"Being black is the least of what I am"

Þegar ég var við nám í Bandaríkjunum þá fylgdist ég með kjöri fegurðardrottningar USA. Það er hörkukeppni allra fylkja og stúlkurnar voru allar ofurkonur, með ótal háskólagráður, langan feril í ýmis konar mannúðarsamtökum og spiluðu á öll hljóðfæri milli himins og jarðar eða iðkuðu aðrar listgreinar og sumar voru fatlaðar en höfðu á yfirnáttúrulegum hæfileikum sigrast á erfiðleikum í lífi sínu. Úr öllum þessum kvennaljóma var ein stúlka valin til að verða fegurðardrottning og brosa gegnum tárin. Hún var svört og það var víst í fyrsta skipti sem svört stúlka hafði orðið fegurðardrottning Bandaríkjanna.

Strax eftir krýninguna þá þyrpust að þessari hæfileikastúlku súgur af fjölmiðlamönnum og spurðu bara að einu. Spurðu hana af því hvernig væri að vera svört og vera orðin fegurðardrottning, hvaða þýðingu það hefði. Stúlkan hæfileikaríka sem hafði sennilega ekki mikið tekið eftir hörundslit sínum út af öllu öðru sem hún hafði verið að fást við um daganna sagði í einlægni " Being black is the least of what I am" og samstundis loguðu fréttavírar um gjörvöll Bandaríkin að þarna væri blökkustúlka að reyna að afneita uppruna sínum.

 Vissulega var hún svört en krýningin dró á einhvern undarlegan hátt fram hörundslit hennar þannig að hún varð allt í einu svarta fegurðardrottningin, ekki fegurðardrottningin sem spilaði á hörpu eða fegurðardrottningin sem barðist fyrir frelsi í heiminum.

Jóhanna okkar hér á Norðurslóðum er hvít eins og snjórinn og fellur inn í táknmynd umhverfisins af Íslandi, landi hinna drifhvítu jökla. Jóhanna er líka lesbía þó það hafi aldrei verið dregið fram sem hluti af hennar opinbera lífi, hún hefur eins og margir aðrir í sviðsljósinu kosið að halda einkalífi sínu aðgreindu frá opinberu lífi. Nú er það svo að þegar fréttin er sögð af nýju ríkisstjórninni hér á Íslandi er sagan sögð af samkynhneigðrum forsætisráðherra og kynjajafnræði í ráðherralistanum.

Það er nú reyndar hvort tveggja ánægjulegt.


mbl.is Sigur kvenna og samkynhneigðra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Voðalega eru allir uppteknir af því að lýsa því að ákveðnar persónur eru annað hvort konur, svartar eða lesbíur.  Mér finnst það ekkert ánægjulegt að vita þetta. Það sem myndi veita mér ánægju er sú vitneskja að manneskjan sem tekur við ákveðnu verkefni muni takast á við það af heilindum og eftir bestu getu.

Um leið vil ég nota tækifærið og óska henni til hamingju með nýja starfið og vona svo sannarlega að henni muni ganga vel.

kveðja Rafn.

Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 16:04

2 identicon

Sæl Salvör,

Forsætisráðherradómur Jóhönnu Sigurðardóttur hefur valdið mér gleði á marga mismunandi vegu.

Sem vinstrisinnuðum Framsóknarmanni, gleðst ég yfir því að vinstri stjórn með stuðningi okkar skuli loksins komin til valda. 

Sem áhugamanni um þjóðfélagsmál finnst mér það frábært að manneskja sem þekkt er af því að vinna af óumdeildum heilindum skuli vera orðin forsætisráðherra, alveg óháð þvi hvort mér hugnist öll stefnumál hennar.

Sem femínista finnst mér það frábært að kona skuli loksins vera komin til hæstu metorða í íslenskum stjórnmálum, og það er óháð því úr hvaða flokki sú kona væri.

Sem homma gleðst ég yfir því að samkynhneigður einstaklingur sem ekki dylur kynhneigð sína skuli vera orðinn forsætisráðherra, og það á Íslandi!

Þessir þættir geta óneitanlega skarast illilega svo að erfitt yrði að gleðjast, t.d. ef um lesbískan fasista væri að ræða.

Það sem kannske vekur mesta athygli er það að á Íslandi eru fréttirnar af samkynhneigð Jóhönnu helst um umfjöllunina í erlendum fjölmiðlum.

Jóhanna hefur aldrei flíkað sínu einkalífi. Hún hefur (að mér vitandi) aldrei notað neitt í sínu einkalífi, hvort sem það er hjónaband, skilnaður, staðfest samvist, barneignir, íbúðarkaup, húsbúnaður og skreytingar eða stórafmæli, til að vekja á sér athygli, komast í viðtal, vinna prófkjör. Þetta gerir það að verkum að hún er trúverðug í því að hafa ekki flíkað kynhneigð sinni - hjá henni er það enginn feluleikur! (Venjulega finnst mér samfélagsábyrgð homma og lesbía í opinberu lífi krefjast þess að þeir séu mjög opinskáir um kynhneigð sína - allavega ef allt annað í lífi þeirra er á almannavörum).

Þetta veldur því, að mínu mati, að fólki á Íslandi finnst heldur óviðurkvæmilegt að fjalla svona um einkalíf Jóhönnu, sem hefur alltaf verið svo prívat. Reyndar er ég sannfærður um að mörgum fyndist ekki við hæfi svona almennt að draga kynhneigð stjórnmálamanna fram í umræðuna, hvort sem það væru fjölmiðlar eða stjórnmálamennirnir sjálfir, en því get ég ekki verið alveg sammála, - svo framarlega sem umræðan snúist ekki um að kynhneigðin geri einhvern óhæfan til að gegna ákveðnum embættum.

Reynir Þór Eggertsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 17:46

3 Smámynd: Björg Árnadóttir

Ég hef nú aldrei skilið hvernig bólfarir fólks geti haft áhrif á getu þess til að sinna störfum sínum. Nema reyndar það hafi atvinnu af bólförum en það er annað mál.

Ég vona að Jóhönnu farnist vel í starfi eins og öllum öðrum einstaklingum, hvernig svo sem þeir kjósa að lifa sínu einkalífi.

Svo vona ég líka að fólk fari almennt að huga meira að bótum á eigin lífi og skipti sér minna af annara lífi. Fer betur á því.

Björg Árnadóttir, 2.2.2009 kl. 22:14

4 identicon

Bólfarir fólks hafa ekki áhrif þar, ekki frekar en kyn eða húðlitur! En allt hefur þetta táknrænt gildi!

Því miður getur táknrænt gildi haft meiri áhrif heldur en raunverulegur  (jákvæður) árangur af starfi einstaklingsins. A.m.k. er enn litið til Margethar Thatcher sem dæmi um konu í forsætisráðherrastóli, þrátt fyrir að árangur hennar stjórnartíðar sé helst langvarandi atvinnuleysi (sem er enn hátt, jafnvel tugir prósenta á svæðum sem hún eyðilagði á sínum tíma), aukinn fjöldi heimilislausra (sem ekki hefur tekist að minnka síðan) og hrun í opinberri þjónustu, sem sést til dæmis vel í dag þegar samgöngukerfi Lundúnaborgar er í molum, eftir að hún lagði (með handafli) niður borgarstjórn stór-Lundúna, af því að Verkamannaflokkurinn náði alltaf meirhluta).

Þannig að skipun/kjör einstaklings úr minnihlutahópi þarf ekki alltaf að boða góða tíma ... en skipunin/kjörið sjálf/t verður í minnum höfð/haft!

Reynir Þór Eggertsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 22:46

5 Smámynd: Anna Ólafsdóttir Björnsson

Mér finnst það ánægjulegt og áhugavert að (nánast) enginn Íslendingur var að pæla í nokkru öðru en persónuleika og hæfni Jóhönnu. Hins vegar er það bara mjög ljúft að kjör hennar skuli, óvænt fyrir okkur flest hér heima, vera svona stór viðburður í réttindabaráttu samkynhneigðra. Setningin sem þú vísar til er flott og sérkennilegt að einhver skuli hafa reynt að hártoga hana. Eins einlæg og hún er og ekki flókin speki.

Anna Ólafsdóttir Björnsson, 2.2.2009 kl. 23:19

6 identicon

Góður pistill hjá þér.  Vonandi getur ungur drengur sem bloggar fyrir norðan lært eitthvað af skrifum þínum. 

H.T. Bjarnason (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 23:20

7 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Anna: Já, Jóhanna er alls ekkert þekkt fyrir einkalíf sitt. Þess vegna getur maður ekki annað kímt þegar hún er allt í einu orðin Jóhanna af Örk í réttindabaráttu samkynhneigðra. En Jóhanna er nú þekkt fyrir þor og þol og það er nú bara gaman að hennar tími sé kominn og heimurinn fagni með henni.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 2.2.2009 kl. 23:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband