Að þekkja sinn vitjunartíma

Það eru skiptari skoðanir innan Framsóknarflokksins en innan margra annarra flokka um aðild að Evrópusambandinu.  

Ég hef reyndar verið þeirrrar skoðunar að það væri tímaspursmál hvenær rétt væri fyrir Ísland að sækja um inngöngu. Það væri spurningin að þekkja sinn vitjunartíma. Sá tími væri þegar  Evrópusambandið hefði breytt sjávarútvegsstefnu sinni  og/eða þegar sjávarútvegshagsmunir Íslendinga væru orðnir það litlir að það stæði ekki í vegi fyrir inngöngu. Það taldi ég að gæti gerst t.d. ef fiskveiðikvóti Íslendinga væri allur kominn úr eigu fólks búsetts á Íslandi  t.d. í gegnum fyrirtæki sem ætti fyrirtæki sem ætti fyrirtæki ... o.s.frv. sem væri skráð  Tortola eyju eða í eigu rússneskra auðjöfra eða annarra.

Ég sá ekki fyrir mér þetta ástand sem nú er. Ef til vill er kvóti Íslendinga núna falinn í fyrirtækjum sem óbeint er stýrt frá hinum nýju ríkisbönkum. Ef til vill er mikill hluti af kvóta Íslendinga í einhverjum eignarhaldsfélögum sem í gegnum þéttriðið og kræklótt og ógreinanlegt net eignarhaldsfélaga er í eigu einhverra annarra en aðila sem gera út frá Íslandi. 

Það væri mjög áhugavert núna að fá úttekt á því hver á fiskveiðikvóta Íslendinga. Ennþá áhugaverðara er að komast að því hverjir girnast orkulindir Íslendinga og hvað þeir hafa gert og ætla að reyna að gera til að komast yfir þær. Varðandi fiskveiðikvótann þá fylgist ég sæmilega vel með gömlu bæjarútgerð okkar Reykvíkinga sem núna heitir HB Grandi en  það félag er að stórum hluta í eigu annarra félaga. Svoleiðis er með flest hlutafélög á Íslandi, það er ótrúlega margslungin félög sem fléttast hvert inn í annað. Það nægir líka að eiga ráðandi hlut í félagi til að geta spilað með það eins og sína einkaeign. Einstaka sinnum hefur maður á tilfinningunni að það sé beinlínis verið að búa til félög sem eiga félög sem eiga félög til að villa um fyrir almenningi og breyta þekkingarsamfélaginu í blekkingarsamfélag. 

En alla vega þá hafa málin þróast undanfarið Íslandi mjög í óhag. Bankarnir hafa fallið og Ísland er rúið trausti og ríkissjóður verður að taka á sig miklar skuldir. Það er sennilegt að það hefði hjálpað mikið að hafa evru hérna þegar fárviðrið byrjaði. En svo var ekki og íslenski gjaldmiðillinn er núna rjúkandi rúst.  Hins vegar er mikilvægt að fólk átti sig á því að það er alls ekki svo að lönd innan Evrópusambandsins standi traustum fótum og fjármagn getur alveg sogast á milli staða viðspyrnulaust. Þannig er búist við að fjármagn sogist frá Austurríki. Það er ekki víst að EBE veiti ríkjum sínum neitt skjól í þeim hörmungum sem núna soga fé fram og til baka.  Það munu hugsanlega mörg lönd þurfa að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Sérstaklega eru í hættu lönd sem voru hluti Sovétríkjanna. Til þeirra streymdu lán í gegnum "carry trade" frá Japan en núna eru köll á fjármagn þangað. Einnig er ástandið slæmt í Argentínu og Brasilíu.

Svo er Rússland núna á mikilli rússibanareið, eiginlega er staða þeirra verri en staða Íslendinga var sb. grein í Telegraph en þar stendur "The cost of insuring Russian sovereign debt through credit default swaps (CDS) surged to 1,200 basis points last week, higher than Iceland’s debt before Götterdammerung struck Reykjavik."

Það kann að vera að krónan veiti okkur skjól í augnablikinu ef hagstjórn er rétt framkvæmd núna. En það er um að gera að ræða um EBE og aðild þar. Sérstaklega ef það augljóslega hjálpar ríkjum innan EBE núna að vera þar og í því myntbandalagi. Það er prófsteinn á hvernig EBE stendur hvað gerist í þeim fjármálahremmingum sem nú standa yfir. Ef til vill munu þjóðir eins og Danir og Bretar breyta afstöðu sinni til myntbandalagsins ef þær lenda í meiri erfiðleikum af því að standa utan myntbandalagsins.

Svo var það ágæt hugmynd að leita samkomulags við Norðmenn um að taka upp norsku krónuna. Mér virðist það vera aðgerð sem er miklu fljótlegra að framkvæma en EBE. Það má svo segja að þegar og ef Noregur gengur í EBE þá er örugglega og reyndar óhjákvæmilega komið að því að Íslendingar fari þar inn.

Eftir því sem ég sé þá er ekki hægt að hoppa inn í EBE rétt si svona. Það þarf mikla umræða og þjóðaratkvæðagreiðslu og þá þurfa allir kostir og gallar að koma fram. Höfum við ef til vill meiri samingamöguleika utan sambandsins t.d. við Kína eða Rússland? 

Eitt er þó víst. Það er best að það sé alveg öruggt á hvern veg þjóðaratkvæðagreiðsla fer til að það sé lagt út í það að splundra þjóðareiningu eins og ég held að slík þjóðaratkvæðagreiðsla geri. 

Ég held nú reyndar að það sé óvinnandi vegur að vera með krónuna á floti í ástandi eins og er í heiminum í dag.  


mbl.is Vilja ESB-viðræður strax ásamt upptöku evru
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ég skrifaði lokaritgerð í stjórnmálafræði um Ísland og fiskveiðistefnu ESB. Mér hefur enn ekki tekist að koma auga á hversvegna sjávarútvegsfyrirtækin sem slík ættu að telja hag sinn verri innan ESB en utan. Kannski þú getir sagt mér hvar tjón íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja af aðild ætti að liggja? - Reyndar rakst ég ekki á neitt nema ávinnig fyrirtækjanna sjálfra af aðild.

- Andstaðan hefur snúsist um formlega stjórnun og hver stimplar heildarkvóta Íslands sem, án allra undanþága eða sérreglna vegna sérstöðu íslenskra hafsvæða í samanburði við Norðursjó, myndi byggjast eins og fyrr á  tillögum Hafró og enginn innan ESB fengi kvóta á íslandsmiðum nema ísland.

Kvótar ESB eru ríkjakvótar byggðir á veiðireynslu sem merkir að ríkið fær kvóta á þeim hafsvæðum sem það hefður hefð til. Ríkin sjálf ráða svo alveg hvernig þau skipta sínum kvóta miilli sinna þegna aðeins ef reglurnar byggi á janrétti þegnanna innan ríksins sem fær kvótann. Það getur grundvallast bæði á einfaldri veiðireynslu eða kvóta sem þegar sé hefð fyrir og byggði á veiðireynslu, þ.e. kvótakerfinu.

Helgi Jóhann Hauksson, 27.10.2008 kl. 03:20

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Ekkert svar?

Helgi Jóhann Hauksson, 27.10.2008 kl. 14:29

3 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Var að vinna í dag og svo á borgarafundi í kvöld. Maður verður að hvíla sig á blogginu öðru hverju. En það væri gaman að fá að lesa ritgerðina þína, þetta er mjög aktúelt mál núna.  Svo vill til að þegar ég fór að starfa í Kvennalistanum í gamla daga þá var ég upphaflega mjög hlynnt EBE aðild en svo vorum við þar með leshring um málið og var Ingibjörg Sólrún í forustu og við lásum ýmis gögn m.a. bæklingaröð sem Helgi Skúli Kjartansson hafði tekið saman (mjög góð rit)  og ég sannfærðist um að það væri arfavitlaust á þeim tíma fyrir Íslendinga að fara inn.

Kannski hefur fiskveiðistefna EBE orðið betri, hún var ekki aðgengileg á sínum tíma.  Nú eru hins vegar að verða miklar breytingar á lífríki sjávar t.d. makríll. Myndum við hafa séð hér mörg hundruð skip á makríilveiðum ef við værum innan EBE? Líka eitt - myndum við eitthvað geta hindrað að hingað streymi veiðiskip sem segjast veiða eitt en veiða annað. 

Á borgarafundinum þá sagði Lilja Mósesdóttir að það myndi ekkert hjálpa okkur í mörg ár að ganga í EBE. Það er of mikill halli á fjárlögum og of miklar þjóðarskuldir þannig að við uppfyllum ekki skilyrði um að komast inn í myntbandalagið. 

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 27.10.2008 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband