3.6.2008 | 16:46
Ísbjörn og draumur
Það var sorglegt að ísbjörninn var drepinn. Það var mikið voðaverk. Ég ætla ekki að heimsækja það safn sem í framtíðinni státar af þessum ísbirni uppstoppuðum.
En mér finnst óþægilegt að sjá allar þessar ísbjarnarfréttir. Þær minna mig á draum sem mig dreymdi um miðjan janúar árið 1995. Þá hafði mikið snjóað og móðir mín og fleiri ættingjar voru áhyggjufullir um hvort Hellisheiðin yrði ófær því þau voru á leið norður, ætluðu í jarðarför Huldu frænku minnar á Höllustöðum.
Einum eða tveimur nóttum fyrir jarðarförina dreymdi mig draum þannig að mér fannst ég búa í sjávarþorpi. Þá sé ég að upp úr sjónum á höfninni í þessu þorpi kemur ísbjörn. Ekki svo svona ísbjörn eins og ég sé vanalega í þessum náttúrulífsþáttum, ekki svona kraftmikill og hættulegur ísbjörn með þykkan og hvítan feld heldur meira eins og einhver vera sem skreiðist örmagna á land. Ég man eftir að það fyrsta sem ég hugsaði í draumnum var að koma þyrftir fréttum sem fyrst til fjölmiðla og í draumnum flýti ég mér í símaklefa sem stóð einn sér í þorpinu til að hringja inn fréttaskot til fjölmiðla um ísbjarnarkomuna. Ég man líka eftir að ég var mjög hrædd um að ísbjörninn gæti brotist inn og brotið niður húsið sem ég bjó í, húsið var hrófatildur, sérstaklega útbygging og inngangur sem sneri í átt að sjónum, ég var hrædd um dætur mínar sem mér fannst líka búa í þessu húsi.
Einum eða tveimur dögum eftir að mig dreymdi þennan draum þá féll snjóflóðið í Súðavík þannig að ég tengdi þennan draum við þá atburði. Ég er samt ekki viss um að ég sé búin að finna þorpið í draumnum, ég hugsa alltaf um þennan draum þegar ég er í sjávarþorpi þar sem er símklefi.
Einmana og villtur hvítabjörn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:50 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Salvör.
Það er ekkert sorglegt við það að skjóta ísbjörn. Ísbjörn er stórhættulegt dýr, hverjum þeim sem á vegi þess verður. Það var eiginlega bara gleðilegt að björnin var felldur áður en hann varð einhverjum að fjörtjóni.
Kjartan Eggertsson, 3.6.2008 kl. 19:04
Það var ekkert svívirðilegt við þetta. Snyrtilegt og heiðarlegt dráp. Getur verið að ást á dýravernd sé farin að spegla hatur á mannkyninu?
Alexander (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 00:55
´
Sannast að segja, ef ísbjörninn hefði náðst lifandi, hefði mátt halda honum föngnum í góðu yfirlæti í 2-3 vikur einhversstaðar á afviknum stað, þangað til að búið væri að grafa fyrir góðum íverustað, með vel steyptum veggjum og ísbjarnar-sundlaug ásamt afdrepi fyrir ísbjörninn í Húsdýragarðinum í höfuðborg allra landsmanna. Það hefði orðið mjög ásættanleg lausn, og orðið til að draga fleiri íslenska ferðamenn í Húsdýragarðinn sem er fyrirmyndarstaður fyrir fjölskyldufólk og fleiri Íslendinga á öllum aldri. Svo mælist ég til að skiptum út núverandi umhverfisráðherra fyrir einhvern sem er ekki svona heimsk og fáfróð um þau mál sem hún á að hafa á sinni könnu.
Kær kveðja,
Björn bóndi. ´
Sigurbjörn Friðriksson, 4.6.2008 kl. 01:09
Bara smá inngangur: Var það ekki Holtavörðuheiðin sem þú þurftir að fara yfir? En varðandi Þverárfjallsbangsann, þá sýnist manni að flestir hafi farið á taugum þarna. Það er svo háttur ómenntaðs fólks á lágu menningarstigi að byrja á að ráðast á og drepa það sem það er hrætt við. Hitt er annað mál að það er óþarfi að vera með skítkast í okkar ágæta umhverfisráðherra eins og gert er hér að ofan. Hún á það alls ekki skilið, hennar embættisfærsla hefur verið með öðrum og siðmenntaðri brag en forvera hennar.
Dr. Feelgood (IP-tala skráð) 4.6.2008 kl. 05:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.