16.5.2008 | 00:00
Frásögn um margboðað morð
Hótanir á alltaf að taka alvarlega. Fólk sem hótar framkvæmir oft ekki hótanir sínar, kannski af því það hefur ekki aðstöðu til þess eða hefur mælt fram hótanir í reiði eða augnabliksgeðshræringu. En fólk sem hefur hótað einhverju skemmdarverki eða líkamsárás er miklu líklegra til að framkvæma slíkt heldur en þeir sem aldrei hafa orðað slíkar hótanir.
Það á alltaf að taka alvarlega þegar sinnisveikt fólk leggur fæð á einhverja og grípur til aðgerða. Ég vil hérna segja frá því að árið 1992 þá notaði ég mikið Internetið. Þá var enginn WWW vefur heldur fóru samskiptin fram í gegnum svona tölvupóstlistakerfi sem kallast Usenet. Ég var áskrifandi að nokkrum spjallhópum m.a. spjallhópum ungra vísindamanna. Þá brá svo við að á þessa hópa komu nokkur bréf, það voru alvarlegar ásakanir stærðfræðings, rússneskættaðs vísindamanns á vinnufélaga sína og yfirmenn við háskóla í Kanada, hann sakaði þá um ritstuld og að eigna sér verk hans og ýmis konar óheiðarleg vinnubrögð. Bréfin voru mjög nákvæm og ég man að ég hafði mikla samúð með þessum manni Fabrikant, hann var augsýnilega á barmi örvæntingar og það sem hann sagði af svikamyllu vinnufélaga og ömurlegum starfsaðstæðum sínum virtist vera satt. Ég held að hann hafi póstað þetta á póstlistann vegna þess að honum var sagt upp starfi.
Aðeins einum eða tveimur dögum seinna þá bárust á póstlistann þær fréttir að Valery Fabrikant en það hét þessi vísindamaður væri fjöldamorðingi, hann hefði þann dag verið handtekinn fyrir mörg morð. Fabrikant hafði farið í háskólann með skotvopn og skotið til bana þá sem hann bar þungum sökum í þeim póstum sem birtust á póstlistunum.
Fabrikant er afar truflaður maður og hann situr ennþá í fangelsi fyrir morðin og mun gera það miklu lengur. En sennilega eru ásakanir hans réttar.
Bloggarinn fundinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.