og göfugsta markmið að hlú að einstaklinghyggju og gróðafíkn.
Það brenndist inn í hug okkar mynd af Alþingi Íslendinga daginn sem almenningur tók stjórnina í sínar hendur, það brenndist inn myndin af einum ungum Sjálfstæðisþingmanni í ræðustól að mæla ennþá einu sinni fyrir því eina máli sem hann virtist hafa áhuga á og hafði svo ótal oft talað um áður, því hjartans máli hans að selja áfengi í kjörbúðum. Ríkisstjórnin var að falla, algjört upplausnarástand og stjórnleysi í landinu, atvinnulíf lamað og fjármálakerfi óvirkt. Myndin af Sjálfstæðisþingmanninum í frelsisham, manninum sem gerir sér enga grein fyrir ástandinu og sem berst fyrir frelsi sem hann skilgreinir svo þröngt að það er bara frelsi borgaranna til að hafa aðgang að vímuefnum er eiginlega bara brosleg, bara fyndið að þegar almenningur loksins náði í gegn með því að berja í potta og pönnur og bjó sig undir að ráðast á Alþingi þá hafi einn Sjálfstæðisþingmaður bara tuðað og tuðað um að það þyrfti nú að fara að selja áfengi í búðum.
Þingmenn sem berjast fyrir lítilfjörlegum málum á valdalausu þingi eru hins vegar ekki þeir aðilar sem mestum spjöllum ollu. Frá því að bankarnir hrundu hefur opnast fyrir okkur í gegnum fréttir hvað hér var að gerast, hvernig íslensk samfélag var molað niður innan frá og mergsogið af litlum hópi manna í stjórnmálum og fjármálum. Því miður er það svo að margir sem komu að því eiga rætur í Sjálfstæðisflokknum. Það er raunar það sem við mátti búast, allt vald spillir og Sjálfstæðisflokkurinn var flokkur peningamanna og þeirra sem hafa auðsöfnun og einstaklingshyggju að leiðarljósi. En aldrei hefði okkur grunað að kjörnir fulltrúar fólks á Íslandi tækju með jafnbeinum og óeðlilegum hætti þátt í spilltu og firrtu fjármálalífi og svo margvíslegir valdaþræðir tengdu saman fjárglæframenn í bankakerfi og þá sem áttu að vera að gæta að hagsmunum íslenskrar alþýðu. Það er því miður svo að aumurlegasta fúafenið þarna er hjá Sjálfstæðisflokknum, þar virðast mjög margir þingmenn flokksins hafa verið í vægast sagt undarlegum tengslum. Má hér nefna að bæði formaður (Bjarni) og varaformaður (Þorgerður Katrín) og þingflokksformaður (Illugi) Sjálfstæðisflokksins og þáverandi efnahagsráðgjafi forsætisráðherra (Tryggvi þór) virðast öll hafa tengst fjárglæframönnum/bankastarfsemi á hátt sem gerir trúverðugleika þeirra í stjórnmálum að litlu hafandi. Geir Haarde stýrði Sjálfstæðisflokknum og Íslandi beint í glötun og hann gerði það umvafinn af fólki sem hafði misst sjónar á öllu sem heitir siðgæði og ráðdeild. Við okkur almenningi á Íslandi blasir óstjórnlegt vanhæfi og óstjórn sem ekki varð til á einni nóttu heldur á mörgum áratugum og það eru fleiri stjórnmálaflokkar sem líka bjuggu til hækjur undir stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þar má nefnda bæði Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna. En hvernig sem á málið er horft þá verður ekki séð annað en að það hafi verið einbeittur brotavilji Sjáflstæðisflokksins sem braut niður allar hömlur sem hefðu getað stöðvað eða hægt á því sem gerðist. Það er því ekkert að því að þegar við gerum upp hvað gerðist þá leitum við að ábyrgðinni hjá þeim sem hana báru augljóslega og þar er Geir Haarde. Og hann hafði ekki feykst til valda rétt fyrir hrun, fákunnandi um efnahagsmál og innviði samfélagsins. Hér er ferill Geirs Haarde að loknu hagfræðinámi:
Blaðamaður við Morgunblaðið á sumrum 1972-1977. Hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands 1977-1983. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra 1983-1987. Skip. 16. apríl 1998 fjármálaráðherra, lausn 28. maí 1999. Skip. 28. maí 1999 fjármálaráðherra, lausn 23. maí 2003. Skip. 23. maí 2003 fjármálaráðherra, lausn 27. sept. 2005. Skip. 27. sept. 2005 utanríkisráðherra, lausn 15. júní 2006. Skip. á ný sama dag forsætisráðherra og jafnframt ráðherra Hagstofu Íslands, lausn 18. maí 2007 en gegndi störfum til 24. maí. Skip. á ný sama dag forsætisráðherra og jafnframt ráðherra Hagstofu Íslands. Gegndi störfum sem ráðherra Hagstofu Íslands til 1. jan. 2008 er hún varð sjálfstæð stofnun er heyrir undir forsætisráðherra. Lausn frá störfum forsætisráðherra 1. febr. 2009.
Formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1981-1985. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1999-2005, formaður hans 2005-2009."
Ég vona að Geir Haarde undirbúi málsvörn sína vel og nýti þetta tækifæri til að útskýra fyrir okkur hvers vegna hann varaði ekki við því sem var að gerast og spornaði gegn því löngu fyrr. Ég held að málshöfðun fyrir landsdómi sé öðrum þræði mál á hendur Sjálfstæðisflokknum og ógnaröld hans sem skildi eftir sig sviðna jörð og málshöfðun gagnvart þeirri vanhæfu stjórnsýslu sem hér var.
Ég held að málsvörn Geirs geti líka verið málsvörn Sjálfstæðisflokksins og hluti af uppgjöri hans við fortíðina en viðbrögðin frá atkvæðagreiðslunni í dag lofa ekki góðu um að það gerist. Raunar finnst mér núna við ennþá lifa í einhvers konar kúgunarsamfélagi, samfélag þar sem skoðanakúgun er, skoðanakúgun þar sem auðmenn og hagsmunagæsluaðilar þeirra standa grimmir gagnvart öllum þeim sem ógna veldi þeirra og sem reyna að byggja sem fyrst upp sams konar kerfi og féll.
Það er ömurlegt að lesa Morgunblaðið í dag. Það sem hefur gerst er að þingnefnd sem skipuð var eftir bankahrunið til að koma með tillögur um viðbrögð þingsins lagði til að fjórir yrðu ákærðir og rökstuddi hvers vegna. Í meðförum þingsins var hins vegar greidd atkvæði svo að einungis einn verður ákærður þ.e. forsætisráðherra, sá sem mesta ábyrgð hafði. Hvað er að því?
Leiðarinn í Morgunblaðinu í dag er ótrúlega vondur og skrifaður af heift og blindni á aðstæður. Það er eins og einhvers konar ofsóknir á hendur þeim Samfylkingar- og Framsóknarþingmönnum sem greiddu atkvæði með því að Geir yrði kallaður fyrir Landsdóm. En hvað er að því að kalla Geir fyrir dóm? Er það verra en að ákæra 9-menningana fyrir að hafa verið í hópi þeirra þúsunda sem gerðu aðsúg að Alþingishúsinu í Búsáhaldabyltingunni? Af hverju má ekki ákæra æðsta mann í stjórnsýslu, mann sem var við völd þegar bankarnir féllu? Vissulega hefðu bankarnir fallið, hjá því var ekki komist en af hverju var á tímabilinu 1996 til 1998 haldið áfram á fullu stími í fáránlegum skrípaleik, hvers konar stjórnvöld sem leyfa svoleiðis?
Í leiðara Morgunblaðsins í dag er látið að því liggja að Samfylkingin hafi svikið með því að hanna ekki atkvæðagreiðsluna þannig að Geir rétt slippi við kæru. Þetta fréttamat Morgunblaðsins segir allt um á hvaða róli það blað er og hvernig atkvæðagreiðslu voru bara ritúall til að friða almenning og eins konar sýningar. Gervilýðræði. Nú vill Mogginn og Sjálfstæðismenn hefnd, rista á hol þá þingmenn sem ekki kusu eins og hefði komið Sjálfstæðisflokknum best.
"Eftir því sem best verður séð var atburðarásin þessi: Þegar Samfylkingunni höfðu borist áreiðanlegar upplýsingar úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að flokkurinn myndi halda sínu striki, hvað sem gerðist, út atkvæðagreiðslurnar um ákærurnar, sá hún sér ljótan leik á borði. Sjálfstæðisflokkurinn hafði tekið sína ákvörðun í ljósi upplýsinga um hvernig staðan væri í þingflokkum Samfylkingar og Framsóknarflokks og flokkurinn hafði treyst sínum heimildarmönnum. "
Þetta er alveg botnlaus leiðari og siðblindur og raunar skemmir heilmikið fyrir æru Sjálfstæðisþingmanna. Eina ljósið sem ég hef séð í nokkur ár hjá Sjálfstæðisflokknum er að þeir voru ekki svo lítilmótlegir að breyta og hagræða sínum atkvæðum eftir því sem kom þeirra mönnum best og nota þau í hrossakaupum. Satt að segja hefði ég búist við því frá Sjálfstæðisþingmönnum og það segir sína sögu um hve mikið álit ég hef á atkvæðagreiðslum og lýðræði í þeirra ranni.
Ég hafði ekki mikið álit á Sjálfstæðismönnum en mér fannst trúverðugt hversu staðfastir þeir voru í að vilja ekki sakfella neinn. Nú les ég hins vegar í leiðara Morgunblaðsins að þetta hafi bara verið plott sem ekki gekk upp.
Ískalt viðmót á þinginu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Facebook
Athugasemdir
Takk.
Björn Birgisson, 30.9.2010 kl. 11:09
Merkileg niðurstaða: "Vissulega hefðu bankarnir fallið, hjá því var ekki komist "
Væntanlega er hér verið að vísa til ytri aðstæðna sem sumir kalla global financial crisis.
Haustið 2008 var rætt um að blórabögglarnir væru 30 - 32 athafna- og bankamenn. Núna hefur heldur betur fækkað í hópnum og niðurstaðan ætlar að verða sú að einn maður situr í súpunni.
Moría kerlingin hlýtur að vera að ærast af kæti!
Flosi Kristjánsson, 30.9.2010 kl. 12:03
Takk fyrir mjög áhugaverðan pistil. Sérstaklega langar mig að taka undir með þér um kúgunarsamfélagið:
"Raunar finnst mér núna við ennþá lifa í einhvers konar kúgunarsamfélagi, samfélag þar sem skoðanakúgun er, skoðanakúgun þar sem auðmenn og hagsmunagæsluaðilar þeirra standa grimmir gagnvart öllum þeim sem ógna veldi þeirra og sem reyna að byggja sem fyrst upp sams konar kerfi og féll"
ASE (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 12:23
Takk flottur pistill með góðum rökum. ”Og hafið þið það óþektarormar á þingi”
Nær væri að setjast niður og leysa vanda, bjarga þýfinu af bestu getu en ekki eyða miljónum i þras og barnaskap á leikskólastigi. Sammmála Flosa litið.
Ingolf (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 12:56
Bestu þakkir fyrir góðann pistil!!
Ásgeir (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 13:54
Flott grein hjá þér..... sem hittir í mark!
Björn Blöndal (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 14:04
Takk kærlega Salvör. Þú rokkar.
Jenný Anna Baldursdóttir, 30.9.2010 kl. 14:16
Kraftmikill og góður pistill. Því miður fyrir íslenskt samfélag er hann einnig sannur.
Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 15:26
Takk fyrir pistilinn.
Sævar Helgason (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 16:20
Þetta er sorgleg lesning, ef þú veist ekki muninn á íslandi 1991 og 2010 veistu ekki mikið. Að það sé réttlætanlegt að ákæra mann til að sefa þína reiði er fáranlegt og það að þú skulir ekki ræða blessaða atkvæðagreiðsluna eins og hún var ættirðu að skammast þín. HELGI HJÖRVAR, SKÚLI OG MÖRÐUR fóru algjörlega yfir strikið og ekkert annað en kosningar koma til greina. Væri samt gott að vita hvenær (nóg að segja mánuð og ár) vg og s taka ábyrð á sínum gjörðum, hvenær hætta þau að segja hrunið - sjálfstæðisflokkur - Davíð oddson.
Einar (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 16:42
Hjartanlega sammála Salvör. Sá skaði sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur valdið íslensku samfélagi er hrikalegur.
Gunnar Gunnarsson (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 17:23
Frábær pistill og sannur. Þetta er það sem mér finnst vera kjarni málsins þegar rætt er um ábyrgð stjórnvalda í aðdraganda hrunsins: "En hvernig sem á málið er horft þá verður ekki séð annað en að það hafi verið einbeittur brotavilji Sjáflstæðisflokksins sem braut niður allar hömlur sem hefðu getað stöðvað eða hægt á því sem gerðist".
Hildur Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 17:33
Frábær pistill !
Halldór Gíslason (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 17:40
Þessu er ég öllu hjartanlega sammála. Salvör veit hvað hún syngur. Vona að fleiri svona pistlar komi fram.
Gísli Ingvarsson, 30.9.2010 kl. 18:49
Mestöll sú ógæfa sem heimilum þessa lands, sem og einstaklingum og fyrirtækjum var stefnt í við fall bankanna haustið 2008 var fyrirsjáanleg 2006.
Þá og síðan var þráfaldlega við henni varað bæði á innlendum sem erlendum vettvangi og þar voru áberandi þekktir fræðimenn.
Þess vegna er það lygi að ekkert hefði verið hægt að gera, en það gáfulegasta að leyfa bönkunum að fara sínu fram við að ræna fólkið aleigunni og ræna síðan bankana sjálfa innan frá.
Miklar þakki fyrir góðan pistil nú sem ævinlega Salvör.
Árni Gunnarsson, 30.9.2010 kl. 20:14
VÁ! Takk fyrir mig.
Erna Ólafsdóttir (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 04:07
takk fyrir þessa áminningu.. set þetta á fésið !
Óskar Þorkelsson, 1.10.2010 kl. 06:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.