12.5.2010 | 09:18
Hanna Birna seldi Landsvirkjun, var það góður díll?
Við horfum þessa dagana agndofa á hvernig stjórnmálakerfi og bankakerfi Íslendinga brotlendir og splundrast í fallinu og veldur núna ógnartjóni þegar brotin spýtast í allar áttir og lenda á orkumannvirkjum og útvegsfyrirtækjum. Það er eins og stríðsþotur útrásarvíkinga með sína þægu stjórnmálamenn sem voru að snapa sér far með þotuliðinu hafi staðið fyrir sjálfsmorðsárás og stungið sér í niður í Kárahnjúkavirkjun og frystitogara Hbgranda og flest önnur frumiðjuver á og við Ísland og mölbrotið í fallinu allt sem getur gert landið búvænlegt í framtíðinni og miðin gjöful.
En þó við almenningur horfum á þetta gerast fyrir framan augun á okkur þá er eins og við sjáum enga heildarmynd, við sjáum eingöngu skekkt og bjöguð spegilbrot sem glampa á móti okkur í fjölmiðlum. Fjölmiðlaspegillinn er gerður úr sama efni og spegill Snædrottningarinnar í ævintýrinu og flestum fjölmiðlum hérna er ennþá stýrt af og/eða í eigu útrásarvíkinga, útvegsmanna og ættarveldis í dauðateygjunum.
Við sjáum heldur enga heildarmynd í gegnum augu þeirra stjórnmálamanna sem tifuðu í takt við markaðinn, stjórnmálamanna sem trúðu blint á frjálshyggju og markaðsvæðingu allra hluta. Stjórnmálamanna sem trúðu og trúa á ósýnilega hönd markaðarins og halda að raunveruleikinn séu verðmiðar á alla hluti og blind einkavæðing, stjórnmálamanna sem trúa á samkeppni en ekki samvinnu.
Margir stjórnmálamenn spegluðu og spegla verðleika sína í gegnum skuldatryggingarálag og matkerfi Moodys og hve vel þeim tekst að þyrla upp fjármálafroðu til að hafa áhrif á slíka kvarða og tryggja hagsmuni og renta fé Deutshe Bank og annarra stórra og voldugra fjárfesta. Þetta er ekkert séríslensk ástand. Stjórnmálamenn hvaðanæva um heiminn laga sig að markaðnum svo mikið að það er fjármálamarkaðurinn sem stýrir stjórnmálum en ekki öfugt. Það sást vel um seinustu helgi þegar fjármálayfirvöld evrulanda komu saman á neyðarfundi til að setja saman björgunarpakka fyrir Grikkland, aðalmálið var ekki grískur almenningur, aðalmálið var að setja saman nógu trúverðugan pakka fyrir fjárfesta áður en kauphallir heimsins opnuðu.
Á meðan stjórnmálamenn og samtryggingarkerfi stjórnmálanna tifar frá mínútu til mínútu í takt við kauphallarmarkað og kasínokapítalisk fjármálakerfi, kerfi sem núna afhjúpast núna fyrir okkur að er einn alsherjar blekkingarleikur og mjög hugsanlega saknæmt svindl þá þurfa stjórnmálamenn ekki að standa andspænis alþýðu landsins nema á fjögurra ára fresti, í kosningum.
Og það er hefð fyrir því að í kosningum alla vega á Íslandi að gert sé út á gullfiskaminni kjósenda og séð til þess að kjósendur hafi engar forsendur til að kynna sér málin, ekki af því þau séu svo flókin heldur af því að upplýsingar einfaldlega eru ekki lagðar á borð fyrir fólk, þær eru beinlínis faldar og fólk hefur engin verkfæri til bera saman gögn, fylgjast með málum og spyrja og taka þátt í ákvarðanatöku eða amk segja stjórnmálamönnum hvenær þeir eru að taka óhemju áhættusamar ákvarðanir sem skuldbinda alla alþýðu og eru ekki í þágu fjöldans heldur einstakra aðila sem skara eld að eigin köku.
Þeirri blekkingu er haldið að okkur að einhvers konar lýðræðisfyrirkomulag sé í stjórnmálum ef við fáum að greiða atkvæði og tjá okkur um litlu málin sem engu máli skipta fyrir langtímahagsmuni borgarbúa. Hvaða máli skiptir hvort Reykvíkingum finnist að það eigi í sumar að mála leiktækin á leiksvæðinu við Laugarlæk þegar undir eru mál sem varða það hvort Reykvíkingar setji sig á vonarvöl og afsali samansafnaðri auðlegð fyrri kynslóða, auðlegð sem fólgin er í landinu sjálfu, í lendum sem teknar voru undir virkjanir og fólgin var í eigum borgarinnar, setji verðmiða á eigur sem eðli málsins samkvæmt eru ekki söluvara á markaði og afhendi í snyrtilegum pökkum til einkaaðila, til fjárfesta sem reknir eru áfram af gróðahvöt, til þeirra sem spila og hafa spilað með í fjárhættuspili vestrænna hagkerfa, til þeirra sem brjóta sér leið inn í almenningseigur með vafningum og fjárhagslegum svikamyllum?
Hanna Birna fráfarandi borgarstjóri Reykjavíkur leggur stolt fram ársreikning borgarinnar núna í lok kjörtímabilsins. Það er mikilvægt núna rétt fyrir kosningar að reyna að ná til borgarbúa og fá þá til að halda að allt sé í lagi með fjármál borgarinnar. Enda kemur ársreikningurinn alveg ágætlega út, sýnir styrka efnahagsstjórn og við öll sem núna tökum þátt í borgarmálunum vitum að þar er vel unnið núna, unnið í sátt og samvinnu, unnið í anda Samvinnumanna. Þannig var það því miður ekki í stjórn Reykjavíkurborgar alltaf á þessu kjörtímabili. Þegar upp er staðið og farið yfir þá fjóra meirihluta sem hafa verið í borgarstjórn Reykjavíkur á þessu kjörtímabili þá er það eingöngu meirihluti nr. 2 (undir forustu Dags Eggertssonar með þátttöku Óskars oddvita Framsóknarflokksins) og nr. 4 (undir forustu Hönnu Birnu og með þátttöku Óskars oddvita Framsóknarflokksins) sem hafa staðið af trúmennsku og áreiðanleika að málum og unnið í sátt og samvinnu við borgarbúa og af heilindum að hagsmunum þeirra.
En það hvernig Hanna Birna talar um ársreikning borgarinnar núna minnir óþægilega mikið á fyrri kosningaslagorð Sjálfstæðisflokksins, minnir mikið á þegar Geir Haarde og Þorgerður Katrín seldu kjósendum ímynd sína sem "Traust efnahagsstjórn - þegar öllu er á botninn hvolft". Málið var það að öllu var á botninn hvolt og þegar ausið var úr þeirri fötu kom í ljós að þeirra efnahagsstjórn minni en ekki nein og þau voru í yfirhilmingarreið yfir spilltu og sjúku fjármálakerfi og sök þeirra er svo mikil í þeirri yfirhilmingu að ég skil ekki ennþá hvers vegna þau eru ekki kölluð fyrir Landsdóm.
Þess vegna finnst mér borgarbúar eiga kröfu á að vita hvernig staðan raunverulega er núna fyrir kosningarnar, hverjar eru þær skuldbindingar sem munu falla á borgarsjóð ef aðrir aðilar sem borgin er í ábyrgð fyrir munu ekki geta staðið við sínar skuldbindingar. Þá á ég sérstaklega við skuldbindingar vegna skulda Landsvirkunar og hvernig standa málin út af sölu Landsvirkunar, sölu sem var fullnustuð í tíð 1. meirihluta, í byrjun þess kjörtímabils sem nú er að enda. Þeir borgarfulltrúar sem samþykktu þann samning samkvæmt fundargerð borgarráðs 11. nóvember 2006 voru:
Hanna Birna Kristjánsdóttir
Jórunn Frímannsdóttir
Júlíus Vífill Ingvarsson
Björn Ingi Hrafnsson.
Hver er staðan í lok kjörtímabilsins?
Er líklegt að þessi samningur skelli á okkur, okkur að óvörum ei eins og gerðist með Icesave? Hvernig var borgun háttað frá Landsvirkjun? Var það bara að taka yfir lífeyrisskuldbindingar? Var þessi samningur einhver díll til að byrja að koma orkuauðlindum Íslendinga til einkaaðila, aðgerð sem raunar bæði Samfylking og Sjálfstæðisflokkur hafa staðið að? Hvað ef Landsvirkjun getur ekki staðið við sínar skuldbindingar? Lenda lífeyrisskuldbindingar þá ekki hvort sem er á borginni? Ef allt fer á versta hugsanlega veg, þýðir það þá að borgin seldi Landsvirkjun gegn einhverjum skuldabréfum sem hugsanlega fæst ekkert fyrir og gegn yfirtöku lífeyrisgreiðsla sem munu koma hvort sem er koma í fangið á borginni?
Hvernig er samningurinn um söluna á Landsvirkjun? Getur verið að risastór hlutur í stærsta orkufyrirtæki Íslands hafi verið seldur fyrir spilapeninga og möndl og getur verið að sú staða komi upp að Reykjavíkurborg eigi ekkert í Landsvirkjun og engar forgangskröfur í eignir þar en standi uppi með ábyrgðir fyrir mikli stærri upphæð?
Þeir borgarfulltrúar sem skrifuðu undir samninginn um sölu á Landsvirkjun á sínum tíma verða að hlíta því að fjárhagslegt innsæi þeirra og geta til að stýra stórum fyrirtækjum eins og Reykjavíkurborg séu metnir á grundvelli stærstu og afdrifaríkustu samninga sem þeir gera.
Því spyr ég. Þegar Hanna Birna seldi Landsvirkjun fyrir fjórum árum, var það góður díll?
Kaupþingsmenn fyrir dómara | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:48 | Facebook
Athugasemdir
Það átti að stela Landsvirkjun og Orkuveitunni, rétt eins og Símanum. Ísland var orðið að gullkistu ræningja, í boði Sjálfstæðisflokksins.
Dingli, 12.5.2010 kl. 10:27
Hvers vegna eru þeir ekki færðir til dómara í járnum eins og venjulega þegar meintir brotamenn eru færðir til dómara og eða handteknir ? fær "yfirstéttin" sér meðhöndlun ? það er bara ekki spurning í mínum huga að þeir skuli vera í járnum, það er niðurlæging sem allir þurfa að sætta sig við, tja nema hvítflibbaglæpamenn ?
Sævar Einarsson, 12.5.2010 kl. 10:45
Fín grein. Kærar þakkir. Ég afritaði hana og setti inn hjá mér til að vekja athygli á henni ,með skýrri tilvísun í höfund.
Árni Þór Björnsson, 12.5.2010 kl. 13:06
Í dag er borginni vel stjórnað og Hanna Birna nýtur mikils trausts. Það er ró og friður í stjórn borgarinnar, af sem áður var. Hefur líka áhrif að það er enginn annar leiðtogi í borginni.
Haukur Gunnarsson, 12.5.2010 kl. 14:56
Þetta eru sérlega mikilvægar spurningar og vangaveltur, Salvör.
Orðræðunni á eyjunni bláu - eða skortur á sömu, er hluti af þeim vanda sem við erum í. T. d. út frá þessu:
Vilhjálmur Árnason heimspekiprófessor sagði í erindi um bankahrunið í Háskóla Íslands:
„Kannski var ég grunlaus og trúgjarn. En það kom mér á óvart í hve miklum mæli veruleiki okkar er hannaður af sérhagsmunaöflum og hve lítið viðnám er í íslensku samfélagi gegn þeirri iðju.“
Veruleiki okkar er hannaður af sérhagsmunaöflum!
Ekkert viðnám í íslensku samfélagi gegn þeirri iðju!
Þjáumst við, fyrir utan allt annað, af gereyðandi andlegri leti?
Hvað er svona skelfilegt við að skoða hrunið samfélag gagnrýnum augum? Það er ekki eins og veruleikinn hafi ekki séð um að svipta okkur þeim órum að hér væri "bezt í heimi"!
Þórdís Bachmann, 17.5.2010 kl. 09:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.