12.2.2009 | 05:15
Próf í geldingum og grjóti
Ég hvet alla jarðfræðinga og dýralækna landsins sem ekki hafa vinnu til að sækja um draumaembættið að vera forstjóri fjármálaeftirlitsins. Þetta embætti heyrir undir fjármálaráðuneytið. það þarf háskólapróf og svo þarf "að búa yfir víðtækri þekkingu og starfsreynslu á fjármálamarkaði". Þetta síðasta getur fólk bara túlkað eins og það vill t.d. sagst hafa haft bankareikning sjálft í mörg ár og séð um eigin netbankaviðskipti. Þá skilji maður alveg út á hvað Icesave gengur og hverjar skuldbindingar Íslendinga eru gagnvart því dæmi. Þetta hlýtur að nægja um starfsreynsluna, það eru mörg fordæmi fyrir að svoleiðis starfsreynslu hafi fleytt mönnum langt í íslenskri stjórnsýslu, var t.d. ekki einn prestlærður maður einu sinni dubbaður upp sem útvarpsstjóri og ef ég man rétt þá hafði hann þá starfsreynslu helsta í sambandi við ljósvakamiðla að hann "hlustaði mikið á útvarpið".
Annars er skondið að núna iðar allt af lífi á hinu háa Alþingi, þar eru snarpar umræður og þingmenn tala sig hása um hvaða prófgráður framtíðarseðlabankastjóri eigi að hafa, hvort hann þurfi nokkuð meistarapróf í hagfræði. Hér má minna á að það var algjörlega möglunarlaust hjá Alþingi að samþykkja lög um kennaramenntun þar sem allir leikskólakennarar og grunnskólakennarar hér eftir verða að hafa meistarapróf. það er nú bara gaman að búa í samfélagi sem gerir meiri kröfur til menntunar grunnskólakennara en seðlabankastjóra.
En varðandi embætti forstjóra fjármálaeftirlitsins þá verður að segja að það er alveg out núna að hafa próf í geldingum eins og fyrri fjármálaráðherra. Það er svooooo 2007. Núna eftir hrunið er allt svo steinrunnið í íslensku samfélagi að núna þarf steinafræðinga. Jarðfræðingar hafa núna meiri séns í forstjórastarf FME enda hafa þeir meiri skilning á hamförum og það hjálpar til að skilja í hvaða stöðu Ísland er núna að hafa sérstaklega kynnt sér fyrirbæri eins og möttulstrókinn undir Íslandi og vita að það er þessi möttulstrókur úr iðrum jarðar sem bjó til Ísland, já reyndar líka bjó til þá þau landssvæði sem nú eru kölluð Bandaríkin og Evrópa.
Svo er byltingunni lokið og búsáhöldin eru komin upp í skáp.Henry túlkar þetta listilega í þessari teiknimyndasögu:
Staða forstjóra FME auglýst | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:24 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er svo satt að það er sárt
Flosi Kristjánsson, 12.2.2009 kl. 13:33
Merkilegt hvað menn halda ekki vatni yfir meistaraprófinu. Það gerir ráð fyrir að námsmaðurinn hafi skilað og varið ritgerð í 5 ára löngu námi. Ég hef pappír upp á það að embættispróf mitt í guðfræði jafngildi meistaraprófi, enda varði ég ritgerð sem getur vel talist í meistaraprófsgæðum.
Ég skil ekki þetta snobb fyrir blessuðu M.A., M.S. og M.Ed. og hvað þau nú öll heita. Meðan ég var í námi í Þýskalandi, hefði enginn sem ekki var með að minnsta kosti einfaldan Dr. á undan nafni sínu getað látið sig dreyma um að fá jafn ábyrgðarmikla stöðu og bankastjóra seðlabanka.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 12.2.2009 kl. 16:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.