19.3.2008 | 10:17
Dónalegur borgarstjóri
Óskar Bergsson borgarfulltrúi okkar Framsóknarmanna hefur haldið uppi málefnalegri gagnrýni á vinnubrögð núverandi borgarstjórnarmeirihluta, sérstaklega hvernig óheyrilega var bruðlað með almannafé við uppkaup á húsum og kastað fyrir róða öllum vinnubrögðum góðrar stjórnsýslu þegar Sjálfstæðismenn notuðu fé borgarbúa eins og spilapeninga þegar Ólafur Magnússon var ginntur til liðs við borgarstjórnarflokk Sjálfstæðismanna.
Ólafur borgarstjóri tekur hins vegar málefnalegri gagnrýni og spurningum Óskars ekki vel. Hann sýndi Óskari dónaskap og yfirgang í orðum en hefur nú sem betur fer séð að sér og dregið til baka ummæli sín. Ólafur Magnússon er góður maður og enginn efast um hugsjónir hans að vernda minjar um sögu Reykjavíkur. Það er vissulega mikilvægt fyrir okkur öll að farið sé að gát við umhverfismál og að ekki sé brotið allt og bramlað sem minnir á forna tíð. En Reykjavík er ekki eingöngu minjasafn um forna tíð heldur athafnasetur og höfuðborg ríkis sem á mikið undir samskiptum sínum við aðrar þjóðir og að infrastrúktúr hérna sé svo góður að fólk vilji búa hérna og starfa. Ólafur Magnússon er ekki góður borgarstjóri þegar litið er til stóru málanna sem munu skipta máli um hvort Reykjavík verður kraftmikið athafnasvæði og þekkingarsetur.
Það er bara sorglegt að í forsvari í Reykjavíkurborg sé maður sem hefur svona þrönga sýn og einstrengingslega sýn á hlutverk borgar eins og Ólafur og sem getur ekki tekið þátt í fundum án þess að sýna þeim sem tala af einhverri skynsemi dónaskap.
Sjá hérna:
Vandaðri stjórnsýslu gefið langt nef
frá hrifla.is:
18. mars 2008 Borgarstjórnarflokkur framsóknarmanna
Borgarstjóri dregur til baka ummæli sín um borgarfulltrúa Framsóknarflokksins
Í upphafi borgarstjórnarfundar í dag kvað Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, sér hljóðs og dró til baka fyrri ummæli sín um Óskar Bergsson borgarfulltrúa Framsóknarflokksins frá síðasta fundi borgarstjórnar Reykjavíkur. Ummæli þessi féllu eftir að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins beindi fyrirspurnum til borgarstjóra varðandi aðkomu aðstoðarmanns hans að deiliskipulagsvinnu við Laugaveg, og voru ummælin á þann veg að borgarstjórn setti niður með nærveru Óskars.
Í ræðu borgarstjóra í dag segir að fyrirspurnin hafi komið honum á óvart, orðaskiptin í kjölfarið hafi verið nokkuð hvöss og þar hafi fallið orð sem hefðu betur verið látin ósögð. Einnig að í þeim hafi falist yfirlýsingar sem borgarstjóri hefði ekki viljað láta falla um persónu annars borgarfulltrúa.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:19 | Facebook
Athugasemdir
Það er fráleitt að gefa Ólafi F. Magnússyni borgarstjóra þá einkunn að hann sé dóni.
Sigurjón Þórðarson, 19.3.2008 kl. 10:53
Fólk kynnir sig nú með framkomu sinni. Þetta var dónaleg framkoma og dæmi um hvatvísi Ólafs Magnússonar. Það er nú samt honum til hróss að hann iðrast framkomu sinnar.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 19.3.2008 kl. 12:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.