25.10.2008 | 21:56
Hús hvalfangarans og stuttmyndin Flott tölva
Mótmæli eða skrílslæti. Eða listrænn gjörningur. Ég mætti við Ráðherrabústaðinn í dag.Mér fannst skemmtilegt að vera fyrir framan þetta hús sem er í mínum huga tákngervingur fyrir hvernig stjórnvöld tóku á mesta arðráni sem um getur í Íslandssögunni. Stjórnvöld þökkuðu pent fyrir arðránið og gerðu hús arðræningjans að sínum veislu- og móttökustað. Mesti arðræningi Íslandssögunnar alveg til ársins 2008 var hvalfangarinn á Sólbakka í Önundarfirði sem framdi arðránið árin 1889-1901. Fjármálastarfsemi var stór og mannfrek atvinnugrein á Íslandi árið 2008 en árin sem hvalveiðistöðin starfaði þá var hún stærsta atvinnufyrirtæki á Íslandi, þar störfuðu 200 manns.
Hvalveiðarnar á Vestfjörðum eru blóðugasta arðrán á náttúru Íslands sem um getur, hvölum var útrýmt á mörgum stöðum. Svo þegar hvalfangarinn var búinn að ryksuga upp íslensku hvalamiðin þá pakkaði hann saman og fór að stunda sams konar iðju á öðrum stöðum, fyrst á Austfjörðum og svo annars staðar í heiminum og gaf (reyndar seldi fyrir eina krónu) vini sínum Hannesi Hafstein húsið sitt sem var tekið niður og flutt til Reykjavíkur. Fyrir þetta er honum þakkað.
Hannes Hafstein mun á sinni tíð oft hafa þegið skutl með hvalbátum vinar síns milli staða á Íslandi. Á þeim tíma var skutl í einkaþotum á milli landa ekki algengt.
Dóttir mín vildi ekki koma með mér að Ráðherrabústaðnum, sagðist ekki styðja þessar aðgerðir, þetta væri lýðskrum. Ég held hún hafi rétt fyrir sér að sumu leyti, það eru sumir sem hátt heyrist í núna lýðskrumarar sem eru að reyna að fljúga framan við gæsahóp á oddaflugi og láta sem þeir stýri fluginu.
En mér sýndist fólkið sem saman var komið vera flest alvörugefið fólk sem kallaði á breytingar. Og það sem ég heyrði af samkomunni fór vel fram, ég heyrði Ómar Ragnarsson syngja og ég heyrði Jón Baldvin hrópa á fyrirgefningabeiðni sökudólga. Ég hef reyndar ekki heyrt margar fyrirgefningarbeiðnir ennþá, man ekki eftir neinni nema frá Jóni Trausta á DV og Illugi hefur huggað hann og segir "Þetta er ekki þér að kenna, Jón Trausti!"
Þegar samkomunni var slitið þá hófust skrílslætin. Það voru anarkistar að ég held. Það var fólk með svarta fána og skilti þar sem það bölvaði auðvaldi, bönkum og kapítalisma. Mjög myndrænt og listrænt og svo kveikti fólkið líka elda og hrópaði vígorð. Mér heyrðist það bölva öllu, já ég heyrði ekki betur en það hrópaði í takt "Alla burt". Svo tók ég allt í einu eftir því að einn mótmælenda sem hafði sig mikið í frammi og hrópaði niður auðvaldið var sú sama og ég tók eftir þegar ég var í vikunni stödd í Borgarbókasafninu. Hún var þar að kaupa mjög flotta fartölvu af fyrrum bankamanni. Það var engin krepputölva. Svo tók ég líka eftir að einn anarkistanna er hálfbróðir dóttur minnar.
Hér fyrir ofan er 3. mínútu myndbrot af skrílslátunum. Ég kalla þessa stuttmynd Flott tölva. Tek fram að samkoman áður var alls ekki svona, hún var hins vegar ekki eins myndræn og skrílslætin.
Þögn ráðamanna mótmælt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:31 | Facebook
Athugasemdir
Já þetta er ekki gott ef við ætlum að grafa undan hvort öðru og enda ein í sitthvoru horninu með skoðanir okkar.
við verðum að standa saman.
Reyndar man ég eftir að fólki var gefið leifi að mótmæla hverju sem helst og þótti mér það göfugt, en miðað hvað margir ólíkir hópar komu saman má reikna með mismunandi áheyrslum það þýðir ekki að dæma allann fjöldann fyrir mismun þeirra og fjölbreytileika. Allir fjöldin sem þarna var var með statement og það þíðir ekki að horfa framhjá því, og það er statementið sem gildir. Líka í næstu kosningum.
Við verður að setja egóið og sjálfshyggjuna til hliðar.
Hugsa um framtíðina
Sameinað Ísland.
Stöndum Saman
Johann Trast Palmason, 26.10.2008 kl. 00:38
Ég skil ekki alveg, mega anarkistar ekki hafa efni á góðum tölvum? Mega þau ekki safna sér fyrir nytjatækjum eins og tölvu? Finnst þér tölvur kannski vera lúxustæki í líkingu við leðurklæddar þyrlur? Ég skil ekki.
Kristín í París (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 08:08
nákvæmlega það sem ég var að hugsa kristín og ég er alveg hjartanlega sammála þér Jóhann Þröstur, ef einhverju sinni í sögu landsins við ættum að standa saman þá er það núna:)
Birgitta Jónsdóttir, 26.10.2008 kl. 08:56
Ég hef ekki enn sé frétt um fjölmenn mótmæli fyrir framan ættaróðal Björgúlfsfeðga. Standa þeir með okkur, stöndum við saman?
Á litli Bjögginn peninga eða á hann bara skuldir eins og hann reynir að telja fólki trú um? Ef hann á peninga og flytur þá ekki ALLA heim til Íslands nú þegar á að lýsa hann útlægan skógsmann. Annars stendur hann ekki með okkur og þá er hann á móti okkur, óvinur okkar!Þeir peningar sem þessir Björgúlfsfeðgar eru skráðir fyrir eru okkar peningar. Fríkirkjuvegur 11 er okkar hús. Opnið það strax og gerið það að félagsmiðstöð fyrir fólk sem vill hittast, styðja hvert annað í vandræðum sínum og ræða framtíðina.Vilhelmina af Ugglas, 26.10.2008 kl. 09:14
Kristín í París: Jú, anarkistar mega alveg kaupa dýrar og öflugar tölvur mín vegna og svona tölva (geysiflott flaggskip macintosh, algjört æði - mig langar í svona tölvu) er draumur fyrir alla listsköpun. Mér finnst það bara dáldið fyndið þegar ég uppgötvaði að stúlkan sem var í fararbroddi þarna meða anarkistana og hrópaði hátt slagorð gegn auðvaldinu var sama stúlkan og stóð við hliðina á mér í Borgarbókasafninu nokkrum dögum áður og var að versla sér notaða tölvu af fyrrum bankamanni. Auðvitað geta anarkistar líka verið græjufíklar og svona tölvur eru auðvitað framleiðslutæki listamanna. En þessar tölvur eru líka afsprengi þess kapítaliska eignaréttarvarða skipulags sem er í kringum okkur. Við infokommúnistar, netaktívistarnir, netanarkistar og Commons-istar erum fyrir mörgum árum búin að snúa baki við svoleiðis kerfi.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.10.2008 kl. 10:15
Til útskýringar á hvað ég á við um infokómmunisma eða commons-isma:
Info-communism? Ownership and freedom in the digital economy
Sú hreyfing sem hefur vaxið upp í netheimum síðustu ár og ekki hefur ennþá fengið nafn og er svo sem ekkert sérlega samstillt er andstæða við það kapítalíska peningahagkerfi sem við lifum við hér á Íslandi. Það hefur í mörg ár verið alveg ljóst að peningahagkerfi og lagaumgjörðir sem byggja á fornri skilgreiningu á eignarétti á stafrænum gæðum er kyrkingartök á allri sköpun og framþróun.
Sífellt fleiri svið framleiðslu og dreifingar á vöru og þjónustu líkjast nú meira því umhverfi sem kallaði á opinn hugbúnað og opið aðgengi. Við lifum á tímum remix-sins á öllum sviðum, við lifum ekki á tímum hins einfalda framleiðsluferlis þar sem er framleiðandi - milliliðir - neytandi.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.10.2008 kl. 10:48
Jú Salvör, ég skil og hef verið mjög hlynnt þessum hluta af þínum skrifum, um upplýsingadreifingu o.s.frv. EN, ég er samt ekki sátt við að stúlkan sem hrópar á torgum megi ekki að kaupa tölvu af bankamanni. Því miður erum við öll þrælar peningakerfisins, hvort sem við erum kapítalistar, kommúnistar, anarkistar eða í Framsóknarflokknum. Er ekki einmitt bara fínt að tölvunni "var bjargað" frá bankamanninum og muni nú nýtast betur í réttum höndum?
Kristín í París (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 13:43
Fréttir í íslenskum fjölmiðlum eru takmarkaðar og fólkinu er haldið óvitandi um ástandið.
Seðlabankinn er í raun gjaldþrota og krónan er ekki lengur til.
Þær krónur sem eru í umferð á Íslandi eru ekki meira virði en matardorpeningar.
Mótmæli gegn valdaklíkunni sem orsakaði þetta hrun eru höfð að háði og spotti af ríkisfjölmiðlunum.
Mafíuforinginn Davíð Oddsson situr sem fastast í brunarústunum og gefur út tilskipanir gegnum leppstjórn sína að þegnarnir eigi að snúa bökum saman og halda kjafti.
Margir íslenskir gáfumenn kyssa svipu mafíuforingjans til að tryggja sér salt í grautinn.
Þeir vitna í gríð og erg um að hrunið sé öllum eða engum að kenna og enginn sé sekur um neitt nema þá illmennin Gordon Brown og Darling.
Hinn mikli "Foringi" er óskeikull og hann "varaði við hættunni" en enginn hlustaði á hann.
Íslendingar verða núna að heyja nýja sjálfstæðisbaráttu og endurreisa lýðveldið.
Ef þessi spillta klíka fer ekki frá með góðu, verður að setja á stofn útlagastjórn í einhverju nágrannalandi Íslands og fá aðstoð vinveittra þjóða til að frelsa landið.
Á næstu mánuðum munu þúsundir Íslendinga verða að flýja land vegna efnahagsþrenginga.
Það mun þannig verða nægur liðsafli til að leggja sjálfstæðisbaráttunni lið frá erlendri grund.
Orð Jóns Sigurðssonar á þjóðfundi þann 9. ágúst árið 1851 eiga að vera okkur að leiðarljósi!
"Vér mótmælum allir“
þjóðfundur þann 9. ágúst árið 1851
Sjá slóð; http://is.wikipedia.org/w/index.php?title=V%C3%A9r_m%C3%B3tm%C3%A6lum_allir&oldid=528826
RagnarA (IP-tala skráð) 26.10.2008 kl. 13:55
Kristín í París: Stúlka sem hrópar á torgum má gjarna kaupa tölvu af fyrrum bankamanni. Það er nú bara flott og tímanna tákn. Kannski líka táknrænt fyrir að tími viðskiptanna er á undanhaldi og tími listamanna kominn. Vonandi nýtist tölvan vel.
Það blæs líka nýrri og óræðari merkingu inn í atburð að geta tengt hann öðrum atburði. þann er eins konar töfraraunsæi í mínu daglega lífi og hefur ekki endilega merkingu fyrir neinn nema mig.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 26.10.2008 kl. 23:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.