Hver á fiskinn í sjónum, Ólafur ÓIafsson eða íslenska þjóðin?

Ólafur á Ker, Ker á Eglu, Egla á Kjalar (eða var það öfugt? eða var það bæði?), Kjalar á HbGranda og HbGrandi er að stofninum til gamla bæjarútgerð okkar Reykvíkinga og stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á landinu og á gríðarlegar aflaheimildir. Stærsta eign Eglu er krafa á Kjalar.

 

Það hefði verið alveg ágætt fyrir Reykvíkinga að eiga bæjarútgerð núna, ágætt að eiga kvóta fyrir byggðalagið hérna og ágætt að geta stýrt því þannig að fiskur væri seldur eða nánast gefinn til efnalítilla fjölskyldna á Íslandi. Þannig var farið að í öðrum kreppum og því stýrði Jónas frá Hriflu ef ég man rétt.

 Núna sýnist mér að búið sé að samþykkja nauðasamninga upp á 15% af kröfum í Eglu einmitt af því að eignir í Kjalari (þ.e. stærsti hluthafi í HBgranda) muni þá glatast. Ég fæ ekki betur séð en einhver sé með þessu að fá yfirráðarétt yfir stórum hluta fiskveiðikvóta Íslendinga fyrir slikk. Er það Ólafur Ólafsson? Eru það ríkisbankarnir?

Ég er alveg sátt við að ríkisbankarnir eigi hlutann í Kjalari en ég er mjög ósátt við ef eitthvað möndl og baktjaldamakk er með þessi gríðarlegu verðmæti, verðmæti sem eru verðmæti okkar Reykvíkinga, þetta er kvóti sem er tilkominn vegna veiða fyrirtækis sem er að stofni til gamla bæjarútgerðin okkar, fyrirtæki sem var selt vegna þessarar einkavæðingartísku.

Er til of mikils mælst að þeir sem standa að þessum nauðasamningum og það hljóta að vera íslensku bankarnir upplýsi almenning í Reykjavík um hver muni eftir þessa nauðasamninga ráða yfir hlutnum í HBGranda?

Er til of mikils mælst að almenningur á Íslandi fái upplýsingar um hvað felst í gjaldeyrissamningi Kjalars við gamla Kaupþing?

Á meðan HbGrandi var á hlutabréfamarkaði þá keypti ég bréf í því fyrirtæki, ég vildi á þann hátt eiga skerf í sjávarauðlindum Íslands og reyna að hafa mín áhrif á hvernig máum væri stjórnað þar. Ég bauð mig fram í stjórn HBGranda í hitteðfyrra en hafði enga möguleika, litlir hluthafar hafa enga möguleika vegna þess að félög eins og Kjalar eiga meirihlutann. Það að HBGrandi hafi verið almenningshlutafélag var bara skrípaleikur. Það eru menn eins og Ólafur Ólafsson sem hafa átt bak við tjöldin í einhverri fyrirtækjaspagettikássu allan kvóta sjávarútvegsfyrirtækja eins og HbGranda. Það er ekkert í regluverki sem hindrar að þessar fyrirtækjaspagettikássur geti verið í eigu einhverra sem eiga sín skjól á Tortúlaeyjum og svipuðum stöðum. Ekkert nema vökult auga okkar almennings sem fylgjumst með fjármálaumhverfinu og heimtum að almenningur á Íslandi ráði fyrirtækjum eins og HBgranda.

Hér segir: Skuldir Eglu eru rúmir 8,3 milljarðar króna, á meðan áætlað verðmæti eigna félagsins nemur um 1,2 milljörðum króna, eða ca. 15% af skuldum.

Það sem ég er mest hrædd um er að í þessum nauðasamningum felist að Ólafur Ólafsson haldi áfram hlutnum í HBgranda. Það sem ég er líka hrædd um er að lánadrottnar Eglu séu erlendir aðilar sem Ólafur hefur fengið lán hjá til að kaupa hlutinn í HbGranda. 

Ég er að reyna átta mig á hlut Ólafs Ólafssonar í íslensku viðskiptalífi, Ólafur hefur alltaf verið talinn tengjast Framsóknarflokknum og mér finnst nauðsynlegt að það sá upp á borðum hvernig sú tenging hafi verið. Í öllum flokkum þarf að eiga sér stað opinská umræða og hreingerning. Ég hef heyrt þessa sögu með brotakenndum hætti og sumt af því ber ekki viðskiptaháttum ólafs vel söguna. Þannig virðist hann oftar er einu sinni hafa þóst vera eitthvað erlent fyrirtæki en það verið bara leppur.  Þannig mun hann hafa gengið undir nafninu  Hauck und Aufhäuser á sinni tíð og þóst vera virtur erlendur banki. Það var á þeim árum sem erlend fyrirtæki þóttu voða fín (áður en við uppgötvuðum að þau eru mestmegnis pósthólf á tortúlaeyjum) og það átti að einkavæða íslenska banka með því að því að erlendir aðilar væru með og legðu inn sína reynslu og sérfræðikunnáttu. 

Það eru þrír athafnamenn sem hafa verið bendlaðir við Framsóknarflokkinn. Þeir eru Ólafur Ólafsson, Sigurður Einarsson og Finnur Ingólfsson. Ólafur Ólafsson er sonur stjórnarformanns Sambandsins og Sigurður Einarsson er sonur  ráðherra Framsóknarsflokksins. Finnur Ingólfsson var ráðherra Framsóknarflokksins. Það er nokkuð ljóst að allir þessir menn fengu upphaflegan meðvind í athafnalífi vegna tengsla sinna við Framsóknarflokkinn og Sambandið. 

 

Ég safna hérna fyrir saman ýmsu sem ég finn á Netinu um viðskiptanet Ólafs Ólafssonar til að reyna að glöggva mig á því hver á hvað. það er nú ekki auðvelt.

Ólafur Ólafsson, einkavæðing bankanna og pólitísk spilling

Slóð Ólafs Ólafssonar um íslenskt athafnalíf er ekki beinlínis saga þar sem öll eignatengsl eru gagnsæ og upp á borðinu.  Hann er einn af þeim sem spiluðu með fjöregg Íslendinga og hann gerði það án þess að almenningur á Íslandi vissi hvað væri að gerast. Ég er reið öllum þeim sem hafa atvinnu af eða voru kosnir fulltrúar fólksins sem hefðu átt að fylgjast með fólki eins og honum en gerðu það ekki og vöruðu ekki við. 

 

(2006) Kjalar á meirihluta í Ker, Ker á Olíufélagið, Olíufélagið á stóran hluta í KEr

(2006) Kjalar á meirihluta 87 % í Ker. Helstu eignir Kers hf. eru Olíufélagið ehf. og stórir hlutir í Samskipum hf., SÍF hf. og Iceland Seafood International ehf. Þá á Ker 68% hlut í Eglu hf. sem er eignarhaldsfélag um 10,88% hlut í Kaupþing banka hf. Kjalar ehf., félag Ólafs Ólafssonar, á nærri 28% hlut í Eglu.
Jafnframt á Ker um 56% hlut í fasteignafélaginu Festingu ehf. sem varð til árið 2003, við skiptingu Kers, þegar fasteignir Olíufélagsins voru færðar yfir til Festingar og síðar sömuleiðis fasteignir Samskipa og eignir frá Sundi. Festing hefur nú keypt alla hluti Sunds ehf. og J&K eignarhaldsfélags ehf. í Festinu

 Kjalar á 90% í Samskipum og 33% í HB Granda. Þá átti hollenskt félag í eigu Eglu 40% hlut í Alfesca. Ólafur var (er kannski ennþá?) stjórnarformaður Samskipa og SÍF. Hann átti líka félagið Serafin shipping og mun það félag hafa orðið sjötti stærsti eigandi í Icelandic Group (átti Sjóvík sem sameinaðist Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna) og átti 6 %. Þessum eignarhlut var skipt niður á tvö félög Fordace Limited og Deeks Associates Ltd. væntanlega til að komast hjá tilkynningaskyldu í Kauphöll.

Eigendur Eglu eru Ker, sem er að hluta til í eigu Ólafs Ólafssonar og Kjalar, með 68 prósenta hlut, Kjalar með 28 prósenta hlut, sem einnig er í eigu Ólafs Ólafssonar og Grettir, með fjögur prósent. Stofnendur Eglu voru Ker, Vátryggingafélag Íslands og Hauck & Aufhaeuser

Ólafur Ólafsson átti Serafin Shipping

Ólafur Ólafsson reynir að verja vígin amx

Kjalar vill knýja fram skuldajöfnun
Kjalar krefst uppgjörs á gjaldeyris­samningi við Kaupþing


 

 


mbl.is Egla á 15% upp í skuldir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Það verður eins og alltaf hefur verið, að "skrattinn sér um sína". Það er engin hætta á að Ólafur Ólafsson fari með skarðan hlut frá borði, fremur en endranær. Því verður snýtt útúr ríkisbankanum, rétt eins og þegar Sverrir Hermannsson lét honum eftir Samskip úr Landsbanka og dálitla meðgjöf með.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 9.6.2009 kl. 15:20

2 identicon

Já,  þau eru ekki fögur afkvæmi maddömu Framsóknar.   Og það sem verra er, það virðist lifa lengst, það sem lýðum er leiðast.  Svona kraumar þetta undir í Framsóknarflokknum, það vita allir að engin leið er til að bæta það.

j.a. (IP-tala skráð) 9.6.2009 kl. 19:50

3 Smámynd: Sigurður Þórðarson

 Sæl Salvör, það eru margir ágætir punktar í pistli þínum sem ég er algjörlega sammála.  Ég vil samt árétta eftirfarandi:

Fiskurinn sem syndir innan 200 s.m. lögsögu Íslands en innan miðlínu við Grænland er náttúruauðlind í eigu þjóðarinnar allrar samkvæmt skilgreiningu laganna. Það er svo sjávarútvegsráðherra á hverjum tíma sem úthlutar veiðiheimildum til eins árs í senn, sú úthlutun getur undir engum kringumstæðum myndað eignarétt.

Þetta segja lögin og þannig hefur Hæstiréttur túlkað þau t.d. í Valdimarsdómi, Vaneyrardómi  og héraðsdómi í máli Vinnslustöðvarinnar. 

Þrátt fyrir að sjálfstæðismenn og framsóknarmenn þrástagist á að fiskurinn í hafinu sé í einkaeigu þá hafa þeir aldrei haft burði og þor til að koma því í gegnum þingið, góðu heilli.

p.s. Framsóknarflokkurinn var þjólegur félagshyggjuflokkur sem byggði á samvinnuhugsjóninni og þar störfðu margir bestu synir og dætur þessa lands. Ég á þá einlegu ósk ykkur og þjóðinni til handa að þau gildi sem þú talar fyrir í þessari grein nái fyrri styrk í flokknum. 

Sigurður Þórðarson, 9.6.2009 kl. 20:36

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Sigurður: Ég vona að samvinnuhugsjón og félagshyggja verði  aftur leiðarljós í Framsóknarflokknum, ásamt því að koma fram við menningu okkar og annarra af virðingu og átta sig á því að hér er sérstök menning og sérstakt samfélag sem mjög auðvelt er að eyðileggja. Það gerist ef hér verður einhver fjöldauppflosnun og fjöldafólksflutningar til og frá landinu.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 9.6.2009 kl. 20:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband