10.11.2008 | 09:05
Axarsköft og öxlun ábyrðar hjá Fjármálaeftirlitinu
Það er skrýtið að það batterí í stjórnsýslunni fyrir utan Seðlabankann sem virðist hafa klúðrað einna mestu var svo gert einrátt í yfirstjórn íslensks fjármálalífs. Með neyðarlögunum var Fjármálaeftirlitið sett yfir allt kerfið. Það var einmitt þetta sama fjármálaeftirlit sem heimiliaði Landsbankanum að starfrækja Icesave reikninga gegnum móðurfélagið á Íslandi í stað erlends dótturfélags. Þetta er íslenska útgáfan af öxlun ábyrgðar: "yfir litlu ertu ótrúr, yfir allt skaltu settur".
Nú hefur verið upplýst að fjármálaeftirlitið hefur ekki einu sinni gætt að því að halda ráðherra upplýstum um vandræði. Viðskiptaráðherra hefur sagt í fréttum að hann hafi ekki vitað um vanda Icesave fyrr en seinast í ágúst og það hefur Jónas Fr. Jónsson forstjóri FME einnig staðfest.
Í þessu fróðlega riti Velheppnuð markaðssetning verður martröð heillar þjóðar er eftirfarandi um Fjármálaeftiritið (FME):
Jákvæð þróun sagði FME
Fjármálaeftirlitið (FME) vakti athygli á því í frétt 23. nóvember 2007 að meirihluti innlána bankanna væri í eigu erlendra aðila. Taldi FME þetta jákvæða þróun. Aðeins 7% innlána voru í eigu erlendra aðila árið 2005 og eða alls um 52 milljarðar króna. Í ágúst 2007 var þetta hlutfall, samkvæmt upplýsingum FME, komið upp í 51% og áttu erlendir aðilar 1.080 milljarða króna á innlánsreikningum íslenskra innlánsstofnana.
Guðmundur Jónsson, sviðstjóri á Lánasviði Fjármálaeftirlitsins, sagði þessa þróun jákvæða. Fjármögnun bankanna væri orðin fjölbreyttari og þeir ekki eins háðir alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Það verður þó að hafa í huga að innlán eru ekki algerlega áhættulaus fjármögnun, sagði Guðmundur í áðurnefndri frétt FME en að öðru leyti virðist ekki sem eftirlitið hafi haft miklar áhyggjur af Icesavereikningum eða öðrum innlánsreikningum íslenskra banka í öðrum löndum.
Þetta eru alveg forkastanleg vinnubrögð hjá FME að skipta sér ekki meira af Icesave og átta sig ekki á í tíma hvers konar púðurtunna Icesave reikningarnir væru. Þessir reikningar virðast hafa verið mjög vinsælir á Bretlandi. Það er hins vegar líka forkastanleg vinnubrögð hjá breska fjármálaeftirlitinu að hafa ekki tekið á Icesave og gætt betur hagsmuna breskra innlánseigenda.
Ég hugsa að engin hafi séð fyrir sér umfang fjármálaóveðursins, það var sannkallað hamfaraveður sem velti öllu um koll því sem var lausast bundið. En þær hamfarir leiddu svo til neyðarlaga stjórnvalda á Íslandi og að hryðjuverkalögum var beitt á Íslendinga af breskum yfirvöldum.
Þegar sagan er lesin þá virðist fyrst hafa komið fram gagnrýni á Icesave í Sunday Times í febrúar.
Hvernig á almenningur á Íslandi að geta sætt sig við svona stjórnsýslu?
Af hverju tóku ekki fjármálaeftirlit beggja landa á þessu og vöruðu við og kröfðust aðgerða? Það getur verið að hlutverk Fjármálaeftirlita sé þröngt skilgreint í lögum en ef það er einhver aðili sem hefði átt að hafa eftirlitsskyldu með bönkum þá hlýtur það að vera opinberar fjármálaeftirlitsstofnanir. En FME virðist túlka eftirlitshlutverk einkar frjálslega. Hvað hefur Fjármálaeftirlitið verið að gera undanfarin ár? Hefur FME kóað með fjármálatryllingnum íslenska, tryllingi sem rak sig eins og fjárhættuspil og pýramídaviðskipti?
Ítarefni
Orðið á götunni » FME og Icesave
M5: FME gat ekki komið í veg fyrir Icesave vanda
Icesave á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins? - helgasigrun.blog.is
FME: Upplýsti ekki ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:20 | Facebook
Athugasemdir
Alltaf batnar það.....
Katrín Snæhólm Baldursdóttir, 10.11.2008 kl. 09:57
Til er skófla sem getur mokað þennan flór - hamfarahlaup úr Kötlu
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 17:01
Carlos: ekkert tengt fjármálaeftirliti en ég sá á vefsíðu hjá þér umfjöllun um Alice og benti í kjölfarið nemendum mínum á það umhverfi.
Svo í dag benti einn nemandi mér á SmallBasic sem mér sýnist mjög spennandi.
SJá hérna: http://msdn.microsoft.com/en-us/devlabs/cc950524.aspx
er þetta ekki upplagt verkfæri fyrir forritara framtíðarinnar?
After a year in the making, and with very little fanfare, Microsoft last month launched Small Basic, a free programming language aimed at kids. Unlike Scratch and Alice, tools designed for kids to learn programming in a 'codeless' environment, Small Basic is essentially a small version of the BASIC language.
Sjá hér
http://www.readwriteweb.com/archives/small_basic_teaches_kids_how_t.php
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 10.11.2008 kl. 19:14
Takk fyrir þetta, þetta kallar á bloggfærslu!
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 10.11.2008 kl. 19:45
Ég er ekki sammála þér Salvör um að Icesave-reikningarnir séu aðal vandamálið og þá Fjármálaeftirlitið.
Mér sýnist að sjálf neyðarlögin sé það sem stendur í erlendum lánveitendum.
Það að skipta um kennitölu á heila batteríinu er ekki sérstaklega trúverðugt fyrir okkur. Í því felst auðvitað tilraun til að koma í veg fyrir að þurfa að greiða upp lán bankanna - og hefur þegar verið gert svo sem með stóra lánið sem féll á (gamla) Glitni í byrjun október.
Við fáum auðvitað enga fyrirgreiðslu hjá öðrum þjóðum nema við semjum um greiðslu á þessum skuldum sem bankarnir og fleiri höfðu stofnað til.
Eða viljum við lifa við það að vera þjófsnautar alla okkar tíð?
Það eru Ríkisstjórnin og Seðlabankinnsem eru stóru bófarnir í dæminu - og Fjármálaeftirliðið kóaði með.
Krafan er auðvitað: Burt með allt þetta vanhæfa lið!!
Torfi Kristján Stefánsson, 12.11.2008 kl. 13:28
Neyðarlögin eru mjög mikið inngrip og furðuleg. Ég veit ekki nóg um milliríkjarétt og Evrópurétt til að geta tjáð mig um það. En það er skrýtið að ríki þ.e. sá aðili sem býr til umgjörðina og regluverkið geti á einum degi samþykkt lög sem mismuna viðskiptavinum banka eftir búsetu/þjóðerni.
En ágreiningsmál þjóða á að leysa fyrir dómstólum. Af hverju höfðar ekki einhver erlendur aðili mál á hendur íslenska ríkinu vegna þessara neyðarlaga? Má ekki leysa ágreining um þau eins fyrir dómstólum?
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.11.2008 kl. 13:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.