Hvar eru selirnir?

Ég hef lengi fylgst með hóp af selum í Grafarvoginum skammt frá árósi Elliðaáa. Þeir voru oft margir saman á skeri þarna, ég sá alltaf seli þegar ég gekk eftir göngustígnum meðfram sjónum. Það er gaman að fylgjast með leik þeirra og hversu forvitnir þeir virðast um fólk, sérstaklega börn. Núna í sumar bregður svo við að ég sé enga seli. Það getur verið að selir fari til norðlægari slóða að sumarlagi og komi aftur í vetur. Ég vona það.  Ég hins vegar veit að selir lifa á fiski og þeir eru miskunnarlaust drepnir þar sem hagsmunir laxveiðimanna eru í húfi.  Einu sinni var mikið um sel í Norðurá í Borgarfirði sem og í öðrum laxveiðiám. Það er fróðlegt að vita hvaða skoðun Stangveiðifélag Reykjavíkur hefur á selum og hvort það félag telji að útrýma eigi sel og hvort félagið hafi staðið fyrir einhverju því sem bægi sel frá þessu svæði.


Two worlds meeting

Á þessari mynd úr fjörunni í Grafarvogi eru leikskólabörn að horfa út á sjóinn og sjá má selahóp sem gægist upp úr sjónum.

Annars finnst mér þessi pólska tilkynning frá Stangveiðifélagi Reykjavíkur vera afar móðgandi fyrir Pólverja á Íslandi og einnig þær upplýsingar að í öllum upplýstum tilvikum hafi verið um karlmenn frá Póllandi að ræða. Þetta er eins móðgandi fyrir Pólverja á Íslandi eins og ég ásakaði félaga í Stangveiðifélagi Reykjavíkur um að drepa selina í Grafarvogi.

Það er reyndar orðið svo mikið fjölmenningarsamfélag á Íslandi að nú virðist nauðsynlegt að tilmæli til fólks séu á fleiri en einu máli, gjarnan bæði á ensku og íslensku. Ég tók eftir því að í tilkynningu sem kom frá borgaryfirvöldum í vikunni um hreinsunardaga í hverfinu mínu þá var texti bæði á íslensku og ensku. Mér finnst ekkert að því og mér finnst ekkert að því að tilmæli og upplýsingar séu á íslensku, ensku og pólsku - ensku af því það er það mál sem flestir skilja og pólsku af því það er það mál sem stærsti innflytjendahópur okkar talar. En ef aðstæður verða þannig að t.d. í verslunum þar sem sums staðar eru skilti sem segja að það séu öryggismyndavélar um allt og allir þjófnaðir verði kærðir þá séu þau skilti bara á pólsku þá mótmæli ég.

Hmmmmm... hvernig ætti ég að mótmæla þessu? Kannski væri árangursríkast að gera fara með veiðistöng í Elliðaárnar og bera sig að eins og maður ætlaði að fara að veiða og láta grípa sig glóðvolgan og játa glæpsamlegan tilgang. Þá væri fullyrðingin "í öllum upplýstum hafi verið um karlmenn frá  Póllandi að ræða" strax ósönn.  Verst að ég kann ekkert með veiðistöng að fara.


mbl.is Bréf um veiðiréttindi birt á pólsku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæl Salvör !

SVFR hefur ekki staðið fyrir neinum aðgerðum til að útrýma sel við Elliðaárnar. Allt slíkt er í höndum veiðiréttareigenda og um slíkar aðgerðir eru reglur og lög sem ég tel að menn fylgi algerlega.

Ég get ekki fallist á það að það sé móðgandi að segja sannleikann um þennan veiðiþjófnað, það er algerlega óþarfi að tala um "erlenda aðila" í sambandi við þennan veiðiþjófnað, þegar allir þeir sem hafa verið gripnir eru Pólskir (værum við þá ekki að móðga Dani, eða Þjóðverja sem ekki mega vamm sitt vita ?). Vonandi fer þessu að linna.

En upplýsingabréf okkar, sem við höfum sent mjög víða, er á þremur tungumálum, íslensku, ensku og pólsku.

Bestu kveðjur
Bjarni Júlíusson (formaður SVFR)

Bjarni Júlíusson (IP-tala skráð) 20.7.2007 kl. 14:16

2 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Það er gott að vita að SVFR hefur ekki reynt að útrýma sel þarna, ég átti nú heldur ekki von á því að virt félag myndi leggja sig niður við það. Selurinn er skemmtilegur partur af lífríkinu við ströndina og þar sem ég þekki til erlendis þá þykir afar mikilvægt að vernda búsvæði sela t.d. fór ég um "the magnificent mile" í Montgonery Bay í Californiu sem þykir eitt fallegasta og merkilegasta strandsvæðið, þar var selalátur sem var tjaldað fyrir og bílar máttu ekki stoppa til að trufla ekki selina þrátt fyrir að þarna væri eingöngu umferð bíla sem hafði sérstaklega borgað sig inn fyrir útsýnisferð og selirnir væru hápunkturinn í slíkri ferð. Ólíkt förum við að hérna á Íslandi þar sem við drepum seli.

Það má  deila um hvort það sé móðgandi að birta upplýsingar sem eru réttar greindar niður á innflytjendahópa. Ef ég væri Pólverji þá myndi ég móðgast við svona fréttum og telja þær líklegar til að ala á fordómum gagnvart Pólverjum.  En það er gott að upplýsingarnar séu á mörgum tungumálum þá er ekki verið að taka sérstaklega út einn innflytjendahóp.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 20.7.2007 kl. 15:43

3 identicon

Hvernig getur þetta verið móðgandi, í garð Pólverja, ef allir veiðiþjófarnir, voru þeirrar þjóðar?   Þetta er ekki spurning um móðgun, heldur misskilning, og ólík lög og venjur viðkomandi landa og þjóðfélaga.   Móðgun væri það ef umtalið væri um náttúrulegt þjófs eðli viðkomandi þjóðar.   En það er nú ekki aldeilis þannig.  Þetta er misskilnings mál, og mest það, að Pólverjarnir taka þetta alls ekki alvarlega.  Þeir halda að þetta sér veiðiréttar mál, sé eitthvað sem sé aldeilis léttvægt fundið, eins og heima hjá þeim.   Þeir hafa ekki hugmynd um hvað þetta er dýrkeypt hér.  Hvernig væri að þetta Alþjóðahús, upplýsti þessa menn um gang mála hér á landi?

Jónas Guðmundsson (IP-tala skráð) 21.7.2007 kl. 00:24

4 Smámynd: Salvör  Kristjana Gissurardóttir

Ásdís, flestir þeir útlendingar sem nú koma til landsins að vinna eru sennilega í fyrstu að koma hérna fyrir skamman tíma, svona vertíð þar sem þeir safna peningum t.d. til að styðja fjölskyldu sína eða spara sér fyrir húsnæði í heimalandi sínu. Þeir ætla margir að fara við fyrsta tækifæri aftur til baka. Reynslan hefur hins vegar sýnt að smán saman verður fólk hagvant í nýja landinu, börnin telja það heimkynni sín þó að foreldrarnir líti kannski á sig sem tímabundna gesti. 

Fólk sem ætlar bara að vera hér á landi í skamman tíma leggur ekki á sig að læra íslensku, sérstaklega ekki ef það er erfitt að komast á íslenskunámskeið og það kostar mikið. Ég þekki sjálf marga sem einmitt hafa verið í þessum sporum, ekki lagt á sig að læra íslensku strax því ekki var víst að fjölskyldan staðnæmdist hér.

En allir hafa sömu sögu að segja. það skipti öllu máli að læra íslensku fyrir vellíðan fólks og þá fyrst fór því að finnast það vera þátttakandi í samfélaginu. Reynslan af þessu sýnir að það er mikilvægt að stjórnvöld átti sig á því að innflytjendur eru ekki bestu dómarar um þörf sína til að læra tungumálið, þeir telja sjálfir oft að þeir muni fara af landi brott en reynslan sýnir að stór hluti þeirra mun staðnemast hérna.  Það er þvi mikilvægt að halda íslenskukennslu að fólki og gera því sem auðveldast að læra málið og kannski gera það líka að skilyrði fyrir ýmis konar störfum.

Salvör Kristjana Gissurardóttir, 21.7.2007 kl. 14:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband