Margir vilja í framboð fyrir Framsóknarflokkinn

Það var náttúrulega eftir Mogganum að telja bara upp þrjá efstu á listum okkar Framsóknarmanna. Ég sem verð í fjórða sæti í Reykjavík suður er ekki nefnd á nafn. Ef þetta er ekki þöggun þá veit ég ekki hvað þöggun er. Ég hef farið fram á það við fjölskyldu mína að kalla mig hér eftir þingmannsefniðGrin enda erum við Framsóknarmenn bjartsýn á úrslit kosninganna í vor.

Ég var ánægð með fundinn í dag þar sem kosið var um sæti á listanum, mér finnst sá fundur sýna að það er grasrót og lýðræði í Framsóknarflokknum og það er auðvitað tekist á um sæti. Við í Reykjavík erum feikiánægð með að Sigmundur Davíð sé í fyrsta sæti í Reykjavík norður þannig að það þurfti ekkert að kjósa um það sæti. En fyrsta sætið í Reykjavík suður var eftirsótt. Það voru Vigdís, Hallur og Einar sem sóttust eftir því sæti en forvalsnefnd hafði mælt með Vigdísi. Það var kosið milli þessara þriggja afbragðsmanna og vann Vigdís yfirburðasigur. 

Svo var nú mest tekist á um annað sæti. Þar var stungið upp á  Magnúsi Árna Skúlasyni og Ástu Rut Jónasdóttur. Þau eru nýir liðsmenn í Framsóknarflokknum og hafa áður verið í Sjálfstæðisflokknum. Það er alveg ljóst að straumurinn mun liggja frá Sjálfstæðisflokknum til Framsóknarflokksins. Ég kannast nú við hvorugt þeirra en heyrði af verkum þeirra og vona að þau komi af fullum þunga til starfa með Framsóknarflokknum. Það komu engin mótatkvæði fram um Ástu Rut en Einar Skúlason bauð sig fram á móti Magnúsi enda Einar mikill áhugamaður um lýðræði og lýðræðisleg vinnubrögð og að fólk hefði val. Hann lét það nú ekki aftra sér að hafa áður tapað um fyrsta sætið fyrir Vigdísi.

Eftir töluverðar umræður þá tilkynnti Magnús að hann drægi sig í hlé og átti ég þá von á að Hallur myndi bjóða sig fram í annað sætið svo við gætum kosið milli Halls og Einars. Hallur ákvað hins vegar að gera það ekki. Svo var nú ekki neinn ágreiningur um önnur sæti á listanum og mér sýnist hafa valist gott fólk á listana. Það er hins vegar ljóst að það er mikil endurnýjun.

það má líka nefna að í átta efstu sætum á listum Framsóknarflokksins þá eru fimm konur. Þetta er nú alveg í samræmi við Framsóknarflokkinn, það var nú einkum þetta sem dró mig að þessum flokki. Í Framsóknarflokknum þá fá konur tækifæri til að vaxa upp sem öflugir stjórnmálamenn. Því er ekki þannig varið í Sjálfstæðisflokknum. 

Núna þegar prófkjörsslagurinn er sem hæstur í Sjálfstæðisflokknum, hvað skyldi konum í Sjálfstæðisflokknum finnast um það? Ég get nú varla séð að þær fái að vera með í baráttunni um toppsætin. Meira segja menntamálaráðherrann og varaformaðurinn verður kannski að taka annað sætið í Kraganum og skyggja ekki á  vonarstjörnu ættarveldisins. Mér sýnist konur í Sjálfstæðisflokknum hafa engan séns í völd nema þar sem Framsóknarmenn styðja þær til valda eins og nú er í Reykjavík. Það er nú kannski samt alveg eins hyggilegt fyrir þær að flytja sig bara yfir í Framsóknarflokkinn. 


mbl.is Sigmundur í Reykjavík norður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Leyfi mér að vera fyrstur að brýna þingmannsefnið til góðra verka!

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 20:12

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Takk Carlos, verst að hafa ekki vitað áður af þér sem ræðumanni í dag. Þá hefði ég mætt. Get ég einhvers staðar hlustað á ræðuna?

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.3.2009 kl. 23:46

3 identicon

Nei, hún var ekki tekin upp. Þú verður bara að láta þér nægja bloggtextann.

Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 7.3.2009 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband