29.10.2009 | 14:39
Fé án hirðis, góði hirðirinn og þeir sem hirða allt af okkur
Það er áhugavert að skoða orðræðuna um uppbyggingu atvinnulífs á Íslandi.
Erlent fjármagn er persónugert og sýnt eins og vinalegar lambær á beit sem skoppa til og frá og koma ekki nema hér sé öruggt skjól og grasið sé grænt og kröftugt. Það má lesa út úr umræðunni að það sé stjórnvalda að tryggja þetta öryggi og skjól fjármagnsins.
Viðskiptaráðherra er spurður af fjölmiðlum um hvort erlent fjármagn vilji leita hingað í bráð. Hann segist þá þekkja til erlendra fyrirtækja í fjármálageiranum sem hafi áhuga á fjárfestingum hér á landi núna þegar góði hirðirinn IMF hefur lánað okkur.
Þessi sýn á fjármagn sem vinalegar skepnur sem vaxa og dafna þar þar sem ávöxtunin er mest og þar sem eftirlit með fjármagni er minnst og minnstar hömlur á flæði peningar er ekki sama og é sé.
Það er sjúkt hagkerfi sem við búum við, ekki bara á Íslandi. Peningar lifa eigin lífi í sérstökum sýndarheimi bóluhagkerfis. Bólurnar voru stærri og fleiri á Íslandi en annars staðar miðað við stærð samfélagsins og sprungu með miklum hvelli og kannski skipti þar mestu máli að Ísland hafði ekki aðgang að þeirri vél sem framleiðir mestu froðuna núna en það eru peningaprentunarvélar USA og Bretlands. Það kerfi er í vellandi froðu núna og hegðar sér eins og peningar hafi eigið líf.
Það er sjúkt hagkerfi þar sem skiptimyntin er farin að lifa sjálfstæðu lífi og litið á hana sem verðmæti í sjálfu í stað þess að skoða hana eins og hún raunverulega á að vera, skoða hana sem skiptimynt til að liðka til fyrir flæði á vörum og þjónustu og sem mælikvarði á verðmæti. Og sem sem tæki til að auðvelda okkur að byggja upp forða til að mæta áföllum.
Á Íslandi í dag eru öll kerfi sem gera peninga nytsamlega núna skökk og skæld og peningar hafa engan tilgang sem mælikvarði. Þau lán sem núna bjóðast eru með fáránlega háum vöxtum, langtum hærri en umheimurinn lánar og langtum hærri en staðnað hrunsamfélag getur borið. Það eru þannig aðstæður í heiminum í dag að vextir af lánum ættu ekki að vera við núllmarkið eða hugsanlega neikvæðir. En á Íslandi er fólk flækt í viðjum himinhárra vaxta sem fylgja engum takti í lífi fólks heldur ráðast af einhverju ófyrirsjáanlegu eins og gengissveiflum. Einmitt við þessar aðstæður lækkar söluverð raunverulegra eigna og tæki og vélar og hús og aðstaða er falboðin á Íslandi á brunaútsölu, á verði sem er langt undir kostnaðarverði. Það er góssentími fyrir þá sem koma með fé erlendis frá að fjárfesta í slíku samfélagi og að notfæra sér þetta mikla misgengi sem núna er milli fjármagns og raunverulegra verðmæta.
Íslenska loftbóluhagkerfið var kerfi þar sem einstaklingar slógu eign sinni á það sem samfélagið átti, slógu eign sinni á samansafnaða auðlegð samfélags, slógu eign sinni á það sem hefði átt að vera trygging þegar illa áraði, verðmæti sem voru ekki froða, verðmæti sem bjuggu ekki til gerviarð í ársreikningum bólufyrirtæka í bólu og kúlulánakerfi heldur verðmæti sem voru raunverulega til eins og landið og vatnið og loftið og sjórinn. Þeir sem stálu þessum verðmætum af samfélaginu bjuggu til sérstakt réttlætingarkerfi fyrir stuldinn og kölluðu þetta fé án hirðis og bjuggu til úr sjálfum sér hinn biblíulega góða hirðið.
En við vitum vel núna að þeir voru engir góðir hirðar eins og í biblíudæmisögum. Þeir voru ágörn fífl á feigðarflani með fjöregg heilar þjóð. Við vitum líka IMF sem núna liðkar til með lánum fyrir aðkomu erlendra fjárfesta er ekki góði hirðirinn nema fyrir fjármagnseigendur, það höfum við Íslendingar freklega séð þegar IMF var í hlutverki eins konar handrukkara fyrir meintar Icesave skuldir Íslendinga. Skuldir sem við neitum að bera ábyrgð á, lán frá Bretum og Hollendingum sem við vildum ekki taka.
Við skulum hafa það í huga að það erlenda fé sem hingað er rekið á beit á íslenska afrétti er ekki íslensk bændaeign.
Erlendir bankar með áhuga á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:58 | Facebook
Athugasemdir
Salvör. þarna sendir þú frá þér mikla meistarasmíð; ekki þá fyrstu. Barnaleg tilbeiðsla við altari græðginnar leiddi meiri hörmungar yfir þessa þjóð en nokkurn óraði fyrir þótt ýmsir væru farnir að efast um veisluhöldin svona undir lokin. Og enn á að leggja á stóriðjufákinn og þeysa inn á hinar eilífu veiðilendur stundargróðans. Og þótt orkumálastjóri birti blaðagrein um efasemdir í þá veru að orkan sé tiltæk.
Ég þakka fyrir mig.
Árni Gunnarsson, 29.10.2009 kl. 18:05
En gleymum því ekki að þeir fáu erlendu fjárfestar sem hingað hafa komið hafa að flestu leiti verið til fyrirmyndar. Verstu kapítalistar sem við Íslendingar höfum lent í voru íslenskir og það er engin þörf á því að tortryggja alla erlenda fjárfestingu bara af því að hún er erlend.
Eiríkur Sigurðsson (IP-tala skráð) 29.10.2009 kl. 21:02
Takk Salvör, snilldarpistill.
Baldvin Jónsson, 30.10.2009 kl. 10:37
Ótrúlega flott skrif, hver er góði hirðirinn á Íslandi? Hér fá auðrónar sem eru innmúraðir í réttu FL-okkanna að hirða það sem þeir vilja og íslenski sauðurinn kan þann leik að láta leiða sig til slátrunar í "Svínabæ" þar "Óli grís fylgist með velferð dýranna á bænum...!" Ég ætla að stinga af frá Svínabæ og koma mér til Noregs, því ég sé að slátrarinn er mætur á búið, sem er farið að minna á minnkabú, sem bara minnkaði & minnkaði þangað til að það varð að minnkabúi. Rándýr ganga laus, jafnt á jörðu sem í lofti - enda RÁNFUGLINN ekki dauður úr öllum æðum.
kv. Heilbrigð skynsemi (fun.blog.is)
Jakob Þór Haraldsson, 30.10.2009 kl. 14:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.