Hverju er verið að leyna? Hvar er fjórða valdið?

Bankahrunið kom mér ekki á óvart. Ég hafði vikurnar áður fylgst með fjármálakerfi heimsins hrynja og það gat ekki annað gerst en íslenskt fjármálakerfi færi líka á hliðina. Það var bara daga- og vikuspursmál. Það kom mér meira á óvart hve lengi íslensk stjórnvöld héldu áfram að blekkja okkur íslensku þjóðina og það kom mér líka á óvart hvernig blekkingar- og spillingarvefur var samtvinnaður og samþræddur um stjórnmál, viðskipti og fjölmiðla. Það var engin viðspyrna hér á Íslandi þann tíma sem undarlega ástand varði. Það kom mér líka á óvart eftir bankahrunið að stjórnvöld héldu áfram að blekkja almenning og leyna ástandinu fyrir okkur. Við vitum ekki ennþá hvernig ástandið er, við vitum ekki hvort og hvað stjórnvöld eru að gera í málinu og við vitum ekkert um hvernig miðar í því sem þó er allra mikilvægast í þessu máli, við vitum ekki hvernig eða hvort er verið að semja um niðurfellingu á þeim skuldum sem hvíla á þjóðinni. Ríkisfjölmiðillinn RÚV  fjallar ekkert um aðalmálið, ekkert um hvað er að gerast en lætur alla umræðuna snúast um hvort einhver Sjálfstæðismannablók fékk einni milljón meira eða minna í prófkjörsstyrki.  Hvers vegna standa fjölmiðlar sig ekki á vaktinni og krefjast þess að fá strax þessi gögn?  

Bankahrunið kom mér ekki á óvart. En viðbrögð breskra stjórnvalda komu mér á óvart og það var versta augnablik Hrunsins þegar ég sá forsætisráðherra Bretlands á sjónvarpsskjánum tala niður til mín og allra Íslendinga og smána okkur í alþjóðasamfélaginu og hóta okkur.  Það var sjokk, það var eins og ég hefði verið ásökuð um einhvern glæp sem ég vissi ekki hver var og hvernig í ósköpunum ég væri orðin bendluð við hryðjuverk.  Ég man ennþá hvernig mér leið og hvað ég hugsaði. Ég man hvað ég fylltist miklum viðbjóði á breska forsætisráðherranum og orðræðu hans, hvernig hann teiknaði mig og mína þjóð upp sem óvini og ég fylltist skelfingu. Ég sá orðræðu hans eins og spunameistaraunnin vef sem væri að teikna upp óvininn, þessi fjölmiðlaumræða væri til að undirbúa seinni tíma árás á Ísland. Ég þakkaði Guði fyrir að Ísland væri í Nató og hugsaði að sennilega væri besta vörnin við það varnarbandalag að þjóðirnar réðust ekki á aðrar þjóðir innan bandalagsins. 

Ég hugsaði líka að svona hlyti upplýstu fólki í Bagdad í Írak  þegar það horfði á orðræðu Bush rétt áður en Írakstríðið hófst. Það hafi fyllst þessum sama viðbjóði og hugsað hve mikið sannleikanum gæti verið hagrætt, hvernig  Bush ráðist á Írak til að leita að einhverjum kjarnorkuvopnum sem aldrei voru þar eða kannski til að tryggja yfirráð yfir olíu, hversu auðvelt yrði ekki fyrir Gordon Brown að réttlæta innrás í Ísland til að leita að einhverjum icesave peningum hérna.

Íslensk stjórnvöld skulda okkur almenningi á Íslandi strax útskýringar á hvað gerðist. Hvers konar kosningar eru það þar sem almenningur fær engar upplýsingar um um hvað er kosið og hvað gerðist á síðasta kjörtímabili? Hvar eru allar þessar þúsundir sem hafa atvinnu sína að því að miðla upplýsingum og eru ríkisstarfsmenn?

Hvers konar upplýsingasamfélag er Ísland?


mbl.is Siv segir atburði ævintýralega
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, vald fjölmiðlanna er mikið og það er alveg ljóst að gagnrýni fjölmiðlanna brást í aðdraganda hrunsins. Í raun má velta fyrir sér hvort fjölmiðlar (eða einstakir fjölmiðlamenn) hafi ekki frekar ýtt undir hrunið með því að stunda eiginhagsmuna-fjölmiðlamensku á kostnað gagnrýnnar umfjöllunar. En hvenær ætli þess verði krafist að fjölmiðlar sæti ábyrgð. Fjölmiðlar hafa gengið hart fram gagnvart stjórnmálamönnum og krafist afsagnar þeirra. Hins vegar hefur aldrei birst frétt um að ákveðinn ritstjóri eða fjölmiðlamaður ætti að sæta ábyrgð vegna slælegra vinnubragða. Enda eru það fjölmiðlarnir sem stjórna umræðunni og að sjálfsögðu treystir enginn stjórnmálamaður sér til að benda á þetta því þá myndi hann kalla yfir sig reiði fjölmiðlanna... og hann fengi vænan skammt af gagnrýnni umfjöllun!

Gissur Jónsson (IP-tala skráð) 24.4.2009 kl. 23:20

2 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Ég sagði það þá og segi það enn: trúlega höfum við ekki ennþá fengið að vita hvað það var í rauninni sem Íslendingar (íslenskir bankamenn?) gerðu sem olli því að Bretar gripu til þess óyndisúrræðis að setja okkur á sakamannabekk. Sumir segja að það hafi verið ímyndar-flipp hjá Gordon Brown. Hver veit? Guð einn náttúrlega - og núna Sif Friðleifsdóttir

Flosi Kristjánsson, 25.4.2009 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband