21.5.2007 | 09:39
Kambsránið og Flateyri
Fyrir 180 árum réðst hópur grímuklæddra manna inn á bóndabæ á Suðurlandi, bundu húsráðendur, brutu upp kistla og rændu um 1000 ríkisdölum. Þetta var Kambsránið, eitt frægasta sakamálið á Íslandi á sinni tíð. Í kjölfarið komst upp um glæpaklíku sem hafði rænt víða. Þuríður formaður á Stokkseyri var í hlutverki rannsóknarlögreglumanns og átti þátt í að upp komst um ránsmennina en tveir þeirra voru nú einmitt bátsverjar á hennar bát.
Núna árið 2007 þá hættir fyrirtækið Kambur á Flateyri vinnslu og segir upp öllu starfsfólki og selur væntanlega kvótann burt úr plássinu. Það verða 120 manns eða flestir vinnandi menn á Flateyri sem missa vinnuna og í einni sviphendingu er fótunum kippt undan byggðinni þarna og eignir fólks gerðar verðlausar. Tjónið er örugglega meira en þeir 1000 ríkisdalir sem voru ránsfengurinn í Kambsráninu forðum daga. Þingmenn Norðvestur kjördæmisins eru ráðþrota. Það er enginn Þuríður formaður í dag á Vestfjörðum sem getur upplýst Kambsránið og bent á sökudólginn.
Íbúar á Flateyri eru fórnarlömb sjávarútvegsstefnu þar sem kvótinn og þar með rétturinn til að veiða fisk var gefinn til útgerðarmanna og gengur kaupum og sölum. Það er alveg öruggt mál að þetta fiskveiðistjórnunarkerfi hefur stuðlað að meiri hagkvæmni og hagræðingu í sjávarútvegi á Íslandi og meiri ágóða af útgerð, útgerðarmenn hafa frítt spil að flytja kvótann til staða þar sem hagkvæmast er að gera út, selja kvóta sín á milli og leysa upp fyrirtæki ef upplausnarvirðið er meira en verðmæti fyrirtækisins í rekstri. Ég velti fyrir mér hvort að það hefði ekki verið líka betra fyrir efnahagslíf á Íslandi ef ránsfengurinn úr Kambsráninu 1000 ríkisdalir hefði komist í umferð á Íslandi á sínum tíma í staðinn fyrir að vera grafinn á kistubotni hjá bóndanum í Kambi. Þó svo væri þá réttlætir það ekki þær gripdeildir og ofbeldi sem ránsmennirnir gerðu sig seka um.
Kvótakerfið í íslenskum sjávarútvegi er ósanngjarnt og það svínar á fólkinu í sjávarplássunum á íslandi. Við búum í heimi sem trúir á hreyfanleika og frelsi, ver einkaframtakið og einkaeignaréttinn. En fólkið á Flateyri býr í heimi þar sem frelsi og hreyfanleiki fjármagnsins er miklu meiri en frelsi og hreyfanleiki og möguleikar fólksins. Peningarnir geta henst með hraða ljóssins á milli staða á jarðkringlunni og búið um sig þar sem þeir gefa mesta ávöxtun hverju sinni. Það eru aðstæður sem henta ákaflega vel fjármagnseigendum.
Það er hægt að leysa þetta misvægi á frelsi fjármagns og fólks á tvo vegu. Annars vegar draga úr möguleikum fjármagns til að flæða svona óhindrað og fyrirstöðulaust burt frá plássunum og hins vegar að reyna að auka hreyfanleika og frelsi fólksins til að skapa sér vinnu. Seinni kosturinn er sennilega skynsamlegri og réttlátari núna þegar kvótakerfið er orðið svo fast í sessi að það er ekki gott um vik að umturna því. Því miður hafa margar aðgerðir í byggðamálum einmitt snúið að hinu gagnstæða því að reyra fólk niður í meiri átthagafjötra og áframhaldandi einhæfa atvinnumöguleika í sínu byggðalagi.
Það er mikilvægt að mögulegt atvinnusvæði sé sem stærst og fjölbreyttast. Það eru komin göng á Vestfjörðum og Flateyingar gætu sótt vinnu á Ísafjörð en þeir þurfa að aka Hvilftarströndina þar sem er oft snjóflóðahætta. Þar aka þeir framhjá ummerkjum um hvalveiðistöðvarnar, ummerkjum um eina stærstu rányrkju og arðrán á Íslandsmiðum þegar norskir ævintýramenn ryksuguðu upp hvalastofnana við Vestfirði. Það eru engin verðmæti eftir í byggðalaginu um þá rányrkju, ekkert nema rústir og strompar frá hvalveiðifabríkkunum. Það er heldur ekkert eftir á Íslandi eftir þá rányrkju því norsku hvalfangarnir greiddu engan skatt af afnotum sínum af auðlindum Íslands. Það er nú reyndar eitt stásshús á íslandi sem er minnisvarði um þessa tíð en það fékk ekki einu sinni að standa á Vestfjörðum. Það er ráðherrabústaðurinn í Reykjavík sem einu sinni var íbúðarhús hvalfangara og stóð á Sólbakka.
En sagan um arðrán hvalfangaranna er ekki sögð sem saga arðráns og rányrkju, hún er sögð sem framfarir í íslenskri atvinnusögu og niðurrifs hússins á Sólbakka er meira segja sett upp sem dæmi um góðmennsku hvalfangarans, hvernig hann seldi Íslendingum húsið fyrir slikk:
Norski umsvifamaðurinn Hans Ellefsen reisti þar hvalveiðistöð árið 1889 og var hún eitt stærsta fyrirtæki landsins. Stöðin brann rúmum áratug síðar og hóf Ellefsen þá smíði annarrar litlu innar við fjörðinn. Verkinu var hætt þegar búið var að hlaða reykháfinn og stendur hann enn rétt við þjóðveginn. Áður en Ellefsen fluttist brott gaf hann Hannesi Hafstein íbúðarhúsið sitt á Sólbakka ofan við Flateyri. Sumir segja að hann hafi selt honum húsið á eina krónu, aðrir segja fimm krónur. Hannes lét taka húsið sundur og flytja til Reykjavíkur.
Til gamans má geta þess að Einar Oddur þingmaður býr að Sólbakka og Björn Ingi oddviti okkar Framsóknarmanna í borgarstjórn ólst upp á þessum slóðum. Björn Ingi segir á vefsíðu sinni:
Lengst af áttum við heima í stóru einbýlishúsi að Sólvöllum, beint fyrir ofan gömlu hvalstöð Norðmannsins Hans Ellefsen sem foreldrar mínir keyptu og breyttu í trefjaplastbátasmiðju. Sólbakki, hús Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns, er við hliðina á Sólvöllum og hinum megin við er Hvilft, hús Gunnlaugs Finnssonar, fyrrverandi alþingismanns.
65 manns og sjómönnum á 5 bátum sagt upp hjá Kambi á Flateyri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:47 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.