5.4.2009 | 10:48
Scotland Yard og bankar á hryðjuverkaskrá
Ef það stendur til að fá fleiri erlenda sérfræðinga til að rannsaka Hrunið á Íslandi þá í guðsbænum haldið ykkur frá þessum bresku, sérstaklega einhverjum sem hafa tengingu við Scotland Yard. Mér sýnist þeir ekkert hafa lært frá tímum Baskeville hundsins og breska heimsveldið vera löngu hrunið og molnað niður.
En þetta eru nú dáldil meðmæli með íslenska Landsbankanum að Scotland Yard skuli hafa fallið fyrir honum. Ef til vill veitti bankinn alveg sérstaklega góða þjónustu eða tókst vel að blekkja viðskiptavini. Ég held nú að það hljóti að hafa verið vegna þjónustunnar og ég held að þegar rykið sest þá muni menn sjá að netbankarnir íslensku icesave og kaupthing edge voru afar sniðugir og nútímalegir og mættu þörf sem var fyrir hendi á markaðnum. Það hins vegar hefði ekki átt að blekkja stórar opinberar stofnanir að banki skrásettur í smáríki byði upp á meiri ávöxtun á innlánum en aðrir sannbærilegir innlendir hefðbundnir bankar. Sérstaklega ekki vegna þess að það klingdi í mörgum aðvörunarbjöllum lengi, lengi áður en bankarnir féllu. Sennilega hefur það verið gæði þjónustunnar en ekki ágóðavonin sem rak Scotland Yard til að skipta við Landsbankann. Alla vega á ég erfitt með að hafa svo mikla vantrú á bresku leynilögreglunni að þeir hafi ekki séð í gegnum að þeir sem lofa ofurháum vöxtum eru líka að hvetja þig til að taka meiri áhættu. Ef það voru háir vextir sem drógu Scotland yard til að setja fé í íslenska banka þá myndi ég nú ekki treysta þeim til að rannsaka neitt sem tengdist peningum og vissara að sía póstinn til þeirra þannig að það sé ekki mikið af Nígeríugylliboðum. Þeir gætu fallið fyrir slíku.
Það er ekki margt sem gleður Íslendinga í viðureign okkar við Breta en það er nú hægt að brosa út í annað af hrakförum Scotland Yard, leynilögreglu þess ríkis sem beitti hryðjuverkalögum á okkur.
Það var þessi hroðalega meðferð Breta á okkur blásaklausu og bláeygðu Íslendingunum sem rak mig til að taka þátt í öfgasamtökunum "The Icelandic Tea party" og taka þátt í ofstopafullum mótmælaaðgerðum þess öfgahóps en við fleygðum te í höfnina í Reykjavík og játa ég að hafa sjálf fleygt heilum tepoka (melrose) í þessum hefndaraðgerðum gegn Bretum.
Hér er mynd af mér í tehellingu við höfnina í Reykjavík ásamt hinum í The Icelandic Tea party þegar við helltum te í hafið.
Þessar aðstæður eftir hrunið hafa breytt mér úr virðulegri kennslukonu í brjálaðan aktívista sem svífst einskis. Þannig hef ég hellt te í hafið og svo bankaði ég svo fast með sleif á pott við Alþingishúsið í janúarmótmælunum að sleifin brotnaði.
Scotland Yard tapaði á falli Landsbankans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.