12.9.2008 | 11:33
Siðlaus ummæli lögreglustjóra um hælisleitendur í Reykjanesbæ
Ég sendi í þessu bloggi stuðningsyfirlýsingu til mótmælafundar fyrir framan lögreglustöðina í Njarðvík kl. 14 í dag
Það getur vel verið að sú aðgerð lögreglu að ráðast á sama tíma inn á sjö staði hælisleitenda hafi verið réttmæt og það eru sennilega einhverjir hælisleitendur sem sigla undir fölsku flaggi. Það eru örugglega einhverjir sem biðja um hæli hérna ekki vegna þess að þeir eru í bráðri lífshættu í heimalandi sínu heldur vegna þess að þeir eru að leita að betri lífskjörum. Það bendir margt til þess að alþjóðlegar reglur um flóttafólk og meðferð hælisleitenda séu notaðar kerfisbundið til að koma fólki milli landa og inn í önnur samfélög, sérstaklega fólki sem er að flýja fátækt eða leita að betri lífskjörum og það getur verið að það þurfi að setja öðruvísi reglur eða hafa strangt eftirlit vegna þessa. En hælisleitendur eru í viðkvæmri aðstöðu og réttleysi þeirra er mikið og það er mikilvægt að Íslendingar fylgist vel með hvað er að gerast og vaki yfir að ekki sé brotin á mannréttindi á þessum hóp.
Ég efa ekki að lögreglan hafði fulla heimild til þessarra aðgerða, það kemur fram í fréttum að lögreglan hafði húsleitarheimild. Það stingur mig hins vegar afar mikið að lesa eftirfarandi upphaf fréttar um málið í Morgunblaðinu:
Undarlega mikið reiðufé
"Það er undarlegt að fólk sem er á framfæri ríkisins skuli á sama tíma vera með jafnmikið af fjármunum á sér" sagði Jóhann R. Benediktsson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, að lokinni mjög umfangsmikilli húsleit á sjö dvalarstöðum hælisleitenda í Reykjanesbæ í gær.
Þessi ummæli sem höfð eru eftir lögreglustjóra sem tekur þátt aðgerð gagnvart fólki í erfiðri stöðu opinberar bullandi fordóma og líka siðleysi hjá lögreglu að ræða opinberlega um og fella sleggjudóma um ákveðna hópa sem lögreglan hefur afskipti af.
Dvalarleyfi á fölskum forsendum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Alveg sammála.
Maður bara gapir yfir framkomu löggunnar.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.9.2008 kl. 12:22
Ég verð víst að viðurkenna að ég er þér ósammála um þetta Salvör. Hælisleitendur mega ekki vinna og því er afar undarlegt að það sé með 1,6 milljónir í íslensku reiðufé. Það bendir ekki til annars en að það hafi aflað sér tekna með einhverjum hætti, sem er ólöglegt.
Það að koma til landsins sem hælisleitandi er nefnilega allt annað en að koma til landsins á öðrum forsendum, því ef þér er svo veitt hæli, hefur þú mun ríkari réttindi en fólk sem kemur hérna á "venjulegu" dvalarleyfi, ef ég hef skilið kerfið rétt.
Því miður er þetta upp til hópa óheiðarlegt fólk sem fer á milli landa og lýgur því til hvaðan það er, hvert það er og af hverju í von um að fá þessa stöðu og í það minnsta að lifa frítt á meðan verið er að komast til botns í þeirra málum. Þau fá meira að segja ríkari þjónustu frá heilbrigðiskerfinu en við, einmitt vegna þess að þau mega ekki afla sér tekna, t.d. ókeypis tannlæknaþjónustu.
Sérstaklega er það grátlegt hvað óheiðarlegi hluti hópsins eyðileggur fyrir þeim sem eru raunverulegir flóttamenn í raunverulegri hættu og raunverulegri neyð.
Ég tek ofan fyrir lögreglunni að fara í þessar aðgerðir. Þær verða til þess að við getum frekar gert vel við fólk sem er í raunverulegri neyð, þegar búið er að grisja í hópi þeirra sem eru að misnota sér kerfið.
Gestur Guðjónsson, 12.9.2008 kl. 12:38
Gestur, lestu betur um hvað gagnrýni mín snýst. Orð þín bera með sér að þú fellur í sömu gryfju og lögreglustjórinn sem ég er að gagnrýna. Það sem er kjarni málsins er að það er ekki hægt að dæma fólk sekt vegna þess að þér finnst það sb. þessi orð þín: "...þetta upp til hópa óheiðarlegt fólk sem fer á milli landa og lýgur því til hvaðan það er, hvert það er og af hverju í von um að fá þessa stöðu og í það minnsta að lifa frítt..." og orð lögreglustjórans sem ég vitna í sem segir "Það er undarlegt að fólk sem er á framfæri ríkisins skuli á sama tíma vera með jafnmikið af fjármunum á sér".
