Eigendur Morgunblaðsins stýra umræðunni rétt fyrir kosningar

Hér í gamla daga þá breyttist Morgunblaðið alltaf nokkrum dögum fyrir kosningar í áróðursmaskínu fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Reyndast breyttust öll fyrirtæki Reykjavíkur í maskínur í þeirri vél og skipum var stefnt að landi svo stýrimenn og skipstjórar Eimskipafélagsins gætu farið á atkvæðaveiðar.  Morgunblaðið fylltist af  lofgreinum  um afreksverk Sjálfstæðismanna og landföðurlega ímynd þeirra vakandi yfir hverju barni og Geir Hallgrímsson var stjarnan og fyrst kom svarta byltingin í Reykjavík þar sem Geir lofaði okkur malbikuðum götum, svo kom græna byltingin sem lofaði okkur útivistarsvæðum sem Sjálfstæðisflokkurinn skilgreindi sem umferðareyjar og slétt slegin tún og svo kom leiftursóknin. Leiftursóknin gegn verðbólgu sem reyndar var ein háðulegasta útreið Sjálfstæðismanna rétt fyrir kosningar og átakanlegt dæmi um að þar á bæ höfðu menn hvorki  innsæi í efnahagsmál né íslensku þjóðarsálina. Leiftursóknin varð hið mesta flopp og var jafnan kallað  leiftursóknin gegn lífskjörum meðal gárunganna.

Það birtust líka í Morgunblaðinu rétt fyrir kosningar stundum neikvæðar auglýsingar, ég held að það séu fyrstu dæmin um slíkt þegar aðför var gerð að Alfreð Þorsteinssyni Framsóknarmanni sem byggði upp Orkkuveitu Reykjavíkur sem öflugt fyrirtæki í eigu borgarbúa. Það væri fróðlegt ef einhver nennti að rifja upp auglýsingarnar sem birtust rétt fyrir kjördag í fyrsta skipti sem Reykjavíkurlistinn bauð fram á sínum tíma. 

Núna síðustu daganna fyrir kosningar tekur Morgunblaðið einnig þátt í kosningunum og tekur afstöðu og en breytist núna ekki  í áróðursvél Sjálfstæðisflokksins heldur frekar svona yfirhilmingarvél þar sem mjög greinilega er forðast amk á mbl.is að hafa einhverjar pólitískar fréttir - einfaldlega vegna þess að öll umræða núna um stjórnmál er Sjálfstæðismönnum mjög í óhag. Núna í dag birtast líka nafnlausar neikvæðar auglýsingar í Morgunblaðinu. Þeim auglýsingum virðist beint gegn Samfylkingunni fyrst og fremst, þær eru í litum Samfylkingarinnar. Orðalagið er eins og runnið undan rifjum harðlínu Sjálfstæðismanna.

Þær litlu fréttir sem koma á mbl.is um stjórnmálin eru meira segja þannig að það er bannað að blogga við þær. Til dæmis er frétt um málgefni Péturs Blöndals þannig, sjá hérna Pétur Blöndal var ræðukóngur Alþingis (tók núna eftir því að það er búið að opna fyrir möguleika til að blogga við þá frétt, svo var ekki í morgun)

Jafnvel svona jákvæð frétt um að Pétur væri að vinna vinnuna sína gæti orðið til þess að einhverjir moggabloggarar rifjuðu upp fjölmiðlaumræðu um Pétur sem er góði hirðirinn í íslenskum fjármálum, maðurinn sem stofnaði Kaupþing og maðurinn sem prédikaði að hér og þar væri fé án hirðis sem þyrfti að raka saman og "láta ávaxta sig". Kannski við ættum nú að rifja upp gamla tíma og gamla slagorðið frá Silla og Valda en það var "Á ávöxtunum skuluð þið þekkja þá". Já við njótum aldeilis ávaxtanna af þeirri stefnu sem Pétur Blöndal  atti okkur út í og sem bróðir minn prédikaði líka yfir öllum landslýð.

Hvers vegna ómaði þessi stefna svona hátt? Við vorum mörg sem vissum alveg að þetta var röng leið og margir reyndu að koma boðum til almennings um það. En það tókst ekki. Boðskapurinn sem Pétur Blöndal bar fram og boðskapurinn sem bróðir minn bar fram passaði vel við hagsmuni fjársterkra aðila og passaði einstaklega vel fyrir þá fjármagnseigendur sem hafa ráðið hinni opinberu umræðu og fjölmiðlun á Íslandi eins langt og ég man.

Margir binda vonir við vefrými og umræðu á Netinu og halda að hún lúti einhverjum öðrum lögmálum, að þar fái fólk að tjá sig og allar raddir hljómi eins. Þannig er það nú ekki, þeir sem hafa yfirráð yfir þeim vefrýmum sem við tjáum okkur í  ráða umræðunni og ráða hvaða raddir þeir magna upp. Morgunblaðið er í eigu Sjálfstæðismanna eins og það hefur alltaf verið. Núna er umræðan líka í þágu Sjálfstæðisflokksins. Núna rétt fyrir kosningar eftir mesta og æðisgengnasta hrun sem verið hefur í vestrænu lýðræðislandi þá notar netútgáfa Morgunblaðsins þá taktík að deyfa umræðu, flytja ekkifréttir um atburði sem koma okkur ekki við og passa að ekkert kastljós falli á Sjálfstæðisflokkinn og engin krufning fari fram á verkum hans undanfarin ár. Þetta kallast þöggun.

Það er vel skiljanlegt og siðlegt að netmiðill sem og aðrir fjölmiðlar geri sitt til að efla siðlega og ábyrga umræðu í fjölmiðlum og umræðan undanfarna mánuði um suma Sjálfstæðismenn hefur gengið út fyrir allan þjófabálk, það hafa verið persónugerðir í einstökum mönnum  orsakir Hrunsins og þeir útmálaðir sem landráðamenn og glæpamenn. Sérstaklega hafa árásir á Guðlaug Þór síðustu daga verið hatrammar og ómanneskulegar og þær árásir hafa verið að miklu leyti órökstuddar dylgjur og rógburður. Við þurfum að hlífa stjórnmálamönnum við þannig umræðu því annars fáum við ekkert af góðu fólki til að taka þátt í stjórnmálum. En við þurfum ekki að hlífa stjórnmálamönnum við að gangast við orðum sínum og gjörðum og við ættum núna að geta rifjað upp stjórnmálasögu undanfarinna ára og séð hana öðruvísi.

Kosningaloforð Sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar "Traust efnahagsstjórn - þegar öllu er á botninn hvolft" eru átakanlegt núna. Það er líka átakanlegt að lesa núna gamlan DV en þar er Pétur Blöndal að halda því fram að illa stadd fólk  á Íslandi svindli á kerfinu. Núna löngu seinna þá held ég að það hafi verið Pétur Blöndal og skoðanabræður hans í stjórnmálum og lífsskoðun sem svindlaði á kerfinu. Eða öllu heldur bjuggu til svindkerfi til að svindla á okkur öllum.

p.s.
Ákvað að stunda sjálfsritskoðun á þessu bloggi og tók út tengingu í gamla forsíðu í DV. Ég sé að það var mjög lágkúruleg skrif hjá mér, ég vil ekki taka þátt í umræðu á þessum nótum. Ég held að við sem bloggum oft um stjórnmál ættum núna síðustu daga fyrir kosningar öll að passa að vanda skrif okkar og vega ekki of nærri fólki. 

 

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband