1.4.2008 | 09:48
Stokkrósir og hjartað í krossfiskum
Ég ætti kannski að spá meira í fallandi gengi krónunnar og góðærið og velmegunina sem hvarf sviplega á Íslandi. Ég ætti kannski að hafa meiri áhyggjur af ástandinu í Tíbet. Ég ætti kannski að kynna mér betur niðurníðslu og húsatóftir í miðbæ Reykjavíkur. En ég spái nú eiginlega ekkert í þetta núna, ég horfi bara vonaraugum á öll merki um vaknandi vor á Íslandi og langar að sá fræum.
Ein af þeim jurtum sem mig langar til að sá er stokkrós (latnesk heiti Alcea rosea). Mér finnst stokkrósir minna svo á gamla tíma og sveitamenningu.
Ég hef séð víða í Kaupmannahöfn stokkrósir vaxa upp við húsgaflana eins og á þessari mynd. Ég hugsa að það myndi prýða mikið miðbæinn í Reykjavík ef fólk ræktaði stokkrósir við gangstéttirnar.
Ég á nú ekki ennþá nein fræ af stokkrósum til að sá en ég ætla að athuga hvort ég get ekki pantað svoleiðis á Netinu. Það þarf að hafa þolinmæði við ræktun fjölærra jurta, stokkrósir blómstra ekki fyrr en á öðru ári.
Það eru líka til önnur og harðgerari blóm sem geta vaxið við gangstéttabrúnir í litlum jarðvegi. Síðasta sumar safnaði ég töluverðu af fræi af vatnsbera Það eru afar falleg og harðgerð blóm sem þroska fræ á Íslandi og geta sáð sér úr görðum. Vatnsberarnir eru blaðfagrir svo þeir eru fallegir líka áður en þeir blómstra.
Ef ég hef tíma í sumar þá ætla ég að skrifa greinar á wikipedia um íslenskar jurtir eða jurtir sem þroska fræ hérna og sem ég er að gera tilraun með að rækta. Ég hef þegar skrifað grein um holtasóley og hafþyrni og svo byrjað á greinum t.d. Tíbetreynir og um ýmsar jurtir og grös sem vaxa í úthaganum eins og túnsúru. Ég rakst á ágætt rit eftir nemendur á Hvanneyri, það er
fóðurjurtakverið og það væri gaman að setja inn greinastúfa á wikipedia um allar jurtir sem þar er fjallað um. Kostur við að skrifa greinar í wikipedia er m.a. sá að þá er auðvelt að tengja í myndasafn og efni öðrum tungumálum um viðkomandi jurt. Hér er t.d. grein sem ég skrifaði um túnfífill og þar tengdi ég í Commons myndabankann í myndir af túnfíflum. Það eru 2.6 milljónir mynda í þeim myndabanka, myndir sem allar eru með frjálsu höfundarleyfi sem þýðir að það má gjarna afrita þær.
Wikipedia er afar góð í samtímaatburðum en það er líka afar gott gagnasafn í svona flokkunarkerfum lífríkisins. Það þarf samt að hafa í huga að það er engin miðstýrð ritstýring á wikipedia og greinar um jurtir eru margar skrifaðar af fólki eins og mér, fólki sem hefur ekki sérþekkingu í grasafræði. En sem betur fer þá eru margir sérfræðingar sem yfirfara greinarnar m.a. vegna þess að þeir finna þær við leit í leitarvélum og sjá augljósar villur. Það eru fleiri sem eru á vaktinni og villukemba wikipedia heldur en marga ritstýrða vefi t.d. vísindavefinn.
Ég held að það sé meinleg villa í greininni um krossfiska á vísindavefnum, í myndinni sem fylgir greininni. Ég skrifaði grein á íslensku wikipedia um krossfiska og teiknaði vektoramynd í Inkscape skýringarmynd þar sem ég studdist við vísindavefsgreinina og teiknaði náttúrulega hjartað í krossfisknum. Sú mynd var fjarlægð 50 mínútum seinna úr wikipediagreininni af einhverjum sem las wikipedia greinina. Sjá breytingasögu greinarinnar krossfiskar.
En ég er samt ekki alveg viss.
Hafa krossfiskar hjarta?
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:45 | Facebook
Athugasemdir
Stokkrós er tvíær, svo það er dálítið erfitt að hafa hana sem sumarblóm, þó hún sé falleg, og hún verður líka svo há. en það er ekkert mál að fá fræ af henni í Garðheimum, Blómaval eða bara þar sem seld eru fræ. Þú ert sennilega of sein að sá henni núna til að hún blómstri í ár, en ef þú ert með aðstöðu til að yfirvetra hana, þá ætti hún að blómstra vel næsta ár. Þ.e. garðskála eða slíka aðstöðu. Stokkrósin er til bæði fyllt og einföld. Gangi þér vel með hana.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 1.4.2008 kl. 12:22
Hvað er hjarta? Ef með hjarta er átt við vöðva sem drífur hringrás blóðsins um líkamann, held ég að það sé nokkuð ljóst að krossfiskar eru ekki með hjarta. Skrápdýr hafa blóð en ekki eiginlega blóðrás, held ég, og þar með ekki hjarta. Sjá nánar þennan og þennan bút greinar Britannicu um skrápdýr. - Fyrir krossfiska og önnur skrápdýr er það vatnsrásarkerfið fremur blóðrásarkerfið sem uppfyllir mestan hluta þarfarinnar fyrir öndun og dreifingu næringar (og er þar að auki mikilvægt við hreyfingu dýranna). Til að auka enn á ruglinginn eru skrápdýr með þriðja vökvadreifikerfið: búkrýmisvökvarásina (coelemic fluid system). Í stuttu máli tel ég sem sé að þú hafir rétt fyrir þér: það er ljóst að myndin á Vísindavefnum er í besta falli villandi og í versta falli kolröng.
Baldur Kristinsson, 1.4.2008 kl. 23:44
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.