6.6.2008 | 13:25
Hvammsvík - framtíðarútivistarsvæði Reykvíkinga og nærsveita
Nú hefur Orkuveitan auglýst Hvammsvík til sölu en undanskilur jarðhitaréttindi. Eftir því sem ég veit þá er það ekki leyfilegt, ég hélt að jarðhiti væri hlunnindi á jörðinni og að hlunnindi mætti ekki selja eða undanskilja sérstaklega frá jörðum. En hvað veit ég, hið öfluga fyrirtæki Orkuveitan hlýtur að hafa leitað til hers lögfræðinga og ekki veit ég betur en forstjórinn þar sé lögfræðingur. Óskað er eftir tilboðum fyrir lok dags 18. júní.
Ég skrifaði fyrir nokkru bloggið Má selja Hvammsvík án jarðhitaréttinda?
Það má deila um hvort eðlilegt sé að Orkuveitan eigi Hvammsvík, mér hefði þótt eðlilegt að sú jörð heyrði beint undir bReykjavíkurborg og væri í eigu og undir stjórn sama apparats og á Heiðmörk og önnur útivistarsvæði. Það er Skógræktarfélag Reykjavíkur sem hefur umsjón með Heiðmörk. Hugsanlega er þessi söluauglýsing á Hvammsvík til málamynda til að fá fram hversu mikils virði jörðin væri ef hún væri selt í dag.
En ég ætla að vona að það sé ekki ætlunin að selja Hvammsvík til auðmanna sem geta lokað fyrir allt aðgengi almennings að þessari náttúruparadís. Jörð á ægifögrum stað nánast við borgarlandið er fjársjóður Reykvíkinga og miklu meira virði að slík jörð sé í eigu Reykvíkinga en nokkrir gamlir húskofar við Laugaveginn. Þó ég hafi ekki verið sátt við að borgarstjóri spreðaði milljarði af fé borgarbúa til að kaupa upp húskofa þá virði ég núverandi borgarstjóra fyrir að vera umhverfissinna og vilja varðveita menningarminjar. En til hvers á að vernda umhverfið og náttúruna? Á Ísland að vera leikvangur og einkaparadís þeirra sem hafa ógrynni fés milli handa? Á að miða náttúruverndarstefnu á Íslandi við að allt sé sem ósnortnast og flottast fyrir þá sem eiga fé og geta keypt sér aðgang?
Ég hringdi áðan á skrifstofu Skógræktarfélags Reykjavíkur og talaði við framkvæmdastjórann og spurðist fyrir hvað félagið ætlaði að gera varðandi þetta. Ég stóla á að öflug félagssamtök eins og Skógræktarfélagið gæti hagsmuna Reykjavíkinga í þessu máli, það virðist enginn annar ætla að gera það. Ég ætla líka að skrifa bréf til stjórnar félagsins. Best ég skrifi líka borgarstjóra og borgarstjórn um hversu alvarlegt það er ef Hvammsvík fer úr eigu borgarbúa í hendur á einhverjum auðmanni sem vill hafa svæðið fyrir sig og ráða aðgengi almennings þar eða í hendur spákaupmanna sem ætla að búta þetta svæði niður í lóðir eða til aðila sem vilja búa þarna til "country club" að amerískri fyrirmynd.
Hvammsvík getur orðið önnur Heiðmörk, þetta er jörð við bæjarmörkin í Reykjavík og held ég að Kjósarhreppur hljóti þegar tímar líða fram að sameinast öðrum sveitarfélögum og það gæti farið svo að Hvammsvík yrði hluti af Reykjavík og að samgöngur þar yrðu þægilegar og ódýrar fyrir borgarbúa. Fyrir efnalítið fólk og börn er mikilvægt að hafa útivistarparadísir sem næst borginni, helst þannig að þangað sé hægt hjóla eða taka strætó. Hvammsvík hlýtur líka að geta verið afar verðmæt sem útivistarsvæði fyrir börn og svæði til útikennslu fyrir grunnskólana í Reykjavík. Á jörðinni er margs konar gróðurríki og hún nær fjöru til fjalls og þar eru tjarnir og klettar og fjölbreytt landslag og gríðarfallegt.
Það er afar mikil skammsýni að vilja selja þessa jörð úr hendi Reykvíkinga.
Landnúmer Hvamms er 126107 og Hvammsvíkur er 126106 .
Lönd jarðanna Hvamms og Hvammsvíkur liggja á strönd Hvalfjarðar gegnt Ferstiklu og Saurbæ vestan Hvalfjarðar. Landamerki liggja að merkjum við Háls/Neðri Háls til suðurs og vesturs og Hvítaness til austurs. Á Reynivallahálsi liggja merkin á vatnaskilum gegnt Neðri Hálsi og Valdastöðum 1 og II.
Hér eru glefsur um Hvammsvík og Heiðmörk og Esjuhlíðar
Mbl. 25. apríl, 2002 :
Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að jarðirnar Mógilsá og Kollafjörður verði að mestu útivistarsvæði en þær eru um 1000 hektarar að stærð. Þetta svæði er þegar mjög vinsælt enda hefst helsta gönguleiðin upp á Esjuna þar. Skógræktarfélag Reykjavíkur gerði samning við landbúnaðarráðuneytið, sem er eigandi jarðanna, um þessa uppbyggingu og mun hafa umsjón með því verki. "Ljóst er að félagið þarf að leita stuðnings við það verk og er vonast til að hægt verði að fá fyrirtæki og félög til að koma að verkefninu," sagði Vignir. Við Hvammsvík í Kjós er annað svæði sem kallast Hvammsmörk, sem er eign Orkuveitu Reykjavíkur. Þar hefur verið skipulagt skógræktarsvæði, sem félagið hefur umsjón með samkvæmt samningi við orkuveituna. "Í Hvammsmörk höfum við verið að deila út landspildum til félaga og einstaklinga og þar er markmiðið að byggja upp útivistarsvæði, með gönguleiðum, áningarstöðum og annarri aðstöðu."
Ársskýrsla Skógræktarfélags Reykjavíkur 2006:
Framlag borgarinnar í dag er um 22 milljónir kr. til reksturs Heiðmerkur, svæðis sem er 31 km2 að stærð, en til samanburðar er allt byggt svæði borgarinnar, auk allra annarra grænna svæða, um 38 km2 (Austurheiðar ekki meðtaldar). Samkvæmt Gallupkönnun haustið 2004 kom í ljós að Reykvíkingar heimsóttu skóglendi 900 þúsund sinnum á hverju ári. Samkvæmt nýrri Gallupkönnun eru heimsóknir Reykvíkinga í Heiðmörk um 335.000. Ef gert er ráð fyrir að sama hlutfall annarra íbúa
höfuðborgarsvæðisins heimsæki Heiðmörkina eru það um 530.000 heimsóknir á ári.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:02 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Salvör.
Ég vil fyrir hönd Skógræktarfélags Reykjavíkur þakka þér fyrir að reifa þetta mál, fylgja því eftir gagnvart borgaryfirvöldum og brýna Skógræktarfélag Reykjavíkur til dáða.
Í pistli þínum kemur þó fram smávægilegur misskilningur um eignarhald á Heiðmörk sem ég sé ástæðu til að leiðrétta: "Það má deila um hvort eðlilegt sé að Orkuveitan eigi Hvammsvík, mér hefði þótt eðlilegt að sú jörð heyrði beint undir Reykjavíkurborg og væri í eigu og undir stjórn sama apparats og á Heiðmörk og önnur útivistarsvæði."
Hið rétta er, að aðeins þriðjungur Heiðmerker er í beinni eigu Reykjavíkurborgar. Annar þriðjungur, hluti jarðarinnar Vífilsstaðir, er í eigu Garðabæjar. Þriðji þriðjungurinn, jörðin Elliðavatn, er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur. Lögformlega séð væri Orkuveita Reykjavíkur í fullum rétti ef hún hyggðist selja einkaaðilum sinn hluta úr Heiðmörk (þ.e., jörðina Elliðavatn) með sama hætti og hún hyggst gera með Hvammsvík (undanskilja jarðhitaréttindi o.s.frv.).
Eða eins og kom fram í Morgunblaðsgrein formanns Skógræktarfélags Reykjavíkur frá því fyrr í vor:
Með baráttukveðju,
Aðalsteinn Sigurgeirsson, varaformaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.
Aðalsteinn Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 13:58
Takk fyrir upplýsingarnar Aðalsteinn, ég vissi ekki hvernig eignarhaldið er á Heiðmörk. Það er ógnvekjandi að Orkuveitan geti selt Heiðmörk
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 8.6.2008 kl. 20:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.