Bloggfærslur mánaðarins, september 2010

Spólvitlaus Moggaleiðari og plott sem ekki gekk upp

Hér á Íslandi er verið að takast á við Hrun með stórum staf. Þegar bankakerfið brotnaði endanlega niður með látum þá var hokraði hér  ríkisstjórn sem ekki mun komast á spjöld sögunnar fyrir nein afrek, vanhæf ríkisstjórn  Geirs Haarde, spillt ríkistjórn undir forustu Sjálfstæðismanna sem höfðu áratugum saman verið ráðandi aðilinn í  samsteypustjórnum og breytt landinu  í ruslahauga fyrir siðblinda og gráðuga kapítalista. 

Frá því að bankakerfið hrundi hefur opnast fyrir okkur almenningi á Íslandi heimur sem við vissum ekki að væri til. Víst vissum við mörg að hér var ýmsu illa stjórnað og víst vissum við mörg að það er ekkert eðlilegt og það mundi ekki ganga nema um tíma að einhver fyrirtæki græddu einhver ósköp og fólk gæti orðið ríkt bara af því að höndla með bréf í svoleiðis fyrirtækum. Víst vissum við mörg að von væri á niðursveiflu eftir geysileg uppgrip árum saman.  

En aldrei hefði okkur grunað það sem kom upp á yfirborðið eftir að bankarnir féllu, öll sú óstjórn og spilling sem  samofin var  stjórnmálum og atvinnulífi á Íslandi og hafði verið árum saman, aldrei hefði okkur grunað að hér væri skrípalýðræði, að hér dingluðu við völd stjórnvöld   sem voru  handbendi og leiksoppur örfárra fjárglæframanna sem breyttu fjármálalífi og atvinnulífi hérna í spilavíti fyrir sjálfa sig.  

Þegar bankarnir féllu og næstu mánuði þar á eftir var Alþingi ekki með. Við okkur almenningi blasti vanmáttugt og firrt þing þar sem alþingismenn virtust ekki einu sinni vita hvað hvar að gerast. Alþingi Íslendinga hafði verið breytt fyrir löngu í  valdalausa stofnun,  var bara stimpilstofnun sem stimplaði lög sem hér verða að renna í gegn vegna þess að sams konar lög hafa farið í gegn í öðrum Evrópulöndum. Þingmenn á kaupi voru bara að dunda sér við að ræða um þessi lög, bara svona til að blekkja sjálfa sig og almenning á Íslandi þannig að fólk héldi að þingið hefði einhver völd. Það var ríkisstjórnin sem ákvað hvaða lög færu í gegn. Atkvæðagreiðslur voru bara ritúall, bara eins konar helgisamkomur til að láta almenning halda að hér væri einhvers konar fulltrúalýðræði.  En hér  var ráðherraræði undir forustu Sjálfstæðismanna, hér var stjórn sem taldi æðsta og göfugsta markmið að hlú að einstaklinghyggju og gróðafíkn. 

Það brenndist inn í hug okkar mynd af Alþingi Íslendinga   daginn sem almenningur tók stjórnina í sínar hendur, það brenndist inn myndin af einum ungum  Sjálfstæðisþingmanni í ræðustól að mæla ennþá einu sinni fyrir því eina máli sem hann virtist hafa áhuga á og hafði svo ótal oft talað um áður, því  hjartans máli hans að selja áfengi í kjörbúðum. Ríkisstjórnin var að falla, algjört upplausnarástand og stjórnleysi í landinu, atvinnulíf lamað og fjármálakerfi óvirkt.  Myndin af Sjálfstæðisþingmanninum í frelsisham, manninum sem gerir sér enga grein fyrir ástandinu og sem berst fyrir frelsi sem hann skilgreinir svo þröngt að það er bara frelsi borgaranna til að hafa aðgang að vímuefnum er eiginlega bara brosleg, bara fyndið að þegar almenningur loksins náði í gegn með því að berja í potta og pönnur og bjó sig undir að ráðast á Alþingi þá hafi einn Sjálfstæðisþingmaður bara tuðað og tuðað um að það þyrfti nú að fara að selja áfengi í búðum. 

