26.7.2007 | 12:33
Geitasandur
Nú er ég að skoða umhverfið við Langöldu en það er landgræðslusvæði við veg nr. 264 andspænis Reyðarvantsréttum og er hluti af Geitasandi. Geitasandur er sandflákar milli Kirkjubæjar og Eystri Rangár við Stóra- og Minna Hof á Rangárvöllum. Sandurinn var girtur af Landgræðslu ríkisins árið 1945 og hefur verið landgræðslusvæði.
Vegur nr. 264 sem sýnir hvar Reyðarvatnsrétt er, þetta svæði er nálægt höfuðstöðvum landgræðslunnar í Gunnarsholti.
Á Google Maps korti sést hversu mikið flæmi Geitarsandur er og flugvöllurinn sem er rétt hjá Langöldu lítur út eins og einhver dularfull rún eða galdrastafur, minnir helst á Nasca línurnar í Perú
Það verður gaman að taka þátt í uppgræðslustarfi þarna, dóttir mín fékk úthlutað landgræðslulóð á Langöldusvæðinu. Upp af svæðinu eru landgræðsluverkefnið Hekluskógar og svo er sandflæmið á Geitasandi núna skógræktarsvæði Kolviðar. Þetta landsvæði mun því breytast mikið á næstu áratugum.
Á Íslandi eru ein víðfeðmustu eyðimerkursvæði í Evrópu. Það eru ekki margir Íslendingar sem átta sig á því, við tengjum oft eyðimerkur við brennandi sól og tjaldbúðir hirðingja og úlfaldalestir. Hér eru gríðarleg sandflæmi sem stundum hafa sorfið allann jarðveg burtu af stórum svæðum svo jarðirnar fóru í eyði ein af annarri þangað til framrás rofaflanna var stöðvuð með sandgræðslu. En hugsanlega geta fyrrum sandflákar orðið dýrmætir þegar stundir líða fram og þeir eru græddir upp til landbúnaðar og útivistar og ýmis konar nota. Sandarnir eru rennisléttir og henta vel fyrir flugvelli. Ég las að það stóð einvern tíma til þegar bandaríski herinn var hérna að koma upp á Rangárvöllum mjög stórri, nýrri flugstöð. Það stóð þá einnig til að koma upp herskipahöfn á Suðurlandi í sambandi við þennan flugvöll. Skyldi sá flugvöllur hafa átt að vera á Geitasandi? Skyldi sú herskipahöfn hafa átt að vera í Þorlákshöfn?
Núna er talað um landsvæði við Þorlákshöfn í sambandi við álvinnslu og álver. Það er líka talað um þetta svæði sem mögulega mikilvægt ef siglingar og flutningar um Ísland aukast vegna loftslagshlýnunar. Þá þarf umskipunarhöfn með mikið landrými.
Hvernig verður umhorfs á þessu svæði eftir hálfa öld? Verður Selfoss svefnbær út frá Þorlákshöfn og verða flugvellir þvers og kruss á sandsvæðum?
Hér er það sem ég skrifaði á sínum tíma um Nascalínurnar í Peru sem minna mig á flugvöllinn á Geitasandi:
Í Nazca í Perú eru skemmtileg umhverfislistaverk sem eru alls konar línur sem teygja sig yfir 217 fermílna svæði. Línurnar mynda yfir 70 táknmyndir af dýrum, fólki og formum. Þessar línur og þau tákn sem þær mynda sjást ekki nema úr flugvél. Þær voru fyrst uppgötvaðar af fornleifafræðingnum Mejia Xespe árið 1927 og svo tók Paul Kosok árið 1939 að rannsaka þær, hann var að rannsaka merki um forn áveitukerfi. Það var svo árið 1946 sem Marie Reiche tók við rannsókninni og vann að þessu í fimmtíu ár, hún hreinsaði umhverfið og þá fyrst komu margar myndirnar í ljós. Hún helgaði líf sitt því að varðveita og rannsaka þessar menningarminjar og varð þjóðhetja í Perú og núna eru línurnar á skrá yfir menningarminjar heimsins. Margar tilgátur hafa komið fram um tilgang myndanna, giskað hefur verið á að línurnar séu sólaralmanak eða kort yfir gang himintungla, Erich von Daniken tengdi línurnar við geimverur og las úr þeim lendingarbrautir fyrir geimskip. Einnig hefur verið giskað á að línurnar tengist vatni og áveitukerfi á einhvern hátt eða séu gönguslóðir. Samt er þetta ennþá furðulegt að alla vega er ekki efast um að þessar myndir og línur séu til, gaman er að bera þetta saman við Runemo rúnirnar sem Íslendingurinn Finnur Magnússon rannsakaði áratugum saman af jafnmikilli alúð og María Reiche rýndi í línurnar. Hann hlaut samt enga fremd fyrir sínar tilgátur.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:35 | Facebook
Athugasemdir
Þar sem ég vann í sjö sumur við grasræktartilraunir á Sámsstöðum í Fljótshlíð, þar sem við vorum meðal annars með tilraunir syðst á Geitasandi, þá fannst mér gaman að rekast á þessa fræslu þína og allan fróðleikinn. Mér er alltaf hlýtt til þeirra starfa sem ég vann þessi sumur, góð sumur þótt sum væru rigningarsamari en önnur.
Anna Ólafsdóttir Björnsson, 26.7.2007 kl. 18:28
Vonandi tekst vel til þarna með uppgræðslu. Ég var sjálfur að íhuga að sækja um landgræðslulóð á þessu svæði. Það er gríðarlega mikilvægt að rækta upp landið og stöðva landfok, sem hefur einmitt verið mikið vandamál hér í Rangárþingi.
Theódór Norðkvist, 26.7.2007 kl. 23:16
Það er ljóður á ráði Kolviðar að skógræktin skuli vera 190 hektarar, rétt undir þeim mörkum þar sem þarf mat á umhverfisáhrifum. Fróðlegt að sjá þessi kort - var þarna á ferðinni um daginn en áttaði mig ekki á hvar Geitasandur var því að ef hann er merktur var merkingin ekki svo áberandi að ég sæi hana.
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, 27.7.2007 kl. 00:15
Anna, það er gaman að heyra af tilraunum á Geitasandi, ég vissi ekki að þær hefðu staðið svona lengi yfir.
Ingólfur, ég sá ekkert merki fyrir Geitasand og vissi ekki að þetta væri svona mikið flæmi fyrr en ég sá Google maps kortið. Ég vissi ekki að það þyrfti mat á umhverfisáhrifum ef skógrækt væri yfir einhverju marki. kannski hefur skógræktarlandið verið haft vísvitandi þannig að ekki þyrfti mat, það er þekkt að allar svona íþyngjandi aðgerðir verða til þess að fólk fer að hegða sér öðru vísi.
Salvör Kristjana Gissurardóttir, 27.7.2007 kl. 12:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.