Málið er að í lýðræðisþjóðfélagi þá verður að birta fólki kæru, ákæra það og gefa því kost á málsvörn og dæma í máli til að það teljist sekt. Það að gefa sér fyrirfram að ákveðinn hópur sé einhver óværa á samfélaginu er mjög hættulegt. Það er líka mjög hættulegt ef Ísland er að breytast í lögregluríki sem ásækir fátækasta og umkomulausasta fólkið - vegna gruns um að það búi ekki við nógu mikla eymd.
Ég er ekki að gagnrýna að lögreglan fylgist með hvort flóttamenn séu raunverulegir flóttamenn sem segja rétt frá högum sínum og hlíta landslögum - lögreglunni ber skylda til að rannsaka það og það er barasta í fína lagi. Ég er að gagnrýna orð lögreglustjóra sem bera vott um fordóma gagnvart hópi sem stendur höllum fæti, fordóma sem eiga samhljóman hjá mörgum öðrum sb þín orð. Ég er líka að gagnrýna að lögreglustjóri tjáir sig á þann hátt að hann virðist hafa tekið afstöðu um sekt þess sem hann er að rannsaka - án þess að nokkuð hafi verið ákært í málinu. Er hægt að treysta því að fólk fái réttláta meðferð í réttarkerfi ef vinnubrögðin eru svona?
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.9.2008 kl. 13:27
Já, burtséð frá umræddri aðgerð (sem eg set spurningamerki við) þá eru orð og ummæli lögreglustjóra sjokkerandi. Það er bara einfaldlega ekki við hæfi að lögreglustjóri (eða löggan yfirhöfuð) tali svona. Og honum virðist vera full alvara !
Einhver æsingur í framsetningu hans ... og já, fela í sér hreinræktuð fordómaeinkenni.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.9.2008 kl. 13:46
Salvör, hvað viltu að sé gert við hælisleitendur sem grunaðir eru um ólögleg athæfi... t.a.m. svört vinna eða innbrot? 1,6 milljónir er mikill peningur fyrir einhvern sem er hælisleitandi/flóttamaður. Það eru til mörg dæmi um hælisleitendur sem ljúga til um uppruna sinn og fela allt sem kemur því illa, t.a.m. skilríki og vegabréf. Auðvitað á að taka hart á allri lygi og svikum. Og í þessu tilviki er greinilega rökstuddur grunur á einhverskonar glæpsamlegu athæfi og miðað við umfangið þá er þetta glæpsamlega athæfi skipulagt... sbr. skipulögð glæpastarfsemi...
Hallgrímur Egilsson, 12.9.2008 kl. 13:46
Það er munur á fordómum og ályktunum sem byggja á reynslu og þekkingu. Ég byggi þessi orð mín á þeirri reynslu sem almennt er í þessum "bransa" og passaði mig á því að tengja þau ekki neinum persónum. Stór hluti hælisleitenda eru nefnilega glæpamenn sem fara á milli landa og sækja um hæli. Þetta er almennt vandamál sem er margstaðfest og skjalfest og rætt er opinskátt um í þjóðfélagsumræðu erlendis og við þurfum ekki vera feimin að ræða um það hér.
Lögreglustjórinn segir að það sé undarlegt, í því felst að hann gruni að ekki sé allt með felldu.
Í hverju felst siðleysið að lýsa grun um brot?
Er siðlaust að segja frá því að maður hafi verið tekinn grunaður um ölvun?
Gestur Guðjónsson, 12.9.2008 kl. 14:58
Ég sé að það eru tvö kjarnaatriði sem Salvör finnur að í umfjöllun um aðgerðir lögreglu og mér finnst ástæða til þess að skerpa á þeim, vegna þess að þar eru *kjarnaatriði*, sem ekkert stjórnvald ætti að klikka á:
1. "... bullandi fordóma ... fella sleggjudóma um ákveðna hópa..."
Fordómarnir felast í orðun undrunarinnar, að hælisleitendur (=á opinberri framfærslu) skuli hafa mikið reiðufé. Lesandinn athugi það að þurfi maður að flýja, þá er eins gott að maður geti komið lífsstarfinu fyrir í formi gulls eða peninga. Gerir það flóttamanninn minna réttháan gagnvart þeim sem veita honum hæli, dregur það úr þörfinni til stuðnings? Ég held ekki, því flóttamaður sem horfir á eignir sínar étast upp verður innan skamms jafnillastaddur þeim sem ekki flýr nema með skyrtunni sem hann klæðist flóttadaginn.
Sleggjudómar lögreglunnar eru því þeir að flóttamenn skuli vera blankir við komuna hingað, ella býr eitthvað misjafnt undir. Með þessu verður að spurja, hvort rannsókn lögreglunnar sé jafnvönduð og hún þarf að vera.
2. "... siðleysi hjá lögreglu að ræða opinberlega ... ákveðna hópa ..."
Hér er lögreglan ekki að ræða um ákveðna hópa almennt, heldur tiltekinn hóp fólks sem hún rannsakar. Í því felst siðleysis og brot á jafnræðisreglunni, því lögregla sem stendur undir nafni, *ræðir ekki mál í rannsókn*.
Carlos Ferrer (IP-tala skráð) 12.9.2008 kl. 15:25
Takk fyrir þessa góðu greiningu Carlos, þetta útskýrir betur það sem ég vildi sagt hafa.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.9.2008 kl. 20:47
Hallgrímur: Það á auðvitað ekki að líðast að hælisleitendur stundi svarta vinnu og það eru örugglega hörð viðurlög við því og sjálfsagt að lögreglan hafi eftirlit með því.
Það má nú reyndar spyrja í þessu sambandi hvort ekki séu óhemjuhörð viðurlög við því að atvinnurekendur nýti sér neyð fólks og ráði til sín fólk sem þeir vita að hefur ekki rétt til að vinna hérna. Fyrir mörgum árum þegar rússatogararnir urðu innlygsa hér við land og skipverjarnir komust hvorki lönd né strönd þá fréttist af þvi að verktakar sæktu þá í skipin á morgnana og létu þá púla fyrir sig ólöglega fyrir smánarlaun og skiluðu svo í skipin á kvöldin.
Það er mikið synd að vinna svarta vinnu. Það vita Íslendingar enda dettur engum stoltum síbúa í hug að vinna á svörtu eða borga einhverjum iðnaðarmanni eða verktaka fyrir svarta vinnu. (þetta seinasta var nú bara smáföstudagsgrín )
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.9.2008 kl. 20:55
Gestur: Það byggir ekki á neinni reynslu og þekkingu að kasta fram svona fullyrðingum. Þetta eru sleggjudómar hjá þér. Ég bið þig að athuga að besti prófsteinn á mannréttindavitund okkar er hversu mikil réttindi við viljum fyrir þá sem okkur geðjast ekki að og sem eru ólíkir okkur.
Samlíkingin um grun um ölvun við akstur er mjög illa til fundin hjá þér. Ekki nema þú þekkir eitthvað dæmi um að ráðist sé inn á vini þína eldsnemma morguns af sérsveit lögreglu og gerð húsleit hjá þeim og rauðvínsflöskur í eldhúsinu séu gerðar upptækar og svo úttali lögreglustjórinn sig um það að "það sé undarlegt að þetta pakk eigi vín, það bendi allt til þess að það keyri fullt". Það er ekki samasemmerki milli þess að eiga vín og keyra fullur.
Annars aflar röksemdafærsla þín hér í svarhalanum þér frægðar langt út fyrir Moggabloggið. Hin undarlega eyland kaninkubloggið hefur ljómað upp þín svör, ég skal ekki segja hvort það sé af aðdáun eða öðru....
Sjá hérna:
http://pallih.tumblr.com/post/49878079
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.9.2008 kl. 21:07
Salvör ég er kannski ekki alveg málefnalegur núna, en það er vitað að menn í sjálfstæðisflokknum vilja Jóhann í burtu en af undirmönnunum er hann talinn mjög góður. Þú ræðst hérna hart á hann án þess að vita hvaða forsendur hann hafði til að segja það sem hann sagði, svo ég spyr eru einhver tengsl?
Svo er núna komið í ljós að þarna er fólk sem hafði fullan rétt til að delja og vinna hér á landi vegna Schengen hvað var það að gera með að leyna þeirri staðreynd? Eigum við kannski ekki að skoða hvers vegna fólk vill ekki segja sannleikan?
Einar Þór Strand, 12.9.2008 kl. 21:56
Einar, ég veit ekkert um þann lögreglustjóra sem vitnað er í og veit ekkert um einhver innanhúsmál í Sjálfstæðisflokknum, ég tengist þeim flokki ekkert. Ég met bara ummælin sem höfð eru eftir í Morgunblaðinu. Það má vera að það sé rangt með farið hjá blaðinu, mér finnst þetta ekki góð ummæli hjá lögreglustjóra. Ég veit alla vega að miðað við amerískt réttarkerfi þá myndu svona ummæli skemma fyrir máli þannig að lögreglan þ.e. þeir sem rannsaka málið eru ekki taldir óhlutdrægir. Það er mikilvægt að við borgararnir getum treyst lögreglu til að hafa ekki fyrir fram mótaðar skoðanir og viðhorf til ákveðinna hópa.
Ég held að því miður hafi þessi orð sem höfð eru eftir lögreglustjóra endurspegli viðhorf margra. En það gerir þau ekkert betri.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 12.9.2008 kl. 23:43
Aðgerðir lögreglunnar beindust að þeim sem ljúga til um uppruna, nafn og aðstæður, eru með fölsuð skilríki, segjast ekki hafa skilríki, eyðileggja þau við komuna, svo þau geti búið frítt hér á meðan mál þeirra er í vinnslu.
Asylum shopping er mikið vandamál í flóttamannamálum, þar sem verið er að misnota það góða kerfi sem flóttamannassamningurinn hefur komið á.
Umsækjendur fara á milli landa, sækja um landvist sem flóttamenn, búa þar um hríð á kostnað viðkomandi ríkis, en áður en búið er að úrskurða, draga þeir umsóknina til baka eða flýja land og dúkka upp í næsta landi og sækja aftur um landvist sem flóttamenn og svo koll af kolli.
Til að reyna að stemma stigu við þessu var svokallað Dyflinarsamkomulag II gert, þar sem tekin eru fingraför af hælisleitendum og þau borin saman við gagnagrunn sk. EURODAC til að stytta þetta ferli eins og kostur er.
Á heimasíðu Útlendingastofnunnar er nýjasta ársskýrslan frá 2004. Þar kemur fram að 76 sóttu um hæli og var 63 umsóknum lokið á árinu. 15 umsóknir voru dregnar til baka eða að viðkomandi fór úr landi án þess að draga umsóknina til baka og af þeim 31 sem var synjað voru 10 tilhæfulausar. 17 voru sendir til fyrsta komulands á grundvelli Dyflinarsamnings I og Norðurlandasamningsins.
Af þessum 76 umsóknum fóru aðeins 7 í efnislega afgreiðslu þannig að einungis 10% af þeim sem sóttu um hæli komu til greina sem hugsanlegir flóttamenn. Það verður að kallast mikill minnihluti ekki satt?
Gestur Guðjónsson, 13.9.2008 kl. 00:12
Þetta er þörf umræða, en hafa ber í huga ummæli lögreglustjóra
„Við höfðum rökstuddan grun um að hér væri fólk að reyna að fá dvalarleyfi á fölskum forsendum,“
"Lögreglan lagði hald á vegabréf, persónuskilríki, reiðufé í ýmsum gjaldmiðli að andvirði rúmlega 1,6 milljóna króna."
"Húsleitirnar voru árangursríkar og við fundum mikið af gögnum.“
Ég fæ eiginlega ekki séð neitt athugavert við þetta. Auðvitað er full ástæða til þess að hafa áhyggjur sem þessar. En venjulega liggur úrskurður að baki þegar að húsleit er gerð og fæst hann ekki nema að rökstuddur grunur liggi fyrir.
Þetta er mjög erfiður málaflokkur, en allsstaðar í heiminum þarf að halda úti harðri innflytjendalöggjöf. En ég virði þína skoðun Salvör, þótt við séum ekki sammála um þetta mál.
sandkassi (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 05:55
Þetta er nú bara þannig að veruleikann þekkir lögreglan betur en þú og ég trúi ég. Ættum við ekki að láta hana njóta vafans? Að gera óheppileg ummæli lögreglunnar að aðalmálinu í þessari grein, er vitnisburður um á hvaða plani umræðan er.
Þarna er fólk sem vill ekki gefa upp uppruna sinn, hvað þarf þetta fólk að fela? Hvernig er hægt að ætlast til þess að farsæll endir finnist á vandamálum þess, þegar það neitar allri samvinnu við íslensk yfirvöld? Er ekki full ástæða til rannsaka hagi þessa fólks, þegar finnast hjá því fjármunir sem í fljótu bragði sýnast illa fengnir?
Erum við íslendingar orðnir svo illa forpokaðir, að ekki megi hafa eftir okkur setningu, öðruvísi en hún sé ritskoðuð fyrst? Ég treysti fullkomlega á dómgreind lögreglunnar í þessu máli, svo framarlega sem hún starfi ekki blindandi eftir geðþótta ákvörðunum úr dómsmálaráðuneytinu.
Lögreglan hafði (að eigin sögn) rökstuddan grun, sem réttlætti þessa aðgerð, og hún var tekin að vandlega yfirlögðu ráði (að þeirra sögn) og bar árangur (að þeirra sögn)! Svo hvað er málið?
Sax (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 06:37
Það er hægt að taka undir hvert orð hjá þér Salvör og svo toppar hann Carlos þetta. Það sem Carlos setur fingurinn á hérna í örfáum orðum er akkúrat kjarni málsins. Lögreglan lítur ekki vel út í þessu máli.
En líti lögreglan ekki vel út þá er forstjóri Útlendingastofnunar búinn að sanna, í hvert skipti sem hann opnar munnin, að hann þarf að vistast einhversstaðar annarsstaðr í vinnu. Kjáni sem veður með ósannindi í fjölmiðla, (sem hægt er að sanna með bréfum frá honum sjálfum) er ekki trúverðugur í neinu og alls ekki í svona viðkvæmu starfi..
Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 13.9.2008 kl. 11:46
1.6 milljón á 40 manns eru 40.000 krónur á mann. Þetta fólk lifir á nánast engu. Og það má ætla að þessir peningar séu ekki allir komnir frá svartri vinnu. T.d. ætlaði ég að gefa einum þessara manna pening um daginn - en eflaust hefði hann verið gerður upptækur. Og í annan stað: Þarna er fólk m.a. menntað fólk frá Evrópu, getur ekki verið að það komi með einhvern pening með sér eða fái hann sendann?
Væri lögreglunni ekki nær að ráðast inn í fyrirtæki sem ráða fólk í svarta vinnu? Í stað þess að brjóta upp læstar hurðir eldsnemma að morgni, draga menn fram á nærbuxunum og gramsa í öllum eigum þeirra í leit að peningum sem fengnir eru svart?
Ég held að helmingur fyrirmanna á Íslandi eiga nú frænkur sem hafa farið sem au-pair til Bandaríkjanna og fengið þar sinn "vasapening".
Óháð þessu þá ber þessi aðgerð og umræðan í kringum hana merki hrikalegra fordóma. Sumir fjölmiðlar hafa m.a. farið að reikna út hvað það kostar "okkur" að halda þessu frelsisskerta fólki uppi sem má alls ekki vinna (á nánast engu) - mér finnst þetta svipa til þess að þeir færu að reikna út hvað það kostar "okkur" að halda uppi fötluðum og þroskaheftum uppi - og öðrum hópum sem mega/geta ekki unnið.
Fyrir utan aðgerðina sjálfa. Erum við stolt af því að synja hælisleitendum nánast alltaf? Höfnun 99% umsókna þeirra er einnig merki um bullandi rasisma og er ekki við hæfi í Evrópulandi.
Bryndís (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 12:31
Hugsið ykkur ef það væri umræða á Íslandi á sömu nótum um aðra hópa sem þurfa á aðstoð hins opinbera að halda eða hópa sem grunaðir eru um að skrá sig vitlaust til að fá meiri bætur. Ég var einstæð móðir í mörg ár og hafði þá forgang að barnaheimilisplássi. Þá fengu engir nema námsmenn og einstæðir foreldrar barnaheimilispláss fyrir börnin sín. Það var alveg vitað að það voru nokkrir sem skráðu sig vitlaust t.d. ekki í sambúð til að fá barnaheimilisvist fyrir börnin. Ég man samt aldrei eftir einhverri lögreglurassíu út af því, það mættu ekki hópar lögreglu heim til fólks til að kanna hjúskaparstöðu.
Hugsum okkur að atvinnulaust fólk hlyti þessa meðferð. Það er sterkur grunur um að atvinnulaust fólk taki fengist hendi alls konar íhlaupavinnu og skrái það ekki til að missa ekki atvinnuleysisbætur. Hugsum okkur að sérsveit lögreglu réðist inn á það fólk, gerði eigur þeirra upptækar... vegna þess að það ætti ekki að eiga svona mikið fé.
