1.5.2008 | 01:23
Móðir mín í kví, kví og faðirinn í frí, frí
Fréttavefur bild.de birti í dag magnaðar vídeómyndir af ódæðismanninum Josef Fritzl þar sem hann ískrar af kátínu í sumarfríi í Tælandi, veltist um á sundskýlunni, flatmagar á ströndinni í sólbaði og lætur innfædda nudda sig og hámar í sig kræsingar á veitingastað. Þetta vídeó væri afar leiðinlegt og venjulegt túristamyndband ef maður vissi ekki að á sama tíma og þessar myndir eru teknar þá hélt brosmildi og káti maðurinn mörgum föngum innilokuðum í neðanjarðardýflissu sinni í smábæ í Austurríki. Þessi vitneskja breytir vídeóinu í hryllingsmynd sem er erfitt að horfa á. Það má sjá þetta vídeó víða, t.d. hér á CNN Austrian incest dad vacationed in Thailand.
Josef Fritzl mun hafa farið einn með vini sínum í þessar Tælandsreisur á sólarstrandirnar, eiginkona hans komst víst ekki með því hún þurfti að vera heima til að passa börnin þrjú sem borin voru út og sett á dyratröppurnar hjá þeim. Þau hjónin nutu aðdáunar í samfélaginu í Amstetten fyrir að taka að sér að annast þrjú barnabörn sín sem móðirin var sögð hafa yfirgefið. Það verður ekki sagt um Josef Fritzl að hann sé mjög skapandi sögumaður,hann sagði alltaf þegar hann bar inn börnin, sömu söguna um móðurina sem hefði yfirgefið barnið og sagt honum að hún gæti ekki annast það,honum datt bara þessi eina saga í hug og hún virkaði eins og í ævintýrunum. Hún virkaði vel þrisvar sinnum við þrjá hvítvoðunga.
En í fjórða skiptið þegar Josef Fritzl reyndi að segja umheiminum þessa útburðarsögu, þessa sögu af mömmunni sem losaði sig við hvert barnið á fætur öðru þá klikkaði sagan. Hún virkar nefnilega bara um hvítvoðinga.Hann sagði þessa sögu þegar hann fór með fársjúka 19 ára dóttur fangans og sín sjálfs á spítala. Kannski hefur konan hans trúað sögunni en það gerðu ekki læknarnir á spítalanum. Það er nefnilega afar, afar einkennilegt og grunsamlegt að mæður skilji fárveikt börnin sín eftir á dyratröppum.
Móðir mín í kví, kví
Hér myndband frá youtube með tónlist frá Seth Sharp and the Black Clock.
Seth var íslenskunemandi og hreifst af tilfinningunni í þessum söng. Ef til vill er þessi söngur og texti svona töfrandi vegna þess að hann segir fleiri sögur en söguna af barninu sem borið var út. Kannski er þetta líka lygasaga, móðirin var ekkert að fara að dansa, hún var lokuð inni.
Svona er textinn:
Móðir mín í kví, kví
kvíddu ekki því, því
ég skal lána þér duluna mína
að dansa í.
Annað magnað útburðarkvæði er frá þjóðskáldinu Davíð Stefánssyni:
Útburðurinn
Ég fæddist um niðdimma nótt.
Minn naflastreng klerkurinn skar,
og kirkjunnar rammasta rún
var rist á þann svip, er hann bar.
Ég grét undir hempunni hans,
uns háls minn var snúinn úr lið.
Ég er barnið, sem borið var út,
sem var bannfært í móðurkvið.Í brjósti mér leyndist þó líf,
er lagður í skaflinn ég var,
og gusturinn hvæsti og kvað
og kvein mín til himnanna bar.
öll blíða og barnslund mín hvarf,
og brjóst mitt varð nístandi kalt.
Ég er barnið sem borið var út,
sem bað, - en var synjað um allt.Og vindurinn vældi yfir mér
í vertarins skammdegishöll.
úr klaka var hvíla mín gerð,
en klæði mín saumuð úr mjöll.
Og veturinn kyssti mig kalt
og kenndi mér útburðardans.
Ég kneyfði kynnginnar mjöð
úr klakabikarnum hans.Í vetrarins helköldu höll
ég hertist og dafnaði vel.
Ég nærðist við nornanna brjóst,
og nú er ég blár sem hel.
Í vindinum væli ég hátt
og vek hina sofandi þjóð.
Hugur minnn brennur af hefnd,
og hjartað - þyrstir í blóð.Ég sé gegnum sorta og nótt,
og sjái ég einhvern á ferð,
þá skelf ég af hatri og heift
og hamslaus af þorstanum verð.
Ég væli og villi honum sýn,
sem vargur á bráð mína stekk.
Ég bít hann á barkann og hlæ
og blóð hans við þorstanum drekk.Og sælt er að sjúga það blóð,
er sauð við nautnanna bál,
í brjósti hins bölvaða manns,
sem bannfærði óskírða sál,
sem barnið sitt bar út í skafl
til að bjarga tign sinni og kjól,
sem glitrar við altari guðs
í geislum frá lyginnar sól.Ég var laufsproti á lífsins eik,
sem lygarinn burtu hjó.
Ég var gneisti af eldi guðs,
sem var grafinn í ís og snjó.
Ég var svanur, en heiðingjans hönd
dró hálsinn minn hvíta úr lið.
Ég er barnið sem borið var út,
sem var bannfært í móðurkvið.
Þjóðskáldið Einar Benediktson orti aldrei útburðarkvæði um barn Sólborgar en hann svaf með ullarband um hálsinn. Einar Benediksson er grafinn í Þjóðargrafreitnum á Þingvöllum. Um hann var skrifuð ævisaga í mörgum bindum. Stúlkan Sólborg er draugur í Draugasetrinu á Stokkseyri. Á vefsetri þess undir kaflanum Skottur á Norðausturlandi segir svo um Sólborgu:
"Sólborg var ólánsstúlka í Norður Þingeyjarsýslu sem fyrirfór sér eftir að hafa átt barn í blóðskömm. Fylgdi skáldinu Einari Ben."
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:49 | Facebook
Athugasemdir
Ákaflega áhrifamikið kvæði ort af snillingi. Hafðu þökk fyrir birtinguna, það mætti vera meira í þessum dúr hér á moggablogginu. Kærar þakkir.
Jóhann Hannó Jóhannsson, 1.5.2008 kl. 09:07
takk fyrir bloggin þín um þetta mál.
halkatla, 1.5.2008 kl. 14:26
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.