4.6.2007 | 10:35
Sjómannadagurinn í Búdapest - hetjugarðar,hryllingshús, minningarreitir, kastalar og lesbíur
Það er öðruvísi að halda upp á sjómannadaginn hérna í Búdapest heldur en í Grindavík eða við Reykjavíkurhöfn. Hér er ekki menning hafsins og hér eru engar strandir sem mæta úfnum úthöfum. Í miðri Evrópu fjarri öllum ströndum er grejsa hirðingjaþjóðinnar Ungverja og í gegnum landið flæðir fljótið Dóná.
Hér er ég fyrir utan Hryllingshúsið í Búdapest á sjómannadaginn 2007 ásamt stúlku frá Istanbúl sem er í doktorsnámi í Utrecht.
En hérna var sjómannadagurinn hjá mér eins og áður dagur minninga og dagur þar sem vatnið speglar ímynd mína. Það voru þó ekki mínar eigin minningar heldur minningar ungversku þjóðarinnar og endurskrifun á sögunni með augum valdhafanna sem flæddu um hug minn og vatnið sem speglaði minningar og ímynd var ekki Atlandshafið heldur elvan Dóná.
Á sjómannadaginn fórum við í kynnisferð um borgina undir leiðsögn Adreu Peto.
Við skoðuðum hetjutorgið og horfðum upp á erkiengilinn Gabríel sem gnæfir yfir ættbálkahöfðingjunum sjö og sumar sögðu að þar yrði fínt að skipta honum út fyrir gyðjuna þegar sá tími kæmi. Það er alltaf verið að skipta út styttum og brjóta niður minnismerki og búa til nýjar sköpunarsögur um mannkynið og þjóðirnar. Þetta torg er Arnarhóll þeirra Ungverja og við hann er tengd upprunasaga þjóðarinnar, það var á svipuðum tíma og Ingólfur fann sínar öndvegissúlur sem fyrsti ungverski höfðinginn kom á bakka Donár og leit yfir fagurt land og gott til búsetu og ákvað að setjast þar að.
Leið okkar lá svo í Andrássy strætið nr. 60 en þar er Terror Háza minningasafn eða hryllingssafn um ógnarstjórnir annars vegar nasista og hins vegar kommúnista. Þar er dregin upp mynd af sögunni frá síðari heimsstyrjöldinni eins og Ungverjar nútímans vilja heyra hana. Það var einkennilegt að ganga þar um að heyra söguna sagða út frá þessu sjónarhorni, sjá hvernig sagan var teygð og toguð og bjöguð í máli og myndum til að passa inn í minningar nútímans. Sagan var líka teygð í orðsins fyllstu merkingu, ljósmyndir af Stalín og Lenín eru teygðar á þverveginn þegar gengið er inn um hliðið í sýninguna um kommúnistastjórnina. Þó að sagan sé bjöguð og endursögð frá einu sjónarhorni þá er hún að hluta til sannleikur. Húsið var á sínum tíma miðstöð leynilögreglu Nazista og síðar Stasi og í kjallaranum eru raunverulegar fangageymslur og pyndingarklefar.
Við skoðuðum kastalann á hæðinni í Buda og málverkasafnið þar með dýrgripum ungversku þjóðarinnar. Elstu myndirnar voru flestar af bardögum og sókn og sigrum Ungverja yfir Mongólum og Tyrkjum. Á einni myndinni sem lýsti fornri orustu benti Andrea okkur á að sigurvegararnir veifuðu ungverska fánanum jafnvel þótt orustan hafi átt sér stað mörg hundruð árum áður en þessi þríliti fáni varð til. Fyrir framan kastalann er dýrlegt útsýni yfir Dóná og þinghúsið á hinum bakkanum.
Við fórum í styttugarðinn sem er minningareitur fyrir styttur og minnismerki frá kommúnistatímanum, svona grafreitur fyrir styttur sem sýna hugmyndir og persónugervinga hugmynda sem ekki eru tignaðar lengur í vestrænu og markaðsþenkjandi Ungverjalandi.
Ferðin um Búdapest endaði við basiliku heilags Stefáns en þar er helgidómurinn allur á einni hendi, heilagri hendi St. Stefáns sem þar er varðveitt og er þessi líkamspartur borinn um kirkjuna á háheilögum dögum.
Ég fór svo út að borða á veitingastað í miðbænum í Búdapest með fjórum konum úr Athena netinu. Þær stunda allar kynjarannsóknir, tvær þeirra vinna við upplýsingaveitur um kvennasögur og tvær þeirra prófessorar í kynjafræði. Við borðuðum á veitingastað sem helgaður var goðsögninni um Kentárus sem var hálfur maður og hálfur hestur. Við ræddum um kynjamisrétti og kynjamismunum og samkynhneigð en báðir prófessorarnir eru lesbíur og aktívistar. Önnur þeirra gegnir reyndar líka prófessorstöðu í samkynhneigð við háskólann í Amsterdam en það mun vera eina staðan í heiminum á því fræðasviði. Hún hefur rannsakað sögu kvenna í Indónesíu og Afríku.
Sjómannadagurinn í ár var heimsókn á minningarreiti ungversku þjóðarinnar og ég hugleiddi hvernig minningar þjóðar verða til og hvernig minningaþræðir einstaklinga tvinnast um minningar þjóða. Hugurinn hvarflaði á slóð minna eigin minninga við Íslands strendur og ég hugleiddi að hvernig minningarreitir og tilbúnir atburðir og sýningar búa til sannleika og sögu sem er mismunandi eftir því hvaða sjónarhorn fær að segja söguna og lýsa raunveruleikanum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:10 | Facebook
Athugasemdir
Spennandi ferð! Mér tókst alveg að gleyma rigningunni hér á Fróni. Ætli það sé til staða í gagnkynhneigð einhverstaðar?
Valgerður Halldórsdóttir, 5.6.2007 kl. 17:38
Skemmtilegt... sjómannadagurinn var ekki haldinn hátíðlegur á mínu heimili, ég var upptekin við að lesa heimspeki fyrir próf sem ég tók í dag.
Áhugavert að við skulum enn halda upp á þennan dag. Hvað ætli sjómenn þurfi að verða fáir til að hann detti út?
Þóra Kristín Þórsdóttir, 5.6.2007 kl. 18:35
Hlakka til að koma til Búdapest í september.
Sigurður Þór Guðjónsson, 8.6.2007 kl. 01:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.