Það er nú reyndar soldið til að brosa að einn mesti glæpurinn sem lögreglan kom upp um í þessari rassíu virðist hafa verið að einn af hælisleitendum var á fölskum forsendum... hann var löglegur í landinu
hvað honum gekk til að vera hér sem hælisleitandi er skrýtið, kannski var hann að afla sér efniviðar í ritverk eða að njósna um hælisleitendur. Nú eða hann var eitthvað furðulegur og fannst þetta góður kostur að flotta sig þarna á kostnað ríkisins. Reyndar hélt ég að þetta væru hin mestu eymdarkjör sem hælisleitendum er boðið upp á, maður þarf nú kannski að fara að kynna sér þetta, þetta er kannski einhver nú tegund af sparnaðartúrísma núna á krepputíma , að þykjast vera hælisleitandi
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.9.2008 kl. 14:49
Skrýtið... ég fékk "connection reset" meldingu upp á skjáinn hjá mér og síðasta athugasemd sem ég var í miðjum klíðum að skrifa og var gagnrýni á lögregluna datt út. Ég er alltaf dáldið paranoj þegar allt í einu svona gerist og um mig fer hrollur... ég sé fyrir mér eftirlitssamfélag og lögregluríki framtíðarinna.... mun einhvern tíma renna upp sá tími að allt sem við skrifum í svona vefrými sé vaktað af einhverjum bots og ef við notum einhver orð sem ekki má þá sé sambandið við okkur skotið niður. Ég var að tala um að þessi rassía hefði kannski verið glíma við mögulega hryðjuverkamenn þegar tengingin rofnaði en ég nenni ekki að skrifa inn athugasemdina aftur því skammtímaminnið er eins og skammhlaup í internettengingu.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 13.9.2008 kl. 15:20
sæl Salvör –
sorrí langa færslu frá mér, sem ætti kannski heima annars staðar - ég ætla ekki að tjá mig um árásirnar á ólöglegu hælisleitendurna (það er löng og flókin umræða), heldur þakka þér fyrir síðustu færsluna frá þér.
það sem þú segir þar, er nefnilega eitthvað sem við ættum kannski að fara að þora að tala um og rannsaka af alvöru - einmitt v þess að öll umræða um dulið og ört vaxandi eftirlit með hinum almenna borgara er vendilega þögguð niður, og ekki síst af þeim sem vita hvað mest um hvernig þetta eftirlit síeykst og verður markvissara með hverju ári.
það er hins vegar orðið þannig að nánast allir sem opna munninn um þetta Orwellska eftirlit eru ,skotnir' niður - kallaðir ,samsæriskenningasmiðir' og annað í þeim dúr - sem er fyrirtaks aðferð (ekki síst opinberra embættismanna og stóru fjölmiðlanna) til að ,slökkva' á athugasemdum efasemdarmanna.
ég er reyndar þeirrar skoðunar að ,,eftirlitssamfélag og lögregluríki framtíðarinnar", - eins og þú kallar það - sé löngu orðinn reglulegur hluti af lífi okkar.
en þetta er eins og sagan um froskinn í pottinum: eftirlitið eykst svo hægt, og svo ósýnilega, að það er erfitt að festa almennilega hendur á það.
ég skal ekki segja um þetta einstaka dæmi hjá þér, þegar færslan datt út. en bæði Gunnar Grímsson vefsmiður og Elías Davíðsson fyrrv. kerfisfræðingur hafa sagt frá fjölda heimsókna frá -.MIL -vefsíðum, og hvernig vefir þeirra voru óstarfhæfir um tíma. (Gunnar var á þeim tíma að safna uppl. um vélbúnað Echelon, og Elías að rannsaka ódæðisverkin 11. sept. 2001).
líklega væri auðvelt að afreiða Gunnar eða Elías sem sjúklega samsæriskenningasmiði v skoðana sinna - og þannig dæma það sem þeir segja dautt og ómerkt bull. en er það kannski að verða algengari aðferð en við tökum eftir - til þess að þagga niður óþægilegar spurningar?
eru setningarnar ,,ÞETTA er ekki SVARAVERT“ og ,,VIÐ TJÁUM okkur ekki um EINSTÖK mál“ orðnar aðferðir til ritskoðunar?
f. nokkrum árum eyddi ég dálitlum tíma í að rannsaka Echelon, dótturkerfi National Security Agency í BNA. Echelon er í eigu 5 enskumælandi landa, og byrjaði sem ,UKUSA- Agreement' árið 1947, þagar paranoja kalda stríðsins var rétt að fæðast. ég ætla ekki að fara að skrifa hérna einhverjar langar romsur um hv það virkar, enda flestar opinberar upplýsingar um kerfið að skornum skammti eða óáreiðanlegar.
bara minnast á tvennt:
- vangavelturnar hjá þér um ,,bots" (róbota-forrit) sem leita að orðum eru langt frá því að vera paranoid bull. Echelon leitar að og safnar á einn stað milljónum samsettra orða og setninga á örskömmum tíma - það er þó eitt af því fáa sem við vitum með vissu um þetta kerfi, sem hefur risastórar móttökustöðvar í nokkrum löndum (eitt það stærsta er í Menwith Hill í Englandi).
- enginn veit nákvæmlega hverjir hafa aðgang að þessum leitarniðustöðum, það sem er einn helst vitað er að Echelon er einna helst notað til iðnaðarnjósna, þ. e. til að komast að og stela uppl. frá fyrirtækum í samkeppni í stóriðnaði (td Boeing vs Aibus, og alveg örugglega í olíuiðnaðinum).
en ýmislegt er vitað, td sagði í ágætri heimildamynd HistoryChannel frá því hv bandarísk yfirvöld notuðu kerfið til að hlusta á ríkisstjórnarfundi Íraksstjórnar Saddam Hussein.
(þessi heimildamynd er raunar vandlega ritskoðuð með stöðugum réttlætingum á tilurð og notkun Echelon með því að vísa í hversu gagnlegt það er til að þefa upp alþjóðlega hryðjuverkamenn, en það er önnur saga ..)
- þar sem kerfið er frá 1947 upprunalega, er því ólíklegt að ímynda sér að ,,bottar" Echelon séu innbyggðir frá upphafi í helstu leitarvélar netsins?
amk er vitað að engin stafræn fjarskiptatækni er undanskilin þessari sjálfvirku leit, nær yfir öll tæki frá faxtækjum til farsíma. notast líka við raddgreiningu (voice recognition).
það eina sem ég fann nokkurn tíma skrifað um Echelon-kerfið í íslenskum fjölmiðum, eru tvær greinar árið 2000. Önnur í Mbl og hin í DV. Eina ástæðan fyrir birtingu þeirra var að á þeim tíma birti stjórn Evrópusambandsins langa og ítarlega skýslu um kerfið, um leið og ráðamenn nokkurra stærstu Evrópuríkja uppgötvuðu að Echelon er til. Skýrslan lýsir áhyggjum evrópskra yfirvalda um að svona flókið og ósýnilegt batterí sé yfirleitt til – og vakti hvert orð, hverja setningu, hvern fund þeirra sem verða vill. það sem stjórnmálamenn höfðu einna mestar áhyggjur af, var að vita hvorki hverjir eru að hlusta á þá (eða hvenær), né hitt: til hvers uppl. eru notaðar.
En eftir árið 2000, þegar gullfiskaminni fjölmiðlanna hafði um annað að hugsa, var aldrei minnst á UKUSA/Echelon meir. vitræn umræða er ekki í dagblöðum eða sjónvarpi, hún er í gagnvirkum fjölmiðlum.
ég hlýt að spyrja mig: ef svona fullkomið og flókið kerfi hefur vaktað nánast alla jarðarkringluna í hálfa öld, og þar með njósnað um öll helstu iðnríki samtímans skipulega, heldurðu þá virkilega að það sé bara ,,paranoid“ ranghugmynd hjá þér að hægt sé að fylgjast með skrifum á bloggsíðum einstaklinga?
en isl. blaðamenn hafa sannarlega komist að því hvernig hægt er að blokka netið, bæði í Kína og Afganistan.
fyrir nokkrum árum eyddi ég líka, ásamt fleirum, dálitlum tíma í að rannsaka heimildir um Operation Gladio – skipulögð hryðjuverk að undirlagi NATO á hátindi kalda stríðsins. það brást ekki að hvar eða hvenær sem var, var fyrirbærið sem Andreotti, fyrrv. forsætisráðherra Ítalíu, ljóstraði upp um á ítalska þinginu, yfirleitt kallað paranojd samsæriskenning. rugl. ekki svaravert. ekki heldur það sem framleiðendur þriggja þátta sjónvarpsseríunnar á BBC komust að 1992. samt krafðist Evrópuþingið rannsóknar á hryðjuverkum NATO í Evrópu árið 1990.
maður spyr sig: ef þetta var hægt og gert þá, hvað er hægt og gert í dag?
"Every object the individual uses, every transaction they make and almost everywhere they go will create a detailed digital record. This will generate a wealth of information for public security organisations, and create huge opportunities for more effective and productive public security efforts."[http://www.statewatch.org/analyses/the-shape-of-things-to-come.pdf]
þó að til séu grilljónir af geðveikum og paranoid samsæriskenningum í heiminum (ekki síst á netinu), þýðir það ekki að þær séu allar rugl. vegir eftirlits og ritskoðana eru nefnilega ansi oft órannsakanlegir ..
takk f. tímabæra færslu.
Halldór Carlsson (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 21:49
Takk Salvör, en Það er óþarft að taka því sem gefnu að aðgerðir lögreglu séu löglegar í raun er það grundvöllur réttaríkisins að gera ráð fyrir hinu gagnstæða.
Það er í það minnsta afar vafasamt hvernig lögregla telur sig þurfa að matreiða „upplýsingar“ um „uppgötvanir“ sínar í fjölmiðla til að réttlæta aðgerðir sínar. Við svona aðstæður verður að koma á því fyrirkomulag að alltaf sé til staðar einskonar talsmaður og réttargæslumaður hælisleitenda sem hefði aðgang að öllum sömu upplýsingum og lögreglan. Það er líka ótækt að jafn innbyrðis ólíkur hópur og hælisleitendur eru sé stimplaður af stjórnvöldum með þessum hætti.
Menn verða t.d. að athuga það að það eru milljónir mann raunverulega á flótta frá stríðsátökum og afleiðingum stríðsátaka sem við Íslendingar sjálfir hafa átt aðild að í gegnum NATO, t.d. tengd Serbíu og rekstri okkar á Pristina-flugvelli í Kósóvó, tengd Afganistan og rekstri okkar á Kabúl-flugvelli og tengd Írak og Íran.
Helgi Jóhann Hauksson, 13.9.2008 kl. 21:49
Hér eru uppi samsæriskenningar sem miða allar að því að gera aðgerðir lögreglunnar tortryggilegar! Hvað vakti fyrir lögreglunni annað en það sem þeir hafa uppplýst okkur um? Er einhver hér sem getur svarað því?
Er brotið á réttarstöðu þessa fólks? Hvernig? Hefur það engan málsvara! Veit fólk alment um réttarstöðu hælisleitenda? Ég efast um það. Af hverju lætur fólk sig þessi mál varða, aðeins þegar aðgerðir af þessu tagi koma upp?
Lögreglan telur að um tugur manns séu í þessum hópi sem uppfylla ekki skilyrði um stöðu hælisleitenda! Hvað segir það okkur? Voru þessar aðgerðir mishepnaðar? Af hverju eru peningarnir í fórum hópsins orðnir aðalatriðið í málinu? Lögreglan þurfti að samræma aðgerðirnar, það þýddi að allur hópurinn leið fyrir aðgerðirnar. Mátti þeim heiðarlegu ekki standa á sama um, að vera hreinsaðir af öllum grun?
Ég get ekki betur séð en að það birtist ákveðin andúð í garð okkar íslendinga, af þeim viðbrögðum að dæma sem þetta fólk hefur uppi eftir aðgerðirnar. Við erum kölluð öllum illum nöfnum. Það er alveg sama hvort þú sért hvítur, svartur, gulur, grænn brúnn eða blár, þú berð ætíð með þér þjóðernislegar kendir. Mín reynsla af slæmum rasisma, kemur helst frá því fólki sem ég kalla litað.
Það er eðli málsins samkvæmt, að hælisleitendur geri mikið veður út af þessum atburðum, enda kjörið dæmi fyrir þá að minna á sig. Eg lít svo á að viðbrögð þess séu stórlega ýkt, jafnvel úr samhengi við aðgerðirnar. Þeim tekst líka einstaklega vel til að koma við þjóðar (smá) sál okkar með út og upphrópunum.
Þegar íslendingur ferðast erlendis, getur hann með löglegum pappírum ferðast óáreittur, nánast hvert sem er. En til þín Salvör! Ef þú hyggur á búsetu utan landsteinanna, þá skal ég ráðleggja þér eitt! Hafðu alla pappíra í lagi!
Sax (IP-tala skráð) 13.9.2008 kl. 23:49
Það er full ástæða til að vera passlega vænisjúkur gagnvart eftirlitsáráttu yfirvalda, nýleg frumvörp BB á alþingi gefa fulla ástæðu til að vera uggandi......fyrirbyggjandi upplýsingaöflun, handtökur án ástæðu, rýmri hlerunarheimildir.......osvfr...
Haraldur Davíðsson, 13.9.2008 kl. 23:49
Varðandi lögregluna hér þá er ég bara guðslifandi feginn að einhverjir skuli vilja sinna þessu erfiða starfi. Ég lít nú ekki á mig sem rasista, en ég hef bara enga ástæðu til þess að áætla að eitthvað hafi verið óeðlilegt við aðgerðir lögreglu.
Þeir lögreglumenn sem ég hef þekkt í gegnum tíðina hafa verið miklir ágætismenn
sandkassi (IP-tala skráð) 16.9.2008 kl. 02:06
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.