28.4.2009 | 19:25
Reykjavík kreppunnar
Ég hef engan áhuga á þeim útstrikunum sem voru í Reykjavík norður í kosningunum. Ég veit að hvort sem er skipta þær ekki máli. Það er meingallað kosningakerfi sem við búum við og við almenningur höfum svo að segja engin áhrif í gegnum hvernig við greiðum atkvæði.
Tækifæri okkar til að hafa áhrif er gegnum tjáningu og að hafa hátt og að taka þátt í starfi stjórnmálahreyfinga. Við erum að spila í spili þar sem er vitlaust gefið, við fáum bara að vera áhorfendur að fáránlegu matadorspili sem varðar hvernig umhverfi okkar lítur út, hvaða atvinnu við getum stundað og það er jafnvel þannig að mörg okkar neyðast til að yfirgefa heimili okkar og leita að lífsafkomu annars staðar ef íslenskts samfélag getur ekki breyst nógu hratt til móts við þá stöðu sem núna er komin upp.
Ég fer núna um Reykjavík kreppunnar og ég er full vonleysis. Það eru fáránlegar leikreglur í þeim fjármálapóker sem núna er spilaður og ég lifi í samfélagi þar sem einkaeignaréttur er helgasta véð. Samt getur ríkisstjórnin sett lög og tekið yfir banka og búið til einhvers konar skömmtunarkerfi um hvernig reiturnar úr bankakerfinu skuli skiptast.
Á meðan ég horfi á umhverfið í kringum mig breytast í slömm og plastdræsur fjúka hér um allan bæ þá er sagt að sautján þúsund manns séu á atvinnuleysisskrá. Er ekki skynsamlegt að einhver af þessu fólki sé ráðið í vinnu við að halda borginni hreinni? Stærsta atvinnubótavinnan í borginni virðist mér hingað til vera að fyrirhugað er að klára tónlistarhúsið. Mér skilst að langstærstur hluti þeirra sem þar vinna séu erlendir farandverkamenn. Mér skilst líka að þetta hús og sú starfsemi sem í því á að fara fram sé ekki miðuð við Íslendinga, þetta er allt og stórt í sniðum fyrir íslenskt samfélag, þetta sé einhvers konar túristagildra fyrir ráðstefnutúrista og svoleiðis fólk.
Í Sigtúni þar sem ég bý þá breytist staðurinn þar sem áður var gróðurhús og síðar verslunin Blómaval í slömm þar sem í gegnum girðingu má glytta í drasl og niðurníddar bifreiðar
Þessar myndir eru frá mínu nærumhverfi. Það er fáránlegt að ætla að það verði eitthvað byggt á þessum reit á næstu árum og það væri glapræði að lána fé til einhverra þannig framkvæmda. Það myndi bara gera eitt, lækka verð allra annarra fasteigna í Reykjavík. Eina vitið væri að taka lóðir sem þessar í einhvers konar samfélagslega eigu um tíma t.d. gera þar torg eða garða, eitthvað sem styður við umhverfið en eykur ekki við kreppuna sem mun læsa sig dýpra og dýpra um Reykjavík. Það eru nokkur svona rústasvæði um Reykjavík, t.d. upp af Hlemmi þar sem gamla hampiðjuhúsið var, vestur á Mýrargötu, við Höfðatorg og svo í Sigtúni. Allir þessir staðir væru miklu, miklu betur komnir sem græn svæði, ekki óræktartún heldur sem svæði sem skipulögð væri með það í huga að styðja borgarlífið og menningu þar. Öll þessi svæði eru miðsvæðis á byggingarlóðum sem voru dýrar fyrir nokkrum mánuðum en eru nú einhver verðmæti sem ekki eru föst í hendi. Það er tilræði við okkur Reykvíkinga að nota þessar lóðir ekki í þágu samfélagsins.
Það sem ég er hræddust um að gerist er að pressað verði á að byggja á þessum lóðum til að skapa verkefni fyrir byggingariðnað og reynt að fá fé í þetta á þeim forsendum að þarna séu lóðir þar sem líklegt er að fólk vilji búa eða reka rekstur, þetta sé svo miðlægt. Svoleiðis hugsunarháttur kemur til með að magna kreppuna, verðfella annað húsnæði og notað ekki þetta einstæða tækifæri sem aðstæður núna skapa, tækifæri til að búa til torg og garða í Reykjavík, tækifæri til að breyta Reykjavík þannig að hér sé þorpsstemming og sveitaandi. Kannski ættu þessi auðu byggingarsvæði að verða búgarðar, með hestum og kindum og geitum og tilheyrandi?
það væri skemmtileg hugmynd.
Reyndar minnir mig að það hafi átt að vera torg við Höfðatorg
Engar breytingar í RN | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:27 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.