21.3.2008 | 10:56
Róbotar og sjálfvirkni og mannréttindabarátta
Í fjósum voru kýr og kálfar
mjólkuðu kýrnar sig kannski sjálfar?
þessi ljóðlína er í söngnum um hina kvenmannslausa sögu Íslendinga (texti eftir Dagný og Kristján) einum af beittum ádeilusöngvum í baráttusöngum kvennabaráttunnar. Þessi kaldhæðni texti um hinar sjálfmjólkandi kýr hljómaði vel á árunum eftir kvennafrídaginn 1975 en textinn er ekki eins grípandi í dag.
Málið er nefnilega að íslenskar kýr eru löngu farnar að mjólka sig sjálfar í róbotafjósum nútímans, þær skammta sér sjálfar fæðu úr sjálfvirkum og tölvustýrnum fóðurskömmturum og valsa um í lausagöngufjósum þar þær víkja öðru hvoru fyrir önnum köfnum róbótum sem eru þar á sveimi allan sólarhringinn að moka flórinn.
Meira segja í skúringum þar sem einu framfarir virtust á tímabili vera að moppan kom í staðinn fyrir skúringakústinn eru núna komnir róbotar, ég get ekki beðið þangað til ég er komin með einn svona til að skúra gólfin hjá mér
Þessi tími sem við lifum á núna þar sem allt er tengt saman og getur verið tölvustýrt á þráðlausan hátt mun örugglega ýta fremar undir svona sjálfvirkni og stýringar. Vonandi verður þetta tækni sem nýtist okkur öllum, tækni þar sem venjulegt fólk getur stýrt umhverfi sínu og létt sér verkin.
Eitt sniðugt verkfæri fyrir krakka til að læra forritun er forritunarmálið Scratch en því má hlaða niður ókeypis á http://scratch.mit.edu Þetta forritunarmál hentar krökkum alveg frá 8 ára aldri og fullorðnir hafa líka gaman að þessu. Þetta er svona myndræn forrit sem höfðar vel til þeirra sem vilja nota tölvur í alls konar skapandi og listrænnar iðju.
Í fyrradag var ég að skoða með nemendum mínum hvernig við getum kynnt fyrir ungum börnum ýmis konar stýringar og skynjara með aðstoð Scratch. Við notuðum Scratchboard (sjá mynd hér til hliðar) en það eru tölvuspjöld sem hægt er að kaupa (kosta 20 dollara stykkið) og þau tengjast gegnum USB tengi við tölvur. Þetta er afar einfalt verkfæri og virkaði mjög vel, það var hægt fyrir unga krakka að forrita þannig fígúrur á skjánum að þær bregðast við hljóði og birtu og ýmis konar rofum. Ég held að það sé nauðsynleg færni fyrir börn í dag að læra að forrita ýmis konar sjálfvirkni. Sennilega á vinnuumhverfi barna í dag í framtíðinni eftir að verða þannig að þau verða að fylgjast með, vakta og forrita ýmis konar sjálfvirkni í umhverfi sínu.
Eins og með alls konar tækni þá er hægt að nota hana til að gera líf okkar betra og jafna lífskjörin. Það á fyrir okkur öllum að liggja að verða eldri og ef við náum háum aldri þá er alveg öruggt að við höfum ekki sömu krafta og orku og í dag. Það eru fáir sem hafa eins mikinn hag af því að tækni í samfélaginu sé nýtt á sanngjarnan og uppbyggjandi hátt eins og þeir sem eru á miðjum aldri og horfa fram á að verða aldraðir og ef til vill farlama í framtíðinni. Hvernig getur tækni og sjálfvirkni í daglega lífinu hjálpað þessum hópi að stýra aðstæðum sínum?
En því miður er heimurinn þannig að tæknin er oft notuð til að eyðileggja og í hernaðartilgangi, sjá þessa grein í Wired Build your own war bot
Ég held að einn liður í mannréttindabaráttu nútímans og í því að búa til veröld sem ég vil sé að reyna að beina notkun á tækni í farvegi sem gera líf fólks einfaldara og bæta lífsgæði. Hvernig við notum tækni og sjálfvirkni og hvernig aðgengi allra jarðarbúa er háttað að þekkingu og færni til slíks er mikið mannréttindamál.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:16 | Facebook
Athugasemdir
Æ mikið hlakka ég til þegar íbúðir verða farnar að hreinsa sig sjálfar og við lausar við endalausar skúringar og ryksuganir. Þarna er tæknin sannarleg af hinu góða. Gleðilega páska.
Steingerður Steinarsdóttir, 22.3.2008 kl. 21:08
Hehehe sammála Steingerði.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.3.2008 kl. 13:51
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.