7 ára bloggafmæli

Moggabloggið er tveggja ára í dag. Fyrsti apríl er bloggdagur Íslands því svo vill til að það er einmitt bloggafmæli mitt. Ég byrjaði að blogga á mínu einkabloggi  1. apríl 2001.

Ég held upp á bloggafmælið mitt á Thorvaldssen í Austurstræti í kvöld. Allir velkomnir í partíið. 

Fyrsta bloggið mitt var Álitsgjafar Íslands

 Það er svona:

Álitsgjafar Íslands

Í helgarblaði DV í gær var ein opna sem bar yfirskriftina: Álitsgjafar Íslands - fólkið sem segir okkur hvað er rétt og hvað er rangt og hvað okkur finnst. Þarna voru myndir og nöfn á 31 karlmanni og einni konu og svo smávegis texti um álitsgjafargetu hvers og eins. Mér finnst gaman að skoða myndir og ég skoðaði þessar vandlega, sá að ég kannaðist ekki við neinn nema þá sem voru með mér í skóla í gamla daga eða eru eitthvað skyldir mér. Hef reyndar áður séð þessa einu konu, hún heitir Sigrún og hennar framlag sem álitsgjafi er að sögn blaðsins það að armæðast yfir fjarveru kvenna í fjölmiðlum og ástæðum þess. Mér finnst næsta ótrúlegt að allt þetta fólk sem ég þekki lítið sem ekkert til og fylgist ekkert með hvað er að gera hafi áhrif á hvað mér finnst um hlutina.

Fjölmiðlar um fjölmiðla um fjölmiðla...

Reyndar virðist mér að í þessum hóp séu annars vegar þáttastjórnendur á hefðbundnum fjölmiðlum sem láta móðan mása um hvað þeim finnst um hitt og þetta og svo menn sem í krafti þess starfs sem þeir gegna eru alltaf spurðir þegar viss mál eru á dagskrá. Svo er það nú þannig að þegar fréttastofurnar þurfa eitthvað uppfyllingarefni milli ráðherraviðtalanna þá er oft haft viðtöl við þá sömu aftur og aftur. Svo er það líka bara góð sparnaðarleið hjá pressunni og ljósvakamiðlunum að hafa bara fréttir og viðtöl hvert um annað - forsíða DV kannski viðtal við fréttamann á RUV og svo fréttaskýringarþáttur á RUV sem er kannski endursögn á einhverju úr Mbl. Þannig geta fjölmiðlarnir fjallað mest um aðra fjölmiðla og þrengt sjónarhornið þannig að úr verður bara fjölmiðlun um fjölmiðlun um fjölmiðlun um fjölmiðlun .... fyrir fjölmiðlafólk.

Valdið sem orðræðan býr til

Það er svosem ekkert tiltökumál þó að það birtist einhver bullgrein í DV um hverjir séu álitsgjafar á Íslandi. Það er bara skemmtilegra að hafa svona skapandi skrif og blaðið leggur greinilega metnað sinn í að vera gott daglegt safn af nútímaþjóðsögum og uppspuna. Ég held að í blaðið skrifi núna helst engir nema þeir sem eru vel skólaðir í þjóðfræði og faraldsfræði kviksagna. Það er samt umhugsunarefni er að með því að segja að einhver sé álitsgjafi þá verður hann að álitsgjafa eða alla vega fær eins konar völd í krafti þess að einhver heldur að hann hafi áhrif og hamrar á því við aðra. Ef við lifðum ennþá í einangruðu samfélagi þar sem einu boðin sem berast um samfélagið væru þessi skekkta mynd sem hefðbundnir fjölmiðlar gefa af valdinu - þessi mynd sem er byggð að hluta til á óskhyggju þeirra sem ráða yfir rödd sem ómar lengra en annara um að þeirra sé mátturinn og dýrðin - þá myndum við ef til vill trúa og þannig ýta undir valdið sem orðræðan býr til. En tímarnir eru breyttir og enginn þarf nú að treysta á fjölmiðlarisa og opinberar fréttastofur sem einu rásina sem lýsir og skýrir framvindu atburða. Rödd hvers einstaklings getur hljómað og náð til þúsunda í gegnum ljósþræði Netsins en þær raddir sem þar kveða nú eru ekki samvalinn kór heldur sundurlausar og hrjúfar og stundum eins og gargandi hávaði.

Mun frásagnarstíll breytast?

Þeim fjölgar óðum sem tjá skoðanir sínar, viðhorf og flytja fréttir af tilveru sinni á Netinu. Í sumum tilvikum er það í gegnum netrit gróinna áhrifaafla - eins konar framlenging, umbreyting og útvíkkun á annarri áróðusstarfsemi en í sumum tilvikum er þetta nýtt form, tjáningarform sem Netið hefur gert mögulegt. Einstaklingar sem tjá sig og halda skrá yfir viðburði og áhrifavalda í lífi sínu. Það er næstum hlægilegt í dag að halda því fram að svoleiðis einkarásir séu ógnun við vald hefðbundinna fjölmiðla - það þarf ekki annað en leggjast um stund í að skoða þessa vefannála eða vefleiðara (weblogs) hérlendis og erlendis til að sannfærast um að um að hér er gjörbreytt fréttamat og frásagnarstíll, hér ægir saman frásögnum af persónulegri reynslu og einkalífi og útleggingum á heimsviðburðum og afkomunni hér á skerinu. Skrifin eru stundum eins og hömlulaus spuni og fara yfir öll mörk og viðmið um hvað við teljum nú sæmandi er að fjalla um í opinberri orðræðu. En getur verið að svona tegund af tjáningu eða ritun sé nær almenningi - getur verið að þarna örli á ritstíl og menningu sem mun teygja sig yfir í margs konar miðlun í framtíðinni - getur verið að framsetning frétta og frásagna í hefðbundnum fjölmiðlum í dag sé eins og steinrunnið ritmál sem hefur fjarlægst það mál sem raunverulega er talað í landinu?

Undir hulinshjálmi

Hvað sem þessum pælingum líður þá hlýtur umræða þar sem margir og mismunandi þegnar þjóðfélagsins taka þátt í að vera lýðræðilegust og reyndar líka sennilega gjöfulust því þá heyrast sem flest sjónarmið. Umræða er ekki jafnt og atkvæðagreiðsla en opinber orðræða getur skapað vald eða ýtt undir valdaleysi. Við lifum á tímum fjölbreytileikans en ekki fjöldaframleiðslunnar en það er ekki að sjá að orðræða í hefðbundnum fjölmiðlum endurspegli þá þegna sem búa í þessu landi. Margir hópar og menningarkimar eru þar ósýnilegir. Það er meira segja hægt að varpa hulinshjálmi yfir helming þjóðarinnar- allar konur - eins og gert var í DV greininni um álitsgjafana. En ef orðræðan í hefðbundnum fjölmiðlum á Íslandi í dag er eingöngu til að styrkja völd hinna innvígðu þá er ástandið síst skárra hvað varðar netmiöla. Þar er ansi einsleitur hópur einstaklinga hvað varðar kyn, aldur og aðra þætti sem núna halda úti sínum eigin fréttamiðlum eða atburðaskrám á Netinu. Það eru möguleika
r fyrir alla að nota það tjáningarfrelsi sem stjórnarskráin tryggir en ennþá eru afar fáir sem nota þá.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steingerður Steinarsdóttir

Þetta er merkur áfangi sem þú ert að halda upp á. Til hamingju með afmælið.

Steingerður Steinarsdóttir, 2.4.2008 kl. 09:42

2 Smámynd: halkatla

þú ert frumkvöðull

halkatla, 2.4.2008 kl. 10:18

3 Smámynd: Hlynur Hallsson

Til hamingju með afmælið Salvör, en hátíðarhöldin voru sennilega aprílgabb! Mætti einhver?

Bestu kveðjur,

Hlynur Hallsson, 2.4.2008 kl. 11:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband