24.4.2009 | 10:53
Mörgæsir á Austurvelli - Opinn hugbúnaður
"Þegar öllu er á botninn hvolft er traust efnahagsstjórn stærsta velferðarmálið" auglýsti Sjálfstæðisflokkurinn fyrir síðustu kosningar. Núna hefur öllu verið á botninn hvorft og það ætti því ekki að koma á óvart að Mörgæsir komi til Íslands í ár þó þær haldi sig alla jafna á hinum helmingi jarðarinnar. Ég hef áreiðanlegar heimildir fyrir því að Austurvöllur fyllist af mörgæsum þegar líður á daginn. Ein slík lagði út í íslenska vorið héðan frá heimili mínu, hún er að dimmitera með Borgarholtsskóla í dag.
Annars eru mörgæsir táknmynd í tölvuheiminum, táknmynd frjáls hugbúnaðar, táknmynd linux hugbúnaðar. Ég vil benda á handbók um stafrænt frelsi
Á þeim krepputímum og upplausnartímum sem núna ganga yfir þá ættum við öll að skoða opinn og ókeypis hugbúnað. Satt að segja er slíkur hugbúnaður eini raunverulegi kosturinn fyrir þann sem þarf að spara en leggur samt áherslu á nýsköpun.
Það er ekki eingöngu að það sparaðist mikið fé þegar ekki þarf að borga leyfisgjöld af hugbúnaði heldur er miklu auðveldara um vik að breyta hugbúnaði þegar kóðinn er opinn og ekki þarf að standa í miklu og flóknu höfundarréttarvafstri við t.d. að fá að þýða hugbúnað á íslensku.
Árið 1986 var ég námstjóri í tölvufræðum fyrir grunnskóla og framhaldsskóla á Íslandi. Þá var ekkert efni til á íslensku, engin kennsluforrit eða notendaforrit voru íslenskuð. Ég skrifaði þá mörgum erlendum söluaðilum kennsluhugbúnaðar og reyndi að fá leyfi til að þýða tölvuforrit og stafrænt kennsluefni til notkunar í íslenskum skólum en það var annað hvort svo svimandi upphæðir sem beðið var um eða svona litlum markaði eins og Íslandi var ekki sinnt af stórum útgáfufyrirtækjum eða enginn vissi hver átti höfundarréttinn.
Að flytja inn hugbúnað þá var meiriháttar mál, það þurfti að fylla út skýrslur, það þurfti að greiða toll og innflutningsgjöld og sökuskatta og sækja um gjaldeyri og senda greiðslu til seljanda. Svo var hugbúnaður jafnan með einhvers konar læsingum sem áttu að koma í veg fyrir að hann væri ólöglega afritaður. Það þýddi að ef diskettan sem hugbúnaður kom á t.d. kennsluforrit í stærðfræði fyrir krakka eyðilagðist þá var ekki hægt að nota hann neitt meira í kennslu, það var alltaf vitavonlaust að ætla sér að fá nýjar diskettur frá söluaðila erlendis nema fara aftur í stórkostlega skriffinnsku og borga aftur fyrir forritið.
Bara þessi atriði sem ég hef hérna talið upp urðu til þess að íslensk börn og ungmenni höfðu í skólakerfinu ekki aðgang að ýmis konar hugbúnaði sem þegar var kominn í notkun erlendis þrátt fyrir að hér væru skólar og heimili velbúnir varðandi tölvur. Ástæðan fyrir mikilli tölvueign hér var sú að hér var um tíma ekki innfluttningsgjöld af tölvum og voru þær því hlutfallslega ódýrari hér. Bara þessi ráðstöfun að fella niður gjöld af tæknivörum um tíma gerði mikið fyrir íslenskan tölvu- og hugbúnaðariðnað. Reyndar var það svo á þessum árum og er raunar ennþá að hugbúnaður flæddi eftir óformlegum og ólöglegum leiðum, það var gríðarlega mikið um ólöglega afritun á hugbúnaði.
Ef þessi ólöglega afritun hefði ekki átt sér stað þá efast ég um að hæfni ungra Íslendinga sem núna starfa í tölvugeiranum væri eins mikil og hún er í dag. Vonandi er ástandið þannig að núna er sem mest af hugbúnaði í fyrirtækjum á Íslandi löglega fengið og löglega afritað. Það er enginn ástæða til að ætla annað, núna hafa fyrirtæki sem selja hugbúnað mætt breyttum markaðsaðstæðum með að bjóða upp á verð og samninga sem fólk ræður við.
Skólanemendur eiga nú í dag kost á að kaupa stóra og öfluga hugbúnaðarpakka á sérstöku mjög lágu skólaverði og verð til almennings hefur líka lækkað. Þetta gerist kannski að hluta til vegna þess að það þýðir ekki að selja dýrum dómum einhvern hugbúnað sem allir geta hlaðið niður ókeypis af sjóræningjavefjum. En þetta gerist líka vegna samkeppni. Harðasta samkeppni sem séreignarhugbúnaður fær núna er frá opnum hugbúnaði sem dreift er ókeypis, frá stóru samfélagi sem stækkar dag frá degi, frá samvinnufélögum nútímans þar sem fólk vinnur saman að framleiðslunni í stórum samfélögum og fylgir ekki því kerfi verðmyndunar sem við erum allt of föst í að sé hið eina rétta, kerfi sem byggir á hámörkun ágóða og framboði og eftirspurn. Hagfræði opins hugbúnaðar er meira hagfræði þess sem er ókeypis en þarf bara að dreifa, hagfræði þeirrar hugsunar að verðmætið eykst eftir sem af er tekið, verðmæti eykst eftir því sem fleiri taka þátt í samfélaginu og verðmætið er ekki mælt í peningum heldur notagildi.
Á krepputímum eins og núna þá er auðvitað ekkert vit í að borga fyrir það sem maður getur fengið jafngott ókeypis. Þess vegna er stórundarlegt að ekki skuli allir opinberir aðilar vera farnir rakleiðis yfir í opinn og ókeypis hugbúnað, það er eina vitið!
Hér áður þá var röksemdin sú að það þyrfti mikla vinnu við að aðlaga og þjónusta opinn hugbúnað, leyfisgjöldin og kaupverðið væri bara hluti af pakkanum. Það er víst alveg satt en einmitt núna þá er það innlend vinna fyrir innlent tölvu- og tæknifólk, fólk sem fyrir skömmu síðan var önnum kafið við að þjónusta fjármálastofnanir og banka, fólk sem við megum alls ekki við að missa úr landi, fólk með hæfni sem alls staðar er eftirspurn eftir. Við þurfum að stöðva atgervisflótta frá Íslandi og það gerum við ekki best með því að halda áfram að reisa kreppuhallir þar sem flestir sem starfa eru farandverkamenn frá Austur-Evrópu. Það eru því miður mest þannig störf sem tillögur stjórnmálaflokka eins og Samfylkingarinnar ganga út á.
En það hefur líka allt að segja með hvernig aðstöðu við getum boðið þeim ungmennum sem eru að menntast í íslenska skólakerfinu að við verðum fljót að taka upp opinn hugbúnað og opnar lausnir og að við skiljum að það er líka fjárfesting að byggja brýr og reisa virki í hinum stafræna heimi. Staða og möguleikar Íslands í þekkingarsamfélagi nútímans mun ráðast af því hve vel tekst að tileinka sér vinnubrögð við framleiðslu sem er ekki hefðbundin framleiðsla iðnaðarsamfélags heldur framleiðsla þar sem samspil er milli framleiðanda og neytanda og neytandinn býr til sína vöru úr einingum og neytandinn er líka framleiðandi. Þetta erum við að sjá gerast í ýmis konar framleiðslu en þessi þróun byrjar í hinum stafræna heimi.
Núna þegar við göngum til kosninga á morgun þá er gott fyrir okkur að rifja upp orð og efndir forustumanna í stjórnmálum. Slagorð Sjálfstæðisflokksins fyrir síðustu kosningar var "Traust efnahagsstjórn". Sumt af kosningaefni þeirra þá er ennþá aðgengilegt á vefnum. Þannig rakst ég á grein eftir Guðfinnu þinkonu Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík þar sem hún segir m.a. fyrir síðustu kosningar:
"Traust efnahagsstjórn er stærsta velferðarmálið. Forystumenn Sjálfstæðisflokksins skilja vel samspil efnahagslífs, verðmætasköpunar og velferðar. Ef við kjósum þannig að hér verði áframhaldandi traust efnahagsstjórn, getum við staðgreitt velferðina sem er draumur hverrar þjóðar."
Við vitum eftir Hrunið mikla að íslenska þjóðin var ekki að kjósa yfir sig trausta efnahagsstjórn heldur glundroða og blekkingarvef og það sem fylgdi með var ekki draumur hverrar þjóðar heldur martröð hverrar þjóðar. Forustumenn Sjálfstæðisflokksins höfðu engan skilning á efnahagslífi heimsins og þeirri sterku undiröldu sem er búin að vera í marga áratugi, undiröldu sem ryður smán saman burt iðnaðarsamfélagi fjöldaframleiðslu. En í fjörkippum hins vestræna peningahagkerfis iðnaðarsamfélagsins gengur allt á misvíxl, peningar geta flætt óhindrað um lönd og eru bara tölur í peningabólugerðarvélum heimsins sem núna eru eins og sjálfvirk þvottavél sem óvart hefur verið sett grænsápa í og allt flæðir út allt og þvottahúsið fyllist af froðu og vélin er ónýt og allt bendir til að við verðum að taka fram þvottabretti og bala og fara að þvo í höndunum aftur - eða koma okkur upp annarri vél sem við skiljum hvernig virkar og sem við getum gert sjálf við.
Peningar geta flætt óhindrað um lönd en fólkið er fast. Það er fast í einhvers konar ánauð skulda og hafta en það er líka uppflosnað. Uppflosnað á þann hátt að það er ekki lengur sjálfs síns, það er ofurselt einhverjum fjármálakippum, ef verðbréf falla á Wall Street þá lokar verksmiðja á einhverjum stað í heiminum, ef hlutabréf falla þá flyst fyrirtæki milli landa.
Ég er ákafur talsmaður frelsis, frelsis til að láta hugmyndir dafna og blómgast og ég veit að nýsköpun og framþróun verður ekki til nema þar sem við höfum frelsi og svigrúm. En mælikvarði á frelsi og framfarir er ekki hagnaður í ársreikningum einhverra loftbólufyrirtækja sem útrásarvíkingar og bankar þeirra kasta á milli sín og sumar af þeim leikreglum sem pössuðu vel við gamla prent- og iðnaðarsamfélagið eru hroðalega á skjön við það samfélag sem nú er að vaxa upp og er að hluta til í hinum stafrænu rýmum.
Frelsi er líka fólgið í að hafa aðgang að þekkingu og verkfærum og smíðaefni. Í samfélagi þar sem slíkur aðgangur er bundinn við alls konar eignarétt, einkaleyfi og peningagreiðslur þá verður mismunun þegnanna mikil, sumir geta keypt sér aðgang en sumir eru útilokaðir frá aðgangi.
Þannig er sá eignarréttur á stafrænum hlutum sem nú er skilgreindur í lögum mikill fjötur um fót allri framþróun, raunar svo mikið að upp spretta í sífellu önnur samfélög ólöglegrar dreifingar á efni og stór hluti fólks fer ekki að lögum.
Við þurfum á nýrri sýn að halda, við þurfum að skilja að það verðmætadreifingakerfi sem við búum við núna og byggjum samfélag okkar á er ekki að virka og við þurfum að endurskoða helgustu vé þess kerfis. Við þurfum að endurskoða hugmyndir okkar um eignarrétt, sérstaklega eignarrétt á gæðum sem eru þannig að allir hafa hag af því að þau séu nýtt á ákveðinn hátt og eftir ákveðnum reglum. Við verðum að skilja að máltækið "það eyðist sem af er tekið" á við ef við erum að tala um verðmæti sem eru í sjóð sem enginn leggur inn í en allir taka út úr en það á ekki við um sum verðmæti sem verða til í samfélagi manna og framleiðslu og er þess eðlis að þau vaxa og dafna eftir því sem þau eru meira notuð.
Þegar ég var í hagfræðinámi í háskóla Íslands var ljóst að fiskistofnar við Íslandsstrendur voru í mikilli hættu vegna ofveiði. Það var haldið að okkur lesefni eins og varðandi Tragedy of the commons og öðru lesefni okkar sem notað var til að réttlæta að einkaeignarhald á fiskistofnum , ég man ennþá eftir að ein sterkasta röksemdin fyrir að hér á Íslandi þyrfti einkaeignarétt á veiði var saga um álaveiðar við strendur Danmerkur. Núna mörgum áratugum seinna þá er ég sannfærð um að þessi hagfræði og þessi sýn á auðlegð og auðlindir virkar ekki, hún virkar ekki einu sinni varðandi hinar áþreifanlegu auðlindir og hún virkar alls ekki varðandi þær auðlindir sem búnar eru til með samfélaginu sjálfu, þar sem mikilvægast er að almenningurinn og hugsun sem hlúir að almenningnum og heildinni sé sem sterkust.
Traust efnahagsstjórn er ennþá stærsta velferðarmálið. Það er ennþá mikilvægast til langframa að stjórnmálamenn skilji hvernig efnahagslíf og athafnalíf virkar og þeir verða að hafa nógu mikla framsýni til að skynja hvað er að gerast á leikvangi heimsins og hvernig hagsmunum Íslands verður best borgið. En þeir mega ekki vera eins og sú vanhæfa ríkisstjórn sem hér sat að kjötkötlunum og brenndi allt í botn.
Vetrarfærð á Vestfjörðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:34 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.