Geta stjórnmálamenn sparað?

Framlög til stórmynda, afþreyingarkvikmynda sem kosta tugi eða hundruð milljóna í framleiðslu og sem sýnd eru í kvikmyndahúsum fyrir aðgangseyri eru eitt það fyrsta sem ætti að skera niður hjá þjóð sem er í svo mikilli fjárhagsnauð að  veruleg hætta er á að landsmenn kikni undan skattanauð og ríkissjóður geti ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Það eru bara tvær aðferðir í fjármálum til að glíma við þá stöðu sem uppi er núna. Önnur aðferðin er að hækka skatta og álögur á landsmenn og auka þannig tekjur ríkissjóðs,  hin aðferðin er sú að draga úr útgjöldum ríkissjóðs. Besta leiðin verður einhver skynsamleg blanda af þessu.  

Það er nauðsynlegt að hækka skatta en það má ekki hækka þá það mikið að það lami allt athafnalíf.  Allra vitlausasta stjórnsýslan núna er að hækka og hækka skatta en hegða sér eins og ríkisvaldið sé fyrst og fremst að færa til fjármuni, að skattpína almenning til að borga fáránleg lúxusverkefni íslenskrar yfirstéttar.  En ríkisstjórnin sem núna situr kann hvorki að hækka skatta né lækka útgjöld. 

Það var bara í gær sem ég las að Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vildi að væntanlegir orkuskattar legðust ekki á fólk út á landi. Þannig virðist ráðherrann ekki hafa haft fyrir að kynna sé lög um skatta sem segja að ekki megi mismuna við skattheimtu, það má ekki leggja skatt á óvini sína og sleppa vinum sínum.  Núna í dag les ég að menntamálaráðherra sé strax að lúffa fyrir lobbíisma kvikmyndagerðarmanna.

Kvikmyndagerð er merkileg listgrein en hún er geysilega dýr og það er vandséð hvernig hægt er að réttlæta að  setja fé í gerð höfundarréttarvarinna stórmynda, dægurefnis sem sýnt er í kvikmyndahúsum Jóns í Skífunni og hans nóta þegar hægt er að stuðla að listsköpun sem kostar miklu minni peninga.  Stórmyndir til sýninga í kvikmyndahúsum, stórmyndir þar sem menn eins og Hrafn Gunnlaugsson eða Lars Trier safna saman fúlgum fjár til að búa til mynd þar sem þeir einir ráða öllu  eru líka miðill gærdagsins og á eins miklum fallanda fæti og ritstýrðu dagblöðin.  Það er hins vegar ekki þannig að  listsköpun í kvikmyndamiðlinum sé á fallanda fæti, það hefur aldrei verið eins mikil gróska og gerjun en hún er ekki í  formúlugerðum stórmyndum sem eru söluvara í kvikmyndahúsum, gerjunin er í örsmáum kvikmyndum sem mælast í sekúndum eða nokkrum mínútum og kosta lítið í vinnslu og sem er dreift á Netinu og eru stundum efniviður í aðrar myndir. Hið nýja listforn eru þannig myndir sem er blandað og endurblandað og dreift í miðlum eins og youtube og kaltura. Í fyrstu var þessi stafræna miðlun aðeins dreifileið fyrir efni sem var búið til fyrir sýningar í sjónvarpi eða á breiðtjöldum kvikmyndahúsa  og stundum var það efni ólöglega afritað.  Núna er fólk hins vegar að sjá að þessi miðlun er ný listgrein og mikil gróska er í listsköpun í svona endurblandaðri örmiðlun.  

Það er svona listsköpun sem er listsköpun þeirra sem eiga svo til engin verkfæri. Alveg eins og listsköpun Íslendinga fyrr á öldum var list orðsins sem þurfti ekki aðra miðlunar og varðveisluleið en kálfskinn og blek og mannlega rödd þá ætti við þær aðstæður sem við erum í núna að hlú að nýjum listgreinum sem eru þess eðlis að þær kosta ekki mikið og aðgöngumiðinn til að taka þátt er ekki nokkrir tugir milljóna eins og er með kvikmyndir. 

Það reynir núna á hvort ríkisstjórn hins gjaldþrota Íslands er ríkisstjórn yfirstéttar sem hegðar sér eins og yfirstéttin hegðaði sér árið 2007 og styrkir listgreinar þar sem aðeins fáir geta tekið þátt í. Það eru vissulega margir sem horfa á vinsælar kvikmyndir en er það rétt meðferð á skattfé að taka fé frá almenningi með skattgreiðslum og nota það til að niðurgreiða dægurkvikmyndir í íslenskum kvikmyndahúsum? 

Ég vil hérna reyndar segja frá því að ég reyni eins og ég get að benda fólki á listgrein og sögugerð sem mér finnst  sjálfri alveg upplögð  sögugerð kreppunnar. Það er kallað "stop motion animation" og er nú listform þar sem þarf ekkert nema stafræna myndavél og þá hluti sem hendi eru næst.

Ég er að taka saman vef með efni sem ég hef búið til um  stop motion animation og verkfæri til slíkrar sögugerðar. Vefurinn er í smíðum en ef einhver vill kynna sér þetta þá eru nokkur kennslumyndbönd frá mér hérna:

http://vefir.hi.is/salvor/leirkallamyndir/

Það er mikill hofmóður hjá mér að bera saman amatör leirkallamyndir og styrki til kvikmynda fagmanna eins og kvikmyndina Rokland eða Brúðgumann. En það er miklu ferskari listgrein að búa til örstuttar myndir sem blandast myndum annarra heldur en halda áfram að framleiða höfundarréttarvarðar stórmyndir til sýninga í kvikmyndahúsum.

Sá sparnaður sem núna virðist boðaður af stjórnvöldum virðist ekki hafa neina stefnu, það virðist vera svo mikil hræðsla stjórnmálamanna við þrýstihópa að þeir geta ekki gert það sem þeir eru kosnir til, þeir geta ekki breytt kerfinu, þeir geta ekki lagað sig að hinum nýju aðstæðum.

Þær aðstæður sem við erum í núna krefjast verulega breyttrar nálgunar, líka varðandi styrki til menningarmála. Það verður að styrkja við menningarmál sem líkleg eru til að hafa sem mest margfeldisáhrif, virkja sem flesta, eru ódýr og nota nýja og ódýra miðla og eru tilraunastarfsemi.  Þannig eru ekki stórmyndir gærdagsins, ég vil ekki móðga alla hina frábæru listamenn kvikmyndanna  en ég get samt ekki sagt annað en kvikmyndaformið sem gengur út á sögu sem hópur fólks kemur svo að horfa á breiðtjaldi með popp og kók er steinrunnið og gelt. Það átti sinn blómatíma en hann er liðinn.

Það er reyndar miklu meiri ástæða til að styrkja nýsköpun í leikhúsum heldur en kvikmyndagerð. Það er þó engin ástæða til að styrkja sömu gömlu leikverkin, leikverkin sem leikhúsin setja á svið vegna þess að þau selja og trekkja að. En það er ástæða til að styrkja tilraunaleikhús, styrkja handritagerð til slíkra verka og það skynsamlegasta við þessar aðstæður sem við erum í núna er að stofna leiklistarskóla hérlendis sem fleiri geta farið í en þessi skrýtni og forneskjulegi leiklistarskóli sem Þjóðleikhúsið rekur og tekur ekki inn nema örfáa nemendur á ári. Það er fáránlegt að fjöldi Íslendinga sé í leiklistarnámi erlendis af því þeir komast ekki inn í leiklistarskóla hérlendis. 

Það er miklu sniðugra við þær aðstæður sem við erum í núna að nota peninga til að mennta ungt fólk í leiklist hérlendis  og styrkja tilraunaleikhús og ódýrar örmyndir heldur en að dæla peningum í stórmyndir.  Það að styrkja stórmyndir (þ.e. kvikmyndir í kvikmyndahúsalengd) er styrkur til útvalinnar elítu miðlað sérstaklega til leikstjóra. Það að styrkja leiklistarskóla er styrkur til ungs fólks til náms og til þess að vera listamenn í framtíðinni. 

Það er eitthvað að áherslum á Íslandi í menningarmálum ef stjórnmálamenn dæla peningum í skrauthýsi við sjóinn í kreppumusterið Tónlistar- og ráðstefnuhúsið og dæla svo peningum í sjóinn með því að styrkja  venjulegar afþreyingarmyndir. 

 


mbl.is Vill endurskoða fjárveitingar til kvikmyndagerðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Laxdal Baldvinsson

Hvar eru þessar hagsýnu húsmæður? Átti ekki allt að verða betra með aukinni stjórnmálaþáttöku kvenna?

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 8.10.2009 kl. 22:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband