Dósagerðin árið 1972

Ég vann í Dósagerðinni um tíma þegar ég var í menntaskóla. Mig minnir að það hafi verið haustið 1972, það var auglýst eftir verkafólki á sérstakar aukavaktir milli klukkan fimm og tíu á kvöldin.  Við  konurnar á aukavaktinni hittum ekki dagvinnufólkið og vissum ekkert um það, það fór heim áður við mættum. Þetta voru vondar vinnuaðstæður, einar þær verstu sem ég hef unnið í um daganna. Það var oft nístandi kalt þar sem ég vann en stundum vann ég inn í salnum þar sem dósirnar voru settar saman  en þar var dynjandi hávaði og ekki heyrðist mannsins mál.

Þegar ég vann inn í salnum þá skemmdust öll fötin mín í gneistaflóði, þau brunnu í sundur út af einhvers konar logsuðuvél sem var staðsett við hliðina á mér og ég sneri baki í  og sem gneistaði af og neistarnir  stungu min í bakið og ég var hrædd allan tímann, hrædd um að sá sem stýrði gneistavélinni bak við mig missti stjórn á henni og hrædd um að ég myndi stimpla vitlaust á vélinni sem ég var á, það var einhvers konar dósaloksvél, mig minnir að hún hafi annað hvort gert lítið lok eða límt saman eða formað litlar dósir. Ég var alla vega alltaf hrædd um að stimpla eitthvað vitlaust og missa fingur.

Oftast vann ég þó á einni vél sem staðsett var fyrir framan salinn og við vorum tvær á vélinni. Okkar hlutverk var að fóðra vélina með stórum málmplötum. Vélin skar málminn í nokkrar þynnur og var önnur í að passa þynnurnar þegar þær spýttust úr vélinni, það þurfti að passa að þær færu niður rétt fals, ef það var ekki gert þá spýttust þynnurnar út og böggluðust og skemmdust.

Við kepptumst við alla vaktinni. Eina tilbreytingin var að við skiptumst á,ég var stundum að fóðra vélina á málmplötum og stundum að passa að nýskornar og flugbeittar þynnur færu í rétt hólf. Það var erfitt og það var hættulegt því þegar maður var laga einhverja þynnu þá gat maður átt von á að sá sem var hinum megin á vélinni hefði fóðrað vélina með nýrri málmplötu og það þeyttust að manni fljúgandi nýskornar flugbeittar málmþynnur. Stundum geriðst það og ég slasaðist einu sinni illa og ber ævilangt ör á handlegg eftir málmþynnu sem skaust að mér og lenti djúpt í handleggnum. Ég fór á slysavarðstofuna og mig minnir að það hafi verið saumað.

Ég man ekki eftir að hafa orðið vör við eigendur fyrirtækisins eða starfsfólk á skrifstofu. Nema einu sinni, þá man ég eftir að stúlka sem vann á skrifstofunni og var eitthvað  með launaútreikninga benti mér á að ég ætti rétt samkvæmt samningum á að fá slysakostnað greiddan, ég man ekki núna hver hann var en mig munaði alla vega um það og ég var henni þakklát. 

Svo kom við upphaf hverrar vaktar einhver kall í jakkafötum að okkur á vélinni. Hann talaði aldrei við okkur, hann bara kom í upphafi hverrar vaktar og skrifaði hjá sér einhverjar tölur sem hann las af teljara á vélinni. 

Svo fór hann og við upplifðum okkur alltaf í einhvers konar akkorði og reyndum alltaf að lesa af svipbrigðum kallsins hvort við værum að standa okkur nógu vel og við hömuðumt á vélinni og fóðruðum hana með plötum alla vaktina. Kallinn talaði meira segja ekki við okkur þegar  okkur var sagt  upp. Einn daginn var okkur sagt upp, sagt að það þyrfti ekki aukavakt lengur, við ættum ekki að mæta daginn eftir. Það var skrifstofustúlkan sem kom með þau tíðindi.

Hvers vegna er ég að rifja upp þessa sögu? Kannski af því þetta er eina skiptið sem ég hef unnið í verksmiðju. Fyrir utan vinnu í frystihúsi. Þetta var líka lífsreynsla, verksmiðjan var myndræn og falleg, hún var ekki lí litum, hún var í grátónum, allar þessar silfurlituðu dósir sem runnu eftir færiböndum, allur þessi dynjandi hávaði, hvítt gneistaflugið  og vélarnar og vélaskruðningurinn. Allur þessi hiti og allur þessi kuldi. Hnífbeittar málmþynnur sem spýttust úr dósaskurðarvélinni og ég reyndi að forðast mér undan minna mig alltaf á senu úr vélveruhryllingsmyndum, eins og einhver vopn eða sprengjur eða hnífar sem kastað er að óvininum.

Ég er líka að rifja upp þessa sögu núna vegna þess að ég sé í Dagblaðinu í dag, í greininni "Björgólfur þáði stolnar milljónir úr Landsbankanum", ég sé í þessari grein minnst á Dósagerðina og nú veit ég hver eigandi hennar var á þessum tíma. Í greininni stendur:

"Sem deildarstjóri ábyrgðardeildar Landsbankans hafði Haukur Heiðar um sjö ára skeið, frá 1970 til 1977, dregið að sér rúmar 50 milljónir króna með skjalafalsi. Í flestum tilfellum notaði Haukur Heiðar féð sem hann dró sér til þess að borga ábyrgðarskuldir fyrirtækja Björgólfs Guðmundssonar, Dósagerðarinnar og Bláskóga, eða kom fénu úr landi og inn á bankareikning í Sviss."

 

 

 


mbl.is Erfitt að rannsaka skattaskjól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Guðmundsson

Takk fyrir frásögnina úr dósaverksmiðjunni.

Með kveðju,

Immugmbl

Guðmundur Guðmundsson, 6.2.2009 kl. 19:03

2 Smámynd: Drífa Kristjánsdóttir

Ég vann í Dósaverksmiðjunni sumarið 1964 þá 14 ára.  Ég hef aldrei á æfinni verið í eins erfiðri vinnu alltaf hrædd um að upp kæmist um að ég hafði skrökvað til um aldur sagst vera að verða 16 ára og því yrði mér sagt upp.  Ég þekkti ekkert samstarfsfólkið, vann bara og passaði að fara ekki á salernið því það var bannað, eða svo sögðu stelpurnar sem stundum héngu þar og reyktu.  Hávaðinn hroðalegur og til að lifa af var ég í kappleik við sjálfa mig allan daginn, við að reyna að ná betri afköstum en daginn áður, svo ég yrði ekki brjáluð.

Ég var svo heppin að verksmiðjunni var lokað í hálfan mánuð og gefið sumarfrí en þá fór ég í fiskvinnslu og þótti það alveg æðislegt. 

Að öðru leyti eru allar minningar þínar  sambærilegum mínum og gaman fá þessa upprifjun þína og rifja upp gamla daga. Takk fyrir það

Drífa Kristjánsdóttir, 6.2.2009 kl. 20:29

3 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ég vann í næstu verksmiðju við Dósaverksmiðjuna, Efnagerðinni Val, rúmlega hálft ár í kringum sextán ára aldurinn. Kunningjakona mín vann í dósunum og ég heimsótti hana stundum í kaffitímanum. Hún hamaðist eins og þið. Bílprófsárið mitt vann ég í frystihúsi Ísbjarnarins úti á Granda. Svo á þrítugsaldri vann ég á Saumastofu Karnabæjar.
Mér finnst stórmerkilegt að hafa þessa atvinnureynslu þó hún hafi aldrei þótt merkileg á pappírum.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 6.2.2009 kl. 22:45

4 Smámynd: Jonni

Ég vann í Dósagerðinni sumarið 1982, þá 16 ára gamall. Þetta reyndist vera reynsla sem ég mun aldrei gleyma, á svipuðum nótum sem þið Salvör og Drífa hafið frá að segja. Allt var svo grátt, verkstjórinn (man ekki hvað hann hét) var með whiskípela falda út um alla verksmiðju, gaslyftarinn fyllti verksmiðjuna þessum ógeðslega þef sem mætti manni eins og nálykt þegar maður mætti á morgnana. Það var þarna gamall kall á einni vélinni, tannlaus held ég sem leit á klukkuna sína tvisvar þrisvar sinnum á mínútu ALLAN daginn. Ég komst líka að þessu sama að til þess að missa ekki vitið var eina leiðin að fara í akkorð við sjálfan sig og setja persónulegt met fyrir hádegi. Teljarinn hélt mér lifandi. Ekki gleymi ég heldur eigandanum sem kom þarna stundum á Range Rovernum í teinóttu jakkafötunum til þess að ná í spíttbátinn sem hann geymdi INNI í verksmiðjunni eða eitthvað annað smáræði. Alltaf með risavindil í kjaftinum.

Það var mér líka til lífs að verksmiðjan fór í sumarfrí.

Jonni, 6.2.2009 kl. 23:08

5 Smámynd: Hlédís

Hjálpi mér sá sem vanur er!  Þið lýsið ömurlegri , hættulegri og því ólöglegri aðstæðum og spilltara stjórnunar-liði en ég hefði ímyndað mér - þó væri sagt frá ýmsu um þetta PAKK.

Baráttukveðjur!

Hlédís, 7.2.2009 kl. 00:59

6 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Hlédís: Þessar aðstæður sem er lýst eru fyrir þremur áratugum, það er langt síðan megnið af framleiðslu fluttist úr landi til landa eins og Kína. Þar er fólk hins vegar að vinna við sams konar ömurlegu aðstæður og við vorum að vinna við. Það er mikil ábyrgð okkar að fylgjast með því og leyfa ekki að fólk þurfi að búa við svona vinnuskilyrði.

gaman að heyra allar sögurnar, margir hafa sams konar sögu, líka hvað einn mesti tortúrinn var að reyna að þrauka á yfirmátatilbreytingalausri færibandavinnu í hávaða.

mér fannst alltaf gaman í frystihúsinu, við gátum spjallað en í dósagerðinni var stanslaus hávaði og verkafólkið hafði ekki möguleika að hafa samband hvert við annað.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 7.2.2009 kl. 15:18

7 Smámynd: Hlédís

Ég man lýsingar úr Hampiðjunni og víðar - og auðvitað var einhæfni mikil. En þessi hættulega starfsaðstaða og "Þriðja-heims"-afstaða eigenda og yfirmanna er ógnvænleg - sérlega af því sagan á það til að endurtaka sig! Við erum ekki stikkfrí.

Hlédís, 7.2.2009 kl. 16:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband