"Þegar að ég komst aftur til meðvitundar sá ég að ég hafði engar fætur"

Pólski verkamaðurinn Ireneusz Gluchowski er í hópi þeirra þúsunda erlendra verkamanna sem leitað hafa gæfunnar í efnahagsuppsveiflunni á Íslandi. Hann kom hingað stálhraustur í vinnu hjá íslensku verktakafyrirtæki. En Ireneusz  missti báða fætur og vantar enn nýra

Sögu Ireneusz má lesa í Fréttablaði Eflingar í febrúar 2006 en hér er brot úr þeirri sögu:

Undir lok júní 2005 gerast þeir atburðir sem leiddu til örkumla Irenusz, en þá voru Jarðvélamenn að vinna við framkvæmdir skammt frá Akranesi.


„Ég vann ekki langt frá Akranesi uppi í fjöllum. Ég vann við að steypa sökkla og koma fyrir stögum undir rafmagnsstaura, en þann 20. júní vorum við fluttir á annan stað. Þá bjuggum við í gömlum skóla en vorum á hverjum degi keyrðir um 15 kílómetra upp á fjöll þar sem við unnum,“ segir Ireneusz. Um það bil 25. eða 26. júní varð Ireneusz fyrir vinnuslysi sem leiddi til þess að hann fékk sár á hendur, sem blæddi úr. Ekki var tilkynnt um atvikið, enda ólíklegt að á þeim tíma hafi verið litið á þetta sem alvarlegt atvik.

Veiktist hastarlega
Hins vegar veiktist Ireneusz hastarlega 29. júní. „Í enda júní komu notaðir gámar sem átti að nýta undir vinnubúðir. Gámarnir voru fullir af drasli, t.d. flöskum, blöðum, spýtum og fleira. Ég og tveir aðrir starfsmenn vorum settir í að þrífa gámana og gera þá íbúðarhæfa. Við byrjuðum að koma matsalnum í stand, þar sem að ég þreif m.a. ísskáp sem innihélt gamlar matarleifar. Ég þreif líka aðra skápa og bakaraofn.“
Þann 29.júní leið honum skyndilega illa, í hádegismatnum og hélt að hann væri haldinn flensu, þannig hafi einkennin verið. „Ég sagði verkstjóra mínum að mér liði mjög illa og að ég treysti mér ekki til að vinna meira þann dag. Eftir þetta samtal sagði verkstjórinn mér að fara niður í skólann þar sem að við bjuggum. Samstarfsmaður minn skutlaði mér í skólann og ég fór að sofa. Um klukka fjögur síðdegis vakti annar samstarfsmaður mig og sagði mér að hann og tveir aðrir starfsmenn ætluðu til Reykjavíkur og að ég yrði að fara með. Það væri ákvörðun verkstjórans.“

Skelfingu lostinn
Samstarfsmennirnir óku Ireneusz heim í Barmahlíðina, þar sem hann lagðist til svefns. „Ég vaknaði um sexleytið og varð skelfingu lostinn þegar ég sá að hendur mínar og fætur voru svartar. Þá gerði ég mér grein fyrir því að ég væri ekki bara með flensu. Ég notaði mína síðustu krafta til að fara til nágranna míns á hæðinni fyrir ofan og bað hann um að hringja á sjúkrabíl. Eftir stutta stund kom sjúkrabíll og keyrði mig á spítala, en mér leið allan tímann mjög illa.“ Eftir komuna á spítalann man hann að hann fékk súrefnisgrímu og sprautu og að síðan hafi hann sofnað. „Ég vaknaði aft ur meira en tveimur mánuðum seinna eða í byrjun september. Þegar að ég komst aftur til meðvitundar sá é að ég hafði engar fætur.“
---

Ireneusz vaknaði sem fyrr segir upp við þann hrylling í byrjun september að vera fótalaus báðum megin fyrir neðan hné, en auk þess varð ann að nýrað óvirkt, heyrn horfin af vinstra eyra og hægra eyrað aðeins með hálfa heyrn, en fyrir þessa atburði var Ireneusz að eigin sögn stálhraustur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Georg P Sveinbjörnsson

Dapurlegt, vonandi að maðurinn fái að vera áfram hér á landi eins og hann virðist vilja án þess að einhverjir fari að agnúast yfir kostnaði við það að gera manninum lífið aðeins bærilegra....eins og ég hef heyrt fólk segja í mín eyru.

Georg P Sveinbjörnsson, 5.8.2007 kl. 13:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband