13.4.2009 | 10:16
Páskaeggjasukk!! það er kominn tími á hreinsunarstarf í borginni!
Núna á tímum hinna miklu uppljóstrana og hinna miklu samsæriskenninga þá skannaði ég bloggheima að morgni annars páskadags. Ég hrökk við þegar ég las fyrirsögnina "Varúð - Páskaeggjasukk" hjá Dr. Gunna á Eyjunni í morgun og hélt að núna ætti að grilla okkur Framsóknarmenn, nú væri aðalhneykslismálið að við í Framsókn hefðum keypt fullt af litlum grænum páskaeggjum sem við ætlum að fela við rætur Esjunnar í páskaeggjaleitinni okkar sem byrjar kl. 13 í dag.
Næstu daga fram að kosningum yrði það svo stóra málið í bloggheimum hver hefði styrkt páskaeggjakaupin, hvort þetta sé ekki grunsamlegt, Framsókn yrði að gera hreint fyrir sínum dyrum og upplýsa um tengsl sín við páskaeggjamafíur heimsins. Svo myndu bloggheimar loga af alls konar samsæriskenningum, hvernig við hefðum augljóslega eitthvað að fela, það mætti sjá á því hvernig við hefðum falið öll páskaeggin og það hefði verið erfitt fyrir krakkana að finna sum.
Svo væri súpan sem hann Einar Skúlason frambjóðandi okkar í 2. sæti ætlar að elda við Esjurætur slegin upp í bloggheimum sem "Ennþá ein móttakan í boði Framsóknar!" og svo djúsí fyrirsagnir eins og "Framsókn býður í súpu og páskaeggjasukk, hikar ekki við að nota útivistarsvæði Reykvíkinga!"
Svo myndi náttúrulega Ólafur fyrrum borgarstjóri Magnússon taka heimta að Óskar Bergsson segði af sér og yfirtaka borgarstjórn og borgarráð með umræðu um málið. Hann myndi kannski byrja svona, við erum á tíma endurnýtingar á öllum sviðum, orð má alveg endurnýta eins og föt : "Þetta er eitthvað sem aldrei hefði komið til greina í minni tíð sem borgarstjóri. Hér er verið að misnota l borgarlandið og Esjuna og ég óska eftir því að fá umræðu um þetta hér því þetta eru það alvarlegir meinbugir á því hvernig yfirstjórn borgarinnar er iðkuð og hvernig framsóknarvæðingin af hálfu núverandi borgarmeirihluta er tíðkuð." Og margir, margir viðtalsþættir yrðu á útvarpi Sögu um málið þar sem Ólafur færi á kostum og lýsti hvernig það að hann hefði selt sannfæringu sína fyrir 600 milljónir til að láta borgina kaupa nokkra ónýta húshjalla væri ekki sukk og bruðl heldur 19. aldar götumynd.
Sem betur fer var Dr Gunni ekkert að slá sig til riddara á að búa til stóra-páskaeggja-sukk-málið og ég fann nú ekkert um páskaegg á hinu feiknaskemmtilega bloggi hans. En ég fann þessa klausu sem vakti mig til umhugsunar:
"Það er ekkert nema göngutúrar og sund þessa dagana. Ég er að skrifa túristahandbók um Rvk og Ísland og þarf stundum að tékka á stöffi. Bókin verða eintómir topp 10 listar um hitt og þetta á Íslandi, t.d. top 10 Reykjavík on foot, sem ég hef verið að rannsaka í. Við eigum fullt af ógeðslega flottum stöðum til að labba í og á meðan veðrið er gott þurfum við ekki að kvarta. Umhverfið, náttúran, er það sem við eigum skuldlaust (ennþá), og m.a.s. innan borgarmarka er allt vaðandi í góðu stöffi.Til dæmis Grótta, það er dúndurflott pleis. Það var háfjara og hægt að rölta út í eyjuna. Neðan við hjallinn og borholuna er umhverfisverkið Kvika eftir Ólöfu Nordal, sem er fótlaug með heitu vatni. Hinn daginn varða Elliðaárdalur með sínu stöffi. Sá græna tjörn sem er þarna, spúkí nokkuð, en krakkahálfvitar voru búnir að tjóna hana með helvítis kroti á klettaveggi. Pappakassi og skór möruðu í hálfu kafi. Nú er lag fyrir allsherjar tiltekt í Rvk. Atvinnulausa fólkið ætti að fara í galla með skrúbb og taka borgina í gegn. Reykjavík hreinasta borg í heimi er takmark sem hægt er að standa við. Ókei, við erum kannski blönk, en það er ekki subbulegt heima hjá okkur, gæti slagorðið verið. Að hugsa sér: Í stað þess að mara í þunglyndi heima hjá sér og blogga um spillinguna í Sjálfsstæðisflokknum (eða eitthvað álíka upplífgandi) væri hægt að vera úti að tína upp rusl. "
Ég er svo innilega sammála Dr. Gunna. Það er kominn tími á hreinsunarstarf í borginni. Og það er eitthvað furðulegt við forgangsröðunina hjá þjóð sem er núna með 17 þúsund manns á atvinnuleysisskrá, flest öll atvinnufyrirtæki meira og minna lömuð eftir kerfishrun og kosningar eru að skella á eftir nokkra daga þar sem við kjósum um hvernig við ætlum að standa að uppbyggingunni ef við eyðum öllu púðrinu í villtar og trylltar samsæriskenningar um innviði Sjálfstæðisflokksins.
Það hefur alltaf verið ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn er í beinna sambandi við stjórnendur og eigendur atvinnufyrirtækja og fjármálamenn heldur en aðrir flokkar, hann er málsvari þeirra og hefur verið í hagsmunagæslu fyrir þessa hópa. Hann hefur verið lengi við völd og spillst á því. Þannig er nú staðan. Hann hefur ekkert að gera í ríkisstjórn á næstunni nema sem fjórða eða fimmta hjól undir vagni. Ég efa ekki að það séu margir þróttmiklir og heiðarlegir Sjálfstæðismenn en Sjálfstæðisflokkurinn þarf hvíld núna.
Það þarf óhefðbundnar lausnir og þar þarf bráðar aðgerðir til að takast á við það kerfishrun sem hér varð á Íslandi og við ættum að ræða það núna. Ekki hvort Sjálfstæðisflokkurinn fékk 60 milljónir frá fyrirtækjum sem núna eru komin í þrot. Það eru smáaurar í samanburði við þann gífurlega efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir núna.
Ég held reyndar að umræðan sé svona hörð og mikil vegna þess að þetta er svo lág tala að fólk skilur hana, við skiljum ekki allar hinar svimandi upphæðirnar sem hafa flotið á milli í gríðarlega miklum spillingarflækjum í gróðærinu mikla, fyrir okkur eru það bara grilljónir. Og við grillum engan fyrir grilljónir. Við grillum bara flokka sem hafa skipti um forustu og viðurkenna fúslega mistök sín og endurgreiða fé sem þeir tóku við á sínum tíma.
Mér finnst að við ættum að virða Sjálfstæðisflokkinn fyrir að ætla að skila peningunum aftur og ræða þetta opinskátt núna. En mikið vildi ég að þeir hefðu beitt sömu aðferðum þegar þeir uppgötvuðu mistök sín varðandi Ólaf fyrrum borgarstjóra Magnússon. Það voru reginmistök að púkka hann upp sem borgarstjóra, mistök sem allir sáu strax nema hugsanlega einhverjir nefndaþyrstir Sjálfstæðismenn og svo auðvitað Vilhjálmur fyrrum borgarstjóri sem lék stórt hlutverk í REI málinu. Sjálfstæðismenn hefðu átt að gera það sama þá í stöðunni eins og núna. Þeir hefðu átt að skila Ólafi fyrrum Magnússyni aftur og þeir hefðu líka átt að skila 600 milljónunum inn í borgarsjóð aftur sem þeir tóku úr borgarsjóði til að kaupa upp Ólaf með húskofaruglinu. Ef mér er ekki tekið að förlast þá eru 600 milljónir hærri tala en 60 milljónir. Það var siðlaust að taka við 60 milljóna styrkjum frá tveimur fyrirtækjum en það var botn í öllu sem siðlaust er að taka mann sem var vegna forsögu sinnar og skapgerðarbresta gersamlega óhæfur að stýra stærstu stofnun á Íslandi og gera hann að borgarstjóra og taka 600 milljónir úr borgarsjóði til að svo mætti vera.
Við skulum gefa Sjálfstæðisflokknum svigrúm til að byggja upp flokkinn og hugsa upp leiðir fyrir atvinnulífið í landinu. Ísland þarf líka á flokki sem talar máli atvinnurekenda að halda og við skulum hlusta á þá rödd líka.
En á meðan við skulum verja tíma okkar frekar í að spá í framtíðina en velta okkur upp úr fortíðinni þá skulum við líka líta í kringum okkur. Ef við lítum í kringum okkur í Reykjavík í dag, núna fyrstu vordagana þegar krókusar og vorblóm blómstra í görðunum þá sjáum við líka að það sem blómstrar fyrst í hinu sameiginlega rými okkar í Reykjavík þegar borgin vaknar til lífsins á vorin er draslið.
Alls staðar hanga plastdræsur í runnum, alls staðar veltur ruslið fram. Þið sem keyrið Ártúnsbrekkuna á hverjum morgni, hafið þið litið í kringum ykkur? Hvernig væri að við borgarbúar, ekki bara atvinnulaust fólk, ekki bara fólk sem fær borgað fyrir að tína rusl, hvernig væri að við tækjum ábyrgðina á okkur sameiginlega að halda þessari borg hreinni, hvernig væri að við sýndum í raun að hreinsunarstarf er hafið á Íslandi og fólk tekur eftir draslinu sem er í kringum það og hlúir að sínu nærumhverfi, ekki eingöngu sínum görðum heldur líka því sameiginlega rými sem er í eigu okkar allra sameiginlega.
Hér er myndaalbúmið mitt Rusl í Reykjavík, ég hef í mörg ár reynt að benda á að við verðum að breyta eitthvað kerfinu, sjá hérna umræðu á spjallþræði á málefnin.com árið 2005.
Rólegt í höfuðborginni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:35 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.