Þingmenn sem berjast fyrir lítilfjörlegum málum á valdalausu þingi eru hins vegar ekki þeir aðilar sem mestum spjöllum ollu. Frá því að bankarnir hrundu hefur opnast fyrir okkur í gegnum fréttir hvað hér var að gerast, hvernig íslensk  samfélag var molað niður innan frá og mergsogið af litlum hópi manna í stjórnmálum og fjármálum. Því miður er það svo að margir sem komu að því eiga rætur í Sjálfstæðisflokknum. Það er raunar það sem við mátti búast, allt vald spillir og Sjálfstæðisflokkurinn var flokkur peningamanna og þeirra sem hafa auðsöfnun og einstaklingshyggju að leiðarljósi. En aldrei hefði okkur grunað að kjörnir fulltrúar fólks á Íslandi tækju með jafnbeinum og óeðlilegum hætti þátt í spilltu og firrtu fjármálalífi og svo margvíslegir valdaþræðir tengdu saman fjárglæframenn í  bankakerfi og þá sem áttu að vera að gæta að hagsmunum íslenskrar alþýðu. Það er því miður svo að aumurlegasta fúafenið þarna er hjá Sjálfstæðisflokknum, þar virðast  mjög margir þingmenn flokksins hafa verið í vægast sagt undarlegum tengslum. Má hér nefna að bæði formaður (Bjarni) og varaformaður (Þorgerður Katrín) og þingflokksformaður (Illugi) Sjálfstæðisflokksins og þáverandi efnahagsráðgjafi forsætisráðherra (Tryggvi þór) virðast öll hafa tengst fjárglæframönnum/bankastarfsemi á hátt sem gerir trúverðugleika þeirra í stjórnmálum að litlu hafandi.  Geir Haarde stýrði  Sjálfstæðisflokknum og Íslandi beint í glötun  og hann gerði það umvafinn af fólki sem hafði misst sjónar á öllu sem heitir siðgæði og ráðdeild.  Við okkur almenningi á Íslandi blasir óstjórnlegt vanhæfi og óstjórn sem ekki varð til á einni nóttu heldur á mörgum áratugum og það eru fleiri stjórnmálaflokkar sem líka bjuggu til hækjur undir stefnu Sjálfstæðisflokksins. Þar má nefnda bæði Framsóknarflokkinn og Samfylkinguna. En hvernig sem á málið er horft  þá  verður ekki séð annað en að það hafi verið einbeittur brotavilji Sjáflstæðisflokksins sem braut niður allar hömlur sem hefðu getað stöðvað eða hægt á því sem gerðist. Það er því ekkert að því að þegar við gerum upp hvað gerðist þá leitum við að ábyrgðinni hjá þeim sem hana báru augljóslega og þar er Geir Haarde. Og hann hafði ekki feykst til valda rétt fyrir hrun, fákunnandi um efnahagsmál og innviði samfélagsins. Hér er ferill Geirs Haarde að loknu hagfræðinámi:

Blaðamaður við Morgunblaðið á sumrum 1972-1977. Hagfræðingur í alþjóðadeild Seðlabanka Íslands 1977-1983. Aðstoðarmaður fjármálaráðherra 1983-1987. Skip. 16. apríl 1998 fjármálaráðherra, lausn 28. maí 1999. Skip. 28. maí 1999 fjármálaráðherra, lausn 23. maí 2003. Skip. 23. maí 2003 fjármálaráðherra, lausn 27. sept. 2005. Skip. 27. sept. 2005 utanríkisráðherra, lausn 15. júní 2006. Skip. á ný sama dag forsætisráðherra og jafnframt ráðherra Hagstofu Íslands, lausn 18. maí 2007 en gegndi störfum til 24. maí. Skip. á ný sama dag forsætisráðherra og jafnframt ráðherra Hagstofu Íslands. Gegndi störfum sem ráðherra Hagstofu Íslands til 1. jan. 2008 er hún varð sjálfstæð stofnun er heyrir undir forsætisráðherra. Lausn frá störfum forsætisráðherra 1. febr. 2009.
      Formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna 1981-1985. Varaformaður Sjálfstæðisflokksins 1999-2005, formaður hans 2005-2009." 

Ég vona að Geir Haarde undirbúi málsvörn sína vel og nýti þetta tækifæri til að útskýra fyrir okkur hvers vegna hann varaði ekki við því sem var að gerast og spornaði gegn því löngu fyrr.   Ég held að málshöfðun fyrir landsdómi sé öðrum þræði mál á hendur Sjálfstæðisflokknum og ógnaröld hans sem skildi eftir sig sviðna jörð og málshöfðun gagnvart þeirri vanhæfu stjórnsýslu sem hér var.

Ég held að málsvörn Geirs geti líka verið málsvörn Sjálfstæðisflokksins og hluti af uppgjöri hans við fortíðina en viðbrögðin frá atkvæðagreiðslunni í dag lofa ekki góðu um að það gerist. Raunar finnst mér núna við ennþá lifa í einhvers konar kúgunarsamfélagi, samfélag þar sem skoðanakúgun er, skoðanakúgun þar sem auðmenn og hagsmunagæsluaðilar þeirra standa grimmir gagnvart öllum þeim sem ógna veldi þeirra og sem reyna að byggja sem fyrst upp sams konar kerfi og féll.

 Það er ömurlegt að lesa Morgunblaðið í dag. Það sem hefur gerst er að þingnefnd sem skipuð var eftir bankahrunið til að koma með tillögur um viðbrögð þingsins  lagði til að fjórir yrðu ákærðir og rökstuddi hvers vegna. Í meðförum þingsins var hins vegar greidd atkvæði svo að einungis einn verður ákærður þ.e. forsætisráðherra, sá sem mesta ábyrgð hafði. Hvað er að því?

Leiðarinn í Morgunblaðinu í dag er ótrúlega vondur og skrifaður af heift og blindni á aðstæður. Það er eins og einhvers konar ofsóknir á hendur þeim  Samfylkingar- og Framsóknarþingmönnum sem greiddu atkvæði með því að Geir yrði kallaður fyrir Landsdóm.  En hvað er að því að kalla Geir fyrir dóm? Er það verra en að ákæra 9-menningana fyrir að hafa verið í hópi þeirra þúsunda sem gerðu aðsúg að Alþingishúsinu í Búsáhaldabyltingunni?  Af hverju má ekki ákæra æðsta mann í stjórnsýslu, mann sem var við völd þegar bankarnir féllu? Vissulega hefðu bankarnir fallið, hjá því var ekki komist en af hverju var á tímabilinu 1996 til 1998 haldið áfram á fullu stími í fáránlegum skrípaleik, hvers konar stjórnvöld sem leyfa svoleiðis?

Í leiðara Morgunblaðsins í dag er látið að því liggja að Samfylkingin hafi svikið með því að hanna ekki atkvæðagreiðsluna þannig að Geir rétt slippi við kæru. Þetta fréttamat Morgunblaðsins segir allt um á hvaða róli það blað er og hvernig atkvæðagreiðslu voru bara ritúall til að friða almenning og eins konar sýningar. Gervilýðræði. Nú vill Mogginn og Sjálfstæðismenn hefnd, rista á hol þá þingmenn sem ekki kusu eins og hefði komið Sjálfstæðisflokknum best.

"Eftir því sem best verður séð var atburðarásin þessi: Þegar Samfylkingunni höfðu borist áreiðanlegar upplýsingar úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins um að flokkurinn myndi halda sínu striki, hvað sem gerðist, út atkvæðagreiðslurnar um ákærurnar, sá hún sér ljótan leik á borði. Sjálfstæðisflokkurinn hafði tekið sína ákvörðun í ljósi upplýsinga um hvernig staðan væri í þingflokkum Samfylkingar og Framsóknarflokks og flokkurinn hafði treyst sínum heimildarmönnum. "

Þetta er alveg botnlaus leiðari og siðblindur og raunar skemmir heilmikið fyrir æru Sjálfstæðisþingmanna. Eina ljósið sem ég hef séð í nokkur ár hjá Sjálfstæðisflokknum er að þeir voru ekki svo lítilmótlegir að breyta og hagræða sínum atkvæðum eftir því sem kom þeirra mönnum best og nota þau í hrossakaupum. Satt að segja hefði ég búist við því frá Sjálfstæðisþingmönnum og það segir sína sögu um hve mikið álit ég hef á atkvæðagreiðslum og lýðræði í þeirra ranni.

Ég hafði ekki mikið álit á Sjálfstæðismönnum en mér fannst trúverðugt hversu staðfastir þeir voru í að vilja ekki sakfella neinn. Nú les ég hins vegar í leiðara Morgunblaðsins að þetta hafi bara verið plott sem ekki gekk upp.

 


mbl.is Ískalt viðmót á þinginu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þau voru í vinnu hjá mér og þér

 39aRikisstjornGHHII

Ég er ekki rekin áfram af hefndarþorsta og þórðargleði. Ég horfi ekki alltaf í baksýnisspegilinn. Ég held að Hrunið hafi verið óhjákvæmilegt og bara tímaspursmál hvernig það yrði hjá örsmáu ríki sem var leiksoppur í alþjóðlegu fjármálaspili, ríki  sem hafði enga  bakhjarla meðal voldugra þjóða og sem ekki gat prentað peninga sem tekið var mark á. Ég held að það sé mikilvægt að horfa til framtíðar og huga að uppbyggingu.

Það er hins vegar engin uppbygging að moka sig dýpra og dýpra ofan í skurði undir  sams konar kerfi og í mörgum tilvikum undir stjórn sömu aðila og hér stýrðu för  fyrir bankahrun  og sáu ekki fyrir hvað væri að gerast. Það verður að gera upp fortíðina til að skilja framtíðina, skilja hvað brást og hvers vegna og hvaða möguleikar eru í stöðunni.  Staðan er þannig að það er best að leggja niður sum kerfi sem brugðust og sem líklegt er að verði til trafala og bregði fyrir okkur fæti í framtíðinni. Þannig er um vinnubrögð og skipulag í stjórnmálum og samspil stjórnmála og athafnalífs. 

Stjórnvöld á Íslandi voru máttvana, fákunnandi  og andvaralaus gagnvart því sem var að gerast í fjármála- og athafnalífi  á misserunum fyrir Hrun og í sumum tilvikum samofin og samsek. Sumir af þeim sem voru ráðherrar þegar Hrunið varð höfðu verið ráðherrar í mörgum seinustu ríkisstjórnum og bera ábyrgð á því hömlulausa umhverfi sem hér var til staðar, umhverfi þar sem stjórnmálamenn dingluðu í spottum fjárglæframanna. Hér efst er mynd af þeirri ríkisstjórn sem hér sat þegar Hrunið varð en þegar skoðað hver ber ábyrgð á stöðunni og hve berskjaldað íslensk þjóðfélag var fyrir atburðum sem voru að hluta fyrirsjáanlegir af þeim sem höfðu sömu upplýsingar og stjórnvöld verður að skoða líka ábyrgð nokkurra síðustu ríkisstjórna, sérstaklega fyrsta ráðuneyti Geirs Haarde og ráðuneyti Halldórs Ásgrímssonar og raunar öll ráðuneyti sem hér hafa setið frá árþúsundamótum.

Stjórnvöld á Íslandi brugðust. Þau réðu ekki við stöðuna þegar fjármálafárviðri gekk yfir hinn vestræna heim. Þau höfðu ekki undirbúið íslenskt samfélag undir slíkt fárviðri og þegar bankarnir féllu og skömmu áður en þeir féllu  þá virðist mér sem áhersla stjórnvalda undir forustu Geirs hafi verið á að bjarga í skjól sem mestu af fjármálaeignum ákveðinna aðila (t.d. sjóður 9 klúðrið) og Geir hafði í forustu stjórnsýslunnar menn sem tengdust fjármálagerningum á hátt sem ekki sæmir embættismönnum (Baldur Guðlaugsson o.fl.)

Margir Sjálfstæðismenn sem sátu í ríkisstjórn þegar Hrunið varð eru svo flæktir inn í hagsmunatengsl og ýmis vensl við aðila í bönkum að trúverðugleiki þeirra er enginn og raunar furðulegt að þau skuli vera kosin á þing aftur.   Margir virðast gerðir út af gömlu ættarveldi til að gæta hagsmuna ættmenna sinna eða einhverra viðskiptablokka.  Íslenskar fjármálastofnanir voru síðustu misserin fyrir hrun  svikamyllur en margir íslenskir stjórnmálamenn voru á sama tíma líka talpípur fjárglæframanna sem settu upp þessar svikamyllur og gættu hagsmuna þeirra. 

Það er lagt til að fjórir ráðherrar verði ákærðir fyrir Landsdóm  og mér virðist það miða sérstaklega við hvaða ábyrgð þessir ráðherrar höfðu í starfi sínu þegar Hrunið varð. Geir Haarde og Ingibjörg Sólrún voru oddvitar tveggja fylkinga í þeirri samsteypustjórn sem hér var þá. Svo var Árni Matthiesen fjármálaráðherra og Björgvin viðskiptaráðherra þegar ósköpin gengu yfir. 

Það er rökstutt í þingtillögunni sem fer til atkvæða í dag hvers vegna og fyrir hvað lagt er til  þessir tilteknu fjórir ráðherrar verði ákærðir. Ég beygi mig undir þann rökstuðning þó ég skilji ekki hvers vegna augum var ekki beint að fleiri ráðherrum. Hvers vegna var t.d. ekki gerð tillaga um að Þorgerður Katrín yrði ákærð? Ég skil það ekki, hún var rétt eftir bankahrunið (á þeim tíma sem virðist hafa verið unnið að því að koma peningum í skjól fyrir ákveðna aðila) á krísufundum með ríkisstjórninni og svaraði m.a. fjölmiðlum (ég man sérstaklega eftir þótta hennar og mótþróa gegn því að hér yrði mynduð þjóðstjórn) en var á sama tíma gift manni sem var einn af stjórnendum í íslenskum banka og sem hafði tekið lán til að kaupa hlutafé í þessum banka. Það er mjög líklegt Þorgerður Katrín hafi búið yfir upplýsingum yfir hve rotið íslensk bankakerfi var og hve mikil svikamylla það var  m.a. í gegnum fjármál eiginmanns síns varðandi eignarhluti og svo var hún að víla og díla um fjármálalega framtíð íslensku þjóðarinnar á sama tíma og fjármál hennar fjölskyldu samslengdust því og mér virðist hún hafi í öllu gengið erinda fjölskyldumeðlima sinna og hafi á örlagastundu komið að ákvörðunum íslensku ríkisstjórnarinnar þegar hún var augsýnilega vanhæf  vegna hagsmunatengsla.

Mér finnst mjög sárt að ein af þeim sem lagt er til að verði ákærð er Ingibjög Sólrún. Það var alltaf draumur hjá mér og mörgum af okkur sem vorum í Kvennalistanum að einhver tíma myndi sú stund renna upp að Íslandi yrði undir forustu Ingibjargar Sólrúnar og við sem þekkjum til hennar og höfum fylgst með henni í stjórnmálum vitum að hún er einlæg hugsjónakona. Hún tiltölulega nýkomin til valda þegar Hrunið varð. En því verður ekki á móti mælt að hún var við völd og hún bjó yfir upplýsingum og var á þeirri vakt sem átti á þeim tíma að vaka yfir íslenskum almenningi.

Það segir sig sjálft að ef ætti að ákæra einhvern fyrir landsdóm fyrir athafnaleysi á þessum tíma þá voru það oddvitar flokkanna sem voru við völd og það eru  Geir og Ingibjörg Sólrún. Ég held að andrúmsloft stjórnmála á Íslandi hafi á þessum tíma verið þannig að stjórnmálamenn kóuðu með  bankakerfi í dauðarússi í örvæntingarfullri tilraun til að lengja líftíma þess og gerðu með því skellinn miklu stærri fyrir íslenskt samfélag.  

Ég held að það sé nauðsynlegt að ákæra þá sem voru í forsvari, vissulega varð kerfishrun sem rekja má til umhverfisaðstæðna sem Ísland réði ekki yfir en stjórnvöld bæði voru illa undirbúin, brugðust illa við og reyndu um langt skeið áður en bankarnir féllu að blekkja bæði íslenskan almenning og umheiminn. 

Við skulum ekki gleyma því að þau sem lagt er til að verði ákærð voru í vinnu hjá íslenskum almenningi einmitt við að stjórna landinu og vaka yfir velferð okkar. 


mbl.is Atkvæði um málshöfðun í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuxnet

 

Tölvuveiran Stuxnet  er í sviðsljósinu núna og hún markar tímamót í nethernaði. Ekki bara af því að umræða um hana er meme í samsæriskenningum sem dreifast um allt Internetið heldur líka af því þetta er flókin tölvuveira sem heldur sig ekki við að rugla og eyðileggja og stela tölvugögnum heldur teygir sig yfir í að stýra vélum og virðist hafa möguleika á að taka yfir tölvutengdar iðnstýringar og stýra þannig umhverfi okkar, stýra t.d.  hvernig orkuver og veitukerfi haga sér. Auðvitað væru yfirráð yfir slíkum vopnum óskatæki þeirra sem fara með hernaði á hendur öðrum, hugsa sér að geta tekið yfir umhverfi andstæðingsins, lamað veitukerfi hans og framleiðsluferli með kóða földum í tölvuormi. Óþarfi að eyða mannafla og sprengiefni í sprengja í loft brýr og jarðgöng, klippa sundur sæstrengi, eyðileggja vatnsból og sprengja upp veitustöðvar þegar hægt er að lauma inn með tölvuormi fyrirskipunum sem lama þessi kerfi og fá óvinina til að gefast upp.  

Þetta er kóði sem getur smitast af usb lyklum og fjöldi tölva með windows stýrikerfi sýktist, hlutfallslega flestar í Indónesíu og Íran. Veiran virkar á sérstakar iðntölvustýringar eða svokölluð    SCADA kerfi  WinCC þ.e. iðnstýringar sem vakta og stjórna ýmsum framleiðslukerfum t.d. orkuverum. Þess má geta að stjórnkerfi  Hellisheiðarvirkjunar er  einmitt Scada kerfi WinCC frá Siemens í Þýskalandi. 

 Nokkuð ljóst er að Stuxnet veiran er hönnuð af kunnáttumönnum sem kunna flóknari smíð en venjulegir hakkarar út í bæ. Samsæriskenningar blómstra um að þessari veira sé gerð að undirlagi ríkis, þetta sé nethernaður og Stuxnet veiran sé vopn í þeirri baráttu, því er t.d. haldið fram að Bushehr-kjarnorkuverið í Íran hafi  verið aðal skotmarkið.  Hellisheiðarvirkjun eða Landsnet voru örugglega ekki aðalskotmark þessa tölvuorms þó þar séu stjórnkerfi sem byggja á sams konar iðnstýringatækni. Það er þannig  reyndar í flestum stórum nýjum iðnverum, þar er allt tölvustýrt og fjarstýrt og alls konar sjálfvirk boð sem ganga á milli stöðva og eininga. Það er hægt að vinna mikinn skaða ef fjandsamlegir aðilar geta endurforritað eða breytt iðnkerfum og gert það án þess að skilja eftir sig spor. 

En það er þetta sambland af sýnileika og að þetta er flókin veira sem dreifir sér á flókinn hátt sem gerð af aðilum sem búa yfir mjög mikilli kunnáttu um hvernig iðnstýringakerfi hegða sér og veira sem sérstaklega miðar á iðnstýringar  sem gerir þessa veiru ógnvænlega og jafnframt áhugaverða.

Í Nytimes grein um veiruna A silent attack but not a subtle one  segir:  

"The malware was so skillfully designed that computer security specialists who have examined it were almost certain it had been created by a government and is a prime example of clandestine digital warfare. While there have been suspicions of other government uses of computer worms and viruses, Stuxnet is the first to go after industrial systems.....While much has been made in the news media of the sophistication of Stuxnet, it is likely that there have been many other attacks of similar or even greater sophistication by intelligence agencies from many countries in the past. What sets this one apart is that it became highly visible. "

Veiran virkar þannig að hún skoðar gagnablokk   DB 890 reglulega í  PLC stýringum sem hún tengist og getur breytt öðrum gagnablokkum án þess að það sjáist.  Veiran notfærir sér veilu í hvernig windows meðhöndlar .lnk skrár og getur smitast af usb lyklum. Hún notar sér líka veilur í "printer spoolers" til að smitast og dreifast milli tölva sem tengdar eru saman í net.  Veiran notar fjórar mismunandi óuppgötvaðar veilur (zero days vulnaribilities) í windows stýrikerfi til að troða sér inn. Hún notar líka  flókið   kerfi í mörgum liðum til að setjast upp í tölvukerfi og fölsuð öryggisskírteini.

Sjá m.a. hér:

Stuxnet Target Speculations

Stuxnet Whitepaper Updated

Stuxnet cleanup tool,  +

 Why the Stuxnet worm is like nothing seen before

 Computer virus in Iran actually targeted larger nuclear facility

IRAN: Speculation on Israeli involvement in malware computer attack

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband