Hvar er persónuvernd núna?

Það er kaldranalegt ástand á Íslandi að Vinnumálastofnun sem greiðir fólki atvinnuleysisbætur fyrir að vera í atvinnuleit skuli núna geta samkeyrt að vild einhverjar nemendaskrár háskóla á Íslandi til þess að passa að nemendur í lánshæfu námi séu ekki á atvinnuleysisbótum.

Þetta gerist í sömu viku og opinberir aðilar kippa úr sambandi gagnagrunni sem sýnir tengsl í atvinnulífinu fyrir Hrunið og eftir því sem ég best veit þá er sá gagnagrunnur nú óaðgengilegur vegna persónuverndar. En hvar er persónuvernd varðandi upplýsingar um hvaða nám fólk sækir?

Þeir sem eru á atvinnuleysisbótum eiga að vera "virkir atvinnuleitendur".  En málið er bara þannig á Íslandi í dag þá er enga að vinnu að fá nema fólk skapi sér hana sjálft, ennþá er atvinnulíf lamað eftir Hrunið.  Það er raunar líka ljóst að stór hluti af vinnufæru fólki á Íslandi þarf að endurskólast og afla sér nýrrar færni. Bankastarfsemi og byggingarstarfsemi verður sennilega aldrei stórir atvinnuvegir og það fólk sem þar starfaði þarf sumt hvert að búa sig undir annars konar vinnu. 

En finnst fólki virkilega eðlilegt að Vinnumálastofnun njósni um fólk sem er að reyna að bæta aðstöðu sína í lífinu með því að afla sér einhverrar menntunar og staðan er þannig á Íslandi í dag að engin skólagjöld eru í Háskóla Íslands og það kostar lítið að vera þar skráður í nám.  Margir hugsa sér því að þreygja þessa erfiðu tíma þar sem þeir eru að leita að starfi sem ekki virðist vera í sjónmáli að skrá sig í einstök námskeið í háskólanum.

Það er ekkert fylgst með því í samfélaginu að fólk á atvinnuleysibótum hangi á krámog drekki frá sér ráð og rænu eða hangi heima hjá sér og einangrist.

Hvers vegna í ósköpunum eru þeir sem eru á atvinnuleysisbótum og reyna að  þola ástandið með því að sækja námskeið í háskólanum  sekir um bótasvik bara af því að einhverjir aðrir nemendur í sama námskeiði eru í lánshæfu námi? Hvað með ef einhver atvinnulaus er í fjarnámi við erlendan háskóla - námi sem  gæti verið lánshæft hér á landi?  Ætlar Vinnumálastofnun að láta samkeyra greiðsluskrá sína og nemendaskrá allra þeirra háskóla í heiminum sem bjóða fjarnám?

Eru það bótasvik að vera skráður í námskeið í háskólanum? 

Það eru vissulega svik ef fólk sem er í fullu námshæfu námi er á atvinnuleysisbótum beinlínis í því augnamiði að komast hjá því að taka námslán. En þannig er því ekki varið með marga sem misstu vinnu eða fá ekki vinnu núna eftir hrun. Sumir eru ekkert á leið í nám, aðeins að leita að skjóli og viðfangsefnum til að sitja af sér versta óveðrið í atvinnulífi.

Það þarf engan sérfræðing til að sjá að ásókn í háskólanám á Íslandi núna er að einhverju leyti dulbúið atvinnuleysi. Það þarf heldur engan sérfræðing til að sjá að það er ekkert sem bendir til að allir þeir háskólanemar sem útskrifast á næstu misserum  fái starf að loknu námi. Því miður er kreppan djúp og það sér ekki ennþá í botninn.  Það fólk sem er í háskólanámi vegna þess að það fær ekki starf og tekur námslán er í raun að borga fyrir að vera atvinnulaust. Það borgar með því að safna skuldabagga inn í framtíðina, framtíð sem er ekki allt of björt í dag.

Það er mikilvægt að unnið verði að því að framfærsla námsmanna verði að hluta til styrkur sem allir geti fengið í einhvern tíma og svo að hluta til viðbótarnám. Þannig er það í nágrannalöndunum og t.d. í Danmörku er styrkurinn svo hár að námsmenn geta lifað bara á styrknum ef þeir fara afar sparlega með fé.

En ég spyr aftur. Hvar er persónuvernd núna? Hvers vegna í ósköpunum má samkeyra þessar skrár og hvað er að því að fólk á atvinnuleysisskrá sé innskráð í háskóla og sitji þar í tímum? 

Ef hins vegar atvinnulaust fólk stundar nám af svo miklum þrótti og lýkur það mörgum einingum að það eigi rétt á námsláni þá er sjálfsagt að það sé tekið af atvinnuleysisbótum og beint í námslánakerfið. En það er ekki sjálfgefið hvaða upplýsingar Vinnumálastofnun getur krafið atvinnuleitendur um.  

Það er líka ömurlegt að Vinnumálastofnun standi í veg fyrir að atvinnulaust fólk leiti eftir þekkingu og færni sem eykur möguleika þeirra í framtíðinni. Það er líka ömurlegt og fáránlegt að fólk fái atvinnuleysisbætur án þess að vera boðin einhver viðfangsefni svo sem nám, endurhæfing eða einhvers konar atvinnubótavinna. 


mbl.is Skoða frekari bótasvik námsmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heiða B. Heiðars

Frábær pistill Salvör

Heiða B. Heiðars, 15.9.2009 kl. 17:57

2 identicon

Sammála þér Salvör! Frábær pistill.

DisaP (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 18:17

3 identicon

Frábær pistill.

Eins og talað út mínum munni. :)

 Langar að sjá hvar þessi REGLA er að samkeyra megi Lista í framhalds og háskólum. við atvinnuleysisskrá, er ekki einmitt verið að tala um að atvinnuleysið leysist ekki á næstunni og er verið að senda þessa einstaklinga á sama námskeiðið aftur og aftir svo hægt sé að fegra tölurnar ??  

Ísak R Jóhannsson (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 19:14

4 identicon

Skotheldur pistill og hárrétt ábending - einstök námskeið hamla ekki atvinnuleitinni, heldur ættu þvert á móti að auka líkurnar á að fá vinnu.  Ef allt er með felldu.

baldur mcqueen (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 19:32

5 identicon

Góður punktur Salvör.

Sæunn Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 20:18

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Það er ástæðulaust að skammast út ú Vinnumálastofnun vegna þessa máls. Ef þú telur að það eigi að vera í lagi að fólk sé í námskeiðum í háskóla og á atvinnuleysisbótum á sama tíma þá skalt þú skammast út í þingmennina, sem hafa sett lög, sem banna það. Vinnumálastofnun setur ekki lögin en hefur þær skyldur að framfylgja þeim. Þar hafa menn því ekki heimld til að horfa framhjá því þó menn séu í háskólanámi á sama tíma og þeir eru á atvinnuleysisbótum ef lög um atvinnuleysisbætur banna það.

Og að sjálfsöðgu eiga allar stofnanir, sem úthluta fólki af almannafé samkvæmt lögum að hafa öll þau tæki, sem tiltæk eru til að fylgja því eftir að fólk sé ekki að taka slíkar greiðslur, sem ekki á rétt á því samkvæmt lögum.

Ég tek fram ef það hefur farið framhjá einhverjum við lestur þessarar athugasemdar minnar að ég er með þessu ekki að taka afstöðu til þess hvort fólk á að geta tekið námskeið í háskóla samhliða því að fá atvinnyleysisbætur heldur aðeins að benda á það að á meðan það er bannað samkvæmt lögum þá ber Vinnumálastofnun að fylgja því eftir. Skammist þið út í rétta aðila ef þið eruð ósátt við lögin.

Sigurður M Grétarsson, 15.9.2009 kl. 20:25

7 identicon

Vel mælt :) rakst á þessa færslu þar sem henni var "share'að" á facebook og finnst gott að einhver skuli benda á þetta opinberlega.

Sjálf er ég útskriftarnemi í ónefndum framhaldsskóla hér á landinu en er svo heppin að ég á góða foreldra sem reyna eins og þau geta að létta undir með mér auk þess sem unnustinn minn er í pásu frá námi til að geta séð fyrir okkur.

Það er bara of mikið um þetta, allt of margir á mínum aldri sem eru að droppa út úr skóla núna, þau fá enga vinnu og missa bæturnar fyrir að skrá sig í skóla og þurfa þar af leiðandi að velja á milli þess að sjá fyrir sér með bótum og sitja og bora í nefið eða vera í námi (þá er ég náttúrulega að tala um fólk um og yfir tvítugt sem ekki hefur foreldra til að sjá fyrir sér eins og þeir sem eru undir 18).

 En já, frábær pistill :)

-Jónína Sæunn

Jónína Sæunn (IP-tala skráð) 15.9.2009 kl. 21:18

8 Smámynd: Þór Jóhannesson

Takk fyrir að afhjúpa spillinguna í Persónuvernd sem - eins og aðrar stofnanir á þessu spillingarskeri - virðist eingöngu vera til í þeim eina tilgangi að vernda spilllingaröflin á hægrivængnum (þ.m.t. hægri kratar Samfylkingar).

Árni Páll hefur gert sig að fífli með því að leggja slíkan þunga á þennan smáþjófnað á meðan ekki nokkur maður (nema e.t.v. Eva Joly) þorir að leggja samskonar þunga á rannsókn auðvaldsglæpamanna.

Þór Jóhannesson, 15.9.2009 kl. 21:57

9 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sigurður M: Jafnvel þó það væri ólöglegt og á brot á skilmálum um atvinnuleysisbætur að fólk á atvinnuleysisbótum stelist til að skrá sig í nám og sitja tíma í skólum þá er það afar, afar undarlegt að stjórnvöld hafi leyfi til að samkeyra skrár athugasemdalaust.

Þetta er þar að auki spurning um siðferði og mannréttindi. Enginn þarf meira á nýrri þekkingu að halda en sá sem hefur misst vinnu sína, sérstaklega ef útséð er um að hann fái vinnu í því sama aftur. Eiga háskólarnir að vera þægir þjónar í þannig málum og er hlutverk þeirra að veita upplýsingar sem skaða möguleika sumra til náms?

Í gegnum mannkynssöguna hafa oft verið settar fáránlegar reglur til að halda valdalausum og fátækum hópum áfram valdalausum og fátækum. Þannig hefur fólki af ákveðnu þjóðerni og ákveðnum litarafti og ákveðnu kyni verið meinaður aðgangur að menntun og þekkingu og vélum og færni.  Við fordæmum það en látumst ekki sjá að það sama er að gerast fyrir framan augu okkar.  Núna eru skilin í samfélaginu milli þeirra sem hafa vinnu og þeirra sem ekki hafa vinnu.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.9.2009 kl. 22:09

10 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Jónína Sæunn: Takk fyrir þessa sögu af aðstæðum vina þinna, ég veit því miður um mjög marga sem hafa sömu sögu að segja og standa frammi fyrir sömu aðstæðum. Ég hvet þá sem eru í þessum aðstæðum til að fylgjast vel með hvernig landinu er stjórnað og koma boðum til stjórnvalda um aðstæður sínar.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.9.2009 kl. 22:12

11 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Mér finnst raunar áhugavert að vita hvaða lög eða reglugerðir Vinnumálastofnun styðst við og hvort hún fái án athugasemda að samkeyra þessar skrár. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 15.9.2009 kl. 22:16

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Jamm, það tekur okkur sennilega um áratug, að vinna okkur úr þessu, svo fremi að engin alvarleg ný mistök verði gerð.

Annars, hef ég einnig áhyggjur af því sem heimildir eru um, að verði útspil ríkisstjórnarinnar, gagnvart heimilunum:

þ.e. að tekjutengja greiðslur lána.

Að sjálfsögðu, hljómar þetta mjög sanngjartn, í cirka 5 mínútur.

En, veltið fyrir ykkur, að samanborið við hugmyndir um lengingar lána í allt að 70 ár, sem nú eru úreltar hugmyndir, þá býður svona aðferð upp á, enn lengri lánstíma. Í reynd, sé ég ekki annað, en að fræðilega gæti lánstíminn skriðið yfir öld að lengd.

Síðan einnig, sá neikvæði hvati, sem skapast; þ.e. þú borgar minna, því lægri laun þú hefur. Þetta leggst, ofan á allt það sem áður hefur verið gert, þ.e. skattahækkanir á tiltölulega hærri laun, auknar tekjutengingar - og öll þau auknu hliðaráhrif, sem því fylgir.

Ég velti fyriri mér, hver verða heildaráhrifin á almenning, sem sér nú fram á greiðslur lána, alla ævi og svo að eftirláta lánin, til næstu kynslóðar.

----------------------------

Öllum hugmyndum um niðurfellingar skulda hafnað, fyrir utan að einhverjar niðurfellingar verða framkvæmdar hjá þeim, sem skulda meira en verðmæti eigna.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Þ.e. slæmt, að verið sé stöðugt að skapa sí öflugari hvata, gegn viljanum til að vinna, og skapa verðmæti.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 15.9.2009 kl. 22:27

13 Smámynd: Hörður Halldórsson

góð ábending

Hörður Halldórsson, 15.9.2009 kl. 22:38

14 Smámynd: Hallur Magnússon

Það er von þú spyrjir Salvör!

Frábær pistill að venju.

Hallur Magnússon, 15.9.2009 kl. 23:39

15 identicon

Takk, mjög svo góður pistill !

Maður hefur verið eitthvað svo hugmyndasnauður þessa daganna og þú

gafst mér bara nokkuð góða hugmynd, fer bara aftur á atvinnuleysisbætur

og skrái mig bara í erlendan háskóla í fjarnám.

Tær snilld !

HG (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 00:53

16 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

ég get ekki betur séð en að það væri þjóðinni allri til bóta að keyra sem flestar skrár saman sem oftast!(hef sjálf verið rekin af Baugi eftir 26 daga og finnst og finnst sætt að lifa á atvinnuleysisbótum og námslánum næsta vetur!)...en skil vel ef það er "keyrt saman"

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 16.9.2009 kl. 01:59

17 identicon

Daginn

Mér finnst atvinnuleysisbætur og skóli ekki fara saman.  Ef á að leyfa atvinnulausum að ganga í fullan skóla á bótum myndu allir sem hyggja á skóla koma sínum málum þannig fyrir að þeir fengju bætur á meðan skólagöngunni stæði.  S.s. í mínum huga væri ríkið að greiða fólki laun við að ganga í skóla.

Tekjutengingar lána hrópa á svarta vinnu.  Ég myndi gera það.  Ef ég fengi 30% afskrifað af láninu mínu fyrir að sýnast vera með lág laun.  Ég er tiltölulega heiðarlegur maður en 30% af húsnæðisláninu mínu er gomma af peningum.

Eina "sanngjarna" verðmætistrygging sem ég sé fyrir mér væri að tengja húsnæðislán við einhverskonar húsnæðisvísitölu s.s. ef húsnæðisverð hækkar hækkar lánið og öfugt.  Pottþétt leið til að fæstir myndu bindast átthagafjötrum með yfirveðsett hús.  Virkar samt ekki alveg því að það þyrfti fleiri en eina vísitölu til.  Engin sanngirni ef húsnæðisverð á höfuðbsvæðinu hækki að lánin á húsum á Borgafirði eystri eða Þórshöfn hækki.

 Kv Jón Garðar

Jón Garðar (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 08:58

18 Smámynd: Anna Margrét Bjarnadóttir

Mikið er ég sammála þér Salvör. Ég þurfti nú einmitt að skrá mig úr háskólanum í haust vegna þess að framfærslan þangað var svo lág að ég gat ekki lifað á henni.

Ég var búin að skrá mig í mastersnám í atvinnuleysinu. Ég er einstæð móðir með 7 ára barn á framfæri og minn skuldapakka af erlendum og innlendum húsnæðis og bílalánum. Framfærslan sem að ég gat fengið var 128.000 krónur og frá því átti að dragast allar tekjur sem ég hafði unnið mér inn á árinu þannig að þá átti ég að fá innan við 100 þúsund krónur. Það kom 20% hækkun núna á framfærsluna, það er spor í rétta átt en engan vegin nóg. Hver getur lifað af 120.000 krónum?

Það er ljóst að sjóðir LÍN hafa rýrnað í kreppunni. Ég álít að úr því að sjórnvöld voru síðastliðið haust að hvetja fólk til að fara frekar menntaveginn og á námslán en á atvinnuleysisbætur hljóti að þurfa að gera ráð fyrir að einhverjir af þeim peningum sem að ráðgerðir eru fyrir atvinnuleysistryggingarsjóð verði settir í LÍN. Þessir tveir sjóðir hljóta að þurfa að vinna á einhvern hátt saman. 

það hlýtur að vera hagsmunamál fyrir alla Íslendinga að fjölskyldurnar í landinu lifi þessar hörmungar af. Að fólkið okkar flýji ekki með börnin sín af landi brott. Hvernig sem á það er litið er það kostur fyrir ríkið og fyrir atvinnulaust fólk að fara frekar í nám og á námslán en á atvinnuleysisbætur. Í námi bætir það við þekkingu sína og verður hæfara til starfa í framtíðinni en allir vita að það er mannskemmandi að hafa ekki atvinnu og neyðast til að þyggja bætur. Námslánin þurfa því að vera svolítið hærri en atvinnuleysisbætur þannig að það sé gulrót og hvattning að drýfa sig frekar í Háskólann en á bætur. það er einfaldlega þjóðhagslega hagkvæmt.

 

Anna Margrét Bjarnadóttir, 16.9.2009 kl. 09:29

19 identicon

Þetta er mjög góður pistill enda þótt ég sé ekki sammála alveg öllu . Það er alveg ljóst að hluti af námi hér á landi er dulbúið atvinnuleysi . Þetta er að sjálfsögðu ekki bundið við Ísland . Þannig hefur þetta verið , t.d. í Þýskalandi í mörg ár . Þauð er augljóst brot og óréttlæti ef einn námsmaður getur fjármagnað nám sitt með atvinnuleysisbótum(hann þarf þá að gefa upp rangar upplýsingar hjá fleiri en einum aðila) en annar þarf að taka dýr lán . Þetta gerðu þessir rúmlega 300 námsmenn og það er óréttlætanlegt með öllu . Það er að sjálfsögðu einnig óréttlæti í því fólgið að sumir þurfi að taka lán en aðrir eiga ríka foreldra . Þú hefur sjálf bent á undankomuleið . Það er hægt að sunda fjarnám við erlenda háskóla . Til þess að stoppa þennan leka þyrfti VMST mjög víðtækar heimildir ! Vinnumálastofnun gerir námssamninga við  t.d. þá sem eru í hlutastarfi um það að þeir geti tekið 1 eða 2 áfanga á háskólstigi .  Menn geta deilt um það hvort þetta sé mikið eða lítið en hér er allt uppáborðinu . Engar lygar eða rangar upplýsingar. Að sjálfsögðu hafa atvinnulausir rétt á að taka námskeið sem flest eru styrkt af stéttarfélögum . Það er eðlilegt að veita leyfi il að keyra saman þessr upplýsingar um námsmenn . Hið sama gildir um mjög merkilegt forrit sem sýnir margvísleg tengsl íslensku viðskipalífi . Þar á að leyfa aðgang að öllum upplýsingum . Ef persónuvernd breyir ekki ákvörðun sinni eru væntanlega tvær leiðir ; dómstólaleið eða breyingu á lögum . Innlendir og erlendir fræðimenn hafa bent á að klíkumyndun og spilling séu mikilvæg einkenni á íslensku viðskiptalífi . Nú er brýnni þörf en nokkru sinni að kortleggja tengslin .

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 10:20

20 identicon

Ég tek heils hugar undir með Hrafni Arnarsyni í þessu. Ég var einstæð móðir, í leiguhúsnæði þegar ég var í námi og þraukaði á námslánum og aukavinnu með námi.  Mér þykir það alls ekki réttlætanlegt að sumir geti fjármagnað sitt nám með atvinnuleysisbótum meðan ég (og meirihluti námsmanna) þarf að borga sín lán. Hitt er svo allt annað mál að framfærsla LÍN er ALLT of lág, og tekur ekki nægilega mið af aðstæðum hvers og eins.

Alma (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 11:32

21 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Salvör. Í mínum huga er málið einfalt. Ef Alþingi ákveður að fólk eigi að hafa tilkall til fjárstuðnings af almannafé að uppfylltum tilteknum skilyrðum þá er það eðlilegt og sjálfsagt í mínum huga að því fylgi að sú stofnun, sem fær það hlutverk að greiða út þann fjárstuðning hafi aðgang að öllum upplýsingum um þá, sem sækjast eftir slíkum greiðslum, sem skera úr um það hvort viðkomandi uppfylli skilyrðin eða ekki. Þetta hefur hins vegar ekkert með það að segja hvort ég sé sáttur við öll skilyrðin, sem Alþingi hefur sett fyrir því að menn eigi rétt á viðkomandi greiðslum.

Sigurður M Grétarsson, 16.9.2009 kl. 14:04

22 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Eitt dæmi sem ég vil koma á framfæri í þessari umræðu. Maður sem var í fullri vinnu og 80% fjarnámi í háskóla með vinnu missir vinnu sína. Honum er sagt að hann verði annaðhvort að hætta í náminu eða taka námslán hjá LÍN. En LÍN neitar að lána vegna þess að þessi aðili er á vanskilaskrá. Hvað gera menn þá???? Annað dæmi er maður sem missir 50% vinnu og sækir um bætur á móti eins og hann á rétt á. Hann er einnig í fjarnámi og honum er einnig skipað að hætta í námi ef hann vill fá bætur. Hvað bull er í gangi spyrr ég bara. Og hvað með þetta fólk sem lendir þarna á milli sem getur ekki fengið atvinnuleysisbætur og ekki lán og er því neytt til að hætta í háskóla til að geta lifað. Það stefnir í að 30.000.000 manns lendi á vanskilaskrá, margir einmitt vegna skertrar vinnu og atvinnumissis. Á það fólk að sitja heima og bora í nefið???? Hver þykist Árni Páll vera að segja fólki sem er búið að vera í fjarnámi með vinnu að það er ekki í virkri atvinnuleit því það er í fjarnámi. Samt geta þessir aðilar unnið fulla vinnu og verið í skóla og gengur bara vel. Þetta er bara kjaftæði og hrikalega sorglegt og sýnir eina ferðina en hversu þröngsýn þessi maður og þessi ríkisstjórn er. 

Jón Svan Sigurðsson, 16.9.2009 kl. 14:11

23 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Þetta átti að vera 30.000 manns ekki 30.000.000

Jón Svan Sigurðsson, 16.9.2009 kl. 14:13

24 identicon

Þetta er mikilvægt atriði hjá þér Jón Svan . Ef einhver hefur ekki rétt á láni hjá Lín(af hvaða ástæðum sem það er)er hann ekki í lánshæfu námi og á þess vegna rétt á bótum .  Þetta er mín túlkun . Ég veit ekki um túlkun lögfræðinga Vmst og Lín . Ef þeir eru þeirrar skoðunar að velja verði verði milli bótanna og námsins en eiga jafnframt ekki kost á námsláni , þá er svo sannarlega ekki verið að slá skjaldborg um velferðarkerfið . Þá er kerfisbundið verið að skerða lífskjör og möguleika fólks . Það er alveg augljóst að þú getur verið virkur avinnuleitndi og um leið í fullu starfi . Reynsln sýnir það .

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 14:45

25 identicon

Mér finnst þessi umræða alveg dæmalaus það er í lagi að brjóta reglur af því að þeir eru ekki réttar . Hvenær ætlum við Íslendingar að læra höfum skýrar reglur og förum eftir þeim eða breytum þeim.  

Hver er munur á manni sem mist hefur vinnu og fer í skóla eða hinu sem var í skóla fyrir hrun,  eigum við kannski að borga öllum sem í skólum eru atvinnuleysisbætur ?

Ásgeir Ingvi Jónsson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 15:20

26 Smámynd: Jón Svan Sigurðsson

Hrafn, mér skilst að þetta sé túlkað þannig að ef LÍN er með eitthvað nám samþykkt sem  "lánshæft" þá túlka þeir hjá Vmst það þannig að námið sé "lánshæft", og þ.a.l. ekki leyfilegt að stunda það nám á meðan fólk er á bótum hjá Vmst. Skiptir þá engu hvort mannseskjan á rétt á láni eða ekki.
Ég er auðvitað hjartanlega sammála þér. En þetta sýnir bara hversu brotið kerfið er. Einnig frétti ég það að nýlega var Árni að herða reglurnar en meira svo að einungis má taka 10 ECTS einingar og því er þetta bara eitt námskið sem má taka.

Jón Svan Sigurðsson, 16.9.2009 kl. 15:26

27 identicon

Ef einstaklingur á ekki rétt á láni missa allar verklagsreglur VMST marks og snúast algerlega upp í andstæðu þess sem stofnunun reynir að gera .Sem sagt : þú færð avinnuleysisbætur að því tilskyldu að þú stundir ekki lánshæft nám . Það er ekki vinnumarkaðsaðgerð . Þú getur eytt peningunum algerlega að vild , í hvaða vitleysu sem er bara ekki lánshæft nám . Vinnumálasofnun  er eins og öllum öðrum er ljóst að menntun er vörn gegn því að verða avinnulaust  . Fólk er hvat til þess að sækja námskeið til að bæta stöðu sína og öðlast aukin réttindi . En þetta má bara ekki heita lánshæft nám ! Guð bjargi okkur frá heimskum skriffinnum .

Hrafn Arnarson (IP-tala skráð) 16.9.2009 kl. 21:12

28 Smámynd: Konráð Ragnarsson

Persónu njósnir að hætti gamla Austur-Þýskalands

Vinsamlegast látið vita ef einhver á atvinnuleysisbótum eða í námi, er farinn að drýgja tekjurnar með því að safna dósum og plastflöskum!

Neyðarsíminn er 112 og biðjið um Árna fylgjastmeðfátækumráðherra

Konráð Ragnarsson, 17.9.2009 kl. 01:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband