Er stofnfjáreigendabjörgun að hefjast?

Vissulega er vandi stofnfjáreigenda í Húnaþingi mikill. Svo virðist sem venjulegt fjölskyldufólk í Húnaþingi hafi árið 2007 verið gabbað til að kaupa stofnfjárbréf í sparisjóði fyrir peninga sem fólkið átti ekki en tók að láni frá Landsbankanum í erlendri mynt.  Þetta er ekki bundið við Húnaþing,ég hef líka heyrt að það sama hafa gerst annars staðar í Norðvesturkjördæmi. 

Þetta er hroðalegt og ég spyr, hvar voru þingmenn kjördæmisins þá? Hvers vegna stóðu þeir ekki sína vakt og aðvöruðu almenning í Húnaþingi og víðar við svona rugli? Þetta var mjög mikil áhætta árið 2007, það sér hver maður að lán í erlendum gjaldeyri til peningalegra fjárfestinga eru mikil áhætta fyrir fólk sem ekki hefur tekjur sínar í erlendum gjaldeyri og í þessu tilviki var fólkið að fjárfesta í óefnislegum eignum sem hvorki tengdust atvinnu þeirra né húsnæði. 

Það verður að horfa á þessar skuldir sem slíkar. Þetta eru spilaskuldir þeirra sem létu blekkjast til að leggja fé í bankarekstur. Því miður er útlit fyrir að öll fjárfesting fólksins í sparisjóðinum sé verðlaus en það sem er verra er að skuldir fólksins hafa aukist gríðarlega vegna kerfishrunsins og gengisfalls krónunnar. 

Vandi margra fjölskyldna, fyrirtækja og einstaklinga vegna Hrunsins er gríðarlegur. Það er í raun eina skynsamlega tillagan að leiðrétta eða endurstilla kerfið einhvern veginn t.d. með 20 % niðurfellingu skulda alveg burtséð frá því hvaða skuldir þetta eru, hvort það eru húsnæðisskuldir eða skuldir vegna stofnfjárkaupa.  Slík aðgerð myndi bæta stöðu þeirra sem keyptu stofnfjárbréf og verða til þess að þeir fá ekki á sig margfalt högg, það er nóg að fá höggið vegna þess að fjárfestingin er einskis virði  þó ekki bætist ofan á  högg vegna þess að íslenska krónan fellur og gengistryggt lán hækkar.

En það eru margir á Íslandi sem ætti að bjarga fremur en þeir sem keyptu stofnfé í sparisjóðum og töpuðu fé á því.  Sumir hafa farið mjög illa vegna þess að þeir hafa misst vinnu og framtíðarvon um vinnu, eignir þeirra orðið verðlausar, lán þeirra vegna húsnæðis og fyrir fjölskyldur rokið upp og atvinnutæki og fyrirtæki hafa engin verkefni. Það er þar sem björgunarstarfið á að fara fram. Það þarf að hjálpa venjulegu fólki sem var þannig statt í lífinu að það skuldaði mikið  í húsnæði sem er til búsetu fjölskyldu og það þarf að aðstoða lífvænleg fyrirtæki sem tóku lán til reksturs en ekki þá sem tóku lán til að fjárfesta í einhverjum sparisjóði.  Í flestum tilvikum er það ungt fólk með ung börn sem nýbúið var að fjárfesta í húsnæði sem verst er statt.

Það er óþolandi kjördæmispot þingmanna eins og Jóns Bjarnasonar og Einars K. Guðfinnssonar að horfa eingöngu á hag fólks í þeirra kjördæmi og virðast núna hafa þyngri áhyggjur af stofnfjáreigendum sem búsettir eru í þeirra kjördæmi heldur en öllum þeim þúsundum fjölskyldna sem ekki lengur neina fyrirvinnu, eiga ekki lengur neinar eignir og vita ekki hvort eða hvenær þær verða bornar út úr húsnæði sínu?

Einu sinni var byggðastefna á Íslandi fólgin í því að passa að landsbyggðin tæmdist ekki af fólki. Núna er byggðastefna fólgin í því að reyna að halda Íslandi í byggð.

Það er þannig að flest fólkið býr hérna á Stór-Reykjavíkursvæðinu og í kringum Akureyri. Sennilega eru um 90 % af fólki í innan við einnar klukkustundar fjarlægð frá þessum tveimur atvinnusvæðum. Það er á þessum stöðum sem kreppan hefur skollið harkalegast á fólki.  

Einar K. Guðfinnsson segir það óhjákvæmilegt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir algjört hrun í byggðum þar sem mikill skuldabaggi vegna stofnfjáraukningar í sparisjóðum blasir við, á Einar við það að hann vilji fella niður eða hygla skuldsettum stofnfjáreigendum fremur en öðrum?

Vill Jón Bjarnason sem nú er ráðherra allra landsmanna í sitjandi ríkisstjórn einnig fara þá leið að hygla sérstaklega skuldsettum  stofnfjáreigendum frekar en öðrum?

Ef svo er þá spyr ég þá Jón og Einar á því hvernig þeir ætla að réttlæta slíkar aðgerðir fyrir einstæðum atvinnulausum föður í Hafnarfirði sem nýhættur er að geta borgað af íbúð sínni og býr sig undir að flytja með börnin í herbergi til foreldra? Hvernig ætla þeir að réttlæta það fyrir einstæðri atvinnulausri móður í Breiðholti sem hefur misst íbúð sína? Hvernig ætla þeir að réttlæta það fyrir öllum þeim sem unnu í banka eða byggingavinnu og voru að koma sér upp húsnæði? Það fólk varð allt fyrir skelfilegu höggi, eiginlega svo miklu rothöggi að fólk er ennþá að jafna sig og er að safna kröftum til að gera það eina sem það sér í stöðunni sem í flestum tilvikum virðist vera að flytja úr landi til að skapa einhverja framtíð fyrir börnin sín. Hvernig ætla Jón og Einar að réttlæta að hjálpa þeim sem keyptu stofnfé sparisjóða í Húnaþingi fyrir öllum þeim þúsundum Reykvíkinga sem núna hafa enga möguleika en að leita til Félagsmálastofnunar eftir fjárhagsaðstoð vegna þess að þeir hafa ekki einu sinni rétt á atvinnuleysisbótum?

Hvers vegna vilja stjórnmálamenn Norðvesturkjördæmis  sérstakar ráðstafanir til að bjarga fjárhag  þess fólks úr Húnaþingi sem fór afar ógætilega að ráði sínu þegar það tók lán til að kaupa hlut í bankastofnun frekar en þeim sem búa á Reykjavíkursvæðinu og  eru úrræðalausir og alslausir og hafa ekkert og eiga ekki einu sinni neitt sem hægt er að gera lögtak í. 

Ef úr verður að þessum hópi verði hyglað öðrum fremur þá bætist þetta í væntanlega langan lista af óréttlæti og óstjórn EFTIR Hrunið og kringum Hrunið  og  má  líka  skoða hérna kúlulánaniðurfellingar bankamanna og útborgun úr peningamarkaðssjóðum eftir Hrunið. 


mbl.is Hörmuleg staða Húnvetninga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóna Kolbrún Garðarsdóttir

Ekki hafði ég áhuga á hlutabréfakaupum, ég held að þeir sem hafi tekið lán til stofnfjárkaupa verði að súpa seyðið af þeirri fjárfestingu.  Gróðafíknin hlýtur að hafa stjórnað gjörðum þessa fólks??  Hvað annað kemur til greina??

Jóna Kolbrún Garðarsdóttir, 11.10.2009 kl. 02:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband