Valdalaust þing og þjóðríki sem er að liðast í sundur

Það er sama hve mikinn fagurgala Ólafur Ragnar forseti leggur í þingsetningarræðu sína, hann nær ekki að breiða hulu skrúðorða yfir það að Alþingi er  valdalaust og vanmáttugt apparat sem stimplar lög frá Brussel. Nokkrir þingmenn eru ráðherrar  í ríkisstjórn,  þar liggja völdin. Ríkisstjórnin er líka vanmáttug, hún rekst fyrir vindum og öflum sem eru sterkari en þau rifnu og götóttu segl sem íslenska þjóðarskútan reyndir að sigla undir. Á næstunni verður  engin sigling, ennþá sést ekkert til lands og þetta gengur bara út á að halda sér á floti, að sökkva ekki.

Svo er það með þjóðina sem forsetanum verður tíðrætt um, hver er hún þessi þjóð? Eru það þau sem samþykkja að vera skuldarar fyrir Icesave skuldunum? Eru það þau sem krjúpa höfði og dásama þá sem seldu þá og afkomendur þeirra í skuldaánauð? Eru það þau sem núna undirbúa flutning úr landi? Eru það þau sem núna koma hingað frá löndum sem eru verr stödd en Ísland? Eru það þau 49.3 % kjósenda sem kusu þá ríkisstjórn sem núna situr? 

Það eru mörg  teikn sem eru á lofti um að íslensk þjóð sé að liðast í sundur, ekki að splittast upp í tvær fylkingar með eða móti EBE, satt að segja er uppflosnunin og sundurliðunin meiri en það. Það má líka spyrja, hversu mikilvægt er að halda í þjóðríki sem er feyskið ættbálkasamfélag. Einu sinni geystust Jón Baldvin og Ólafur Ragnar um Ísland og fluttu fyrirlestra sem hétu að mig minnir "Á rauðu ljósi", fyrirlestra sem fjölluðu um fjölskyldurnar fjórtán eða þá sem áttu Ísland. Undanfarin ár hefur Ólafur Ragnar farið yfir á gulu ljósi, hann hefur geyst fram með útrásarvíkingum og þeim sem áttu aldrei Ísland, bara stálu því og skildu eftir skuldirnar og rúið orðspor. Núna í dag er stór dagur fyrir forsetann. Hann blessar núna rauða ríkisstjórn, ríkisstjórn undir forustu flokksins sem hann leiddi á sinni tíð.  Ég óska þessari ríkisstjórn farsældar og ég hef ekki ástæðu til að ætla annað en þau sem í henni sitja reyni hvað þau geta til að skútan  sökkvi ekki.

mbl.is Þjóðin tók valdið í sínar hendur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigríður Þorbjörnsdóttir

Heyr heyr.

Það er mikið að einhver fer að tala mannamál á Íslandi.

þetta eru orð í tíma töluð Salvör .

Til hamingju með pistilinn þinn

Sigríður Þorbjörnsdóttir, 15.5.2009 kl. 23:57

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Snarpur pistill atarna, Salvör. Það hafa orðið ýmsar breytingar í þinginu og þær sem okkur þykja kannski ekki stórvægilegar, varðandi klæðaburð og mætingu eða ekki mætingu í Dómkirkjuna, eru allt að einu afgerandi merki um "gengisfellingu" þess starfs sem unnið er á Alþingi.

Flosi Kristjánsson, 16.5.2009 kl. 08:24

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ég held ekki að starf þingmanna gengisfellist af því hvort þeir eru með bindi eða sækja messu. Ég held að stjórnkerfið og listapólitík sé þannig að þingmenn eru valdalausir, þeir greiða atkvæði bara eftir pöntun.  Ef eitthvað athæfi hefur gengisfellt starf þingmanna þá er það hlutir eins og þegar þingmenn Sjálfstæðismanna héldu uppi  hallærislegu málþófi og sungu í pontu til að koma í veg fyrir lög um stjórnlagaþing. Svo var átakanlegt að sjá Sigurð Kára mæla fyrir því að selja vín í búðum á meðan eldar brunnu utan dyra.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 16.5.2009 kl. 09:42

4 Smámynd: Birgitta Jónsdóttir

Sammála þessum pistli Salvör. Ég held að sama skapi að aldrei hafi verið eins mikilvægt að fólk hætti að skipta sér upp í fylkingar og einbeiti sér að þeim málefnum sem skipta þjóðina mestu máli. Neyðin fer sífellt stækkandi og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin boða fyrir heimilin eru bara ekki nægilega stórtækar eða róttækar. Ég ætla samt að leyfa mér að vona rétt eins og þú að þessi stjórn muni reyna sitt besta til að halda skútunni á floti. En það þarf meira til en framundan er - svo mikið er víst. Vona að alþingismenn úr öllum flokkum og hreyfingum muni þrýsta á að ráðherraræðinu verði aflétt. Ég finn að það er þannig tónn þarna inni að von er á að slíkt gæti jafnvel átt sér stað.

Ég ætla persónulega ekki að taka þátt í málþófi málþófsins vegna heldur nýta mér hið afburðagóða fyrirspurnakerfi þingskapa.

Birgitta Jónsdóttir, 16.5.2009 kl. 10:20

5 Smámynd: Árni Gunnarsson

Margt ágætt í þessum pistli og kemur ekki á óvart. En ég held að það skili engu að öskra endalaust á Ólaf foseta þegar hann tekur til máls eins og t.d. út af því að hann gerði sig að flóni í útrásaróvitahættinum. Ólafur er á marga lund vitur maður og ræða hans við þingsetninguna var góð ef við gleymum því hver flutti hana.

Ríkisstjórnin er fötluð vegna þessa ESB máls, því miður. Og hún er fötluð líkt og fyrri ríkisstjórnir vegna þess að hún skilur ekki íslenskt samfélag og þá möguleika sem hún á í landfræðilegri einangrun sinni og fámenni. Mér er það með öllu óskiljanlegt að ekki er rætt um aðrar lausnir í atvinnu en einhverjar útópíur þar sem áætlanir stefna á 3-6 eða allt upp í 20 þúsund störf! !! Og enn er rifist um virkjanir og stóriðju þó Landsvirkjun sé komin að gjaldþroti og litlar líkur til að hagvöxtur heimsins öskri á meira ál á næstu árum. 100 200 milljónir í kostnað fyrir hvert starf er auðvitað umræða sem fullt leyfi á að vera til að nefna hinu þekkta orði brjálsemi.

Raunhæfasti pólitíkusinn í kosningaumræðunni var að mínu mati Ástþór sem benti á 100-200 manna sérvalinn hóp úr röðum atvinnulausra til að móta hugmyndir að nýjum störfum í framleiðslu og verðmætasköpun.

Árni Gunnarsson, 16.5.2009 kl. 12:00

6 Smámynd: Árni Gunnarsson

leiðr:...möguleika sem þjóðin á í ......

Árni Gunnarsson, 16.5.2009 kl. 12:02

7 identicon

enn og aftur þá segi eg að Salvör á hrós skilið og talar manna mál !

Bjarni (IP-tala skráð) 18.5.2009 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband